fimmtudagur, 28. maí 2009

Déjà vu all over again!

Eins og merkur stjórnmálamaður sagði...

...ég get ekki endurtekið annað en ég hef áður sagt!

Þar síðasta ríkisstjórn gladdi okkur í jólamánuðinum með sambærilegum skattahækkunum og verið er að keyra í gegnum þingið í dag. Af því tilefni skrifaði ég pistilinn "Skattahækkanasullumbull".

Þar segir meðal annars:

Hækkun annarra gjalda, óbeinna skatta eins og bensíngjalds, áfengisgjalds o.þ.h. mun að því er virðist skv. athugasemdum við frumvörpin að baki þeirra leiða til aukinna tekna fyrir ríkissjóð upp á u.þ.b. 3,6 milljarða. Alþýðusamband Íslands telur að verlagshækkunaráhrif þessa verði á bilinu 0,4 – 0,5% sem leiði til hækkunar á verðtryggðum skuldbindingum landsmanna upp á 6,7 milljarða, eða álíka mikið og 1% tekjuskattshækkun.

Þeir 6,7 milljarðar renna hins vegar ekki í ríkissjóð heldur til banka og lífeyrissjóða til að bæta þeim verðbótaþáttinn. Heimilin finna hins vegar á endanum jafn mikið fyrir þessu og skattahækkun.

Í árferði sem þessu hefði ríkisstjórnin átt að gera allt annað en að hækka þau gjöld sem fara beint til hækkunar á vísitölu neysluverðs. Nóg er nú samt.

Mun hreinlega hefði verið að hækka tekjuskattinn meira, og já, setja sérstakan hátekjuskatt. Kalla hefði mátt þessar tekjuskattshækkanir kreppuskatt og eðlilegt að hafa á þeim sólarlagsákvæði, t.d. að þær giltu til þriggja ára. Endurnýjun, eða framlenging, þessara sérstöku tekjuskattshækkana myndu þannig þurfa ákvörðun Alþingis.

Tekjuskattshækkun upp á 4 %, kreppuskattur, hefði verið sjálfsagður, og skipta hefði mátt honum til jafns á milli ríkis og sveitarfélaga. Á móti hefði mátt hækka persónuafsláttinn örlítið til að vega á móti áhrifum tekjuskattshækkunarinnar á lægstu launin...

Skattahækkun af þessu tagi hefði verið hreinlegri, einfaldari og gegnsærri en þetta skattahækkanasullumbull...

Allt það sama á við í tilfelli þeirra skattahækkana sem nú standa til. Verðtryggingaráhrifin kostar heimilin a.m.k. helmingi meira en ríkið mun fá í auknar skatttekjur. Það á að vera metnaðarmál að vinna gegn verðbólgu með öllum ráðum og því á að beita skattahækkunum þannig að gegnsæi, skilvirkni og hagræðið sé sem mest. Hækkun tekjuskatts er sú leið, það væri nær að halda sig við hana og ganga hana frekar röskar, en sleppa hjáleiðum.

Evrópufrumkvæði Framsóknarflokksins

Ég viðurkenni fúslega að mér rann kalt vatn milli skinns og hörunds þegar þau tíðindi bárust í gær að væntanleg væri sameiginleg þingsályktunartillaga Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins um aðildarumsókn að ESB. Læddist að sá grunur að nú væri afturhald flokkanna tveggja farið að spyrða sig saman um tafir, málalengingar og útúrsnúninga. Nauðsynlegt væri að hugsa málið, velta vöngum, skoða allar hliðar, undir og yfir og síðan komast niðurstöðu um að taka ákvörðun – seinna!

Að skoða ætti að athuga stefnumörkun um mótun afstöðu til hugsanlegrar ákvörðunar að betur athuguðu máli!

Kemur hins vegar í ljós að sá ótti var ástæðulaus.

Enda hefði slík framsetning þýtt að stjórnarandstaðan hefði orðið ósamkvæm sjálfri sér í ljósi þess að hennar helsta gagnrýni á núverandi ríkisstjórn er að hún þjáist að ákvarðanafælni og í helstu málum sé einungis að boða skoðun á mótun stefnumörkunar.

