sunnudagur, 2. janúar 2011

Sameinum sveitarfélög

Já, látum nú verða af því að sameina fleiri sveitarfélög. Þau eru ennþá allt of mörg og mörg þeirra ráða varla við þau verkefni sem þeim er að lögum ætlað að sinna.

Smákóngabransinn og pólitískt hugleysi hefur hins vegar alltaf komið í veg fyrir að sameiningar gangi nógu langt. Þetta virðast alltaf hálfgerð hænuskref. Helst þurfa að koma til einhverskonar mútur, eins og göng, virkjun eða ver til þess að ýta málum áfram.

Samkvæmt fyrirliggjandi upplýsingum frá sambandi íslenskra sveitarfélaga eru 76 sveitarfélög í landinu. Eitt sveitarfélag er með yfir 100 þúsund íbúa, fjögur með yfir 10 þúsund og önnur fjögur með yfir 5 þúsund. Hvorki meira né minna en 47 sveitarfélög eru með færri en 1000 íbúa.

Því þarf líklega að koma til sálarlaus aðferðafræði til þess að ýta málum áfram. Einföld stærðfræði með ef-þá skilyrðum.

Til dæmis svona:

Sveitarfélag þarf að vera a.m.k. 10 þúsund ferkílómetrar að stærð, eða hafa a.m.k. 20 þúsund íbúa.

Þó skal sveitarfélag aldrei hafa færri íbúa en 5 þúsund, jafnvel þó stærðarskilyrði sé fullnægt, auk þess sem sveitarfélag skal aldrei vera minna en 4 þúsund ferkílómetrar, jafnvel þó íbúafjöldaskilyrðum sé fullnægt.

Með svona "þvingunar" skilyrðum væri hægt að setja eilítið fútt í sameiningarmálin, og eflaust væri hægt að klára málið fyrir haustið.

Er þetta ekki verðugt verkefni fyrir nýja innanríkisráðherrann og ráðuneyti hans?

13 ummæli:

  1. Þú gleymir að útskýra fyrir okkur forsenduna fyrir þvingunartilburðunum og lýðræðishjöðnuninni sem þú aðhyllist… af hverju er svo brýnt að sameina sveitarfélög?

    SvaraEyða
  2. Spara pening? Draga úr yfirbyggingu, umsvifum og kostnaði við "hið opinbera"? Fækka opinberum starfsmönnum á sveitastjórnarstigi? Tryggja að sveitarfélög séu nægjanlega stórar stjórnsýslueiningar til þess að geta haldið uppi því þjónustustigi sem þeim er ætlað? Einföldun hins opinbera? Þetta eru nokkrar ástæður og án efa má telja til fleiri.

    Annars hef ég ekki mikla "passion" í málinu, en sýnist það einmitt oft stranda á því að flestum finnist fínt að sameina sveitarfélög, bara ekki endilega þeirra sveitarfélag!

    SvaraEyða
  3. Líklega viltu koma á eins konar fylkja/kantónu/kjordaema stjórnskipan? Inni lagaramman thyrftu ad koma skýr tilmaeli um samgonguframkvaemdir?

    kv. E.Ben

    SvaraEyða
  4. Hvernig gekk í síðustu hrynu sameininga sveitarfélaga hjá alþýðuflokknum þegar hann var í ríkisstjorn á árunum í kringum 1991?

    Þá voru t.d. Keflavík, Njarðvík og Hafnir sameinuð í eitt sveitarfélag eftir mikinn þrýsting þáverandi félagsmálaráðherra Jóhönnu Sigurðardóttur, sem sagði hagræðinguna og sparnaðinn augljósann. Gott ef hún lofaði ekki líka að þetta nýja sveitarfélag fengi einhverjar ívilnanir í formi "reynslusveitarfélags", sem var nú loðið og auðvitað svikið þegar á reyndi.

    Núna 15 árum eftir þessa sameiningu, þá er sveitarfélagið gjaldþrota, skuldirnar á hvern íbúa hafa margfaldast, og það á meðan nágrannasveitarfélögin sem fóru ekki út í sameiningar virðast standa traustum fótum.

    Sýnir þetta dæmi ekki að sameining sveitarfélaga er bara tálbeita jafnaðarmanna? Sýnir þetta ekki að með sameiningum þá minnkar ekki embættismannakerfi sveitarfélaganna, þvert á móti þá er eins og fjölgi þegar sveitarfélög eru sameinuð.

    Það á að fara varlega í þessar sameiningarhugmyndir. Ríkið á amk ekkert að vera að skipta sér að þeim, það á að einbeita sér að sínu, á víst nóg með það.

