föstudagur, 29. október 2010

Allt í plati

Að öllu jöfnu ættu það að vera ánægjuleg tíðindi að verðbólga á Íslandi sé komin niður í 3,3%. Hér er þó líkast til skammgóður vermir sem byggir á falsundirstöðum gjaldeyrishafta og samdráttar.

Seðlabanki Íslands leikur augljóslega stærsta hlutverkið í verðbólgustýringunni með gjaldeyrishöftunum. Ísland er algerlega háð innflutningi með öll aðföng, hvort sem þau eru innlend eða erlend. Hvorki íslenskur landbúnaður né sjávarútvegur komast af á hreinum innlendum aðföngum til sinnar framleiðslu.

Undanfarna mánuði hefur Evran, sem er ríkjandi gjaldmiðill í alþjóðaviðskiptum Íslands, verið þokkalega stöðug og rjátlað í meðalgengi í kringum 155 – 156 krónur. Ekki er annað að sjá á hreyfingu gjaldmiðla að þetta sé viðmiðunarstaðall Seðlabankans fyrir inngripum á gjaldeyrismarkaði. Hafið einnig í huga að markaðsviðskipti með gjaldeyri eru svo reglusett vegna gjaldeyrishaftanna að Seðlabankinn þarf væntanlega ekki mikið að grípa til beinna aðgerða til þess að hafa áhrif á "markaðs"-gengi krónunnar. Aðilar á markaði þurfa nefnilega að hlýta fyrirmælum og leiðbeiningum bankans að öllu leiti, annars er von á sektum og jafnvel tukthúsvist!

Þetta þýðir að núverandi gengi krónunnar er plat. Þetta þýðir líka að núverandi verðbólgutölur eru plat.

Hvað á að plata okkur lengi og hverjar verða langtímaafleiðingarnar?

Allt er þetta hluti af því leikriti að reyna að viðhalda sýndartrúverðugleika gjaldmiðilsins, okkar "ástkæru" krónu.

Hún er fársjúk og er haldið á lífi í öndunarvél gjaldeyrishaftanna. En einhverntíma verður að slökkva á þeirri öndunarvél.

Hvað gerist þá? Eru einhverjar líkur á kraftaverki og sjúklingnum takist að halda lífi einn og óstuddur?

Í miðri umræðunni um stöðu trúarinnar á vettvangi hins opinbera og innan skólastarfs er athyglisvert að framtíðarefnahagsstefna landins, eftir gjaldeyrishöft, virðist einkum byggja á mætti bænarinnar...!

1 ummæli:

  1. Er þetta ekki bara undirbúningur fyrir upptöku annars gjaldmiðils, þ.e. aðlögun að fastgengisstefnu sem undanfara að gjaldmiðilsbreytingu.

    SvaraEyða

Ath: Aðeins meðlimir bloggsins geta birt ummæli.