Með gleraugum hins pólitíska greinanda sem situr yfir hádegissamlokunni sinni og flettir í gegnum fréttir netmiðla er eftirfarandi að gerast:

Í fyrsta lagi setur utanríkisráðherra fram þingsályktunartillögu um aðildarumsókn að ESB sem vitað er að stjórnarandstöðunni þykir full rýr. Þar með er opnað upp á gátt fyrir það að í meðförum þingsins verði tillögunni breytt og hún aðlöguð þannig að um hana skapist breiðari sátt. Ástæða þess er að ekki er lögð fram tillaga sem er meira tilbúin er þá til þess að gefa þinginu, og þá sérstaklega hinum aðildarumsóknarhlynntu þingmönnum stjórnarandstöðunnar ákveðin höfundarrétt í þeirri lokatillögu sem mun koma frá utanríkismálanefnd til seinni umræðu.

Í öðru lagi kemur fram gagntillaga stjórnarandstöðunnar, þar sem fyrsti flutningsmaður er formaður Framsóknarflokksins ber með sér við fyrstu sýn að þar fari tilraun til að tefja málið. En er það svo? Lagt er þar upp með að fram fari markviss vinna við undirbúning aðildarumsóknar og sett verði fram skýr samningsmarkmið. Tímafrestur er settur í allra síðasta lagi í lok ágúst næstkomandi.

Sá tímafrestur er augljóslega eitthvað sem semja má um í meðferð þingsins.

Þannig er mál með vexti að meginhluti þeirrar vinnu til undirbúnings sem lögð er til í tillögu stjórnarandstöðunnar getur öll farið fram á starfstíma sumarþingsins, sérstaklega ef uppi eru hugmyndir um að það starfi til loka júlímánaðar.

Því má auðveldlega sjá fyrir sér að vinnu utanríkismálanefndar í kjölfar fyrstu umræðu um aðildarumsókn að ESB í þinginu í dag verði tillögu ríkisstjórnarinnar og stjórnarandstöðunnar, undir forystu Framsóknarflokksins, felld saman í eina tillögu. Utanríkismálanefnd muni á næstu vikum taka að sér það samráð við hagsmunaaðila sem eðlilegt er að eigi sér stað áður en að aðildarumsókn verður samþykkt í þinginu, og byggt á tillögu stjórnarandstöðunnar verði markaður vegvísir undirbúnings og framkvæmd aðildarviðræðna eftir að aðildarumsókn hefur verið samþykkt í þinginu.

Hafa ber í huga að frá því að Ísland sendir inn aðildarumsókn og þar til eiginlegar viðræður hefjast líða a.m.k. tveir til þrír mánuðir. Eiginlegar samningaviðræður munu þannig að öllum líkindum í fyrsta lagi hefjast í október á þessu ári. Á þeim tíma mun að sjálfsögðu fara fram undirbúningur hér innanlands fyrir sjálfar aðildarviðræðurnar.

Hvað varðar þann tíma sem þarf til að sinna þeim undirbúningi sem kallað er eftir í þingsályktunartillögu stjórnarandstöðunnar þá er einnig rétt að hafa í huga að Framsóknarflokkurinn hefur í reynd lokið öllum þeim undirbúningi sem þar er kallað eftir fyrir sitt leyti. Framsóknarflokkurinn hefur skilgreint samningsmarkið og skilyrði fyrir samþykkt endanlegrar aðildar.

Þar stendur í raun frekar upp á hina flokkana. Sú vinna á vettvangi þingsins á ekki að þurfa að taka mikinn tíma. Hluti hennar getur átt sér stað á starfsíma þingsins í aðdraganda aðildarumsóknar og framhaldið fer fram í kjölfar aðildarumsóknar. Þannig má sjá fyrir sér að hugsanlega í byrjun júlí verði sameinuð þingsályktunartillaga samþykkt og umsókn send inn.

Þingsályktunartillaga stjórnarandstöðunnar ber með sér öll merki forystu og frumkvæðis Framsóknarflokksins fyrir hennar hönd í málinu.

Viðbrögð utanríkisráðherra í þinginu bera með sér að hann fagni því frumkvæði.

