föstudagur, 19. febrúar 2010

ESB og umpólun Gunnars Braga

Á síðasta flokksþingi Framsóknarflokksins, fyrir rétt rúmu ári síðan, var Gunnar Bragi Sveinsson, nú þingmaður flokksins fyrir Norðvesturkjördæmi, lykilmaður í því að þar var samþykkt ályktun um umsókn um aðild Íslands að Evrópusambandinu.

Á framboðsfundum flokksins í aðdraganda póstkosningar talaði Gunnar Bragi um nauðsyn aðildarumsóknar því íslendingar þyrftu að sjá hvað fælist í aðild og hvernig hugsanlegur aðildar samningur myndi líta út. "Ég vil sjá hvað er í pakkanum" var inntak þess sem Gunnar Bragi sagði á þeim tíma.

Að vísu kom alltaf fram hjá þingmanninum að sjálfur væri hann ekki hrifinn af þeim félagskap, en að hann myndi kveða upp sinn lokadóm varðandi afstöðu til aðildar þegar niðurstaða samningaviðræðna lægju fyrir.

Í þessu samhengi er einnig rétt að geta þess að í ályktun Framsóknarflokksins voru sett fram skilyrði til viðmiðunar um endanlega afstöðu til aðildar. Skilyrði sem endurspegluð voru að fullu í afgreiðslu þingsályktunartillögu um aðildarumsókn.

Gunnar Bragi studdi þó ekki þá tillögu. Gaf hann sínar skýringar á því á þingi hví hann gekk með þeim hætti fram gegn ályktun eigin flokksþings og nokku ljóst að umpólun þingmannsins í þessu stóra máli var hafin.

Í dag gengur Gunnar Bragi þó skrefinu lengra í grein í Morgunblaðinu sem vísast er ætlað að ýfa fjaðrir Vinstri Grænna vegna aðildarumsókn að Evrópusambandinu. Nefnir hann stuðning Vinstri Grænna við aðildarumsókn að ESB sem dæmi um umpólun þeirra í flestum málum.

Lokamálsgrein Gunnars Braga hefst hins vegar á þessum orðum: "Framundan eru mikilvægir tímar þar sem stöðva verður aðildarumsóknina [að ESB]..."

Frá því að styðja aðildarumsókn og vilja sjá hvað er í pakkanum, til þess að greiða atkæði gegn aðildarumsókn vegna þess að ekki var allt tengt þingsályktunni þingmanninum að skapi, yfir í það að vilja hreinlega stöðva ferli sem þegar er hafið og samþykkt af meirihluta þingsins er athyglisverð þróun.

Hvar er nú virðingin fyrir þingræðinu? Hún virðist hafa týnst í umpólun þingmannsins, a.m.k. í þessu máli.

En aðallega leikur mér hugur að vita, í ljósi þess að hér skrifar þingflokksformaður Framsóknarflokksins, hvort þetta sjónarmið endurspegli nýja stefnu þingflokksins varðandi aðildarviðræður Íslands og Evrópusambandsins.

10 ummæli:

  1. Hjörtur J. Guðmundsson19. febrúar 2010 kl. 14:08

    Væntanlega hefur Gunnar Bragi einfaldlega komizt að raun um að það þarf enga umsókn um inngöngu í Evrópusambandið til þess að vita hvað sé í pakkanum. Í langflestum tilfellum, og í öllum grundvallaratriðum, liggur það þegar fyrir. En margir nenna ekki að kynna sér málið til hlítar og á það hafa Evrópusambandssinnar spilað.

    Hvað þingræðið varðar á Gunnar Bragi væntanlega við að Alþingi samþykkti að draga umsóknina til baka. Þingið er jú í fullum rétti að nema úr gildi það sem það hefur áður samþykkt. Eða varla er það svo að aldrei megi breyta lögum eða afnema þau hafi þau einu sinni verið samþykkt á þingi?

    SvaraEyða
  2. Það lýsir lítilli staðfestu hjá þingmanninum að geta ekki haldið sig við samþykkta stefnum Framsóknarflokksins - einungis vegna þess að í einni skoðanakönnun er þjóðin í fýlu við ESB væntanlega vegna IceSave.

    Það er hins vegar verra að rök þingmannsins fyrir andstöðu gegn samningaviðræðum við ESB eru engin.

    Það verður athyglisvert hvort hann skrifi grein þegar IceSave hefur verið leyst - og allar líkur á að almenningsálitið hafi breyst.

    Staðreyndin er nefnilega sú að andstaða gegn viðræðum við ESB felst í lang flestum tilfellum á hleypidómum og misskilningi.

    Þegar staðreyndirnar koma upp á borðið - þá eru allar líkur að almenningsálitið snúist aftur til stuðnings við inngöngu í ESB.

    Hvað ætlar þingmaðurinn að gera þá?

    Nema hluti VG og ístöðulausir þingmenn annarra flokka komið í veg fyrir að Íslendingar nái sem bestum samningi við ESB - bara til að halda fésinu.

    Við höfum upplifað slík viðbrögð td. hjá samningamanni VG í IceSave.

    Þá ætti þingmaðurinn að hafa í huga að hagsmunir Skagafjarðar gætu einmitt falist í inngöngu í ESB - enda fjölmörg tækifæri í byggðastefnu þeirra ágætu samtaka.

    SvaraEyða
  3. Hver er stefna flokksins í Evrópumálum? Svona hentistefna er til háborinnar skammar.

    SvaraEyða
  4. Ályktun um aðildarviðræður við Evrópusambandið

    Markmið

    Að Ísland hefji aðildarviðræður við Evrópusambandið á grundvelli samningsumboðs frá Alþingi sem tryggi hagsmuni almennings og atvinnulífs og þá sérstaklega sjávarútvegs og landbúnaðar.

