föstudagur, 19. ágúst 2011

Róttæk skattaleið?

Það er ekki að sjá að skattkerfisbreytingar undanfarinna tveggja ára hafi skilað sérstökum árangri. Tekjur duga ekki fyrir útgjöldum og er þar stærsti einstaki vandinn gríðarlegur vaxtakostnaður vegna þeirra skulda sem ríkissjóður tók á sig vegna hrunsins.


Þó að einhverju leyti hafi skattkerfisbreytingarnar skilað hærri tekjum, hafa þær haft þau neikvæðu hliðaráhrif að draga úr viðskiptum, letja fjárfestingu og atvinnuuppbyggingu, hvetja til svartrar vinnu, auka óhagræði, draga úr gagnsæi og skaða skilvirkni skattkerfisins, m.a. þannig að skatteftirlit er orðið mun flóknara og þyngra í vöfum. M.ö.o. flóknara skattkerfi hefur gert það að verkum að líklega er auðveldara að svíkjast undan skatti en áður var.


Nær væri að einfalda skattkerfið til muna, fækka skattstofnum, en hækka þá sem eftir standa, og auka þannig gagnsæi og auðvelda eftirlit. Með því móti mætti tryggja jafnari tekjur, auka traust á markaði og gera fjárfestingarumhverfi meira aðlandi til atvinnu- og verðmætasköpunar.


Þetta verður þó að gerast í samhengi við mun meira afgerandi aðgerðir til þess að taka á skuldastöðu ríkisins og háum fjármagnskostnaði þess á núverandi lánum. Í þeim efnum skortir á róttækni og veldur það nokkrum vonbrigðum hvað núverandi stjórnvöld hafa í raun verið hefðbundin og fyrirsjáanleg í skattaaðgerðum sínum. Skattar hækkaðir og skattstofnum fjölgað, allt í nafni aukinnar tekjuöflunnar, réttlætis og siðbótar, en árangurinn hefur látið á sér standa. Skattekjur einstakra skattstofna hafa jafnvel staðið í stað og dregist saman og hugsa ég að flestir landsmenn sýnist skorta á siðbót og réttlæti.


En aðal gallinn við það sem hingað til hefur verið gert er að það er óttalegt mjatl. Lítið hefur borið á umræðu um sérstaka einskiptisskatta til að mæta kostnaði vegna hrunsins og væri kannski vert að taka þá umræðu aftur og á breiðari grunni.


Sá einskiptisskattur sem þó hefur verið ræddur er að leggja skatt á eignir lífeyrissjóðanna og þannig taka út framtíðartekjuskatt strax. Því fylgir þá jafnframt að leggja fullan tekjuskatt á lífeyrissframlag héðan í frá, en lífeyrissgreiðslur yrði þá væntanlega framvegis skattfrjálsar. (Einnig rekur mig minni til að hafa séð tillögur um að leggja fullan tekjuskatt á bankainnistæður sem nutu tryggingar umfram hið löglega hámark upp á u.þ.b. 3 milljónir.)


Ef eignir lífeyrissjóðanna eru um og yfir 2 þúsund milljarðar myndi 40% skattlagning þeirra skila 800 milljörðum í ríkissjóð. Það myndi duga til að greiða niður vel rúmlega helming núverandi skulda ríkisins og þ.a.l. jafnframt lækka vaxtakostnað þess um meira en helming. Fjárlagagati þessa árs yrði þar með lokað í einum vettvangi og meira að segja yrði afgangur sem nýta mæti til að greiða ennþá meiri skuldir.


Þetta er langt í frá gallalaus aðgerð, m.a. vegna þess að ekki er verra fyrir ríkissjóð að eiga vísar framtíðarskatttekjur frá lífeyrisþegum, sérstaklega þar sem þeim mun fara fjölgandi meira hlutfallslega en þeim sem vinna.


En hugsanlega mætti skattleggja lífeyrissjóðina með öðrum hætti og án þess að framtíðarskatttekjum ríkissins sé fórnað um of.


Ein af skattbreytingum þeim sem komið var á af núverandi ríkisstjórn var endurreisn eignaskatts, sem heitir nú því gildishlaðna nafni auðlegðarskattur. Skilaði hann nokkrum tekjum, en ekki nóg til þess að hafa veruleg áhrif. Búast má jafnframt við að sá skattur verði tæpast langlífur og verði afnuminn við fyrsta tækifæri þegar og ef t.d. Sjálfstæðisflokkurinn kemst aftur í ríkisstjórn.