    SvaraEyða
  5. Samband íslenskra sveitarfélaga var búin að vinna gríðarmikla vinnu í þessum efnum og það átti að knýja fram lögskipaðar sameiningar árið 2014. Nú á þessum áramótum átti að tilkynna sveitarfelögunum hvernig sameiningarnar myndu líta út þannig að við hefðum rúm þrjú ár til þess að hefja ferlið.

    Þá kom Ögmundur Jónasson, nýr ráðherra, og sópaði þessu út af borðunum eins og ekkert væri. Spurði hvorki kóng né prest enda telur hann sig ígildi þeirra tveggja og meira til.

    Ég skrifaði grein í morgunblaðið út af þessu og mótmælti hástöfum, sama gerði Halldór Halldórsson en þetta fékk enga umræðu, einvaldurinn hafði fyrsta og síðasta orðið. Þetta ráðherraræði sem viðgengst á íslandi er gersamlega óþolandi. Hér var margra ára vinnu hent út um gluggann vegna þess að einn maður, Ögmundur, hafði aðrar hugmyndir. Ekkert samráð, bara yfirlýsing.

    Sameining sveitarfélaga er ekki bara nauðsyn hún er alger forsenda fyrir því að dreifðu byggðir landsins lognist ekki út og deyji.

    Þetta skrifa ég sem oddviti sjálfstæðisflokks í litlu sveitarfélagi á Snæfellsnesi, þar öskra tækifærin á okkur, þrjú sveitarfélög hlið við hlið með 1200, 900 og 1700 íbúa. Samanlagt eru þetta tæp 4000 manns. Meira að segja það er of lítil eining en hún er þó skömminni skárri er þrjár. Hlekkir hugarfars er því miður enn svo miklir að verði þetta ekki lögskipað þá verður sameining ekki að veruleika fyrr en eftir 1-2 áratugi. Það er alltof langur tími og við einfaldlega eigum ekki efni á þessu. Við getum þakkað Ögmundi persónulega fyrir því að tefja þetta í eitt kjörtímabil að minnsta kosti. Það var ógæfulegt framtak þess manns.

    SvaraEyða
  6. Þegar menn eru að tala um sparnað þá er það valid umræða en alls ekki það eina sem vinnst með stækkun sveitarfélaga. Tökum nokkur dæmi:
    Á snæfellsnesi eru 3 sveitarfélög auk sveitahrepps. Við höfum þrjá bæjarstjóra á launum, þrjá byggingarfulltrúa, þrjá skrifstofustjóra, þrjá...

    Vandamálið er ekki samt endilega þetta, vandamálið er að tekjuskipting ríkis og sveitarféla er kolröng. Á norðurlöndunum eru sveitarfélögin með 70% tekna, ríkið 30%. Á íslandi er ríkið með 70% en sveitarfélögin með 30%. Ein átæða þess er að sveitarfélögin eru alltof smá og ráða engan veginn við hlutverk sín. Hrepparígur og titlatog innan smærri sveitarfélaga hafa svo þess utan einungis skaðað þau sjálf.

    Annað sem vinnst með stækkun sveitarfélaga er faglegri vinnubrögð. Í litlum sveitarfélögum eru ákvarðanir nær alltaf teknar á persónulegum nótum, sveitarstjórnarmenn eru nátengdir nær öllum þeim sem þeir fjalla um. Hvernig á annað að vera í 500-2000 manna byggðum?

    Þessi litlu sveitarfélög hafa alls ekki náð að veita ríkinu neitt aðhald. Dæmi um það er grunnskólinn. Hann var færður til sveitarfélaganna með afskaplega takmörkuðu fjármagni. Síðan þá og hingað til sendir ríkið okkur endalaust tilskipanir um rekstur skólanna án þess að við höfum neitt um það að segja, borgum bara reikninginn.

    Þess utan er spurning hvort ekki þurfi að stofna samband íslenskra lítilla sveitarfélaga þar sem öll sveitarfélög á landinu utan Reykjavíkur, Hafnarfjarðar og Kópavogs væru. Hagsmunir okkar á Snæfellsnesi eru algerlega gerólíkir hagsmuna stór Reykjavíkur. Það mætti gera þegar búið er að fækka sveitarfélögum um rúmlega helming.

