miðvikudagur, 11. ágúst 2010

Ísland styður "hervæðingu" ESB

Seint í vor varð einhver hasar vegna auglýsingar frá ungum bændum undir yfirskriftinni "Við viljum ekki senda afkomendur okkar í Evrópusambandsherinn!"

Auglýsing þessi var kostuleg fyrir margra hluta sakir, en fyrst og fremst fyrir þá sök að gefa í skyn að við Evrópusambandsaðild Íslands yrði herkvaðning íslenskra ungmenna í Evrópuherinn óumflýjanleg.

Ekkert er fjær sanni, enda er og verður "Evrópuherinn" byggður upp á valkvæðum framlögum aðildarríkjanna.

Þetta upphlaup ungbænda hefði hins vegar mátt kalla fram alvörugefnari umræðu um íslensk öryggis- og varnarmál, óháð aðildarumsókn Íslands að ESB. Það vill nefnilega oft gleymast að Ísland hefur undirgengist ýmsar skyldur í þeim efnum.

"Evrópuhers"-umræðan hefði t.d. notið góðs af því ef einhverjir af þeim sem kusu að taka til máls, t.d. Björn Bjarnason, fyrrum ráðherra, í pistli sínum "Tímabær auglýsing ungra bænda um Evrópusambandsher" eða Einar Benediktsson, fyrrum fastafulltrúi Íslands hjá NATO, í grein sinni "Umræða um öryggismál og Evrópusambandsher", hefðu vakið máls á þeirri staðreynd að Ísland hefur með beinum hætti stutt metnað Evrópusambandsríkjanna til þess að efla hernaðargetu sína.

Stærsta hluta tíunda áratug síðustu aldar var um það rætt á vettvangi ESB og NATO hvort og með hvaða hætti ESB gæti eflt getu sína á sviði öryggis- og varnarmála. (Evrópuríkin höfðu frá því skömmu eftir síðari heimstyrjöld stofnað með sér eigið varnarbandalag, Vestur-Evrópusambandið, sem enn er til að formi, en hefur í reynd runnið inn í ESB. Ísland á einskonar aukaaðild að þessu samstarfi.) Ákveðinnar tortryggni gætti gagnvart þessum metnaði innan ESB m.a. vegna þáverandi stöðu Frakklands utan hefðbundins varnarsamstarfs innan NATO. Reynt hafði verið að ná málamiðlunum um þetta efni, m.a. á leiðtogafundi bandalagsins í Berlín 1996.

Á leiðtogafundi NATO í Washington í apríl 1999, var hins vegar samþykkt að stofnanirnar myndu vinna saman að því markmiði að efla eigin getu ESB. Kjarni samþykktarinnar er að finna í níundu og tíundu grein yfirlýsingar fundarins, en þar segir m.a.:

  • We acknowledge the resolve of the European Union to have the capacity for autonomous action so that it can take decisions and approve military action where the Alliance as a whole is not engaged;
  • As this process goes forward, NATO and the EU should ensure the development of effective mutual consultation, co-operation and transparency, building on the mechanisms existing between NATO and the WEU;
  • We applaud the determination of both EU members and other European Allies to take the necessary steps to strengthen their defence capabilities, especially for new missions, avoiding unnecessary duplication;
  • We attach the utmost importance to ensuring the fullest possible involvement of non-EU European Allies in EU-led crisis response operations, building on existing consultation arrangements within the WEU. We also note Canada's interest in participating in such operations under appropriate modalities.
  • We are determined that the decisions taken in Berlin in 1996, including the concept of using separable but not separate NATO assets and capabilities for WEU-led operations, should be further developed.

Markmið yfirlýsingar Washington-fundarins hafa jafnan verið áréttaðar á leiðtogafundum bandalagsins síðan (Prag 2002, Istanbúl 2004, Riga 2006, Búkarest 2008), nú síðast á Strassborg/Kehl fundinum sem fram fór í Apríl á síðasta ári. Þess má jafnframt geta að á utanríkisráðherrafundi NATO í Reykjavík 2002 var haldin sérstakur fundur bandalagsins og ESB um samstarf þeirra og samhæfingu og framfylgd Washington-yfirlýsingarinnar. Ekki er að efa að á þessum málum verður hnykkt á fyrirhuguðum leiðtogafundi bandalagsins í Lissabon í lok nóvember á þessu ári.

Þar má gera ráð fyrir að íslensk stjórnvöld muni, sem fyrr, styðja áframhaldandi "hervæðingu" Evrópusambandsins.

Ísland á jafnframt í dag aðgang að evrópsku öryggis- og varnarsamstarfi að því marki sem Ísland óskar. Ísland getur þannig í dag tekið þátt í öryggisverkefnum á vegum ESB. Við hugsanlega aðild að ESB yrði það sama uppi á teningnum og efnislega ekki mikil breyting á stöðu eða stefnu Íslands hvað varðar sérevrópskt öryggis- og varnarsamstarf, nema pólitísk ákvörðun verði tekin um annað.