Því er kannski vert að velta fyrir sér hvort ekki væri nær, í stað auðlegðarskatts og tekjuskattlagningar á lífeyrissjóði, að setja á sérstakan einskiptiseignaskatt sem myndi einnig ná til eigna lífeyrissjóðanna.


Til dæmis 30 – 40 prósent.


Með því móti mætti ná inn nægum tekjum, 12 til 15 hundruð milljarða, til að greiða niður líkast til allar innlendar skuldir ríkissjóðs og þar með lækka vaxtakostnaðinn til framtíðar um tugi milljarða. Eflaust yrði jafnframt til fé til nauðsynlegra framkvæmda sem gætu ýtt undir aukna atvinnustarfsemi og raunverulegan hagvöxt byggðan á nýrri verðmætasköpun.


Hægt væri jafnframt að láta ýmsar skattkerfisbreytingar undanfarinna tveggja ára ganga til baka, og reyndar nýta tækifærið til þess að einfalda skattkerfið verulega.


Hvað varðar eignir landsmanna í lífeyrissjóðum þá væri hægt að bæta „tjónið“ sem af þessari skattlagninu hlytist með róttækum gagnaðgerðum. Til dæmis með því að sameina enn frekar lífeyrissjóði og stofna sérstakan þjóðarlífeyrissjóð í anda norska olíusjóðsins (sem reyndar heitir Statens pensjonsfond utland). Í þann sjóð mætti leggja núverandi eignir ríkisins sem stendur til að selja hvort eð er, eins og fjármálafyrirtækin, en stóri framtíðartekjupósturinn ætti að vera allt auðlindagjald framtíðarinnar, af fiski, olíu o.þ.h. Ætti það að ganga langleiðina, og líkast til gott betur, í að bæta fyrir einskiptisskattlagningu af þessu tagi.


Fyrir eignafólk mætti bæta „tjónið“ með aflagningu auðlegðarskattsins og lækkun á fjármagnstekjuskatti. Einnig, fyrir þann fjölda sem ekki er með eignir í lausu fé, að bjóða upp á dreifingu skattgreiðslna, einskonar raðgreiðslur.


En allir myndu hagnast á því að ríkissjóður yrði svo að segja skuldlaus og losað yrði um allt hagkerfið í einum vettvangi þannig að það gæti farið að blómstra fyrir alvöru á ný.

18 ummæli:

  1. Einmitt, aftur tillaga um beina/óbeina þjóðnýtingu á lífeyrisjóðum Friðrik. Af hverju ekki taka skrefið til fulls og hætta þessum hráskinnaleik og þjóðnýta þá ?

    Kveðja,
    Björn Kristinsson

    SvaraEyða
  2. Eins og þú sérð Friðrik, þá er ég orðinn nokkuð þreyttur á sífelldum tillögum sem eru upp um að það verði aðeins almenningur og enginn annar sem muni borga hrunið.

    Stjórnvöld hafa engan áhuga á að gera þær grundvallarbreytingar sem þarf að gera á stjórnkerfinu. Áfram skal notast við sama módelið sem hefur innifalda í sér mikla sóun á skattfé.

    Og talandi um kerfisbreytingar á skattalögum. Þá kostuðu síðustu breytinga +1 milljarð vegna breytingar á bókhaldsforritum o.s.frv. Gagnslaus breyting sem hefði verið hægt að ná með gamla kerfinu sem var miklu betri en sú leið sem nú er. Hvers vegna var breytt ? "Prinsipp" var svarið - þetta er svona í viðmiðunarlöndum okkar.

    Svona mætti lengi halda áfram.

    Kveðja,
    Björn Kristinsson

    SvaraEyða
  3. Enn og aftur framúrskarandi skrif, ágæti Friðrik.

    Vel orðað og rökstutt.

    Þakkir.
    Rósa K.

    SvaraEyða
  4. Björn, í fyrsta lagi er nú hálfpartinn verið að þjóðnýta lífeyrissjóðina nú þegar með því að draga þá inni í gengisuppboðsplott Seðlabankans, í öðru lagi er lítið óvenjulegt við að þjóðnýta eitthað sem þjóðin á, í þriðja lagi er ég ekki að fjalla um einskiptiseignaskatt eingöngu á lífeyrissjóðina og í fjórða lagi þá er ég sammála þér um að þær skattkerfisbreytingar sem ráðist hefur verið hafi verið til tóms tjóns.

