miðvikudagur, 15. apríl 2009

ESB: Er eitthvað að óttast?

Hélt í morgun erindi á morgunverðarfundi Félags íslenskra stórkaupmanna um Evrópumál ásamt Aðalsteini Leifssyni frá Háskólanum í Reykjavík. Erindi mitt bar titilinn "ESB: Er eitthvað að óttast?" og fer hér á eftir:


 

Ágætu fundarmenn,


 

Það er mér sönn ánægja að fá tækifæri til að ræða Ísland og Evrópusambandið hér á þessum morgunverðarfundi Félags íslenskra stórkaupmanna. Það var vel til fundið að halda fundaröð um Evrópumál nú í aðdraganda kosninga, en aðildarumsókn að Evrópusambandinu er í fyrsta sinn í raun og sann á dagskrá í alþingiskosningum hér á landi.

Tveir íslenskra stjórnmálaflokka hafa aðildarumsókn að ESB á stefnuskrá sinni, Framsóknarflokkurinn og Samfylkingin. Aðrir stjórnmálaflokkar eru á móti með þeim fyrirvara þó að þeir felli sig við einhverskonar lýðræðislega nálgun á viðfangsefninu. Sjálfstæðisflokkurinn leggur það upp þannig að vilja nú halda tvöfalda þjóðaratkvæðagreiðslu, fyrst um aðildarumsókn og síðan, ef það verður samþykkt, um niðurstöðu þeirra viðræðna. Vinstri grænir hafa ekki útfært hvernig þeirra lýðræðislega nálgun að viðfangsefninu á að vera önnur en sú að niðurstöðu aðildarviðræðna eigi að bera undir þjóðina í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Almennt er kvartað yfir því að ekki liggi fyrir nægar upplýsingar þannig að íslendingar geti tekið upplýsta ákvörðun um hvort rétt sé að sækja um aðild að Evrópusambandinu.

Ekkert er eins fjarri lagi, það liggja nægar upplýsingar fyrir. Ótal stúdíur, skýrslur og álit eru til. Það er kannski frekar magnið sem þvælist fyrir.

Einnig er kannski hluti vandans varðandi Evrópuumræðuna hér á landi að ástríða þeirra sem hlynntir eru aðildarumsókn og aðild er yfirleitt lágstemmdari en þeirra sem eru á móti.

Helstu rök þeirra sem hlynntir eru aðild byggja á tiltölulega praktískum grunni. Þau eru lítt spennandi rökfærslur er snúa að tiltölulega þurrum efnahagsmálum eins og markaðsaðgangi fyrir vörur og þjónustu, peninga- og gjaldmiðilsmálum, samþættingu reglugerða og þess háttar.

Rök andstæðinga aðildar snúa hins vegar frekar að tilfinningum og upphrópunum og oft ekki í miklu samræmi við hvorki staðreyndir málsins né þann veruleika sem við blasir. Einblínt er á hugtök eins og fullveldi og út úr því snúið í allar áttir, auk þess sem alið er á ótta við það að Ísland verði áhrifa- og valdalaust fórnarlamb evrópskra stórvelda, rúið auðlindum sínum og lífsviðurværi.

Við skulum hafa það í huga að reynsla Íslands af alþjóðlegu samstarfi hefur verið yfirgnæfandi jákvæð. Enda er það svo að til þessa hafa íslendingar ekki séð nokkra ástæðu til þess að segja úr því alþjóða samstarfi sem stofnað hefur verið til, með einni undantekningu þó.

Sú undantekning var úrsögn okkar úr alþjóða hvalveiðiráðinu á sínum tíma. Svo vitnað sé í þekktan sjónvarpskarakter: "Eigum við að ræða það eitthvað?"

Í rúm fimmtán ár hefur Ísland verið aðili að Evrópska efnahagssvæðinu. Kostir þess samstarfs fyrir Ísland hafa lengst af verið óumdeildir og ætti sú reynsla að vera okkur ákveðið veganesti og vegvísir hvað varðar frekara Evrópusamstarf.