    SvaraEyða
  7. E.Ben. Ég vil aðallega veldi stór-Akraness sem mest...! ;-)

    Nafnlaus, ég skil ekki alveg þetta Alþýðuflokkssameiningarraus. Gjaldþrot Reykjanessbæjar hefur mest að gera með vanhæfa gamblera sem sveitastjórnarmenn, sem NB náðu nú einveldi í síðustu sveitarstjórnarkosningum. (Lýðræðið er stundum hárfínt í kaldhæðni sinni!) Sé ekki hvað sameiningin hafði með þetta að gera. Svo var það ekki sameining sem kom Kjalarneshreppi á kaldan klaka á sínum tíma, eða þá Álftanesi nú.

    Þórður, get ekki verið meira sammála þér. Flott innlegg og ég þarf að finna greinar þínar og Halldórs í mogganum.

    SvaraEyða
  8. Einu sveitarfélögin sem borgar sig hreinlega að sameina eru sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu.

    Þarf ekki annað en að benda á draugahverfin í þeim öllum til að sjá hvað samkeppnin þeirra á milli er að kosta okkur mikið.

    SvaraEyða
  9. Hér er greinin mín:

    Ráðherraræði og handónýt stjórnsýsla.

    Það er ekki öfundsvert hlutskipti sveitarstjórna allt í kringum landið að fá nýjan ráðherra sem á fyrstu dögum sínum í embætti snýr stefnu, sem búið er að vinna eftir, algerlega á haus þannig að ekki stendur steinn yfir steini. Sveitarstjórnir allt í kringum landið eru búnar að vera að undirbúa yfirtöku verkefna frá ríkinu í samræmi við yfirlýsingar fráfarandi ráðherra sveitarstjórnarmála í landinu. Öllum var ljóst að miklar sameiningar væru í farvatninu.

    Í sveitarfélagi mínu, Grundarfirði, var ekki vitað um hvers konar sameiningu yrði um að ræða en vitað var að minnsta mögulega sameiningin yrði allt Snæfellsnesið sameinað, jafnvel var talað um að sameina allt Vesturland í eitt sveitarfélag. Ákvörðun um þessa sameiningu átti að liggja fyrir í haust eða í vetur í síðasta lagi. Tugir ef ekki hundruð manna um allt land eru búin að vera að undirbúa þessar stóru breytingar sem búið var að boða. Samtök sveitarfélaga hafa verið stuðningsmenn og talsmenn þess að farið verði í þessar sameiningar.

    Þá bregður svo við að við fáum nýjan ráðherra, Ögmund Jónasson. Án samráðs við nokkurn mann lýsir hann því yfir að hann sé búinn að hætta við lögskipaðar sameiningar. Þetta kom fram á fundi samtaka sveitarfélaga á Vesturlandi á föstudaginn 11. sept, algerlega eins og þruma úr heiðskíru. Nú er sem sagt öll þessi vinna í uppnámi, væntanlega fram að næsta ráðherra. Guð einn veit hvað sá ráðherra mun hafa í hyggju, kannski að taka upp gömlu hreppana. Svona kúvendingar eru gersamlega óþolandi, svona samráðsleysi einnig. Það vita allir að auðvitað geta menn farið í sameiningar að eigin frumkvæði en reynslan hefur sýnt það að slíkt er of seinfarin leið og menn voru orðnir sammála um að slíkan tíma höfum við ekki.

    Ég gef mér að ráðherrann sé það nýr í embætti að hann hafi ekki haft tíma til að setja sig inn í öll mál er snúa að ráðuneyti hans, og þá sennilega hefur þetta mál ekki verið efst á lista ráðherrans að setja sig inn í, en þá er hægt að minna ráðherra á að enginn er svo skyni skroppinn að hann geti ekki þagað gáfulega. Að koma með svona yfirlýsingar er þvílík óvirðing við störf samtaka sveitarfélaga, störf sveitarstjórnarmanna og störf undirmanna hans í ráðuneytinu að það nær ekki nokkru tali. Stjórnsýsla sem þarf að sætta sig við að nýr ráðherra í sömu ríkisstjórn geti tekið slíkar ákvarðanir án samráðs við nokkurn mann er handónýt stjórnsýsla. Það er lágmarkskrafa að einhver stöðugleiki ríki um slíkar stórákvarðanir sem lögskipuð sameining sveitarfélaga er og alger krafa að um slíkt sé eitthvert samráð. Þetta eiga ekki að vera geðþóttaákvarðanir ráðherra á hverjum tíma.

    Ég óska nýjum ráðherra velfarnaðar í starfi en fyrstu skrefin virðast bæði afar illa stigin og illa ígrunduð.

