fimmtudagur, 30. desember 2010

Plásturinn af...

Það streyma fram tíðindin í efnahags- og peningamálum nú í lok ársins. Seðlabankinn birti skýrslu um peningastefnu eftir höft skömmu fyrir jól og strax eftir jól birti efnahags- og viðskiptaráðherra grein með vangaveltum um framtíðarfyrirkomulag peningamála.

Helgarblaðið Fréttatíminn birtir svo í dag ágæta umfjöllun um fyrrnefnda skýrslu, grein ráðherrans og stutt viðtöl við pólitíska fulltrúa annarra stjórnmálaflokka.

Eins og við er að búast greinir menn á um leiðir, en í grein efnahags- og viðskiptaráðherra er kallað eftir víðtæku samráði um framtíðar peningastefnu. Seðlabankinn virðist helst mæla með að stefnt verði að upptöku evru með aðild að ESB, en hugsanlegur næst-skársti kostur sé einhverskonar fastgengisstefna gagnvart evrunni.

En allt er þetta víst erfitt, flókið og ekki til neinar patentlausnir.

Sem er er ekki alls kostar rétt.

Málið er að þetta þarf ekki að vera sérstaklega flókið og víst eru til patentlausnir. Vandinn er kannski einna helst sá að menn neita annars vegar að horfast í augu við ákveðnar staðreyndir og hins vegar að líta til þeirra fordæma sem finna má í ekki allt of fjarlægri fortíð m.a. frá einhverju best heppnaða hagkerfi veraldar.

Má ég reyndar til með að skjóta hér að gagnrýni á hagfræðikennslu hér á landi sem virðist einblína á töflureiknishagfræði, en kennir ekki hagsögu að neinu marki, nema að því er virðist lítin kúrs um sögu hagkenninga.

Flestir virðast sammála um það að okkar núverandi gjaldmiðill, íslenska krónan, sé meira og minna ónýt. Samt er hummað og ha-að yfir því að gera það sem nauðsynlegt er, og veita henni náðarhöggið. Í skjóli gjaldeyrishafta og verðtryggingar er lífi haldið í gjaldmiðlinum í þeirri veiku von, sem er vissulega mjög íslensk, að "þetta reddist".

Peningamagn úr böndunum

Mikið hefur gert úr því að eitt af því sem veldur erfiðleikum varðandi hugsanlegt afnám gjaldeyrishafta er hvernig erlendir eigendur íslenskra peningabréfa bregðist við. Munu þeir allir ryðjast á brott og skipta sínum íslensku peningaeignum í erlendan gjaldeyri eins fljótt og auðið er? Svarið við þeirri spurningu er einfalt já, og þar sem talið er að þær eignir hlaupi á hundruðum milljarða (líklega kringum 400 rekur mig minni til) er nokkuð ljóst að gengið getur ekki annað en hrunið þar sem m.v. núverandi gengi myndi gjaldeyrisforðinn nokkurn veginn klárast að óbreyttu eingöngu við að hleypa útlendingunum á brott.

Stærra mál sem menn hafa algerlega leitt hjá sér er krónueign innlendra aðila. Af hverju ætti nokkur íslendingur að vilja halda í peningabréfaeign í íslenskum krónum við afnám hafta? Þrýstingurinn við afnám gjaldeyrishafta verður þ.a.l. engir 400 milljarðar, heldur eflaust nær 1000 ef ekki meira.

Í þessu samhengi er gott að líta til þess hverjar krónuskuldbindingarnar í íslenska hagkerfinu eru og hvernig þær hafa vaxið. Peningamagn í umferð hefur margfaldast á undanförnum áratug, og það sem athyglisverðast er, er að það hefur áfram aukist eftir hrun.

Í lok árs 2001 var M3 peningamagn (samtala M2 (peningamagn og almenns sparifjár) og bundinna innlána) tæpir 343 milljarðar króna. M4 peningamagn (peningamagn og sparifé (M3) að viðbættri innlendri verðbréfaútgáfu) 392,6 milljarðar. Í lok árs 2007 voru gildin fyrir sömu mælingar peningamagns orðnar 1.230 milljarðar fyrir M3 og tæpir 1.637 milljarðar fyrir M4. Eftir hrun, í lok árs 2009 var staðan þannig að M3 stóð í 1.606 milljörðum. M4 var í lok árs 2008 komið í um 1.943 milljarða, en mér sýnist að sú tala hafi lækkað í um 1.626 milljarða undir lok árs 2009 sem endurspeglar væntanlega afskrift innlendrar verðbréfaeignar í kjölfar hrunsins.

