miðvikudagur, 25. maí 2011

"Gæsagangur" Styrmis…

Jæja, eina ferðina enn þarf maður að búa við að „málsmetandi“ andstæðingur aðildar að ESB beiti ósmekklegu lýkingamáli. Nú er það Styrmir Gunnarsson í „leiðara“ á vef sínum.

Ég skal alveg taka smá „tangó“ við Styrmi…!

Í þessum „leiðara“ kvartar hann yfir því að stuðningsmenn aðildar að ESB nenni ekki að debatera við andstæðinga aðildar. Á því er ósköp einföld skýring: Ef „heimssýn“ þeirra Nei-félaga væri ekki svona rotin, vænissjúk og vitlaus, þá væri kannski eitthvað að debatera.

Í „leiðaranum“ nefnir Styrmir sem dæmi að stuðningsmenn aðildar vilji ekki ræða stöðu efnahagsmála á Grikklandi og það sem ESB sé að „gera“ landinu. Það er sjálfsagt að debatera það! Vandi grikkja er nefnilega fyrst og fremst sjálfskapaður. Það er rétt að Grikkland neyðist nú til að grípa til sársukafullra aðgerða. Hins vegar er ekki er rétt að kenna kröfum ESB, AGS og annarra lánadrottna Grikkja um því aðgerðirnar eru fyrst og fremst nauðsynlegar vegna þess að Grikkir hafa einir og óstuddir rekið hörmungar efnahagsstefnu í krafti eigin fullveldis þrátt fyrir aðild að ESB. Aðildin að ESB og sameiginlegu myntinni gerði þeim þó að öllum líkindum kleift að ganga lengra og gera sjálfum sér meiri skaða en þeir hefðu hugsanlega getað gert án aðildar.

Í „leiðaranum“ fjallar Styrmir einnig um ímyndaða ásælni ESB í Ísland vegna einhverrar stórveldahugmyndar um landið í Norðurslóðasamhengi. Fyrir utan hvað þessi fullyrðing er galin, í ljósi þess að þrjú alvöru heimskautalönd eru nú þegar í ESB og að „ávinningur“ Íslands af norðurslóðanánd sinni veltur m.a. á góðu aðgengi að Evrópumörkuðum (t.d. verður umskipunarhöfn á Íslandi mun verðmætara fyrirbæri ef hún getur þjónað bæði sem fríhöfn og sem fyrsta tollhöfn innan ESB), þá endurspeglast í „leiðaranum“ einhver furðuleg blanda stórmennskubrjálæðis og minnimáttakenndar. Annars vegar erum við svo littlir og aumir að við munum eiga okkur lítils innan 500 milljóna manna bandalags, en hins vegar erum við rísandi stórveldi á Norðurslóðum og þau tækifæri sem af því skapast eru meginástæðan fyrir áhuga Evrópusambandsins á aðild Íslands. Trúir Styrmir þessari fullyrðingu sjálfur, eða er þetta mesta dýptin sem hann og „foringinn” í Hádegismóum geta náð í dellurökunum?

Þetta er svo sett í samhengi við það að aðildarumsóknin að ESB sé einskonar "orusta um Ísland", sbr. þegar að flugher Hitlers bombarderuðu Bretland, og "skriðdrekar" ESB muni valta yfir land og þjóð í einhverskonar "Blitzkrieg". Vantaði bara að Styrmir uppnefndi viðræðuáætlunina "Schlieffen Plan" sem myndi fela í sér "endlösung" fyrir íslensku þjóðina.

Nei, það er kannski ekki að ástæðulausu að Já-liðar nenna ekki mikið að debatera við nei-liða. Skrif um "skriðdreka", "orustur" og "Blitzkrieg" er ekki það lága plan sem maður fer niður á. Svona gæsalapparugl er hvorki viðeigandi né vitlegt.

Þegar, og ef, nei-liðar koma sér af þessu lága plani verður kannski hægt að eiga við þá alvöru debat!