Samt er það ekki svo - og raunar athyglisvert að meðal svarinna andstæðinga ESB-aðildar er hægt að finna marga ötulustu talsmenn EES.

Augljóst dæmi er fyrrverandi dómsmálaráðherra Björn Bjarnason. Hann er hlynntur EES-samstarfinu og mjög ánægður með samstarf Evrópuríkjanna innan Schengen. Aðspurður á fundi í Háskólanum í Reykjavík í síðasta mánuði viðurkenndi hann fúslega að hann hefði haft veruleg áhrif í því samstarfi – að á sjónarmið Íslands hefði verið hlustað og mikið tillit til þeirra tekið alveg óháð þeirri staðreynd að Ísland er lítið land og fámennt, og ekki einu sinni í ESB.

Sami fyrrverandi dómsmálaráðherra vill styrkja stöðu Íslands í Evrópusamstarfi með því að bæta við þriðju stoðinni í það samstarf, myntsamstarfi, þrátt fyrir að fyrir liggi að hvorki Evrópusambandið né aðildarríki þess hafi áhuga á slíkum ráðahag. Hann er hins vegar algerlega andsnúin aðild meðal annars vegna þess að við myndum ekki hafa nein áhrif þar innan dyra!

Andstæðingar aðildar að ESB sem engu að síður eru hlynntir aðild Íslands að EES eru þannig í reynd óneitanlega frekar ósamkvæmir sjálfum sér.

Ekki veit ég hvort margir hér inni sáu á sínum tíma meistaraverk Monty Python, Life of Brian, sem var kaldhæðin gamanmynd sem gerðist á tímum Krists. Brian var jafnaldri Krists og ansi oft mistekinn sem frelsari, en það er aukaatriði í þessu samhengi.

Í myndinni er atriði þar sem frelsisbaráttuhópur gyðinga sem Brian þessi tilheyrir er að skipuleggja rán á konu Pontíusar Pílatusar. Tilgangur þessa mannráns á síðan að vera að knýja á um að rómverjar yfirgefi Palestínu. Full ástæða er til þess, enda hafa rómverjar aldrei gert neitt að gagni sem hersetuveldi.

Leiðtogi hópsins lýsir því hvernig rómarveldi hefur leikið þá grátt og spyr svo út til hópsins "...og hvað hafa þeir svo sem gert fyrir okkur í staðinn?"

Og einn úr hópnum svarar: "sett upp vatnsveitu?"

Og jú, leiðtoginn samsinnir því. Í framhaldinu spinnast svo umræður um allt það sem rómverjarnir hafi þó gert, en auk vatnsveitu hafi þeir sett upp skolpveitu, komið með meðöl og lyf, sett upp skóla, kynnt vín inn í menninguna, tryggt öryggi á götum úti, sett upp vökvunarkerfi fyrir landbúnaðinn, byggt vegi, tryggt ferskt drykkjarvatn, sett upp heilsugæslu og, síðast en ekki síst, tryggt friðinn. Þá er reyndar leiðtoga hópsins nóg boðið og stöðvar frekari umræður.

Og af stað er farið að ræna konu Pontíusar Pílatusar, þó það plan fari reyndar allt í vaskinn.

Þetta minnir eilítið á Evrópuumræðuna hér á landi, því að þrátt fyrir allt jákvæða sem Evrópusamstarf hefur þó fært okkur, að þá er andstaðan engu að síður hatrömm og í reynd órökrétt miðað við þá reynslu sem við þegar búum að.

