föstudagur, 23. september 2011
fimmtudagur, 8. september 2011
Skynsemin ræður!
miðvikudagur, 7. september 2011
Valkostir og framtíðarsýn
Samfylkingin er jafnan gagnrýnd af fulltrúum annarra flokka á þingi fyrir það að hafa enga aðra framtíðarsýn en aðild Íslands að Evrópusambandinu.
Þessi gagnrýni beinist augljóslega jafnframt að okkur sem ekki eru félagar í Samfylkingunni, en eru hlynntir aðild Íslands að ESB.
Sú gagnrýni er við nánari skoðun ósköp léttvæg, þó ekki væri nema af tveimur megin ástæðum.
Annars vegar vegna þess að framtíðarsýnin Ísland í ESB er ansi mögnuð og fæli í sér verulegar breytingar á ýmsum sérviskuháttum íslenskum. Alvöru fríverslun við okkar helstu nágrannaþjóðir á svo að segja öllum sviðum yrði stærsta merkjanlega breytingin frá fyrsta degi, áhrif á stjórnsýslu yrðu önnur breyting, margt til batnaðar, sumt íþyngjandi, og víðtæk efnahagsleg áhrif yrðum við vör við í vaxandi mæli, sérstaklega í aðdraganda upptöku Evru sem gjaldmiðils, og ekki síst þegar því takmarki yrði náð, svo fátt eitt sé talið.
Hins vegar vegna þess að þeir sem gagnrýna með þessum hætti hafa ekki boðið upp á neina sambærilega framtíðarsýn eða valkost sem hægt væri að stilla upp andspænis aðild að ESB. Vefur Heimssýnar, hreyfingar sjálfstæðissinna í Evrópumálum, er skýrt dæmi um þetta. Þar á forsíðu er tengill í skjal sem yfirskriftina “12 ástæður til að hafna Evrópusambandsaðild”. Allar ganga þær meira og minna út á að hafna aðild út frá mestmegnis bábyljurökum um hversu afleitt samband þetta er, en hvergi er reynt að setja fram annan heildarvalkost.
Sama er að segja um þá stjórnmálaflokka á þingi sem afdráttarlaust hafna aðild. Ekki virðist fara mikið fyrir heildstæðri framtíðarsýn, valkosti eða -kostum, hvað þá stefnu.
Bægslagangurinn gegn aðildarviðræðum við ESB ber þetta með sér. Það er helst vaðið áfram í neikvæðni og niðurrifi, en lítið boðið upp á aðra valkosti.
Finna má hins vegar brot af stefnu og stefnumiðum í einstökum málum, sem kannski helst má samþætta undir slagorðunum “Virkjum, veiðum og verðtryggjum!”
Í grein í Morgunblaðinu síðastliðinn mánudag skrifaði Illugi Gunnarsson, alþingismaður, ágæta grein undir yfirskriftinni “Verkefnin blasa við”. Verkefnin voru að mati þingmannsins fern – lækkun skatta, óbreytt kvótakerfi, nýting orkuauðlinda og ný peningastefna. Lítið fór fyrir smáatriðum, en þó vakti það athygli mína að þingmaðurinn útilokaði ekki aðild Íslands að ESB og evru sem valkost tengdum peningastefnunni. Reyndar minntist hann ekki á ESB svo neinu næmi og ekki kallaði hann eftir því að draga aðildarumsóknina til baka.
Virði ég það hjá þingmanninum að í stað þess að raupa um aðildarumsóknina að ESB og að hún komi í veg fyrir að unnið sé að öðrum málum setti hann fram það sem hann telur mikilvægt að vinna að. Svo má vera sammála því eða ekki. Aðalatriðið er þó að verkefnalisti þingmannsins virtist vera enn ein útgáfan af “Virkjum, veiðum og verðtryggjum”, með viðbótarkryddinu skattalækkun.
Ég er ekki á móti virkjunum, en það verður að vera innan skynsamlegra marka og ekki felst í því bjargræði fyrir alla. Einnig er fjárfestingaumhverfi til virkjanna ekki með besta móti og kallar annað hvort á ríkisábyrgðir eða, og jafnvel einnig, háan fjármögnunarkostnað. Sama á við um veiðarnar, þær munu fara fram, en hvorki gefa Íslandi þær viðbótartekjur eða þau viðbótarstörf sem þarf. Um skattamálin, peningastefnuna og fylgifisk hennar, verðtryggingarbölið, ætla ég ekki að fjölyrða í þessum pistli.
Ég horfi hins vegar upp á að sú framtíðarsýn sem felst í auknu samstarfi og samþættingu við okkar helstu nágrannaþjóðir og þær þjóðir sem náð hafa lengst í þróun efnahags-, réttinda- og velferðakerfa, þrátt fyrir núverandi erfiðleika, er undir stöðugri árás meinfýsinna sem bjóða upp á takmarka framtíðarsýn sjálfir, nema ef vera skyldi meira af því sama.
Á meðan hlusta ég á börnin mín gera sínar framtíðaráætlanir og er Ísland ekki lengur hluti af þeim. Þeim hugnast ekki þetta eilífa basl.
Og ég heyri í vinum og kunningjum sem ekki starfa við virkjanir og veiðar, til dæmis við sköpun, og þá einkum nýsköpun, og áætlanir þeirra um framtíðina eru orðnar án Íslands.
Ég hef framtíðarsýn um Ísland sem land efnahagslegs stöðugleika, en jafnframt framþróunar. Land tækifæra, land erlendrar og innlendrar fjárfestingar, land fríverslunar, menntunar og heilbrigðis. Land skynsemi í skattamálum, land þar sem jafnvægi verður milli þess að nýta og njóta náttúrunnar. Land án verðtryggingar.
Land ábyrgðar á alþjóðavettvangi. Land samstarfs og samvinnu.
Land framtíðar kynslóða. Lands vina minna og ættingja, forfeðra, barna og barnabarna.
Ég tel að betur megi uppfylla þessa framtíðarsýn með aðild að ESB
Ég vil því skora á þá sem eru því ósammála að koma fram með heildstæðan annan valkost. Það gæti gefið okkur kost á því að í reynd velja á milli skýrra kosta þegar kemur að þjóðaratkvæðagreiðslu um aðildarsamning.
Kannski myndi líka öll umræðan um framtíð Íslands fá á sig eitthvað jákvæðara yfirbragð.
Því bæri að fagna.