    Rósa, þakka þér.

    SvaraEyða
  5. Hókus-pókus! Með því lélegra sem ég hef séð hingað til. Ráðgjöf IMF til hrunkerfisis hérlendis lýkur núna í september. Enda kominn tími til!

    Ísland er ekki Chile. Arðræningjar eru ekki velkomnir hér. Haltu þig í Washington. Þú hefur ekki nokkurn minnsta skilning á þeim fórnum sem íslensk alþýða hefur þurft að færa til þess að ná fram lífeyrisréttindum sínum.

    -Verkamaður

    SvaraEyða
  6. Leggja niður skattana.
    Taka bara % af öllu sem fer út úr landi og inn í landið.
    Láta framleiðslu og innflutning stýra þessu.

    SvaraEyða
  7. Því miður Friðrik þá ert þú fastur í því að láta verkafólk borga fyrir bankahrunið hér. Lífeyrissjóðirnir eru ekki eign þjóðarinnar heldur er hver lífeyrissjóður eign tiltekins hóps manna.
    Væri ekki alveg eins hægt að þjóðnýta bankainnistæður yfir tiltekinni upphæð ?
    Ég tel það ekki réttlætanlegt en bankainnistæður, lífeyrissjóðsréttindi, fasteignir og t.d. bílar eru eign tiltekinna einstaklinga og því ekki hægt að þjóðnýta nema að almannaheill krefji og fullar bætur komi fyrir. Þetta er rugl umræða hjá þér.

    SvaraEyða
  8. Það er æðislegt þegar fólk talar um að það ætti nú einhver annar en "almenningur" að borga fyrir lélega fjármálastjórnun kjörinna fulltrúa.
    Það skiptir ekki máli hvernig málið er látið líta út. Fólkið eru þeir einu sem geta borgað. Fólkið sjálft eru einu alvöru fjármagnseigendur hér á landi í gegnum lífeyrissjóðina og þeir einu sem hafa burði til að borga.

    Fólkið sjálft borgar alltaf skattinn á endanum. Það skiptir ekki máli hvort hann falinn inn í bókum fyrirtækja eða hvort hann er kallaður auðlindagjald. Fólkið borgar alltaf allt á endanum með sinni vinnu. Ástæðan er einfaldlega sú að fólk er eitt um að geta búið til verðmæti sem gjaldgeng eru til að bjarga ríkisfjármálum.

    SvaraEyða
  9. Friðrik þetta eru ágætis hugmyndir og það er þess virði að ræða þær. þetta er ágætis lausn á vandamáli dagsins í dag. en ekkert meira en það.

    hér fyrir hrun þá voru skuldir hins opinberra nánast engar. Samt voru háir skattar (lægri en í dag) miklir tollar og önnur gjöld.

    Lausn þín lagar ekki vandan sem við glímum við heldur einungis afleiðingar af vandanum. ef við notum líkingarmál þá mætti segja að þessi leið þín væri eins og að reykræsta íbúð. vandinn hjá okkur er að það logar ennþá í íbúðinni og því mun hún fillast fljótt aftur af reyk.

    hvaða tryggingu höfum við fyrir því að pólitíkusar reki ekki ríkissjóð með massívum halla eftir þetta til að koma öllum áhugamálum sínum á ríkisspenan? hvaða tryggingu höfum við fyrir því að ríkið taki ekki gríðarleg lán í framtíðinni og setji svo aftur þessa skatta sem lausn þín fæli í sér að yrðu lagði niður?

    til þess að lausn þín sé möguleg þá þarf fyrst að takmarka frjálagavöld ríkissins og sveitarfélaga. það þarf einnig að setja ströng lög um fjárlög opinberra stofnanna og fyrirtækja. Það þyrfti í raun að binda í stjórnarskrá tvö ákvæði. stjórnlagadómstól sem getur dæmt ráðamenn í fangelsi fyrir brot á stjórnarskrá og numið lög úr gildi. og svo ákvæði um bann við skuldsettningu opinberra aðila ufram t.d. 20-30% af árs tekjum svo ég nefni einhverja tölu.

