mánudagur, 5. september 2011

Sérlausnasambandið

Eftir að hafa þurft að hlusta á þus, röfl og raup andaðildarsinna árum, og já áratugum saman, um hið gangstæða, kemur enn einu sinni fram að Evrópusambandið tekur tillit til sérstöðu aðildarríkja þar sem það á við. Þrátt fyrir að vera mestmegnis samband um almennar, sameiginlegar leikreglur um samskipti og viðskipti ríkja er ESB nógu öflugt, þroskað og já, tillitssamt og praktískt til þess að þola það og skilja að það er samband fullvalda og sjálfstæðra ríkja sem öll hafa sín sérmál sem þarf að vera hægt að taka tillit til.

Og nú erum við með það skriflega á blaði frá sambandinu sjálfu. Allt sem þarf er að Ísland setji fram eigin kröfur og skilgreiningar á því hverjar þær þarfir eru og hvernig íslendingar telji og vilji að þeim sé mætt t.d. innan sameiginlegrar landbúnaðarstefnu sambandsins, sjá bréf fastafulltrúa Póllands, formennskuríkis ESB:

"Iceland presents a a strategy including a planning schedule of measures to be taken progressively in order to ensure full compliance with the acquis under chapter 11 Agriculture and rural development by the date of accession as regards agricultural policy, legislation and administrative capacity, taking into account the specific circumstances for agriculture in Iceland."

Reyndar er rýniskýrslan sem fylgdi með hrein skyldulesning líka, en þar má einmitt rýna milli lína hvurslags fúsk og frat íslenskt landbúnaðarkerfi er, án skilvirks eftirlits eða hæfra stofnanna með fulla getu til að framfylgja markaðri stefnu (hvað er íslenska orðið yfir "competent"?). Beingreiðslur streyma úr vasa skattborgara beint til Bændasamtakanna sem sér um að dreifa góssinu til sinna félagsmanna. Öllu eftirliti með því hvernig þeim peningum er dreift og eytt er ábótavant. Í þokkabót, eins og kemur fram í skýrslunni, hefur Ísland enga heildarstefnu um þróun byggðar í dreifbýli, enga stefnu gagnvart "hefðbundinni" framleiðslu, og afskaplega vanþróaða stefnu hvað varðar lífrænan landbúnað, og það frá þjóðinni sem vill selja "hreinastu" landbúnaðarvörur "í heimi" til grunlausra útlendinga undir merkjum eins og "Sustainable Iceland".

Og jú, þær littlu kröfur sem við þó setjum fram gagnvart ESB (en heildarkröfur vantar af því að landbúnaðarráðuneytið og Bændasamtökin neita að taka þátt, geri ég ráð fyrir) snúast m.a. um það hvernig Ísland eigi ekki að þurfa uppfylla reglur ESB um að t.d. eldisfiskar eigi að hafa lágmarksrými í eldiskerjum!

Svei mér þá, ég hef orðið á tilfinningunni að ástæða þess að landbúnaðarráðherra og Bændasamtök Íslands eru jafn gallharðir í andspyrnu sinni hljóti að vera vegna þess að nánari rýni á framkvæmd íslenskrar landbúnaðarstefnu, að því marki sem hún er til og rekin, sé vegna þess að þessir aðilar gera sér fyllilega grein fyrir að hún einfaldlega þolir ekki dagsins ljós. En þar virðast hagsmunasamtök bænda beinlínis standa gegn hagsmunum bændanna sjálfra. Það hlýtur t.d. að vera full ástæða til að skoða af hverju margfallt hærri styrkir til íslenskrar kjötframleiðslu en viðgengst í ESB skilar sér engu að síður í helmingi lægra afurðaverði til íslenkra bænda en hjá evrópskum kollegum þeirra.

7 ummæli:

  1. Frændi minn sem rekur stórt fjárbú norður í landi telur að hagur bænda mundi vænkast töluvert við inngöngu í ESB. Og mér heyrðist að afstaða hans væri afar vel ígrunduð.