Fritz Von Blitz

4 ummæli:

  1. Það er kannski rétt hjá þér að Styrmir er svolítið "umsátraður" (svo maður gæsalappi sig) í sínu hugarfari -- en það er engin ástæða fyrir því að ESB sinnar gefist upp á að tala máli sínu. Engin þörf að ræða við Styrmi, sem slíkan, en þeim mun meiri ástæða að taka þeim rökum sem hann þó leggur fram og svara þeim skilmerkilega.

    Rökin að Ísland hefði engin áhrif í bandaríkjum Evrópu eru ekki sterk á neinum fleti. T.d., hefur Norður Dakóta miklu meiri styrk per íbúa í bandaríska þinginu en Kalifornía (í öldungardeildinni eru um 250.000 einstaklingar að baki hvorum þingmanninum fyrir ND, en 30.000.000 fyrir CA). Svo það er ekkert útseð um að það veikti Íslendinga að sitja að slíku borði. Alltént er betra að sitja við borðið en hírast við ruslatunnuna og bíða eftir leyfunum.

    Varðandi það að leggja öll egg í norðurslóðakörfuna, þá er slíkt fásinna. Það er ekkert sem tryggir að almennar siglingar hefjist um norðurslóðir -- og ef slíkt gerðist er ekki sjálfgefið að Ísland verði miðstöð slíkra siglinga, frekar en t.d., Svalbarði. Þetta er bera gamaldags íslensk óskhyggja og sjálfsagt að svara henni þannig.

    Burtséð frá rökum, eða rökleysum, einangrunarsinna, þá held ég að Íslendingar sem sjá á bak vinum og fjölskyldu til annarra Evrópulanda, eða sem líta þangað löngunaraugum í hvert sinn sem veðlánið er borgað, séu alveg til í að hlusta á raunveruleg rök um ESB. Hvort heldur þau eru nytjarök, eða menningarleg. Engin ástæða að láta umræðuna alfarið eftir mönnum sem hafa síðustu 50 árin stýrt Íslandi misilla.

    Andri Haraldsson

    SvaraEyða
  2. "Rökin að Ísland hefði engin áhrif í bandaríkjum Evrópu eru ekki sterk á neinum fleti. T.d., hefur Norður Dakóta miklu meiri styrk per íbúa í bandaríska þinginu en Kalifornía"

    Þetta er ekki spurning um að hafa áhrif í Bandaríkjum Evrópu, heldur að hafa áhrif á stjórn og lagasetningu Íslands. Þið getið ekki neitað því að þau áhrif minnka umtalsvert við inngöngu í ESB.

    Hér eru boðleiðir stuttar og möguleikar almennings töluverðir til þess að hafa lýðræðisleg áhrif. Vissulega felst líka fullveldismissir í EES-aðildinni, en ekki nærri því eins mikill eins og við ESB-aðild.

    Á endanum er þetta spurning um hvort menn vilja tilheyra sjálfstæðu íslensku ríki, þar sem möguleikarnir eru miklir en háðir vilja og getu íbúanna, eða miðstýrðu samevrópsku risaríki, þar sem er óumdeilanlegur lýðræðishalli varðandi innanríkismál hvers aðildarríkis.

    Karl

    SvaraEyða
  3. Karl-

    Ágætir punktar hjá þér. Er að vísu kannski ofmetið að Ísland sé sjálfstætt, nema í þröngum lagalegum skilingi. Landið er mjög háð heimunum um öll aðföng, svo ekki sé meira sagt. Svo er mikil samkeppni um að bjóða aðlaðandi umhverfi svo að ungt fólk fari ekki úr landi.

    En punkturinn hjá mér er bara sá að það sé kominn tími til að tala af skynsemi um ESB, þvi að margt skynsamt íslenskt fólk er þegar komið í ESB.

    Andri Haraldsson

    SvaraEyða

Ath: Aðeins meðlimir bloggsins geta birt ummæli.