Augljós munur er svo á Evrópusambandi nútímans og Rómarveldi fortíðarinnar. Evrópusambandið er samband frjálsra og fullvalda ríkja á meðan að Rómarveldi byggðist upp á hernaði Rómverja á hendur ríkjum nær og fjær. Það er reyndar líka einn ljóður á ráði andstæðinga aðildar að þeir sumir hverjir reyna að draga sama sem merki á milli ESB og heimsveldadrauma einræðisherra fortíðarinnar, Hitlers, Napóleóns, og, eins og áður sagði, rómarveldis. Slík röksemdafærsla er sérstaklega athyglisverð í ljósi þess að yfirlýstur tilgangur með stofnun forvera Evrópusambandsins, Kola- og stálbandalaginu, var að koma í veg fyrir stríð.

En er eitthvað að óttast varðandi Evrópusambandið?

Stutta svarið við þeirri spurningu er nei.

Þeir sem andmæla aðild Íslands að ESB eru mjög skapandi í því að búa til alls kyns grýlur og hindranir sem að þeirra mati ættu að standa í vegi fyrir aðild Íslands að Evrópusambandinu.

Sumar þeirra eiga sér einhverja stoð, en falla yfirleitt að betur athuguðu máli.

Flestar hins vegar falla undir það að vera – svo snúið sé út úr gjöfum vitringanna – bull, ergelsi og firra!

Andstaðan við aðild kristallast einkum í eftirfarandi þáttum: fullveldi, regluverki, áhrifum, sjávarútvegi og landbúnaði. Við skulum fara yfir þá alla, lið fyrir lið.

Fullveldi

Ísland varð fullvalda ríki árið 1918. Í fullveldi felst að ríkið hefur sjálfdæmi um vald sitt að því marki sem að þing þess heimilar í krafti löggjafarvalds síns og frekari þrískiptingu ríkivalds að auki milli framkvæmdavalds og dómsvalds.

Í hefðbundinni skilgreiningu fullveldis er gengið út frá því að hið þrískipta ríkisvalds lúti allt innlendri stjórn. Staðreyndin er hins vegar sú að "hreint" fullveldi hefur aldrei verið við lýði hér á landi. ´

Rétt eins og fullveldi og frelsi manns á eyðieyju er merkingarlaust, er fullveldi þjóða merkingarlaust án samhengis við tengsl þeirrar þjóðar við aðrar.

Öll alþjóðleg samskipti, nema hugsanlega árásarstríð, fela í sér skerðingu fullveldis í ljósi hinnar hefðbundnu skilgreiningar. Á móti kemur að það sem fengið er í staðinn er metið hærra en það sem tapast. Fullveldið er þannig, og hefur verið frá því fullveldið var fengið 1. desember 1918, afstætt og undirgefið hagsmunamati hvers tíma.

Almennt sammæli er hins vegar um það að hvað Stjórnarskrá lýðveldisins Íslands varðar, verður ekki gengið mikið lengra en þegar hefur verið gert án breytinga. Aðild Íslands að ESB kalli þannig á að stjórnarskránni verði breytt þannig að hún endurspegli skýra heimild til ríkisstjórnar og Alþingis að framselja hluta fullveldisins til yfirþjóðlegrar stofnunnar eins og Evrópusambandsins.

Eftir sem áður yrði það þó þannig að Evrópuáhrif á íslenska löggjöf myndu takmarkast við þá þætti sem Alþingi íslendinga hefur samþykkt að Evrópusambandslöggjöf nái til. Felst í því fullveldisframsal? Vissulega, innan þeirra þátta sem Evrópusamstarfið nær til, en á móti kemur að Ísland er þátttakandi og áhrifavaldur í því ferli frá upphafi til enda. ESB aðild hefur þannig frekar áhrif til samþættingar íslensks fullveldis við fullveldi annarra aðildarþjóða, en að um sé að ræða fullveldissviptingu.