    Þangað til að einhver svona ákvæði hafa verið sett í lög og stjórnarskrá þá er þín hugmyndin einungis reykræsting á brennandi íbúð. sem slík er hún góð og jafnvel nauðsynleg en hún verður að vera framkvæmd á réttum tíma. þe. eftir að eldurinn hefur verið slökktur.

    kv
    Fannar Hjálmarsson

    SvaraEyða
  10. Ég vill miklu frekar horfa til þess að búa til 300.000 lífeyrissjóði, frekar en einn.
    En segjum að við gerum þetta, þ.e. 30-40% einskipti-skattur á lífeyrissjóðina. Mætti þá ekki "bæta" lífeyrisþegum þann minni með því að framtíðar auðlindagjöld++ fari inn í það einfalda kerfið öryrkjum tilhanda. Þannig yrði það hlutverð þessa auðlindasjóðs að fjármagna örorkubætur, en lífeyrissþegarnir, sem nú sæju sjálfir um sinn sjóð, bæru ekki þann kostnað, heldur væri sjóðurinn sjálfseignarsjóður (sem m.a. erfðist).
    Gengur þetta ekki jafnvel upp og aðrar leiðir sem þú leggur til ?

    SvaraEyða
  11. Mjög góð pæling. En ég er sammála Fannari Hjálmarssyni að þetta eitt og sér gerir ekkert annað en að viðhalda bullinu, þó svo hægt væri að hreinsa upp skuldir.
    Besta leiðin til að þvinga stjórnvöld til almennilegrar hagstjórnar er að taka frá þeim gjaldmiðlana tvo, krónuna og verðtryggðu krónuna. Ef skipt yrði í evru væru stjórnvöld svipt möguleikarnum á að arðræna almúgann endalaust.

    SvaraEyða
  12. Lífeyrissjóðir eru eign sjóðfélaga, ekki "þjóðarinnar".

    SvaraEyða
  13. Páll, það þarf að koma á efnahagsstjórn hér á landi. Verðtryggðri krónu var komið á til að berjast við verðbólguna sem var tilkomin vegna þess að engin í stjórnkerfinu eða á þingi hafði áhuga á að hafa stranga efnahagstjórnun eða takmörk á útgjöldum. núna er verðtryggðakrónan í raun fríspil handa þeim til að gera það sem þeir vilja nánast án afleiðinga.

    Við fáum ekki evru. við eigum ekki peninga til að kaupa það magn sem þarf til að viðhalda viðskiptum innanlands. og ef menn fara útí banka og fá ekki að taka peninga út úr honum (það er evrunar sínar) þá hrynja bankarnir og allt hagkerfið. um leið og við reynum að taka einhliða upp annan gjaldeyrir þá nánast strokast út öll verðmæti skráð í íslenskum krónum. zimbabwe gat skipt einhliða um gjaldmiðlil vegna þess að virði þess gamla var sama og ekki neitt eftir áralanga óðaverðbólgu. það var þessvegna búið að stroka út verðmætin.

    eina sem við gætum gert væri að hamla ríkisvaldinu í að skuldsetja sig og jafnvel taka upp einhvers konar hráefnisfót tengdan við gjaldmiðilinn. þe. þú færð íslenska krónu og ef þú vilt hana ekki þá geturu skipt henni út fyrir hráefni sem framleidd eru hér á landi. þá er líka krónan aldrei verðmætari en það sem við sköpum. vandamál sem við höfum haft með krónuna er ekki fall hennar per se. heldur að hún reis oft eða var skráð af ríkinu eða bönkum, alltof hátt. verðmæti gjaldmiðilsins er aldrei meira en framleiðslu verðmætin gefa til kynna.

    kv
    Fannar Hjálmarsson

    SvaraEyða
  14. Fannar.
    Sammála um að við eigum ekki "pening" til að kaupa út krónuna, en það er aðeins mögulegt með stuðningi Evrópska Seðlabankans og þá sem hluti af aðildarviðræðum við ESB.
    En peningamagnið sem er giska 1500 milljaðar króna, síðast ég vissi, verður ekki tekið úr umferð nema með stórfelldri skattlagningu eða uppkaupum á aflandskrónum á afföllum. Um það hefur m.a. Friðrik skrifað ágætlega.
    Verðtryggða krónan virkar síðan einsog fjölritunarvél á hina krónuna, því peningamagn í umferð eykst við hver mánaðarmót, eða svo virðist allavega vera.
    En hugmyndir um að gefa út nýja mynt til að tappa krónum af kerfinu og svo þessi hugmynd Friðriks sem tappar skuldum af ríkinu eru fínar. En hættan heldur áfram. Ef ekki verður tekin upp alþjóðleg mynt er það gefið að íslenskir stjórnmálamenn munu halda áfram óráðsíuhagstjórn sem öll miðast við hagsmuni sérhagsmunahópa hverju sinni.
    Þessvegna má ekki með nokkru móti gefa eftir markmiðið að losa okkur frá krónunum tveimur.
    Svona örþjóð hefur ekkert með sérstaka mynt að gera hvað þá tvær.

