sunnudagur, 13. september 2009

Alvöru ESB andstöðu, takk!

Nú þegar aðildarumsókn Íslands er farin af stað í hið hefðbundna undirbúningsferli er óneitanlega jákvætt að ferlið a.m.k. byrjar þokkalega opið og gegnsætt. Stóri spurningalistinn er birtur í heild sinni og stækkunarstjórinn Olli Rehn kom galvaskur til landsins og ræddi við mann og annan um ferlið.

Hér hefði nú aldeilis verið tilefni til þess að hrista upp alvöru umræðum um umsóknina, hugsanlega ESB-aðild og kosti þeirra og galla. Og hér hefði maður haldið að stóra tækifæri andstæðinga aðildar væri komið til að afhjúpa þetta skelfilega Evrópusamband.

En nei. Kannski eru þeir eftir allt svona kurteisir, eða þá að röksemdabanki andstæðinga aðildar er jafn tómur og innistæðutryggingasjóður!

Því ef að helstu stjörnum andstöðunnar við aðild Íslands að ESB kom ekkert betra í hug en annars vegar að tyggja upp kjánalega þvælu um að Íslands tæki sko alls ekkert upp 2/3 hluta lagasetningar ESB og að það sé alveg hræðilegt að svara þurfi spurningalista ESB á útlensku þá má hamingjan hjálpa okkur.

Hjörtur J. Guðmundsson segir t.d. í pistli sínum á AMX þann 8. september síðastliðinn:
“Heildar lagasetning Evrópusambandsins er talin vera í kringum 30 þúsund gerðir. Heildarfjöldi íslenzkra lagagerða er hins vegar aðeins í kringum 5 þúsund. Þar af eru um eitt þúsund lög en afgangurinn er reglugerðir. Þetta þýðir einfaldlega að jafnvel þó öll íslenzk löggjöf kæmi frá sambandinu væri hún minna en 20% af heildar lagasetningu þess.
Hvernig er þá hægt að komast að þeirri niðurstöðu að Ísland hafi þegar tekið upp a.m.k. 2/3 hluta lagasetningar Evrópusambandsins?”

Svarið við þessu er einfalt, eins og ég hef reyndar bent á í fyrri pistlum og erindum um ESB:

Staðreyndin er sú að dag er upp undir 100% af regluverki Evrópusambandsins sem varðar innri markaðinn tekið upp í EES, að undanskildu því regluverki sem varðar sameiginlega stefnu ESB í landbúnaðar-, sjávarútvegs- og tollamálum. Langstærsti hluti "gerða" ESB er vegna þessara þriggja þátta, enda er þar meðal annars um að ræða bæði tímabundnar og ótímabundnar ákvarðanir tengdum ýmsum smærri afgreiðslum. Dæmi um slíkt gæti verið tímabundin lokun sláturhúss í Danmörku vegna salmonellusýkingar. Tilkynning um slíka lokun, og síðar um enduropnun, fær samt gerðanúmer og telst með í heildartölum um fjölda "gerða", jafnvel þó að viðkomandi "gerðir" hafi aldrei áhrif á neinn annan en fyrrnefnt sláturhús.
Þetta er skýringin á því af hverju andstæðingar aðildar Íslands að ESB geta fullyrt að raunverulegar tölur um innleiðingu "gerða" ESB í landslög á Íslandi sé einungis 6,5%. Staðreyndin er hins vegar sú að ekkert ríki ESB leiðir allar "gerðir" í landslög. Á því er ekki þörf. Innleiðing í landslög fer eftir eðli, umfangi og viðfangsefni gerðarinnar.”

Og Björn Bjarnason, á sama miðli, þann tíunda September síðastliðinn tekur upp einhverja sérkennilegustu málsvörn fyrir íslenska tungu sem sést hefur frá fullveldisstofnun:
“Mál íslenska stjórnkerfisins er íslenska og óeðlilegt, að embættismönnum sé gert skylt að vinna málefni, sem snerta þjóðarhag á annarri tungu. Leggja á íslensku til grundvallar í þessum aðildar-samskiptum við ESB, svo að Íslendingar njóti vafa vegna tungumálsins og þeirra tunga ráði. Hafi þessi krafa ekki verið sett fram við ESB, lýsir það aðgæsluleysi.”

Nú er málsvörn um íslenska tungu allra góðra gjalda verð, en hjálpi mér hamingjan. Er Björn Bjarnason að leggja til þá nýlundu að í þessum alþjóðasamningaviðræðum verði allt þýtt, og þá helst að allar viðræður fari fram með túlkum?

“Lighten up, Francis!”

Þetta er hrein nýlunda og aldrei áður hefur þessi komið fram í nokkrum alþjóðasamningum Íslands hingað til. Ekki EES, ekki Schengen, ekki EFTA, ekki fríverslunarsamningum, ekki NATO aðildarsamningnum, ekki varnarsamningnum. Aldrei. Niðurstaðan er vissulega oftast nær þýdd, svo og fylgiskjöl, og jafnvel þess dæmi að samningar tekjist jafngildir á fleiri en einu tungumáli, og þá íslenskan þar með talin. Ekki er annað að sjá að en að þetta þjóðernis- og málverndarátak Björns Bjarnasonar eigi sér neinn annan tilgang en að kitla undir einhverri misskilinni og óþarfri þjóðrembu.

