þriðjudagur, 20. apríl 2010

Á að bjarga Íbúðalánasjóði?

Ég sé haft eftir félagsmálaráðherra að eðlilegt sé að auka eigið fé Íbúðalánasjóðs (ÍLS) í ljósi þess að það er nú komið langt niður fyrir eðlileg mörk. Það stendur víst í einungis þremur prósentum.

En er það eðlilegt?

Þó íbúðalánasjóður sé sjóður í eigu ríkisins má velta því fyrir sér hvort því fylgi sjálfkrafa ríkisábyrgð þegar illa stendur á í rekstri sjóðsins. Að minnsta kosti virðist hvergi tekið fram í lögum um sjóðinn að hann njóti ríkisábyrgðar. En lagalega má eflaust eiga um það ágætis debatt, rétt eins og um Tryggingasjóð innistæðueigenda.

ÍLS er einn stærsti lánaaðili á íslenskum markaði og einnig einn stærsti skuldarinn. Í ljósi þess sem á undan er gengið hér á landi er kannski vert að huga að því hvort að eðlilegt sé að stærsti lánveitandi á húsnæðismarkaði sé á vegum ríkisins og hafi í því skjóli hugsanlega aðgang í skattfé þegar illa árar. Er t.d. eðlilegt að ríkið veiti skilyrðislaust auknu eiginfé í sjóðinn bara sisona?

ÍLS er í eðli sínu fjárfestingabanki og hefur verið frá því að gamla húsnæðislánakerfinu var umbylt snemma á tíunda áratugnum, að mig minnir 1993, og tekið upp húsbréfakerfi. Sjóðurinn sjálfur var síðan stofnaður á grunni Húsnæðisstofnunnar 1998.

Einnig er eflaust rétt að rifja upp að húsbréfakerfið og útgefin íbúðabréf Húsnæðisstofnunnar og ÍLS lögðu m.a. grunninn að útrás íslenska bankakerfisins. Kaupthing t.d. var einna fyrstur innlendra banka til þess að bjóða íslensk íbúðabréf með markvissum hætti á erlendum markaði. Það gekk svo vel að eftirspurn á endanum varð langt umfram framboð sem leiða má líkum að hafi orðið hvati til bankanna að hefja útgáfu eigin íbúðabréfa.

Það má því velta fyrir sér, ef það er svo að ÍLS er í reynd á leið í þrot, eins og eiginfjárstaða hans gefur til kynna, hvort tímabært sé að fara í róttækar umbætur á húsnæðisfjármögnunarkerfi landsins. Að minnsta kosti ætti ekki að teljast sjálfsagt og "eðlilegt" að auka eigið fé sjóðsins án mikillar umræðu um stöðu sjóðsins og fyrirkomulag þessara mála hér á landi.

Þvert á móti gæti þessi staða sjóðsins falið í sér tækifæri til þess að af-ríkisvæða sjóðinn með einhverjum hætti, t.d. með aðkomu lífeyrissjóða og, meira að segja, bankanna og annarra helstu kröfuhafa sjóðsins.

Ef umræður undanfarna mánaða ættu að kenna okkur eitthvað þá er það að ríkisábyrgð á fjármálastofnunum á ekki að vera eitthvað sem afgreitt er í kyrrþey.

8 ummæli:

  1. En er hann kannski tæpur af því hann hefur verið þvingaður til að afskrifa lán þeirra sem fóru full geist? Verður ekki bara að stoppa það ferli?

    SvaraEyða
  2. það er engin ástæða til að auka eigið fé á meðan eigið fé er í sjóðnum.

    SvaraEyða
  3. Það vantar nú upplýsingar í þessa umræðu. Af hverju er t.d. slæmt að það vanti pening inn í Íbúðarlánasjóð? Hvernig getur vantað peninga inní svona sjóð, ef honum vantar pening tekur hann þá ekki lán eins og aðrir eða hækkar vexti á lánum sem hann veitir? Ef þessi sjóður á ekki pening þá lánar hann bara minna er það ekki?

    Frétta umfjöllun frá því í gær um íbúðarlánasjóð fjallar ekkert um möguleikana í stöðunni eða afleðingarnar af mögulegum viðbrögðum. Almenningur hefur því enga möguleika á að mynda sér skoðun á málinu.

    SvaraEyða
  4. Nafnlaus 15:44 - Ég þekki lítið til afskrifta hjá sjóðnum nema hvað mér hefur skilist að yfirtökur á húsnæði sem byggt var með fjármögnun frá sjóðnum séu honum þung í skauti. Almennar afskriftir eins og eru að eiga sér stað hjá bönkunum gerast ekki hjá ÍLS nema að undangengnu gjaldþroti eða formlegri greiðsluaðlögun að því að ég best veit.

    Nafnlaus 16:03 - Nákvæmlega, það vantar upplýsingar. Það er punkturinn sem ég er að velta upp að þörf sé á umræðum og upplýsingum áður en meiriháttar ákvarðanir svo sem um aukningu eiginfjár eru teknar. Málefni ÍLS eiga að vera hluti af opinni umræðu.

    SvaraEyða
  5. Nafnlaus 16:03 athugasemdin átti við um athugasemd Nafnlaus 16:04. Varðandi athugasemd Nafnlaus 16:03 þá er það vissulega sjónarmið.

    SvaraEyða
  6. Íbúðalánasjóður er alls ekki á vonarvol.
    Getur verið æskilegt að hafa um þrjámilljarða
    meira sem eeigið fé.

    Nauðsyn að ræða um 20 milljarðaframlag til
    sparisjóðanna. EINKABRASK MARGRA TOPPA Í
    ÞJÓÐFÉLAGINU.
    Lánasjóðurinn var neyddur tiil þess að taka
    að sér lán meðal annars frá Davíð ODSSYNI
    (muna menn ekki að hanna var í banka.
    Þegja fremur en bulla svona kallinn minn.!!

    SvaraEyða
  7. Nafnlaus 19:22 - Geturðu útskýrt fyrir mér í hverju "bullið" felst í því að velta því fyrir sér ef ÍLS er að komast í þrot og þarf á innspýtingu eiginfjár (skv. félagsmálaráðherra) að bera fram þá spurningu hvort það gæti ekki gefið tilefni til að skoða mál sjóðsins í heild sinni?

    SvaraEyða
  8. Friðrik, veist þú hvernig það er með Íbúðarlánasjóð, starfar hann á sömu forsendum og bankarnir? Er hann að lána út jafn mikið og hann fær lánað, eða er 10% reglan (öðru nafni bindiskylda) ekki viðhöfð þar á bæ.
    Mér finnst nefnilega skítið ef sömu reglur geta ekki gyllt um bæði kerfi að því leiti.
    Annars finnst mér báðir kostir vera slæmir, að Íbúðarlánasjóður hætti, eða starfi áfram óbreittur.
    Mín krafa er að húsnæðislán verði óverðtryggð. Þetta er kanski tækifærið til að koma því á koppinn....

    SvaraEyða

Ath: Aðeins meðlimir bloggsins geta birt ummæli.