Heildar innlendar skuldir íslensks banka- og peningakerfis hafa vaxið úr tæpum 500 milljörðum 2001 í næstum 3.500 milljarða undir lok nóvembers síðastliðinn. Heildar erlendar skuldir í íslenskum krónum talið hafa aukist úr 417,5 milljörðum 2001 í tæpa 433 milljarða í lok nóvember sl. eftir að hafa risið hæst skv. tölum Seðlabankans í rúma 10 þúsund milljarða 2008.

(Þeir sem vilja skoða gögn seðlabankans geta gert það hér í Ársskýrslu 2008, bls. 62, Árskýrsla 2009, bls. 84, og nýjustu upplýsingar um stöðu bankakerfisins í bankatöflum Seðlabankans.)

En í stuttu máli er staðan orðin þannig varðandi okkar ágæta gjaldmiðil að skuldbindingar honum tengdar eru komnar langt út fyrir öll velsæmismörk og það sem getur talið sjálfbært í okkar hagkerfi, sérstaklega í kjölfar hrunsins. Það er ekki hægt að skattleggja þjóðina út úr þessum vanda, það verður að gengisfella hana út úr þessum vanda.

Það gengisfall getur hins vegar ekki orðið með hefðbundnum hætti þar sem það myndi einfaldlega þýða hrun þjóðfélagsins, auk þess sem hið eilífa fjármálaheróinfix íslenska fjármálakerfisins, verðtryggingin, kemur í veg fyrir að slík leiðrétting gangi alla leið.

Þýska leiðin

Sú staða sem Ísland er í, er í sjálfu sér ekki einstök og hægt er að ná þjóðinni úr þessu öngstræti, en með mjög róttækum aðgerðum. Fyrsta skrefið á þeirri leið er að aflétta þeim hugsunarhætti að peningaleg eign njóti sérstakrar ofurverndar umfram aðrar eignir. Það verður að slíta þann streng. Vissulega gæti staðan verið ennþá verri, hefðu stjörnvöld haustið 2008 reynt að ábyrgjast erlendar skuldbindingar bankakerfisins, en sem betur fer var það ekki hægt. Vandinn er hins vegar sá að meira og minna var gengist í ríkisábyrgð fyrir öllum innlendum skuldbindingum banka- og peningakerfisins, langt umfram efnilegar innistæður. Það er sá vandi sem hangir yfir okkur í dag og reynt er að ýta á undan okkur með gjaldeyrishöftunum fyrst og fremst.

Þýskaland hefur í þrígang á síðustu öld staðið frammi fyrir þeim vanda að vera með ónýtan gjaldmiðil. Í öll þrjú skiptin var gripið til óvenjulegra og mjög róttækra aðgerða sem allar gengu upp efnahagslega. Fyrst gerðist það 1923-24 þegar Þýskaland náði sé út úr vítahring óðaverðbólgu með upptöku rentenmark og síðar reichsmark. Í annað sinn gerðist það 1948 með upptöku Deutsche Mark í stað Reichsmark, og í þriðja sinn gerðist það 1990 við sameiningu Þýskalands og útskiptinu austur-þýska marksins fyrir það vestur-þýska.

Gjaldmiðilsbreytingin 1923-24 var gert í reynd auðveldar fyrir þar sem allar peningalegar eignir í þáverandi þýskum gjaldmiðli höfðu þá þegar brunnið upp á verðbólgubálinu mikla.

Gjaldmiðilsbreytingin 1948 hins vegar varð hins vegar þess valdandi að auðlegð sem eingöngu byggðist á peningalegum eignum þurrkaðist nánast upp. Það hins vegar var það verð sem greiða þurfti fyrir efnahagslega endurreisn Þýsklands.

Kjarninn í gjaldmiðilsbreytingunni 1948 var hins vegar sú að í fyrsta lagi var ákveðið að taka upp nýja mynt, Deutsche Mark í stað Reichsmark. Í öðru lagi, og öllu mikilvægara, var sú ákvörðum að mismunandi gengi yrði á yfirfærslum fjárskuldbindinga úr gamla gjaldmiðlinum yfir í þann nýja. Laun t.d. fóru á genginu einn á móti einum, smærri peningaeignir á genginu tíu á móti einum, en stærstu fjárskuldbingar á genginu tíu á móti 0,65 (0,65 Deutsche Mark fengust s.s. fyrir hver 10 Reichsmark).

Samhliða þessari breytingu var jafnframt aflétt flestum viðskiptahindrunum, gjaldeyrishöftum og vöruskömmtunum. Og já, einnig voru skattar lækkaðir og skattkerfið einfaldað.

