Ég gat ekki varist því að hvá lítið eitt þegar ég sá heilsíðuauglýsingar gærdagsins frá einhverjum sem kalla sig skynsemi punktur is. Ekki er þetta ný jógúrt sem ætlað er að keppa við skyr punktur is, og ekki á þessi félagsskapur neinar rætur að rekja til trabantvinafélagsins “Skynsemin ræður!” sem starfrækt var hér í eina tíð.
Hér er farið fram nokkuð lymskulega með þá áskorun til Alþingis “...að leggja til hliðar aðildarumsókn að Evrópusambandinu”. Hljómar ósköp sakleysislega, svona eins og “Leggðu frá þér blaðið elskan á meðan þú ferð út með ruslið”.
En látið ekki gabbast. Það er ekki punkturinn hjá þessum félagsskap. Þetta er einfaldlega áskorun um að draga aðildarumsóknina til baka – hætta við allt heila klabbið og þannig ræna þjóðina þeim lýðræðislega rétti að fá að tjá afstöðu sína til aðildarsamnings í þjóðaratkvæðagreiðslu.
Rökin fyrir þessari aðför að lýðræðinu (ég get líka verið dramadrottning) kalla á nánari skoðun:
Í fyrsta lagi telur skynsemi punktur is að það séu “breyttar forsendur í Evrópusambandinu”, þ.e. ESB sjálft hafi tekið svo miklum breytingum frá samþykkt aðildarumsóknar að það sé vart þekkjanlegt fyrir sama samband. Einnig að sambandið glími við “...alvarlega skuldakreppu sem ekki sér fyrir endann á og mikil óvissa ríkir um framtíð evrunnar”.
Um þetta er það að segja að erfitt er að henda reiður á hvaða miklu breytingar þetta eru. Kannski það að Eistland hefur tekið upp Evru og að lokið er aðildarsamningi við Króatíu. Eru það tilefni til uppgjafar? Breytingar hafa ennþá littlar orðið, en einhverjar eru boðaðar, eins og t.d. aðlögun sjávarútvegstefnu ESB að þeirri íslensku, sem hlýtur að teljast nokkuð jákvætt.
Vissulega er ESB að eiga við alvarlega skuldakreppu og ekki ástæða til að gera lítið úr henni. Hún er þó einkum bundin við takmarkaðan fjölda aðildarríkja, og er misjöfn að eðli og umfangi eftir því hvaða ríki á í hlut. Eitt af vandamálunum við að vinna að lausnum er jú að þrátt fyrir allt samanstendur sambandið af frjálsum, fullvalda ríkjum sem marsera ekki öll í takt og eru ekki alltaf sammála. Það er nú þvert ofan í allt talið um stórríkið. Stórríkisrökin hins vegar gætu átt við með öflugum spuna ef núverandi skuldakreppa leiðir af sér aukið samstarf og samhæfingu á sviði efnahagsmála þ.a. að stjórn þeirra verði markvissari og ábyrgari í það heila. Væri það ekki ákveðinn kostur?
Höfum í huga að m.v. höfðatölu er ESB í betri skuldastöðu en t.d. bæði Bandaríkin og Japan. Eflaust er einnig skárra að gera ráð fyrir því að þegar að því kemur að greiða atkvæði um aðildarsamning verði búið að leysa yfirstandandi skuldakreppu, eða alltént koma lausnum í góðan farveg. Framtíð Evrunnar er síðan þrátt fyrir bölbænir nokkuð traust. Er útilokað að eitthvert núverandi aðildarríkja gæti hrökklast úr samstarfinu? Nei, en mjög ólíklegt. Líkur á upplausn myntsamstarfsins eru enn frekar hverfandi, enda hafa aðildarríki myntsamstarfsins öll lýst því yfir að þau standi heilshugar að baki því.
Í öðru lagi er vísað til skoðanakannana, sem “...sýna að afgerandi meirihluti landsmanna er andvígur aðild og vill draga umsókn til baka.” Á þessu er nú allur gangur og hafa skoðanakannanir verið á ýmsa lund. Fjarri öllum raunveruleika er hins vegar að tala um afgerandi afstöðu þjóðarinnar á einn veg eða annan, jafnvel þó notaðar séu einungis þær kannanir sem skynsemi punktur is vísar til. Annars vegar er um að ræða Facebook-könnun þar sem hlutföllin voru 53 á móti 47, uppgjafarsinnum í hag, og hins vegar ein Gallupkönnun fyrir Heimssýn þar sem uppgjafarsinnar hlutu 51% stuðning. Nei, þetta er ekki sérlega afgerandi, enda er eina skoðanakönnunin sem skiptir máli sú sem fram fer á kjördag.