Hafa ber í huga í þessu samhengi að íslensk löggjöf er almennt undir miklum erlendum áhrifum. Við lagasetningu er gjarnan horft til annarra landa um framkvæmd viðkomandi málefnis og þykir í raun góð venja. Einnig er, þegar öllu er á botninn hvolft, réttur þjóða til úrsagnar úr hverjum þeim félagsskap sem þær á annað borð skrá sig til, ótvíræður. Þó er reyndar tekin af allur vafi hvað það varðar í Lissabon sáttmála Evrópusambandsins, þannig að ef í aðild að ESB einhverri þjóð verður nóg boðið og hrópar "út vil ek" þá er henni það í sjálfsvald sett, sem er ótvíræð staðfesting á endanlegu fullveldi viðkomandi þjóðar, ef út í það er farið.

Ekki er hægt að láta hjá líða í umfjöllun um fullveldi og ESB að af einhverjum ástæðum virðist það alveg hafa farið framhjá ESB-þjóðum eins og til dæmis Frakklandi, Bretlandi og Þýskalandi, að þær hafi glatað fullveldinu vegna ESB aðildarinnar. Kannski þær hafi ekki fengið tölvupóst frá Bjarna Harðarsyni sem geri þeim grein fyrir þessari mikilvægu staðreynd!

Regluverk

Regluverk Evrópusambandsins er reglulega gagnrýnt. Of mikið, of víðfeðmt, of nákvæmt, of flókið, of uppáþrengjandi, of franskt, of breskt, of þýskt!

Regluverkið er algengasti skotspónn andstæðinga Evrópusambandsaðildar og yfirleitt aldrei nokkur skortur á draugasögum því tengt.

Nýlegt dæmi er frétt á pressan.is nú um síðustu helgi þar sem sagði frá nýrri "...tilskipun frá Evrópusambandinu til aðildarlanda sinna [sem] gerir netþjónustuaðila skylduga til að vista gögn um netnotkun áskrifenda sinna og eru þeir skuldbundnir til að geyma gögnin í að minnsta kosti ár." Samkvæmt fréttinni var tilskipunin umdeild og meðal annars sögð "brjálæðisleg" og mögulega "skaðleg einstaklingsfrelsinu."

Þannig að samkvæmt þessari frétt getur þetta Evrópusamband greinilega verið mjög viðsjárvert!

Það sem ekki kom fram í fréttinni var hins vegar eftirfarandi:

Í fyrsta lagi er umrædd reglugerð ekki ný. Hún var sett árið 2006 og tók gildi í september 2007.

Í öðru lagi settu margar þjóðir fyrirvara um gildistöku hennar.

Í þriðja lagi var sambærileg heimild sett í íslensk lög með breytingu á fjarskiptalögum árið 2005, ári áður en Evrópureglugerðin var sett.

Dæmi af þessu tagi eru óteljandi.

Það sem gleymist hins vegar að Evrópusambandið er ekki sjálfstæð eining sem kokkar upp regluverk bara af því bara. Regluverk Evrópusambandsins felur í sér töluverða einföldun og sparnað ef betur er að gáð. Eitt regluverk í stað 27 aðgreindra um sambærileg mál. Sameiginlegt regluverk á vegum ESB eykur þannig á gegnsæi og skilvirkni, þvert á það andstæðingar vilja halda fram.

Ekki er svo hægt að láta hjá líða í þessu samhengi að minnast á fullyrðingu ESB-andstæðinga hér á landi að í EES-samningnum felist að á Íslandi sé einungis tekin upp 6,5% af gerðum ESB. Hér er beitt orðhengilshætti til að búa til rakalausa röksemd!

Staðreyndin er sú að dag er upp undir 100% af regluverki Evrópusambandsins sem varðar innri markaðinn tekið upp í EES, að undanskildu því regluverki sem varðar sameiginlega stefnu ESB í landbúnaðar-, sjávarútvegs- og tollamálum. Langstærsti hluti "gerða" ESB er vegna þessara þriggja þátta, enda er þar meðal annars um að ræða bæði tímabundnar og ótímabundnar ákvarðanir tengdum ýmsum smærri afgreiðslum. Dæmi um slíkt gæti verið tímabundin lokun sláturhúss í Danmörku vegna salmonellusýkingar. Tilkynning um slíka lokun, og síðar um enduropnun, fær samt gerðanúmer og telst með í heildartölum um fjölda "gerða", jafnvel þó að viðkomandi "gerðir" hafi aldrei áhrif á neinn annan en fyrrnefnt sláturhús.