Afleiðingin var sú að þýskt efnahagskerfi hrökk í gang og framhaldið var líkast kraftaverki, enda æ síðar kallað wirschaftswunder, eða efnahagsundur. (Lesa má eilítið um þetta hér og hér.)

Sama grundvallarregla var síðan höfð til viðmiðunar við sameiningu Þýskalands, laun fóru á einu gengi, innistæður á öðru og stærri fjárskuldbindingar á því þriðja.

Lærdómur fyrir Ísland?

Af efnahagssögu Þýskalands á síðustu öld má því draga ýmsa lærdóma fyrir Ísland í þeirri stöðu sem landið er nú statt í. Fyrst og fremst þá að smáskammtalækningar duga skammt og draga einungis sársaukan á langinn. Núverandi stjórnvöld tóku vissulega við erfiðu búi, en ef ekki verður gripið til róttækra aðgerða má allt eins búast við núverandi stjórnar verði alveg eins minnst sem hrunstjórnar tvö, eða stjórnar hinna glötuðu tækifæra.

Hér mætti t.d. fara út í sambærilegar aðgerðir og í Þýskalandi með upptöku nýs gjaldmiðils og beitingu mismunandi gengis við yfirfærsluna. Laun, lágmarksinnistæður og almennt vöruverð færu á einu gengi, en allar stærri fjárskuldbindingar á öðru og mun lægra gengi. Öll ríkisskuldabréf, húsbréf o.s.frv. yrðu innkölluð og gefin út ný í nýjum gjaldmiðli. Og já, verðtrygging yrði afnumin í einum vettvangi. Í þessu fælist stórtæk niðurfærsla peningalegra eigna og –skulda.

Til þess að auðvelda og flýta þessari aðgerð væri t.d. hægt að taka upp nýjan íslenskan gjaldmiðil sem hefði nákvæmlega sama gengi og Evran og því lýst yfir að til a.m.k. næstu 5 ára yrði fylgt hreinni fastgengisstefnu. Samhliða yrði því lýst yfir að Evra væri gjaldgeng sem lögeyrir á Íslandi og þá mætti í reynd spara sér útgáfu á nýja íslenska gjaldmiðlinum í seðlum og myntum og eingöngu hafa hann sem rafrænan gjaldmiðil. Seðla- og myntþörf yrði einfaldlega mætt með því að nota evrur.

Róttæk aðgerð af þessu tagi yrði sambærileg við það að rífa plástur af sári. Það að viðhalda sáraumbúðum og bómullarinnpökkun krónubréfaeigenda er nokkuð sem við höfum ekki efni á, og langdregið afnám sáraumbúðanna mun einungis valda illbærum sársauka og tjóni.

15 ummæli:

 1. Það er ekki ónýtt að eiga besta pistil ársins þann 30 des. þetta er besti pistill sem ég las allt þetta ár. Glæsilegt.

  SvaraEyða
 2. Mjög upplýsandi pistill.

  Stjórn hinna glötuðu tækifæra virðist mér réttnefni.

  Ægilegt er að hafa ekki frambærilegt og sæmilega upplýst fólk við völd á þessum örlagatímum.

  Þakkir.
  KK

  SvaraEyða
 3. Mjög upplýsandi og merkilegt. Mun senda þetta víða. Takk fyrir mig.

  SvaraEyða
 4. Aki Armann Jonsson30. desember 2010 kl. 14:25

  Brilljant!!

  SvaraEyða
 5. Mjög athyglisvert. Það væri spennandi að sjá útfærslu á þessu fyrir Ísland nútímans, þar sem hægt væri að sjá áhrifin á ýmsa þjóðfélagshópa.

  Mestu erfiðleikarnir sem ég sé er að tryggja að sátt náist um svona eignatilfærslu. Íslendingar eru sennilega eilítið þrasgjarnari en Þjóðverjar, og á Íslandi er ekki sá sögulegi þrýstingur sem var fyrir hendi í Þýskalandi eftir stríð og við sameininguna. En slíkt er kannski bara fyrirsláttur, ef niðurstaðan væri sú að þjóðfélagið sem heild væri miklu betur statt eftir svona inngrip.

  Andri Haraldsson

  SvaraEyða
 6. Gallinn við svona stórskammtalækningar eru auðvitað lífeyrissjóðirnir.

  Lífeyrissjóðir ríkisstarfsmanna njóta bakábyrgðar ríkisins(og á þeim var 500 milljarða tryggingafræðilegur halli í árslok 2008) á meðan almennu lífeyrissjóðirnir njóta ekki slíkrar ábyrgðar.