8 ummæli:

  1. "...nema pólitísk ákvörðun verði tekin um annað."
    Já, svona pólitísk ákvörðun tekin í Brussel eftir að Ísland væri komið inn í ESB, meinarðu?
    Þá geta þessir 3-4 þingmennirnir okkar í Brussel hrópað "múkk múkk múkk" og athugað viðbrögðin.

    SvaraEyða
  2. Það stendur semsagt upp á Alþingi að koma því svo fyrir að pólitískar ákvarðanir af þessu tagi verði ekki teknar á fylleríi tveggja ráðherra, eins og var um þátttöku Íslands í Íraksstríðinu.

    Einhvern veginn finnst mér þó að engar reglur hafi verið settar enn né verði settar til að koma í veg fyrir slíkt í framtíðinni. Það er í samræmi við þjóðarmottóið: Við erum Íslendingar og við lærum ekki af reynslunni.

    Ómar Harðarson

    SvaraEyða
  3. Fokk it, förum bara í ESB. Þá þurfum við aldrei að setja reglur né læra af reynslunni. Komum í veg fyrir það um alla framtíð. Brilliant. ...nei bíddu, fokk, við lærum hvað við höfum misst en getum ekkert gert í því.

    Erfitt val, maður.

    SvaraEyða
  4. Það er búið að leggja niður Vestur Evrópubandalagið. Það var formlega langt niður þann 31. Mars 2010, en formlegri starfsemi þess líkur ekki fyrr en í Júlí 2011 (það er verið að ganga frá lausum endum osfrv). Sjá hérna, http://en.wikipedia.org/wiki/Western_European_Union

    SvaraEyða
  5. Þing Evrópusambandsins hefur birt ályktun þess efnis að stefna beri að nánari samstarfi herja aðildarríkjanna undir heitinu „Synchronised Armed Forces Europe“, með orwellsku skammstöfunina „SAFE“.

    Einnig kallar þingið eftir því að koma á fót sjálfstæðum höfuðstöðvum sem hafi það hlutverk að skipuleggja og stjórna hernaðaraðgerðum. Jafnframt er mælt með því að stofna sérstakt ráð varnarmálaráðherra aðildarríkja.

    Rétt áður en ályktunin birtist almenningi var greint frá henni í breska dagblaðinu The Telegraph og þar var vísað í ummæli nokkurra þingmanna sambandsins. Í máli þeirra kemur fram að með „SAFE“ séu lögð drög að stofnun raunverulegs Evrópuhers.

    Tekið af: http://this.is/nei/?p=3953


    Það er kannski einhver ónákvæmni í þessari umræðu, en er ekki samt líklegt að eftir nokkur ár eða áratug verði búið að stofna Evrópuherinn formlega? Eða er samrunaferlinu innan ESB kannski lokið hér með?

    Það mun reyndar ekki vera þörf fyrir neina herskyldu. Það ætti að vera auðvelt að nota áróðurstæknina til þess að plata mörg ungmennin til þess að ganga í Evrópuherinn, þegar hann verður stofnaður, þar með talin íslensk ungmenni.

    SvaraEyða
  6. Hin pólitíska ákvörðun hefur verið tekin fyrir löngu. Ísland hefur hingað til stutt Evrópusambandsríkin á þeirri vegferð sinni að efla eigin getu á sviði öryggis- og varnarmála. núverandi stjórnvöld hafa ekki séð ástæðu til að breyta um kúrs.

    "Evrópuher", rétt eins og aðrar fjölþjóðasveitir, mun alltaf verða samsettur úr einingum frá herjum aðildarríkjanna.

    Er eitthvað athugavert við það að íslensk ungemnni geti gengt herþjónustu í herjum. Þau geta og gera það í dag...

    SvaraEyða
  7. Íslendingar sem það kjósa eiga kost á að komast í herþjónustu víða. Ísland kemur aldrei til með að stofna her nema Björn Bjarnason fái einhverju ráðið. Hann er eini maðurinn sem ég hef heyrt ámálga slíkt. Herlaust ísland innan ESB mun því ekki geta lagt til hermenn hvað sem aðrar þjóðir sem hafa her munu gera.

    Auglýsing Ungra Bænda var greinilega gerð til að "koma við kauninn". Ungir Bændur hefðu alveg eins getað auglýst: Ég vil ekki að gyðingar og negrar komist til landsins og taki lifibrauðið af börnum mínum. Þeir hefðu líka getað auglýst: ESB á eftir að taka frá okkur auðlindir barna okkar um alla framtíð ( nema það sem við höfum þegar gefið Alcoa). og svo framvegis....

    SvaraEyða
  8. ESB er hönd dauðans !

    SvaraEyða

Ath: Aðeins meðlimir bloggsins geta birt ummæli.