Þetta er skýringin á því af hverju andstæðingar aðildar Íslands að ESB geta fullyrt að raunverulegar tölur um innleiðingu "gerða" ESB í landslög á Íslandi sé einungis 6,5%. Staðreyndin er hins vegar sú að ekkert ríki ESB leiðir allar "gerðir" í landslög. Á því er ekki þörf. Innleiðing í landslög fer eftir eðli, umfangi og viðfangsefni gerðarinnar.

Áhrif

En hvað með áhrif Íslands innan Evrópusambandsins? Á heimasíðu Heimssýnar – hreyfingu sjálfstæðissinna í Evrópumálum segir svo um hugsanleg áhrif Íslands innan ESB:

"Það er skemmst frá því að segja að áhrif Íslands innan Evrópusambandsins, yrði af íslenskri aðild, yrðu svo gott sem engin. Sú meginregla gildir innan sambandsins að vægi einstakra aðildarríkja, og þar með allir möguleikar þeirra til þess að hafa áhrif innan þess, fer fyrst og fremst eftir því hversu fjölmenn þau eru. Ljóst er að þetta fyrirkomulag myndi seint henta hagsmunum Íslendinga enda flest aðildarríki Evrópusambandsins milljónaþjóðir og í sumum tilfellum tugmilljónaþjóðir á sama tíma og Íslendingar eru aðeins rúmlega 300 þúsund."

Þetta er viðhorf sem endurspeglar grundvallarmisskilning á alþjóða samstarfi almennt og Evrópusamstarfi sérstaklega.

Það er einfaldlega þannig að þegar fulltrúar aðildarríkja ESB sitja saman á fundum að þá sitja þar 27 fulltrúar – einn fulltrúi, ein rödd. Geta fulltrúa Íslands til að færa rök fyrir máli sínu er þannig mikilvægara en hve nákvæmlega mörg atkvæði hann vigtar. Það er alltaf meginmarkmið að ná sátt í málum og þau skipti sem atkvæðagreiðsla hefur farið fram þar sem reynt hefur á atkvæðavægið eru fá. Ef eitthvað, þá hefur hallað á stóru ríkin í þeim efnum.

Áhrif þjóða í ákveðnum málaflokknum fara ennfremur frekar eftir hagsmunum þeirra en mannfjölda. Þannig er augljóst að við aðild yrði Ísland ein af þremur stærstu sjávarútvegsþjóðum Evrópusambandsins. Vigt landsins og áhrif í þeim málaflokki yrði í samræmi við þá staðreynd.

Sjávarútvegur

Aðal mótrök andstæðinga aðildar að Evrópusambandinu snúa hins vegar að sameiginlegu sjávarútvegstefnu bandalagsins. Á Íslandi er engin tilbúin til þess að gangast undir sameiginlegu fiskveiðistefnuna að óbreyttu. Markmið hennar getur Ísland hins vegar stutt. Ísland einfaldlega býr við þann kost í sjávarútvegsmálum að vera fyrir löngu búin að ná og uppfylla markmiðum stefnunnar um t.d. sjálfbærni og verndun stofna.

Það sem meira er, ESB, þ.e. stjórnmálaleiðtogar helstu aðildarríkja og æðstu embættismenn þekkja og viðurkenna þessa staðreynd. ESB hefur ekki hagsmuni af því að stefna íslenskum sjávarútvegi í tvísýnu eða spila pólitískan leik með eitt af fjöreggjum þjóðarinnar. Engin fordæmi eru fyrir því að sambandið geri slíkt í aðildarviðræðum.