  Ef farið yrði í svona aðgerðir myndi því annaðhvort skapast gríðarlegur munur á réttindum opinberra starfsmanna og starfsmanna á almennum markaði eða þá að nást yrði sátt um einhvers konar jöfnun réttinda og/eða gegnumstreymiskerfi fyrir þá sem væru komnir á aldur eða færu á eftirlaun fljótlega.

  Það myndi í það minnsta ekki ganga upp að henda lífeyrisþegum út á guð og gaddinn.

  (En þetta er náttúrulega enn eitt dæmið um hve miklu máli skiptir að dreifa áhættunni og fjárfesta að stærstum hluta erlendis, líkt og norski olíusjóðurinn gerir.
  Og einnig dæmi um að það þurfi tafarlaust að fara út í jöfnun lífeyrisréttinda opinberra og almennra starfsmanna.)

  SvaraEyða
 7. Mjög athyglisverður og áhugaverður pistill.

  Vandamálið með lífeyrissjóðina þarf að skoða. Hugsanlega má leysa það með því að ríkið gefi eftir þá milljarða sem það á í óinnheimtum sköttum af lífeyrissparnði (og Sjálfstæðismenn vilja ólmir innheimta strax). Að öðru leyti yrði farið með eignir lífeyrissjóðanna í innlendum fjárskuldbindingum eins og aðra stóra peningaeigendur.

  SvaraEyða
 8. Takk fyrir thetta, snillimann...

  ...kvedja E.Ben

  SvaraEyða
 9. Og hver borgar gjaldmiðlabreytinguna bæði í því sem hér er boðað og í þeirri þýsku ? Þeir sem eiga peninga hvort heldur þeir sem hafa sparað eða stærri fjárfestar.

  Hverjir fara best út úr breytingunni ? Þeir sem eiga fastar eignir og skulda hæfilega.

  Friðrik, þetta heitir víst eignaupptaka. Þú þarft ekkert að skipta um gjaldmiðil til þess !

  Kveðja,
  Björn Kristinsson

  SvaraEyða
 10. Þakkir til allra fyrir innlitið.

  Andri Haraldsson: Já, það er við því að búast að flókið geti verið að ná sátt um þetta. Að vísu er það svo að eflaust kæmu allir tiltölulega vel úr þessu nema þeir sem enn telja sig ríka í peningabréfaeignum.

  Andri Thorstensen: Er það ekki merkilegt að þeir sem eru erfiðastir við að eiga varðandi efnahagslega endurreisn landsins séu lífeyrissjóðirnir? En það má koma með ýmsum hætti til móts við hið almenna lífeyrissjóðskerfi í svona breytingum. Ein er einfaldlega að bæta þeim það upp í þeirri nýju fjármunamyndum sem verður eftir breytingu með einum eða öðrum hætti. Til dæmis með beinum fjárframlögum. Þá væri lífeyriskerfi okkar orðið meira blandað en nú er, þ.e. að hluta til gegnumstreymiskerfi, sem stefnir í að það verði hvort eð er m.v. tryggingafræðilega stöðu þess. Ekki væri verra að nota tækifærið til þess að fækka lífeyrissjóðunum all verulega og draga úr yfirbyggingu þeirra.

  Ómar: Sjá hér fyrir ofan og á eftir.

  Björn: Við borgum sjálf fyrir þessa gjaldmiðilsbreytingu. Þetta snýst um m.a. að skrúfa niður núverandi peningamagn í eitthvað sem er raunveruleg endurspeglun af virði hagkerfisins. Það er lauk rétt hjá þér að þeir sem munu fara einna best úr svona breytingu verða þeir sem eiga fastar eignir, og reyndar allir skuldarar.

  Og vissulega er þetta eignaupptaka. Þetta er hins vegar "eignaupptaka" á eignum sem hafa ekki raunverulegt virði. Punktur minn er einmitt sá að m.v. peningamagn í umferð er augljóst að við afléttingu gjaldeyrishafta mun gjaldmiðilinn hrynja. Leiða má líkur að því að ef höftin yrðu afnumin í einum vettvangi án aðgerðar sem ég legg hér til myndi gengið falla að sjálfu sér um a.m.k. helming. Evran færi í yfir 300 krónur, ef ekki fimm hundruð eða meira. Þegar gjaldmiðill byrjar að hrynja er ómögulegt að segja hvar það stoppar. Verðmiðinn á peningaeignum í dag í íslenskum krónum er falskur.

  Það er líka rétt hjá þér að ná má svipaðri niðurstöðu án gjaldmiðilsskipta, en það yrði ekki jafn efnahagslega "hreinlegt" og með gjaldmiðilsskiptum. Það má t.d. gera það með mjög róttækum eignasköttum!