    Þá er fullveldi og óskorað forræði Íslendinga yfir auðlindum þjóðarinnar grundvallarkrafa í þeim viðræðum.

    Viðræðuferlið á að vera opið og lýðræðislegt og leiði viðræðurnar til samnings skal íslenska þjóðin taka afstöðu til aðildarsamnings í þjóðaratkvæðagreiðslu í kjölfar upplýstrar umræðu.

    SvaraEyða
  5. hér að ofan er meginályktun flokksþings um aðildarviðræður við Evrópusambandið!

    SvaraEyða
  6. http://www.framsokn.is/files/3948-0.pdf

    hér er ályktunin í heild - ásamt mörgum öðrum frábærum ályktunum flokksþings Framsóknarmanna.

    Þetta er grunnu stefnu flokksins.

    SvaraEyða
  7. Bændasamtökin hafa að sögn formanns þeirra skoðað við harðbýl svæði hjá ESB og komist að því að þau eru "feik" eða blekking. Hvernig sú athugun var gerð veit ég ekki með vissu, en hefur þó eitthvað með finnska bændur að gera.
    Hvort snúningur Gunnars Braga tengist þessari bændaskoðun veit ég ekki, en sé Þórólfur Gíslason kaupfélagsstjóri KS andvígur aðild, getur það ráðið afstöðu GB. Er ekki kunnug innanhúss hjá Framsókn

    SvaraEyða
  8. Bændasamtökin hafa skoðað stuðning ESB við harðbýl svæði (byrjun færslu minnar hér að framan átti að vera svona)

    SvaraEyða
  9. Sæll Friðrik.
    Sé að þú hefur engu gleymt þó þú sért í Afganistan. Ertu þar ekki annars?

    Ég verð að viðurkenna að ég gengdi ákveðnu hlutverki þegar ályktun flokksþings var samþykkt. Ástæðan var sú að ég hélt að flokkurinn væri að klofna. Ég hafði rangt fyrir mér og áttaði mig á því á flokksþinginu. Eins og þú veist þá flutti ég tillögu um "skilyrði" fyrir viðræðum. Sú tillaga var samþykkt. Í ræðu þá túlkaði ég hvað það þýddi og ef upptaka af fundinum er skoðuð sést að enginn andmælti þeirri túlkun að þetta væru skilyri fyrir viðræðum.

    Það er rétt að ég sagði í kosningabaráttunni að ályktun okkar þýddi að "að kíkja í pakkann". Ég sagði aldrei að það væri "mikilvægt" eins og þú orðar það, hvað þá að "ég vildi sjá hvað væri í pakkanum". Ég sagði að við yrðum að fylgja samþykkt flokksþingsins. Mér þykir leitt að þú skulir ekki segja rétt frá.

    Þegar í þingið var komið var allt önnur ályktun samþykkt. Í þeirri ályktun eru viðræðurnar EKKI skilyrtar eins og túlkun flokksþingsins var. Sumir hafa hins vegar ákveðið að túlka þetta með öðrum hætti og hvet ég til að upptakan af þinginu sé skoðuð.

    Þú veist og hefur alltaf vitað mína skoðun og ég vona að þú virðir hana eins og ég virði þína. Skrif þín um "umpólun" eru þvi ekki heiðarleg.

    Friðrik. Einhver Hallur skrifar þarna líka. Er ekki rétt að benda honum á að birta einnig skilyrðin.

    Annars vona ég að þú hafir það gott ytra en hvet þig til að skýra heiðarlega frá okkar góða ferðalagi um kjördæmið.

    Bestu Kveðjur
    Gunnar Bragi.

    SvaraEyða
  10. Gunnar Bragi þarf greinilega að setja upp lestrargleraugun. Hér að ofan setti ég einmitt hlekk inn á ályktun Framsóknarmanna um Evrópumálin í heild sinni.

    En það er stundum bara þannig að menn vilja bara sjá það sem þeir vilja sjá.

    Það er merkilegur kattarþvottur þeirra þingmanna Framsóknar sem vilja hætta við samningaviðræður við ESB - og skýla sér á bak við þingsályktunartillögur Vigdísar Haukdsdóttir um ESB viðræður - sem ekki var samþykkt í fyrrasumar. Segja svo nú að þeir eigi ekki að taka mið af ályktun flokksþings.

    Ég er ekki að segja að Gunnar Bragi sé í þeim hópi - vænti þess að hann sé nú það skynsamur að styðja samningaviðræður við ESB til þess að ná þar sem allra bestri niðurstöðu. Ef sú niðurstaða er ekki ásættanleg - þá verður hún náttúrlega felld í þjóðaratkvæðagreiðslu!

    Sé að Gunnar Bragi var hræddur um klofning í Framsókn vegna Evrópumál. Það er ekki útséð um slíkt - ef einhverjir þingmenn Framsóknar ætla að beita sér gegn því markmiði að ná sem allra bestu niðurstöðu í samningsviðræðunum - jafnvel að stöðva þær eins og sumum kommúnistum hefur dottið í hug.

    Skilyrði þingsályktunar flokksþings Framsóknarflokksins eru klár. Ef þau nást ekki í aðildarsamningi - þá getur Gunnar Bragi og Vigdís sagt nei með góðri samvisku.

    En að segja nei núna - þáð geta þau ekki gert með góðri samvisku gagnvart flokksþingi Framsóknar.

    SvaraEyða

Ath: Aðeins meðlimir bloggsins geta birt ummæli.