Í þriðja lagi er svo vísað til þess að allt sé þetta svo óskaplega dýrt og mikil óvissuferð. (Reyndar hafa andstæðingar aðildarviðræðna líka haldið því fram að enginn ástæða sé til þess að fara í svona leiðangur þar sem allt liggi þegar fyrir – varla verður bæði sleppt og haldið í þessum rökræðum, eða hvað?) “Ferlið sjálft er mjög mannfrekt, kallar á ýmsar breytingar og dreifir þannig kröftum stjórnsýslunnar frá mun brýnni verkefnum”.
Um þetta er það að segja að kostnaðaráætlun liggur þegar fyrir og ætli megi ekki gera ráð fyrir að þegar sé búið að leggja út fyrir allt að helmingi kostnaðarins. Væri því ekki fullkominn sóun að hlaupa frá hálfkláruðu verki og rúmlega það? Ekki er annað að sjá en að stjórnsýslan sé að takast á við þetta verkefni af miklum myndarskap og það án þess nokkur hafi orðið var við umtalsverðar mannaráðningar vegna aðildarumsóknarinnar. Stjórnsýslan, merkilegt nokk, ræður bara nokkuð vel við verkefnið, a.m.k. þeir hlutar hennar sem fá leyfi til þess að sinna því, ásamt því að sinna öðrum verkefnum.
Þegar öllu er á botninn hvolft er því lítil skynsemi í málflutningi þeirra uppgjafarsinna sem standa að baki skynsemi punktur is. Á hópurinn að því leiti það sameiginlegt með trabantvinafélaginu. Þeir héldu jú fram að það væri skynsamlegt að eiga Trabant, m.a. af því að hann var svo eyðslugrannur. Það að bílinn væri óöruggur með afbrigðum og allsherjar umhverfisslys (loft-, hljóð og sjónmengun) á fjórum hjólum leiddu menn hjá sér. Enginn ástæða til að láta smáatriði eins og raunveruleikann trufla sig.
Ég kallaði reyndar í gær eftir framtíðarsýn frá andstæðingum aðildar. Kannski felst hún dulítið í þessari tilvísun nafns félagsskaparins í trabantvinafélag níunda áratugarins. Það er kannski framtíðarsýnin. Áratugurinn fyrir aðild Íslands að EES. Þegar Samband Íslenskra Samvinnufélaga og stórheildsalar í Reykjavík réðu lögum og lofum. Þegar aðgengi í bönkum var háð því hverja þú þekktir og hvaða flokk þú kaust. Hvaða ætt þú tilheyrðir. Já, þegar gjaldeyrishöft voru normið og útvaldir áttu reikninga í útlöndum og almenningur fékk bara að fara þangað stundum. Þegar voru til góðir gæjar og vondir gæjar. Kalt stríð og huggulegheit.
Karlmenn kysstust og það var ekki “gay”.
Bestu kveðjur frá bloggfélaga á eyjunni
SvaraEyðahttp://blog.eyjan.is/vilhjalmurari/2010/04/25/skynsemin-raedur/
Takk fyrir það. Great minds og allt það, eða hvað?
SvaraEyðaMig langar að fá að vita, ekki bara frá þessum "skynseminnar mönnum", heldur líka frá Bjarna Ben og fjósastráknum í Framsóknarflokknum: Hvað vitið þið sem við vitum ekki, og þið viljið fela fyrir okkur? Hví skiptir það svona miklu máli, rétt áður en samningurinn er tilbúinn til kynninga, að þið viljið kippa þessu í burtu?
SvaraEyðaÉg er ekki búinn að gera upp við mig hvað ég muni gera á kjördag. En eitt er víst, að ég get ekki sagt til um það hvort samningurinn sé góður eða slæmur fyrir þjónina, fyrr en ég sé hann!
Hilmar Kári Hallbjörnsson
http://www.vb.is/blog/skodun/65873/
SvaraEyðaGaman að lesa þessar greinar saman. Litlu karlarnir eru mjög uppteknir af að rakka niður ESB!