    SvaraEyða
  15. Páll sem slík er hugmyndin um að taka upp evruna góðra gjalda verð. en eins og við erum sammála um þá er einhliða upptaka ekki möguleg.

    Hin leiðin er hinsvegar ekki heldur fær. Allavega er hún ekki á boðstólnum fyrir okkur næstu árin og jafnvel áratugi. Myntbandalagið um evruna er að breytast og það getur engin sem horfi með raunsæjum augum á veröldin haldið því fram að evrópuþjóðirnar muni gefa okkur undanþágu frá ströngum reglum í miðri trúverðugleika uppbyggingu á evrunni.

    Grikkir fengu undanþágu, esb hefur brennt sig illa á því. við getum ekki vænst þess að fá evruna nema uppfylla öll skilyrðin fyrir inntöku. til þess að standast þau þá þurfum við að leysa núverandi vanda og þann kerfislæga.

    þannig er allt tal um evruna í raun þref sem skilar okkur ekki neinu nema því að tefja umræður um lausnir í dag.

    óráðssían er það sem við kjósendur höfum beðið um. við kjósum fólk til að fara í framkvæmdir. þeir sem lofuðu mestu á Álftanesi komust til valda. það er þeim að kenna sem kusu þá. stjórnvöld landsins eru mönnuð af fólki eins og mér og þér. þau framkvæma það sem við kjósendur viljum. það er síðan ekki alltaf sem okkur líkar afleiðingar eigin langanna eftir á. þannig hafa stjórnmálamenn sem horfa lengra fram í tímann ekki verið upp á pallborðinu hjá kjósendum nema í mjög litlu mæli.

    kv
    Fannar Hjálmarsson

    SvaraEyða
  16. Fannar, við erum sammála um flest. Og þessi punktur um okkur kjósendur sem kjósum skyndilausnapólitíkusa umfram aðra er hárréttur. Og eiginlega skapast vonleysi í mínum huga því ekki verður séð að þjóðarsálin taki krappa beygju í hugarfari hvað það varðar. En gleymum ekki því að það eru hagsmunasamtök sem að stærstu leyti stjórna stjórnmálamönnum.
    Þjóðfélagið okkar er rekið áfram af gríðarlega sterkum hagsmunasamtökum eins og LÍÚ og Bændasamtökunum, SA, verkalýðsfélögum, lífeyrissjóðum og fjármagnseigendum sem verja verðtryggðu krónuna fram í rauðan dauðann.
    En ég vil sjá niðurstöðuna í aðildarumræðum hvort við getum tekið upp evru. Ég er ekki jafn svartsýnn og þú m.a. vegna þess hversu mikið míkrósamfélag hér er í gangi. Hagstærðirnar hérna versus ESB eru smáræði. Spyrjum að leikslokum, allavega :)

    SvaraEyða
  17. Þessi pistill ætti að bera yfirskriftina "róttæk eignaupptaka". Þessar hugmyndir hafa ekkert með skatta að gera, heldur eignaupptöku. Þú hirðir ekki 40% af lífeyri og bankainnistæðu fólks og kallar það skatta, það er þjófnaður og ekkert annað.

    SvaraEyða
  18. .... en semsé þú hirðir helminginn af launum fólks með gengisfellingu, skapar ástand fyrir verðhruni á eignum sem kallast fasteignir og hækkar síðan lán með því sem kallast verðtrygging. Það er ekki eignaupptaka, eða hvað? Það er ljóst að einhvað þarf til að taka til að vinda ofan af þessu. En að vanda sleppa fjármagseigendur og lífeyrissjóðir eins og heilagar kýr.

    SvaraEyða

Ath: Aðeins meðlimir bloggsins geta birt ummæli.