Frumkvæði Framsóknarflokksins í þessu máli er þannig að undirbyggja sögulegt tækifæri til þess að á þingi myndist breið samstaða um aðildarumsókn að Evrópusambandinu og hvernig aðildarviðræður verða undirbúnar og framkvæmdar. Í þingsályktunartillögu stjórnarandstöðunnar er það Framsóknarflokkurinn sem í reynd gengur fram fyrir skjöldu í því að vinna með öðrum flokkum á þingi, hvort heldur sem er í stjórn og stjórnarandstöðu, að breiðri sátt og samstöðu um málið. Þetta eru vinnubrögð sem ættu að skapa meira traust og meiri trúverðugleika á aðildarumsóknarferlinu í heild sinni.

Því ber að fagna.

sunnudagur, 24. maí 2009

Hver var kröfuhafinn?

Í ágætri úttekt á pressan.is í fyrradag rakti Ólafur Arnarson það sem í reynd varð tæknilegt gjaldþrot Seðlabanka Íslands á síðasta ári. Gjaldþrot sem bankanum var víst bjargað frá með kaupum ríkisins á verðlausum skuldabréfum sem Seðlabankinn hafði tekið sem veð á móti lánum til íslenskra fjármálastofnanna.

Í frétt á pressan.is í gær er síðan rætt við Jón Steinsson hagfræðing, sem tekur undir flest það sem kemur fram í úttekt Ólafs. Báðir eru þeir á því að hér sé á ferðinni stærsti einstaki skellurinn sem íslenskir skattgreiðendur verða fyrir – það að borga þetta klúður seðlabankans sem ríkið tók yfir með skuldabréfi upp á 270 milljarða til fimm ára á 2,5% verðtryggðum vöxtum.

Stærri skellur en ICESAVE. Tvö- til fimmfalt stærri.

Það sem hins vegar vantar í úttekt Ólafs og ekki er fylgt eftir í frétt pressan.is þegar rætt er við Jón Steinsson er hins vegar að upplýsa hvort hið tæknilega gjaldþrot, og skuldabagginn sem því fylgir, er raunverulegt.

Því hvergi hefur komið fram hver var kröfuhafinn á þessari bókfærðu skuld seðlabankans.

Hvergi kemur fram með hvaða hætti seðlabankinn fékk það fjármagn sem lánað var áfram til íslenskra fjármálastofnanna með veðum í nú verðlausum pappírum.

Ekki er annað að sjá en að þar hafi einfaldlega hinar stafrænu peningaprentvélar bankans verið settar í gang.

Seðlabanki Íslands hafi sem sagt tekið lán hjá sjálfum sér til að lána áfram til fjármálastofnananna.

Seðlabankinn varð þannig vissulega "tæknilega" gjaldþrota, og hvað? Í miðju hruni banka- og fjármálakerfis heillar þjóðar, til hvers var verið að gera stórmál úr sýndarskuld seðlabankans við sjálfan sig? Vegna þess að þá er mikilvægast að virða reglur um tvöfalt bókhald?

Sjálfur er ég hér augljóslega farin að endurtaka sjálfan mig, samanber pistil frá því í síðustu viku, en hagsmunirnir eru þess eðlis að það er vert að vekja á því máls aftur og aftur, að minnsta kosti þar einhver sýnir fram á annað, að ríkið skuldar sjálfu sér þessa peninga.

Og er í lófa lagið að afskrifa skuldina.



sunnudagur, 17. maí 2009

Ríkið á ekki að borga vexti

Það varð óvænt ánægja í síðustu viku þegar opnuð voru tilboð í ríkisvíxla. Ávöxtunarkrafa fjármagnseigenda sem vildu kaupa ríkisvíxla hafði minnkað um helming frá því mánuðinn á undan og fór niður í 5,74% meðaltalsvexti.

Þetta á ekki að koma á óvart. Fjármálakerfið er hrunið og atvinnulífið er í rúst. Eini "öruggi" fjárfestingarkosturinn á Íslandi eru ríkisbréf.

Og í núverandi ástandi sætir í raun furðu að ríkið sé að borga vexti yfirhöfuð. Það ætti að vera fullgott fyrir fjármagnseigendur á Íslandi á þessum síðustu og verstu tímum að geta fengið "örugga" geymslu fyrir sitt fé. Það er engin ástæða til þess að greiða rentu að auki.