Sjávarútvegsstefna Evrópusambandsins á því ekki að vera þröskuldur fyrir aðild Íslands.

Á hinn bóginn ber á það að lýta að sameiginleg fiskveiðistefna Evrópusambandsins er í grundvallaratriðum eins og fiskveiðistefna Íslands hvað varðar sameiginlega fiskistofna.

Það er á þeim grunni sem til hennar er stofnað.

Grundvallaratriðið er þetta: Ef um er að ræða sameiginlega stofna sem margar þjóðir nýta þá á fiskveiðistjórnun þeirra að vera sameiginleg meðal þeirra þjóða.

Þetta er stefna íslenskra stjórnvalda hvað varðar alla þá stofna sem við veiðum úr og eru sameiginlegir með öðrum þjóðum – kolmunna, síld, loðnu og karfa, svo dæmi séu tekin.

Og snýst ekki deila okkar við Norðmenn og Evrópusambandið nákvæmlega um þetta grundvallaratriði? Ísland vill hafa sameiginlega fiskveiðistefnu og –stjórnun á makrílnum, enda um flökkustofn að ræða!

Þessu tengt er kannski rétt að velta upp einu þankastriki. Hver verður staða okkar, í ljósi til dæmis hnattrænnar hlýnunar, þegar og ef hinir meintu staðbundnu stofnar á Íslandsmiðum taka upp á því að fara á flakk? Með það í huga og hagsmuni framtíðarinnar, væri kannski betra að vera hluti af Evrópusambandinu?

Rétt er ennfremur í þessu samhengi að nefna að sameiginlega fiskveiðistefna Evrópusambandsins er í raun undantekning hvað varðar auðlindastjórnun innan þess. Evrópusambandið sem slíkt ræður ekki yfir eða á neinar auðlindir. Og það stendur ekki til. Olíulindir Breta og Dana eru breskar og danskar, punktur.

Landbúnaður

Síðast en ekki síst er rétt að ræða aðeins stöðu íslensks landbúnaðar innan ESB. Að mínu mati yrði landbúnaður ekki sérstakt vandamál í samningaviðræðum Íslands og Evrópusambandsins. Landbúnaður almennt nýtur sérstakrar viðurkenningar og verndar innan ESB nú þegar, og í aðildarsamningum Svíþjóðar og Finnlands var samið sérstaklega um heimildir til aukins stuðning við landbúnað á erfiðum svæðum. Engin ástæða er til að ætla annað en að Ísland muni ná fram sambærilegum heimildum fyrir íslenskan landbúnað.

Hver sá sem eitthvað hefur keyrt um sveitir Evrópusambandsríkja ætti þar með að hafa séð með eigin augum að Evrópusambandið er ekki óvinur landbúnaðar í sínum aðildarríkjum. Þvert á móti.

Það er hins vegar rétt að hafa í huga að breytingar eru óumflýjanlegar í íslenskum landbúnaði, hvort sem af aðild að ESB verður eða ekki.

Höfum jafnframt í huga að íslenskur landbúnaður mun áfram leika lykilhlutverk á ferskvörumarkaði hér á landi. Samkeppnisstaða landbúnaðarins er að mínu mati vanmetin. Ef íslenskur landbúnaður fær eðlilegra rekstrarumhverfi þá er honum allir vegir færir. Til dæmis tel ég meiri ógn stafa að viðvarandi háum fjármagnskostnaði og skorti á aðgangi að lánsfé fyrir íslenskan landbúnað, en af frjálsari innflutningi á matvöru.

Í dag er það svo að við fáum ferskar kjúklingabringur á 1500 krónur kílóið á tilboðum stórmarkaðanna. Við þetta verð á engin innflutningur eftir að keppa. Tala nú ekki um ef annað rekstrarumhverfi bætist hér, þá gæti þetta verð lækkað ennþá meira.

