laugardagur, 18. september 2010

Allsber Umboðsmaður

Enn á ný birtir embætti Umboðsmanns Alþingis álit þar sem skammast er út í stjórnsýslu opinbers aðila og enn og aftur gerist nákvæmlega ekki neitt.

Hæstvirt landbúnaðarráðuneyti er að mati umboðsmanns lögbrjótur. Efni máls eru tvær umsóknir fyrirtækis um leyfi til innflutnings á lambakjöti og segir umboðsmaður um þá fyrri að hún hafi verið "ólögmæt" og um þá seinni að hún hafi "heldur ekki verið í samræmi við lög".

Augljóslega hið alvarlegasta mál, en hverjar er afleiðingar fyrir lögbrjótin?

Engar.

"Settur umboðsmaður beindi þeim tilmælum til sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið að það tæki mál A ehf. til endurskoðunar, kæmi fram beiðni þess efnis frá félaginu, og leysti þá úr málunum í samræmi við þau sjónarmið sem rakin væru í álitinu. Þá beindi hann þeim almennu tilmælum til ráðuneytisins að það leitaðist við að leysa framvegis úr sambærilegum málum í samræmi við þær forsendur og þau rök sem kæmu fram í álitinu."

Á mannamáli: ef þið í ráðuneytinu ákveðið að taka eitthvað mark á þessu áliti mínu, og þá bara ef sá sem kvartaði nennir að gera eitthvað í því, þá ekki gera þetta aftur svona.

Embætti umboðsmanns var sett á laggirnar 1997. Það hefur í sjálfu sér verið ágætt og bent á ýmislegt sem betur mætti fara. En það er hins vegar sá galli á gjöf Njarðar að embættið er algerlega tannlaust sem þýðir að opinberir aðilar hafa leynt og ljóst getað virt álit umboðsmanns að vettugi, þrátt fyrir fögur fyrirheit um annað.

Eflaust eru skýrustu dæmin í þeim efnum mannaráðningar á vegum hins opinbera, en Umboðsmaður dælt út gagnrýnum álitum sem hafa haft lítil önnur áhrif en þau að gera opinbera aðila betur hæfa til þess að fela glæpinn.

Enda eru úrræði umboðsmanns samkvæmt lögum um embættið algerlega tannlaus:

Hafi umboðsmaður tekið mál til nánari athugunar er honum heimilt að ljúka því með eftirfarandi hætti:
a.Hann getur látið mál niður falla að fenginni leiðréttingu eða skýringu stjórnvalds.
b.Hann getur látið í ljós álit sitt á því hvort athöfn stjórnvalds brjóti í bága við lög eða hvort annars hafi verið brotið gegn vönduðum stjórnsýsluháttum. Sæti athafnir stjórnvalds aðfinnslum eða gagnrýni umboðsmanns getur hann jafnframt beint tilmælum til stjórnvalds um úrbætur.
c.Varði kvörtun réttarágreining sem á undir dómstóla og eðlilegt er að þeir leysi úr getur umboðsmaður lokið máli með ábendingu um það.
d.Umboðsmaður getur lagt til við dómsmálaráðherra að veitt verði gjafsókn í máli sem heyrir undir starfssvið umboðsmanns og hann telur rétt að lagt verði fyrir dómstóla til úrlausnar. 
e.Telji umboðsmaður að um sé að ræða brot í starfi er varði viðurlögum samkvæmt lögum getur hann gert viðeigandi yfirvöldum viðvart.

Á mannamáli: gert ekkert, fussað og sveiað, klagað í mömmu, sagt mömmu sinni að hringja í mömmu þína eða klagað í skólastjórann!

Í þessu máli er eitt stykki ráðuneyti talið vera tvöfaldur lögbrjótur en það hefur nákvamlega engar afleiðingar. Engin áminning á embættismenn, engin Landsdómur á viðkomandi ráðherra, engar sektir, en aðallega, engar bætur til brotaþola.

Umboðsmaður er allsber, rétt eins og keisarinn forðum daga.

Í þeim umbótum sem hér þurfa að eiga sér stað í kjölfar hrunsins væri kannski ráð að versla á þetta embætti einhver klæði og setja upp í það beittari tennur.

(Sá er þetta ritar hefur eytt tíma, fé og fyrirhöfn í kvörtun til embættis Umboðsmanns Alþingis.)

4 ummæli:

 1. Algjörlega sammála þér - hef líka reynt að fá úr máli skorið hjá umboðsmanninum - vel tekið á móti manni, hlustað og brosað og svo gerist ekkert. Hann er stuðpúði yfirvalda. Fólk fær útrás hjá honum en ekki leiðréttingu sinna mála.

  Hann ályktar síðan um athafnir yfirvalda eins og þú nefnir og þar við situr. EKKERT gert - EKKERT

  SvaraEyða
 2. Lögin eru aðeins til viðmiðunar hjá yfirstéttinni.

  SvaraEyða
 3. Bendi þér/ykkur á að í árskýrslum umboðsmanns er ávallt kafli þar sem skoðað er hver afdrif mála hafi verið. Þ.e. hvort stjórnvöld hafi brugðist við álitum umboðsmanns. Þessar athuganir sína að stjórnvöld fylgja niðurstöðum umboðsmanns í um 90% tilfella.

  En svona er umræðan á Íslandi. Menn fullyrða bara eitthvað út í bláinn og blammera fólk sem er að standa sig vel. Og að sjálfsögðu munt þú ekki biðjast afsökunar á þessum pistli þótt við blasi að þú hafir rangt fyrir þér.

  SvaraEyða
 4. Nafnlaus 19:04: Vissulega hefur starf umboðsmanns leitt til ákveðinna bóta hjá stjórnarráðinu og opinberum stofnunum. Það breytir því ekki að afleiðingar brota eru littlar sem engar, sérstaklega þegar um er að ræða mjög einbeittan brotavilja eins og í tilfellinu sem vísað er til hér að ofan og er umfjöllun nýjasta álits umboðsmanns. Brotavilji ráðuneytisins var mjög einbeittur - það átti að koma í veg fyrir innflutning lambakjöts hvað sem það kostaði. Hugsanleg kvörtun til umboðsmann var engin fæling í þeim efnum.
  Svo er það varðandi fylgni við niðurstöðu umboðsmanns. Umboðsmaður byggir þær tölur væntanlega á svörum viðkomandi ráðuneyta og stofnanna þar sem lofað er bót og betrun en raunveruleikin er sá að það er oft meira í orði en á borði. Aftur eru ráðningamál hjá hinu opinbera besta dæmið, en þar er haldið áfram óhindrað að ráða eftir þeim kríteríum sem henta hverju sinni til að tryggja að "réttur" einstaklingur sé ráðinn.

  SvaraEyða

Ath: Aðeins meðlimir bloggsins geta birt ummæli.