Okkar allra vegna, má ég biðja um alvöru ESB andstöðu sem byggir á málefnalegum rökum en ekki einhverjum bullþörfum, hártogunum, og þvælu um að ESB banni bognar gúrkur og banana!

En kannski endurspegla þessir pistlar einfaldlega málefna- og röksemdafátækt ESB andstöðunnar og því munum við sitja uppi með fjarstæðu- og farsakenndar upphrópanir.

Sem er synd, því það hljóta að vera hagsmunir allra að samningar við ESB verði sem bestir. Það á einnig við um andstæðinga aðildar, ef svo fer að þrátt fyrir andstöðu þeirra samþykki þjóðin aðild.

Íslensku samninganefndinni verður hins vegar lítið hald eða stoð í andstöðuorðagjálfri sem þessu.

6 ummæli:

  1. Ef þú saknar ESB andstöðu þá er ástæða þess einfaldlega sú að almenningur er í varnarbaráttu á öðrum vígstöðvum. Hann er í mörgum tilvikum í lífróðri til að ná endum saman og hefur ekki orku í að vera setja inn í málefni sem er aukaatriði í hans huga þessa stundina.

    Almenningur er í stríði við stjórnvöld vegna þess að honum finnst þau koma aftan að sér þegar kemur að eðlilegri leiðréttingu lána.

    Almenningur er í stríði við stjórnvöld vegna þess að hann skilur ekki hvers vegna öllum mistökum skuli enn og aftur varpað yfir á hann.

    Af þessu og mörgu öðru hefur almennigur í mörgum tilvikum enga orku aflögu til að byggja upp almennilegar ESB varnir eins og þú vilt.

    SvaraEyða
  2. Ég óttast mjög að hvatningarorð þín Friðrik falli í ófrjóan jarðveg, þótt brýn séu.

    Vandamálið er að frá sjónarhóli ESB andstæðinga skiptir ekki máli hvað liggur að baki "nei" afstöðunni þegar til atkvæðagreiðslunnar kemur. Fólk getur sagt nei vegna röksemdanna og hagsmunamatsins, vegna tilfinninga, vegna andstöðu við flokkana sem bera málið fram, af þjóðernisástæðum, og vegna þess að þeim finnst að sjálfur samningurinn gæti hafa verið betri og því ástæða til að endursemja.

    Það er því borin von að nokkurn tímann verði hægt að ræða skynsamlega við Evrópusambandsandstæðinga (utan fárra einstaklinga). Herfræði þeirra sem eru hlynntir aðildinni verður því að taka mið af því.

    Athugasemd Nafnlauss (0:50) eru bara kjánaleg. Auðvitað geta menn velt fleiri en einu fyrir sér.

    SvaraEyða
  3. Stefán Benediktsson: Kálfur Heimssýnar með Bændablaðinu ritstýrt af Hirti J.G. hlýtur að vera mælikvarði þess sem koma skal. Greinilegt að þar verða engir þröskuldar í vegi þeirra sem viljatjá sig.

    SvaraEyða
  4. Kálfi Heimssýnar í Bændablaðinu var reyndar ritstýrt af Páli Vilhjálmssyni sé að marka kálfinn sjálfan...

    SvaraEyða
  5. Menn geta velt fyrir sér kostum og göllum ESB en það sem (8:50) átti við er að almenningur hefur ekki stöðu sinnar aflögu til að byggja upp þá eðlilegu mótstöðu sem þyrfti að vera óháð öllum skoðunum til ESB.

    Þeir sem horfa ekki raunsætt á íslenskt raunhagkerfi í dag er í afneitun.

    SvaraEyða
  6. mun efnahagur landsins batna strax og gengið er inn í ESB? munum við fá Evruna innan tveggja til þriggja ára? munum við fá hið góða atvinnustig sem er á Spáni og hagvöxtin frá Írlandi?

    ef nú rætt við marga ESB sinnan og þeir eru nánast allir með tölu eins og andstæðingum þeirra er lýst hér að ofan. og í raun verri. ESB sinnar trúa á að ESB muni laga allt.

    þeir taka hvorki rökum né neinu öðru sem sagt er við þá. síðan þegar þeir eru gagnrýndir þá koma kallar eins og þú og segja að þetta sé ekki nóga góð umræða. ESB sinnar vilja ekki umræðu. þeir vilja bara kosningar þangað til að þeirra niðurstaða fæst.

    við höfum ekki efni á þessum kokteilboðum sem þú og aðrir ESB sinnar vilja koma okkur í. við höfum ekki efni á að því að greiða öll þessi gjöld til ESB. þjóðin hefur ekki efni á einhverjum skýjaglópum eins og þér sem vilt fara í Útrás.

    afhverju voru allir útrásarvíkingarnir og bankamennirnir ESB og Evru sinnar? afhverju hefur engin ESB sinni svarað því?

    SvaraEyða

Ath: Aðeins meðlimir bloggsins geta birt ummæli.