Höfum enn frekar í huga að ESB ríkið Danmörk, með litlar sem engar auðlindir og skandinavískt skattaumhverfi er stórveldi á alþjóðamörkuðum með unnar landbúnaðarvörur.

Það sem síðan skiptir öllu máli fyrir bæði íslenskan sjávarútveg og landbúnað í tengslum við aðildarviðræður að ESB er sú staðreynd að í aðild felst eina fyrirsjáanlega tækifæri íslendinga til þess að opna á stóran erlendan markað með fullunnar vörur. Allt slíkt er í dag takmörkunum háð sem myndu falla niður við aðild.

Á Íslandi getur ekki orðið um frekari hagræðingu og vöxt í landbúnaði og sjávarútvegi nema með auknu aðgengi á erlenda markaði. Eini erlendi markaðurinn sem máli skiptir opnast við aðild að ESB. Hinn valkosturinn er frekari fækkun starfa í báðum þessum greinum, því hvorug þeirra getur búist við miklum vexti vegna eftirspurnar á innlendum markaði. Frekari hagræðing og framlegð mun þannig fyrst og fremst byggja á fækkun starfa. Það verða engin 20 þúsund ný störf til í landbúnaði og sjávarútvegi að óbreyttu.

Aðrar bábiljur

Höfum svo í huga að andstæðingar ESB aðildar Íslands hafa í gegnum tíðina notað eftirfarandi röksemdir gegn aðild Íslands að ESB og evru sem virka nú hálf hjákátleg í ljósi atburða síðustu mánaða:

"Mikilvægur sveiflujöfnunarsveigjanleiki" - ójá, allt þar til sveifluðumst út um gluggann, misstum takið á pendúlnum og skullum í gólfið.

"Aðild fylgir atvinnuleysi" svo aftur sé vitnað í þekktan sjónvarpskarakter: "Eigum við að ræða það eitthvað?"

"Aðild kostar!" - en aðildarleysi kostar greinilega meira.

"Evran í núverandi ástandi myndi þýða að eina leiðin til að bregðast við væri að lækka laun!" - eins og það sé ekki að gerast?

"Fríverslunarsamningar Íslands við önnur ríki myndu falla niður!" - en í staðinn kæmi aðild að mun víðfeðmara og öflugra fríverslunarneti ESB.

"Ísland myndi lokast innan tollamúra ESB!" - sem eru óvart lægri tolla- og gjaldamúrar en Ísland hefur í dag. ESB er líka aðili að Alþjóðaviðskiptastofnuninni og "tollamúrar" þess eru takmarkaðir samkvæmt þeim skuldbindum, rétt eins og tollamúrar Íslands. Ísland er þó snöggtum duglegra en ESB að nýta sér allskyns "trix" eins og vörugjöld sem ég efa ekki að félagsmenn í Félagi íslenskra stórkaupmanna vita allt um og þekkja vel á eigin skinni.


 

Ágætu fundarmenn

Yfirskrift þessa erindis var "ESB: Er eitthvað að óttast?"

Ég hef hér stiklað á stóru hvað varðar helstu áhyggjur og mótrök gegn aðild Íslands að ESB. Mín niðurstaða er sú að við höfum ekkert að óttast – tækifærin og kostirnir vega á móti göllunum margfalt. Reyndar tel ég í flestum tilvikum mótrök gegn aðild byggja aðallega á þrennu: fáfræði, misskilningi eða einbeittum brotavilja!

Ekki veit ég hvort einhverjir hér inni lásu myndasögurnar um Ástrík, en þær fjölluðu um íbúa þorps á Bretagne-skaga árið 50 fyrir Krist sem tókst með hjálp Sjóðríks seiðkarls og töfradrykkjar hans sem gaf þorpsbúum mikla krafta, að halda rómverjum frá því að yfirtaka bæinn.

Þorpsbúar þessir, með Ástrík í broddi fylkingar, léku á fulltrúa rómarveldis í hverri bókinni á fætur annarri. Þarna var skemmtilegt dæmi um hvernig fámennið gat átt í fullu tré við stórveldið.