Ef fjármagnseigendur vilja rentu, þá er þeim í lófa lagið að fjárfesta í íslensku atvinnulífi. Hjálpa til við að koma hagkerfinu aftur í gang, í stað þess að sitja og fitna eins og púkinn á fjósbitanum, allt í boði ríkisins og okkar skattborgaranna.

Fjármagn á Íslandi hefur enga útgönguleið. Það eru gjaldeyrishöft.

Það eru flestir, nema fulltrúi Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, á því að lækka verði vexti verulega. Við er að búast að Seðlabankinn muni stíga stórt skref í næsta mánuði þeim efnum. Hins vegar á Seðlabankinn, ríkið og bankarnir að stíga ennþá stærra skref hvað varðar innlánsvexti og lækka þá niður í núll. Það yrði ekki gegn skilyrðum AGS.

Peningaeigendur hafa hingað til fengið besta dílinn í efnahagshruninu – og halda áfram að vera á sérdíl.

Mál er að linni og þeir leggi sitt til eins og aðrir.

Núllvextir, eða svo til, allra innlána næstu mánuði er ekki nema sjálfsagt mál. Það er meira enn nóg að innistæður þeirra séu tryggðar.

Ríkið skuldar sjálfu sér

Skýrsla fjármálaráðuneytisins um þjóðarbúskapinn er athyglisverð lesning. Þar kemur meðal annars fram að heildarskuldir ríkissjóðs á þessu ári eru áætlaðar 1485 milljarðar króna, eða tæp 103% af vergri landsframleiðslu.

Hluti af þessum 1485 milljörðum er 307,3 milljarða skuld ríkissjóðs við Seðlabanka Íslands, en um áramótin keypti ríkissjóður með skuldabréfi verðlaus skuldabréf smærri lánastofnanna sem Seðlabankinn hafði tekið sem andlag í endurhverfum viðskiptum við viðkomandi stofnanir. Sagt var frá þessum gerningi í fréttatilkynningu fjármálaráðuneytisins frá 12. janúar síðastliðinn.

Í allt voru þetta kröfur upp á 345 milljarða sem framseldar voru ríkissjóði gegn skuldabréfi til fimm ára að upphæð 270 milljarðar, verðtryggt með 2,5% vöxtum.

Væntanlega kúlulán, þ.a. að lánið ásamt verðbótum og vöxtum greiðist í einu lagi að fimm árum liðnum.

Nema ákveðið verði að afskrifa þessa skuld.

Sem mönnum ætti að vera í lófa lagið þar sem ríkissjóður og Seðlabankinn eru í sjálfu sér sitthvor hliðin á sama peningnum.

Skuldabréfaútgáfan var í reynd ekkert annað en bókhaldsfiff. Ef ríkið hefði ekki keypt "skuldirnar" að Seðlabankanum, hefði Seðlabankinn setið uppi með "tap" á bókunum sem hefði gert hann tæknilega gjaldþrota.

En er þetta tap raunverulegt?

Ríkið skuldar Seðlabankanum, sem er í eigu ríkisins. Ríkið skuldar þ.a.l. sjálfu sér þessa peninga.

Og er í lófa lagið að afskrifa skuldina.

Tæknilega myndi það flokkast undir peningaprentun, en hvað er að því? Þessi peningur er kominn og farinn út úr kerfinu. Afskrift þessarar skuldar hefði engin áhrif á hvorki krónu né gengi, nema ef vera kynni jákvæð þar sem skuldastaða ríkissjóðs myndi batna strax um rúm tuttugu prósent og einnig drægi úr bókfærðum vaxtakostnaði, sem aftur drægi úr niðurskurðar- og sköttunarþörf.

Í þessu ljósi er auk þess athyglisvert að velta því fyrir sér að peningaprentun virðist af markaði álitin ásættanleg þegar markaðurinn sjálfur stendur fyrir henni, svo sem í gegnum hlutabréfa- og fasteignaverðbólur, en meira um það síðar.

föstudagur, 15. maí 2009

Sykurskattpíning

Jæja, þá er fyrsta atrenna í aukinni skattpíningu almennings orðin opinber. Sykurskattur var það heillin undir merkjum lýðheilsu hvorki meira né minna. Bjarga á hálfum milljarði í auknum skatttekjum í ríkissjóð undir því yfirskyni að þannig megi bæta tannheilsu barna.

