þriðjudagur, 19. júlí 2011

Aflífum Íbúðalánasjóð

Nú eru víst sex vikur til stefnu fyrir íslensk stjórnvöld til þess að breyta starfsemi Íbúðalánasjóðs í samræmi við athugasemdir Eftirlitstofnunar EFTA (ESA).

Hér er tillaga í púkkið sem er eflaust ekki til skoðunar í Velferðarráðuneytinu:

Leggjum niður Íbúðalánasjóð.

Ein af stærri athugasemdum ESA er sú að sjóðurinn njóti ótakmarkaðrar ríkisábyrgðar. Það er rétt að því marki að þannig hafa stjórnvöld umgengist sjóðinn og leyft sjóðnum að kynna sig á markaði. Grannt skoðað er ekkert um það í lögum um sjóðinn sem segir að hann njóti ríkisábyrgðar. Það er afleidd staða sem kemur til vegna eignarhaldsins.

En þökk sé þessu fyrirbæri Íbúðalánasjóði er s.s. de facto ríkisábyrgð á stórum hluta allra húsnæðisskulda landsmanna. Hleypur þar á hundruðum milljarða, en heildarskuldir sjóðsins í lok síðasta árs voru 826 milljarðar. (Hef nú aðeins þusað um þetta áður.)

Bókfærðar eignir á móti voru 836 milljarðar, þ.a. tæknilega var sjóðurinn í plús, en vitað er að töluvert af meintum eignum eru óseljanlegar fasteignir sem líkast til er færðar of háu verði í bókhald sjóðsins, auk bréfa sem eru komin í vanskil, en vanskil yfir 90 daga voru um síðustu áramót 3,9 milljarðar (sjá hér).

Nær væri að stofnað yrði hlutafélag um þennan rekstur, sem síðar yrði sett á markað, t.d. einskonar húsbanka að danskri fyrirmynd. Bjóða mætti bönkunum þátttöku í þessum húsbanka, t.d. með þeim hætti að þeir leggðu inn a.m.k. hluta sinna húsnæðislána í púkkið í skiptum fyrir hlut í hinum nýja húsbanka.

Reyndar er það eitt af vannýttu tækifærum hrunsins að hafa ekki aflífað Íbúðalánasjóð þá og þegar og farið út í breytingar af þessu tagi. Nýr húsbanki hefði þá getað verið virkur hluti í afskriftum og endurskipulagningu húsnæðislánakerfisins með því t.d. að "kaupa" húsnæðisskuldabréf bankanna á afskriftarverði gegn hlut í húsbankanum. Í framhaldi hefði eflaust mátt vinna með mun auðveldarri og gagnsærri hætti að endurskipulagningu húsnæðisskulda heimilanna.

En það er eftiráspeki, en þarf kannski ekki að vera of seint.

Nú er hins vegar komið að því að bregðast þarf við réttmætri gagnrýni ESA á starfsemi sjóðsins og tilvalið að nýta það tækifæri til róttækra umbóta. Fyrsta skrefið í því yrði að leggja sjóðinn niður í núverandi mynd.

3 ummæli:

  1. Góð hugmynd, en kannski seint til fundið. Og mætti ganga lengra er það ekki? Þarf að finna leið til að þjóðin setji minna fé í íbúðarhúsnæði.

    SvaraEyða
  2. Það hefur verið reynt að breyta íbúðalánasjóði í realkreditinstitut að danskri fyrirmynd. Það var í félagsmálaráðherratíð Jóhönnu Sigurðardóttur og kallaðist húsbréfakerfið. Mér virðist þú semsagt fyrst og fremst vera að leggja til að ÍLS verði einkavæddur - eða hvað? Það er jú klárlega það sem helst vantar á Íslandi: fleiri einkarekin einokunarfyrirtæki.

    SvaraEyða
  3. Andri, það þarf sérstaklega "þroskaðri" markað með leiguhúsnæði.

    Halldór, húsbréfakerfi Jóhönnu var ekki eins og danska kerfið þar sem það viðhélt m.a. ríkisábyrgð. Það er í raun synd að húsbankafrumvarp Júlíusar Sólnes frá 1987 hafi ekki fengið neina umfjöllun á þingi á sínum tíma.

    SvaraEyða

Ath: Aðeins meðlimir bloggsins geta birt ummæli.