Tvennt óttuðust þó íbúar Gaulverjabæjar, en svo nefndist þorpið í íslenskri þýðingu, það var annars vegar að orkudrykkur Sjóðríks myndi klárast, og hins vegar að himnarnir myndu hrynja ofan á hausinn á þeim.

Á undanförnum árum höfum við íslendingar eilítið verið eins og íbúar Gaulverjabæjar – allra þjóða klárastir og sterkastir.

En nú er orkudrykkurinn búinn og himnarnir hafa hrunið ofan á hausinn á okkur.

Það er spurning hvort ekki sé kominn tími til að semja um aðild að Rómarsáttmála.

8 ummæli:

 1. já okkur munar sko ekki um að leggja af landbúnað og eyða gjaldeyri í að flytja allar nauðsynjar inn. okkur munar sko ekki um það.

  SvaraEyða
 2. Jóhannes:
  Þetta er mjög góð samantekt eins og annað sem þú hefur skrifað um ESB.

  SvaraEyða
 3. Flott samantekt.

  Þetta getur í sjálfu sér hver sem er fundið út og staðfest uppá eigin spýtur ef hann hefur tíma og nennu til.

  Þessvegna er svo skrítið að það er alltaf gengið útfrá, td. í umfjöllun fjölmiða, einhverri firru eða bulli And-Sinna og það gert að útgangspunkti.

  SvaraEyða
 4. Sæll Friðrik.

  Flottur pistill og vel settur fram, ég hef stundum velt fyrir mér þessari mótsögn að vera með EES en á móti ESB. Þú setur þetta skýrt fram.
  Komment nr. 1 hér fyrir ofan frá "Nafnlaus" staðfesta einnig orð þín um ESB andstæðingana.

  kv.
  Einar Ben.

  SvaraEyða
 5. Takk fyrir þetta, félagi, ljómandi erindi, P.

  Sérstaklega þetta;
  "Rétt eins og fullveldi og frelsi manns á eyðieyju er merkingarlaust, er fullveldi þjóða merkingarlaust án samhengis við tengsl þeirrar þjóðar við aðrar.

  Öll alþjóðleg samskipti, nema hugsanlega árásarstríð, fela í sér skerðingu fullveldis í ljósi hinnar hefðbundnu skilgreiningar. Á móti kemur að það sem fengið er í staðinn er metið hærra en það sem tapast. Fullveldið er þannig, og hefur verið frá því fullveldið var fengið 1. desember 1918, afstætt og undirgefið hagsmunamati hvers tíma."

  SvaraEyða
 6. Hörður Unnsteinsson15. apríl 2009 kl. 17:49

  Hörður:

  Frábær pistill, alveg hreint frábær. Ég hefði ekki getað orðað þetta betur sjálfur. Hef skrifað talsvert og stúderað ESB og komist auðvitað að sömu niðurstöðu og þú og hlæ því oftast innra með mér þegar ég heyri mótrök aðildarandstæðinga. Oftast eru þær byggðar á þeim rökum að einstök og oft á tíðum smávægileg vandamál annara ríkja innan ESB séu forsenda þess að við myndum þurfa að glíma við nákvæmlega sömu vandamál. Undarlegur málflutningur á allan hátt og ég fagna þessu innleggi þínu í upplýsandi og vonandi málefnalega umræðu eftir kosningar.

  SvaraEyða
 7. Frábær og fræðandi pistill. Ég segi fyrir mitt leyti að viðhorf mín til aðildar að ESB hafa skýrst mikið við lesturinn.

  Takk fyrir!

  SvaraEyða
 8. Bravó, frábær grein. Verð að játa að fordómar mínir í garð stórkaupmanna hafa snarminnkað eftir lestur hennar :)

  SvaraEyða

Ath: Aðeins meðlimir bloggsins geta birt ummæli.