  Annars þakka ég góð viðbrögð.

  SvaraEyða
 11. allsendis athyglisvert og gott búst inn í nýja árið. vona að Joð lesi þetta.

  SvaraEyða
 12. Sæll Friðrik,

  góð grein.

  Hjalmar Schact stjórnaði þessu fyrir Þjóðverja á þessum tíma.
  Stabilization of the Mark 1927
  The magic of money 1967,

  og önnur mjög góð
  The lost science of money, Stephen Zarlenga 2002

  Gleðilegt ár.
  Gunnar Skúli Ármannsson

  SvaraEyða
 13. Athyglisverð grein.

  Það má auðvitað ekki gleyma því að staða Þjóðverja eftir, sérstaklega seinna stríð, var allt önnur en hún er hjá okkur. Þannig hafði fjöldi fólks misst allt sitt á tilviljanakenndan hátt, t.d. fasteignir vegna loftárása, innlimunar landsvæða í Pólland, o.s.frv. og aðrir grætt á stríðsbraski. Sumar fjölskyldur höfðu fært miklar blóðfórnir í stríðinu, en aðrar sloppið betur. Þess vegna var í raun ákaflega "réttlátt" að gefa upp á nýtt.

  Á Íslandi er staðan ekki svo klippt og skorin. Sumir hafa lifað um efni fram, búa í of dýru húsnæði, hafa haft of dýran lífstíl og geta nú ekki staðið svo glatt undir skuldunum, á meðan aðrir hafa ekki safnað skuldum, heldur safnað fyrir erfiðari tíma. Þarna er engin tilviljun að verki. Að gefa eignalega upp á nýtt, er því engan veginn eins sanngjarnt og í Þýskalandi eftir- eða millistríðsáranna. Vissulega eru þó til staðar "stríðsbraskarar"=tryggingarlausir kúlulánsþegar, sem eru vellauðugir í dag, en það hlýtur að vera hægt að ná þeim peningum til baka án þess að eyðileggja sparnað þeirra sem hafa unnið sér inn varasjóð í "sveita síns andlits".

  Önnur hætta er líka sú að menn komu peningunum í fasteignir og önnur verðmæti (t.d. hrávörur svo sem gull) og þá yrði niðurfellingin aftur tilviljunarkennd eftir því hve séðir menn voru að koma eingum undan. Þ.e. "braskararnir" slyppu líklega betur gamlar frænkur. Nema auðvitað að leyfilegar eignir væru t.d. 50 millj. á einstakling og 25 millj. á barn sem færu yfir á nokkuð "sléttu" gengi.

  Svo má t.d. spyrja, hvaða raunverulegt gagn er af því að eiga t.d. milljarð, því að venjulegum manni endist ekki ævin til að eyða honum, nema með líferni sem er viðkomandi líklega óhollt.

  SvaraEyða
 14. Sumarliði Einar Daðason14. janúar 2011 kl. 21:37

  Góð grein. Er samt ekki nóg að festa núverandi krónu við evru í stað þess að búa til nýjan gjaldmiðil?

  SvaraEyða
 15. Saell Fridrik,
  afar gód og vel ígrundud umfjöllun um krónuna og vandasama stödu íslensks efnahags.
  Thad er í thessu samhengi fródlegt ad fara inn á heimasídu Frankfurter Allegemeine Zeitung "www.faz.de" og slá upp gengi ISK í gjalderisreikni "Währungen" bladsins. Hlutfallid er 1 € : 292 ( ! ) ISK
  Thessari gengis-skráningu - sem er vitaskuld í órafjarlaegd frá heima-tilbúnu "Potemkin"-gengi Sedlabankans ( € 1 = ISK 161 ) - hefur ekki verid breytt í a.m.k. tvö ár.
  Thetta sýnir svo ekki verdur um villst, ad evrópskur fjármálaheimur - bankar og stofnanir - taka nákvaemlega ekkert mark á thví sem Sedlabank Íslands ákvedur. Í augum Evrópubúa er Már Gudmundsson og Sedlabankagengid ekki marktaekt. Audvitad stendur öllum hér í DE hjartanlega á sama um kolranga opinbera gengis-skráningu ISK enda Ísland ekki lengur talid til hins sidmenntada ( fjármála-) heims.
  Hitt er svo annad mál, ad mér er thad hulin rádgáta, hvernig thjódin aetlar ad ráda fram úr thessum ógöngum nema med hrikalegum skelli, sem hlýtur ad koma fyrr en seinna.

  SvaraEyða

Ath: Aðeins meðlimir bloggsins geta birt ummæli.