    Þorsteinn Úlfar

    SvaraEyða
  2. Það er áhugavert hversu litla faglega eða krítíska umfjöllun þessi mál fá í fjölmiðlum. Hafi einhver blaðamaður lesið rýnisskýrsluna hefur hann ekki haft tækifæri til að skrifa um það, leita álits málsaðila og taka saman greiningu a málinu. Slíkt er látið bloggurum eftir.

    Mér þykir reyndar líklegt að lítil þáttaka Bændasamtaka og Landbúnaðarráðuneytis sé strategísk. Þeir vilja fá samning sem þeir geta sagt að sé óhagstæður, og þeir hafi ekki komið að.

    Það hefði verið áhugaverðara að vita að þrátt fyrir miklar og góðar tilraunir og samningagerð í góðri trú hafi bara ekki verið hægt að ná ásættanlegri niðurstöðu...

    Kannski óttuðust þeir að sú strategía að reyna að ná góðri niðurstöðu myndi einmitt bera árangur...

    Halldór Björnsson

    SvaraEyða
  3. Hvað með t.d. ljósaperur? Hér á landi er beinlínis meira vit í að nota hefðbundnar glóperur en ýmsar gerðir sparpera, a.m.k. hvað uppgefna ástæðu miðstýringarinnar varðar.

    Væntanleg kolefnisgjöld á flugferðir? Einhver hefur kannski rekið augun í að lega Íslands er allsérstök hvað þetta varðar; til að komast héðan burt þarf oftast um 3-6 klst flugferð. Það er ekki eins og maður taki lest eða rútu í staðinn. En þá sem valsa um víðan völl í boði skattgreiðenda varðar svo sem lítið um það.

    Vissulega er ágætt ef sambandið er jafnsveigjanlegt og margir halda fram. En til hvers í ósköpunum að vera að stjórna öllum þessum ólíku hlutum svona að ofan til að byrja með?

    Án efa eru samt gríðarlega margir sammála þér um landbúnaðarbáknið okkar óskilvirka og beinlínis sovéska - er ég þar meðtalinn. En þann gambít (og raunar false dichotomy) margra að við þurfum annaðhvort að búa við þetta óbreytt eða ganga í ESB kaupi ég ekki. Við ráðum þessu a.m.k. algjörlega sjálf meðan við stöndum utan þess.

    Eyjólfur

    SvaraEyða
  4. Það er rétt athugað hjá þer að forysta landbúnaðar veit að "nánari rýni á framkvæmd íslenskrar landbúnaðarstefnu, að því marki sem hún er til og rekin, sé vegna þess að þessir aðilar gera sér fyllilega grein fyrir að hún einfaldlega þolir ekki dagsins ljós". Þetta er kjarni málsins. Hagsmunir bænda eru fyrir borð bornir.

    SvaraEyða
  5. Rýniskýrslan er greinargott yfirlit og ljóst að skýrsluhöfundar hafa átta sig vel á stöðu mála hér.

    SvaraEyða
  6. "competent" þýðir nú líklega ekki "geta" í þessu sambandi, heldur "hæfi" í merkingunni "valdsvið".

    Annars er þetta skemmtileg samsæriskenning sem þú setur fram og alls ekki fráleit.

    Ómar Harðarson

    SvaraEyða
  7. Ég verð að leggja orð í belg vegna orða Eyjólfs hér að ofan.

    "við þurfum ekki ESB, við getum breytt þessu sjálf!"; þetta er mantra andaðildarsinna um alla mögulega og ómögulega hluti. En málið er, og a.m.k. ástæða þess að ég er mjög fylgjandi aðild Íslands að ESB, að við breytum hlutunum aldrei! Og ef breytingar verða, þá eru þær sjaldnast til hins betra!

    kveðjur frá
    Heywood Jablome

    SvaraEyða

Ath: Aðeins meðlimir bloggsins geta birt ummæli.