    Höfundur er frkvstj. og er oddviti sjálfstæðismanna í Grundarfirði.

    SvaraEyða
  10. Þórður, hefur engin hreyfing orðið á málum síðan í september?

    SvaraEyða
  11. Sæll Friðrik.
    Verð aldrei sammála þér um að þvinguð sameining gegn vilja íbúa sé réttlætanleg.
    Hinsvegar er tekjuskipting ríkis og sveitarfélaga vandamál og verður það áfram á meðan að ríkið og ráðherra sveitarstjórnarmála hagar sér eins og yfirmaður sveitarstjórnarmanna. Réttast væri að ráðherra sveitarstjórnarmála væri valinn af samtökum sveitarfélaga eða hreinlega að leggja embættið niður.

    Vill hér benda á tvær greinar eftir mig sjálfan um þessi mál:

    http://www.bb.is/Pages/82?NewsID=124284

    http://siggi-hreins.blog.is/blog/siggi-hreins/entry/1022512/

    Að lokum vill ég benda sérstaklega á eftirfarandi skilgreiningu Vegagerðarinnar á samgöngusvæðum: „Í langtímaáætlun um vegagerð er miðað við að atvinnu- og skólasvæði verði tengd saman í samgöngusvæði eftir því sem unnt er. Samgöngusvæði tekur til svæðis umhverfis þjónustumiðstöð (þéttbýli), þar sem fjarlægðir eru ekki meiri en svo að sækja megi þjónustu til miðstöðvarinnar a.m.k. nokkrum sinnum í viku, og engir þeir þröskuldar á vegakerfinu eru fyrir hendi, sem hindra slíkt í verulegum mæli. Þjónusta við umferðina, svo sem vetrarþjónusta, á að taka mið af þessum svæðum, þannig að hún er mest innan svæða, en minni milli svæða.“ Slík skil svæða markast af fjallvegum, víðáttumiklu strjálbýli eða eyjasundum. Samgöngusvæði er almennt ekki stærra en svo, að fjarlægð innan þess að þjónustumiðstöð er ekki meiri en 70-100 km. Miðað hefur verið við, að innan atvinnu- og skólasvæðis sé hámarksfjarlægð frá miðstöð 40-50 km á snjóléttum svæðum og 20-30 km á snjóþungum svæðum. Fyrir þjónustusvæði hefur hámarksfjarlægð frá miðstöð verið metin 80-100 km á snjóléttum svæðum og 60- 70 km á snjóþungum svæðum.“ Vegagerðin (2000)

    Ég tel eðlilegt að sveitarfélög séu einhver hámarks og lágmarksstærð, metin í vegalengdum með hliðsjón af skilgreiningu Vegagerðarinnar.

    SvaraEyða
  12. Þegar Jóhanna kom á sameiningunum þarna í 1991 þá Sameinuðust sveitarfélög á utanverður Snæfellsnesi í Snæfellsbæ. naumlega. einn af stóru þáttunum sem vann með sameiningunni var að Jóhanna lofaði að Fróðárheiði yrði öll malbikuð þar sem hún yrði nefnilega tengivegur innan sveitarfélagsins svo þeir sem byggju sunnan megin gætu sótt þjónustu norður yfir heiðina.

    Enn hefur ekki verið klárað að malbika þennan veg. hvernig á fólk að geta haft nokkura trú á loforðum stjórnvalda ef gömlu loforðin eru ekki efnd?

    og til Þórðar:
    á meðan tekjur sveitarfélaga eru eins og þær eru, þá eru litlar sem engar líkur á því að þeir sem búa í betur stöddum sveitarfélögum vilji hlaupa undir bagga með þeim sem eru í verr stöddum sveitarfélögum, jafnvel þó að það myndi til lengri tíma bæta hag allra.

    síðan er ekkert vit í þessu endalausa tali um ferkílómetra og íbúa tölur. þá gætum við allt eins sameinaðr Egilsstaði og Ísafjörð. Sveitarfélög þurfa að vera með byggðarkjarna og vera eitt atvinnusvæði.

    aðalvandamálið er að tekjuskiptingin er röng.

    besta ráðið til að fá fólk til að samþykkja sameiningar er að leyfa hreppum að segja sig úr. það er opna á að hægt sé ganga úr sveitarfélagi. ef það er ekki nein leið út, þá velur fólk það frekar að segja nei og vera á móti heldur en að festa sig í einhverju sem það hefur ekki trú á.

    -Fannar frá Rifi.

    SvaraEyða

Ath: Aðeins meðlimir bloggsins geta birt ummæli.