Tannheilsa íslenskra barna er sögð allt að tvöfalt verri en í börnum annarsstaðar á Norðurlöndunum samkvæmt könnun Lýðheilsustofnunnar sem vísað er til.

Samt er það svo, þegar rýnt er í þessa könnun að þrátt fyrir síðvaxandi gos og safadrykkju á undanförnum 20 árum að þá blasir við að náðst hefur undraverður árangur í umbótum á tannheilsu barna. Hlutfall 12 ára barna með heilar (óskemmdar) fullorðinstennur hefur t.d. aukist úr 4% í 34% frá 1986 til 2005 samkvæmt upplýsingum í þessari sömu könnun.

Að vísu var sú aukning ennþá meiri frá 1986 til 1996, eða úr 4% í 48%, þ.a. frá 1996 hefur eitthvað af þeim árangri sem náðst hafði gengið til baka.

Stóra vandamálið samkvæmt könnuninni er eftirfarandi:

Tíðni tannskemmda fer vaxandi og áhyggjuefni hversu algengt það er að ekki er gert við tannskemmdir. Um 17% barna og ungmenna (4-18 ára) mæta ekki í reglubundið eftirlit hjá tannlækni. Fæst börn koma til tannlæknis á Vestfjörðum – flest í Skagafirði.

TR greiðir umtalsvert minna vegna forvarna í tannheilbrigðismálum barna nú en árið 1998.

En einnig kemur fram að beitt er nýjum greiningaraðferðum í nýrri könnun, en í "MUNNÍS rannsókninni var notuð ný sjónræn greiningaraðferð, sem sameinar nýjar viðurkenndar greiningaraðferðir á tannskemmdum í heildstætt kerfi (International Caries Detection & Assessment System - ICDAS)." Betri greining þýðir væntanlega að fleiri skemmdir finnast sem áður voru ógreindar þ.a. ekki þarf að vera að dregið hafi úr árangri jafn mikið og ætla mætti við fyrstu sýn.

Megin munurinn hins vegar á tannheilsumálum barna 1996 og fyrr og 2005 eru eftirfarandi staðreyndir:

  • Skólatannlækningar voru við lýði og voru nokkurs konar öryggisnet fyrir þá hópa sem ekki sóttu reglubundna tannlæknaþjónustu á einkareknar stofur.
  • Greiðslur almannatrygginga greiddu nær alfarið kostnað við grunnþjónustu barna og unglinga, þ.m.t. skoðun, forvarnir og nauðsynlega tannfyllimeðferð.

Þ.a. þrátt fyrir að því sé haldið fram að sykurneysla hafi stóraukist, sérstaklega neysla gosdrykkja og sykursafa, hefur tannheilsa barna stórbatnað. Úr árangri hefur dregið að því er virðist fyrst og fremst vegna þess að skólatannlækningum var hætt og dregið hefur verulega úr kostnaðarþátttöku ríkisins í tannlækningum barna.

Sykurskattur gerir ekkert til að leysa þann vanda.

Þvert á móti er reynslan af sértækum neyslustýringarsköttum sem þessum sú að þeir virka ekki.

Sykurskattur mun ekki draga úr sykurneyslu.

Hann mun fyrst og fremst hækka vöruverð, auka verðbólgu og draga úr ráðstöfunartekjum.

Þannig að minni peningur verður afgangs til að borga tannlæknareikninginn.

Sem dregur úr líkum á því að farið verði til tannlæknis.

Sem mun leiða til verri tannheilsu barna.

Sykurskattur mun þannig hvorki verða til þess að bæta tannheilsu né til að draga úr sykuráti.

Og stóri munurinn á okkur og hinum Norðurlöndunum verður eftir sem áður sú staðreynd að þar eru tannlækningar hluti af almenna heilbrigðiskerfinu a.m.k. hvað börnin varðar og án endurgjalds.