laugardagur, 7. ágúst 2010

Til hvers að ráða ráðuneytisstjóra?

Í dag er birt auglýsing um lausa stöðu ráðuneytisstjóra í efnahags- og viðskiptaráðuneytinu.

Ráðuneytisstjórar eru eins og aðrir embættismenn skipaðir til fimm ára.

Efnahags- og viðskiptaráðuneytið er eitt af þeim ráðuneytum sem fyrirhugað er að renni inn í sameinað atvinnuvegaráðuneyti, jafnvel um næstu áramót.

Sem vekur upp spurninguna til hvers verið er að auglýsa þessa stöðu og skapa forsendur fyrir enn einn verðandi fyrrverandi embættismanninn með biðlaunarétt og þess háttar. Væri ekki nær að setja einhvern tímabundið í þetta embætti þar til framtíðarfyrirkomulag stjórnarráðsins er komið á hreint?

Eða kannski er þetta vísbending um það að engar breytingar eru á döfinni þrátt fyrir yfirlýsingar um annað.

2 ummæli:

  1. Ég fer með fleipur í þessum pistli. Efnahags- og viðskiptaráðuneytið verður ekki hluti af nýju atvinnuvegaráðuneyti þ.a. það á víst að vera komið í endanlegan búning.

    Þ.a.l. er óhætt að ráða ráðuneytisstjóra.

    Spurning um að skella inn umsókn?

    SvaraEyða
  2. Þessi auglýsing vekur jafnframt upp spurningar um raunverulegan vilja til þess að sameina ráðuneyti, því það skapar auðvitað færri tækifæri til að útvega vinum og kunningjum, jafnvel ættingjum, þægilega innivinnu.
    Varðandi síðustu setninguna þá eru liðin næstum tvö ár frá hruni og rúmt ár frá myndun nýrrar ríkisstjórnar. Tækifærin til að koma á breytingum hafa verið ærin en heldur minna um efndir.
    Mér er í fersku minni hvernig stjórnmálaflokkarnir skiptu á milli sín stólunum í nýju bankaráðunum haustið 2008 hvar enn situr fólk sem handvalið var af þeim sem frekastir voru í þingflokkunum. Þar var fyrsta raunverulega tækifærið til að sýna hvert menn ætluðu í raun og veru með hið svokallaða nýja Ísland en við valið réðu flokksskírteinin mestu. Þetta er ógeðslegt Friðrik og stjórnmálaflokkunum til skammar. Ég er farin að taka undir með þeim sem kyrja "Burt með fjórflokkinn". Þar hafa menn ekki burði til að taka upp ný vinnubrögð og hugsa hlutina upp á nýtt. Þar er enn öllu stjórnað á bak við tjöldin af þeim sem komu okkur á þann stað sem við nú skipum. Þar ræður ríkjum frekja og græðgi en ekki síður vanþekking og valdasýki. Gömlu hundarnir eru ekki lengur í þinginu en sitja með pólitíska brókarsótt á kantinum með strengina í hendi sér og brúðurnar dansa í leikhúsi fáránleikans við Austurvöll.

    SvaraEyða

Ath: Aðeins meðlimir bloggsins geta birt ummæli.