föstudagur, 17. desember 2010

Friðarflan

Það er jafnan erfitt að eiga í vitrænum umræðum á Íslandi um öryggis- og varnarmál. Tilhneigingin er svo rík hjá mörgum að detta í kúmbæja-ruglið um hina friðelskandi og herlausu þjóð.

Eins og íslendingar séu með eitthvað ríkari friðarþrá en aðrir.

Hins vegar er þetta bábilja sem alið hefur verið á árum og áratugum saman. Ágætis mýta sem á ákveðnar rætur í þeirri niðurlægingu sem landið varð fyrir þegar það var afvopnað af erlendum konungi. Reyndar einkum til að bjarga þjóðinni frá sjálfstortímingu, enda hafði fram að þeirri afvopnun allt logað hér í ættbálkastyrjöldum.

Í kjölfar þeirrar ógnar viðburða sem urðu í fyrri heimstyrjöldinni, samhnýtt við nýfengið fullveldi og hlutleysisyfirlýsingar frændþjóða, að viðbættri þeirri staðreynd að sökum fámennis var vart hægt að stofna á Íslandi mikinn alvöruher, var búin til mýtan um hina herlausu og friðelskandi þjóð. Verður að segjast að það er líklega með betur heppnuðum innri ímyndar "herferðum" á Íslandi, því ótrúlega margir virðast ginnkeyptir fyrir henni.

Mýta þessi hefði náttúrulega átt að líða undir lok strax í maí 1940 þegar landið var hernumið af bretum. Enn frekar ári síðar þegar að herverndarsamningurinn var gerður við Bandaríkin.

En í hana var haldið. Meira að segja vildi hin "friðelskandi" þjóð ekki verða stofnaðili af Sameinuðu þjóðunum þar sem í því hefði falist að bein pólitísk afstaða hefði verið tekin með bandamönnum gegn möndulveldunum.

Ísland gerði s.s. í alþjóðapólitísku samhengi engan greinarmun á nasistum og bandamönnum. Já, það má vera stolltur af slíkri friðarást!

Sem betur fer rann þó af ráðamönnum ruglið og ekki var einungis gengið í Sameinuðu þjóðirnar heldur og gengið í varnarbandalag vestrænna þjóða, NATO, ásamt því að gerður var varnarsamningur við Bandaríkin. Lauk þar með í reynd herleysi Íslands. Her hefur nefnilega verið nokkurn veginn samfellt hér á landi frá 1940 til 2006 með fullri vitund og vilja íslenskra stjórnvalda. Frá 2006 hefur vera herliða í landinu verið stopulli, en hún er þó viðvarandi og í samræmi við alþjóðaskuldbindingar og óskir íslenskra stjórnvalda.

Í þessu samhengi er skemmtilegt að skoða tvær fréttatilkynningar frá því í gær. Önnur er frá borgarráði, samþykkt samhljóða, og er "áskorun á utanríkisráðuneytið og flugmálayfirvöld að beita sér fyrir því að umferð herflugvéla um Reykjavíkurflugvöll verði stöðvuð."

Hin er fréttatilkynning utanríkisráðuneytisins um að lokið sé gerð "alþjóðasamnings um leit of björgun á norðurslóðum."

Hún er ósköp falleg hugsunin á bakvið áskorun borgarráðs, en hún er kjánaleg, og jafnvel beinlínis lífshættuleg.

Fyrir utan það að þó það herflug sem fer um Reykjavíkurflugvöll sé yfirleitt frekar sakleysislegt, þá er sumt af því okkur lífsnauðsynlegt. Borgarráð t.d. virðist ekki gera sér grein fyrir að allt flug þyrla af dönskum varðskipum er herflug. Dönsk varðskip eru nefnilega herskip og tilheyra danska flotanum. Í því hallæri á undanförnum árum sem Landhelgisgæsla Íslands hefur búið við í þyrlumálum eru ófá skiptin sem okkar dönsku vinir hafa hlaupið undir bagga. Það er vísast fyrir bí ef áskorun borgarráðs fær einhvern byr.

Og auðvitað ef borgin ætlar að vera samkvæm sjálfri sér, þá hýtur hún að banna ferðir herskipa um hafnir Reykjavíkur, þ.a. ekki verða þá varðskip okkar næstu granna velkomin meir. Hvað þá flotaheimsóknir NATO eða t.d. þýskra skólaskipa sem tilheyra flotanum þar í landi.

Ekki verður viðeigandi heldur að halda aftur ráðherrafundi NATO í Reykjavík, hvað þá ráðstefnur á þess vegum um Norðurslóðir.

Öryggis- og varnarsamtarf við Norðurlöndin og aðrar nágrannaþjóðir getur heldur ekki abbast upp á fröken Reykjavík.

Hvernig tengist þetta svo alþjóðasamningi um leit og björgun á norðurslóðum? Jú, eins og ætti þegar að vera orðið ljóst að þá verða framkvæmdaraðilar að slíkum samningi í miklum mæli einmitt frá hernaðarbatteríum aðildarríkja samningsins.

En það er kannski allt í lagi. Hin friðelskandi og herlausa þjóð vill væntanlega ekki láta bjarga sér af herjum. Hvorki úr sjávarnauð, frá nasistum, þjóðarmorðingjum eða hryðjuverkamönnum!

5 ummæli:

  1. Gott.

    Rétt.

    Takk.

    KK

    SvaraEyða
  2. það er allt annað björgunarstarfsemi og að sprengja fólk í loft upp, borgin hlýtur að líta á "her" sem sinnir björgunarstarfi sem björgunarsveit. Borgin ætti og ætlar pottþétt að leyfa slíkt, hins vegar ætlar hún eflaust ekki að leyfa her í morð og pyntingaferðum að eiga leið um.
    Annars er þetta ekkert endilega mýta um friðlausa og herlausa þjóð, mikill hluti almennings er friðelskandi. Reyndar gengum við í morðbandalagið NATO, það er skömm að því.

    SvaraEyða
  3. Hárrétt, og orð löngu í tíma töluð.

    Þar að auki veit ég ekki síðan hvenær það varð hlutverk sveitarfélaga að ákvarða utanríkisstefnu landa sinna.

    SvaraEyða
  4. " það er allt annað björgunarstarfsemi og að sprengja fólk í loft upp, borgin hlýtur að líta á "her" sem sinnir björgunarstarfi sem björgunarsveit. Borgin ætti og ætlar pottþétt að leyfa slíkt, hins vegar ætlar hún eflaust ekki að leyfa her í morð og pyntingaferðum að eiga leið um."

    Sömu þyrlur og hergögn sem eru notuð af erlendum herum (Dönum sem dæmi) við björgunaraðgerðir á Íslandi (þyrlurnar sem dæmi þegar okkar eru ekki til taks) eru líka notaðar við hernaðaraðgerðir og flokkast því undir herflugvélar enda eru þær reknar og notaðar af *trommusláttur* her. Það að ætlast til að endurskilgreina herþyrlur yfir í björgunarþyrlur þegar það hentar er ekkert nema hræsni.

    SvaraEyða

Ath: Aðeins meðlimir bloggsins geta birt ummæli.