Ég viðurkenni fúslega að mér rann kalt vatn milli skinns og hörunds þegar þau tíðindi bárust í gær að væntanleg væri sameiginleg þingsályktunartillaga Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins um aðildarumsókn að ESB. Læddist að sá grunur að nú væri afturhald flokkanna tveggja farið að spyrða sig saman um tafir, málalengingar og útúrsnúninga. Nauðsynlegt væri að hugsa málið, velta vöngum, skoða allar hliðar, undir og yfir og síðan komast niðurstöðu um að taka ákvörðun – seinna!
Að skoða ætti að athuga stefnumörkun um mótun afstöðu til hugsanlegrar ákvörðunar að betur athuguðu máli!
Kemur hins vegar í ljós að sá ótti var ástæðulaus.
Enda hefði slík framsetning þýtt að stjórnarandstaðan hefði orðið ósamkvæm sjálfri sér í ljósi þess að hennar helsta gagnrýni á núverandi ríkisstjórn er að hún þjáist að ákvarðanafælni og í helstu málum sé einungis að boða skoðun á mótun stefnumörkunar.
Með gleraugum hins pólitíska greinanda sem situr yfir hádegissamlokunni sinni og flettir í gegnum fréttir netmiðla er eftirfarandi að gerast:
Í fyrsta lagi setur utanríkisráðherra fram þingsályktunartillögu um aðildarumsókn að ESB sem vitað er að stjórnarandstöðunni þykir full rýr. Þar með er opnað upp á gátt fyrir það að í meðförum þingsins verði tillögunni breytt og hún aðlöguð þannig að um hana skapist breiðari sátt. Ástæða þess er að ekki er lögð fram tillaga sem er meira tilbúin er þá til þess að gefa þinginu, og þá sérstaklega hinum aðildarumsóknarhlynntu þingmönnum stjórnarandstöðunnar ákveðin höfundarrétt í þeirri lokatillögu sem mun koma frá utanríkismálanefnd til seinni umræðu.
Í öðru lagi kemur fram gagntillaga stjórnarandstöðunnar, þar sem fyrsti flutningsmaður er formaður Framsóknarflokksins ber með sér við fyrstu sýn að þar fari tilraun til að tefja málið. En er það svo? Lagt er þar upp með að fram fari markviss vinna við undirbúning aðildarumsóknar og sett verði fram skýr samningsmarkmið. Tímafrestur er settur í allra síðasta lagi í lok ágúst næstkomandi.
Sá tímafrestur er augljóslega eitthvað sem semja má um í meðferð þingsins.
Þannig er mál með vexti að meginhluti þeirrar vinnu til undirbúnings sem lögð er til í tillögu stjórnarandstöðunnar getur öll farið fram á starfstíma sumarþingsins, sérstaklega ef uppi eru hugmyndir um að það starfi til loka júlímánaðar.
Því má auðveldlega sjá fyrir sér að vinnu utanríkismálanefndar í kjölfar fyrstu umræðu um aðildarumsókn að ESB í þinginu í dag verði tillögu ríkisstjórnarinnar og stjórnarandstöðunnar, undir forystu Framsóknarflokksins, felld saman í eina tillögu. Utanríkismálanefnd muni á næstu vikum taka að sér það samráð við hagsmunaaðila sem eðlilegt er að eigi sér stað áður en að aðildarumsókn verður samþykkt í þinginu, og byggt á tillögu stjórnarandstöðunnar verði markaður vegvísir undirbúnings og framkvæmd aðildarviðræðna eftir að aðildarumsókn hefur verið samþykkt í þinginu.
Hafa ber í huga að frá því að Ísland sendir inn aðildarumsókn og þar til eiginlegar viðræður hefjast líða a.m.k. tveir til þrír mánuðir. Eiginlegar samningaviðræður munu þannig að öllum líkindum í fyrsta lagi hefjast í október á þessu ári. Á þeim tíma mun að sjálfsögðu fara fram undirbúningur hér innanlands fyrir sjálfar aðildarviðræðurnar.
Hvað varðar þann tíma sem þarf til að sinna þeim undirbúningi sem kallað er eftir í þingsályktunartillögu stjórnarandstöðunnar þá er einnig rétt að hafa í huga að Framsóknarflokkurinn hefur í reynd lokið öllum þeim undirbúningi sem þar er kallað eftir fyrir sitt leyti. Framsóknarflokkurinn hefur skilgreint samningsmarkið og skilyrði fyrir samþykkt endanlegrar aðildar.
Þar stendur í raun frekar upp á hina flokkana. Sú vinna á vettvangi þingsins á ekki að þurfa að taka mikinn tíma. Hluti hennar getur átt sér stað á starfsíma þingsins í aðdraganda aðildarumsóknar og framhaldið fer fram í kjölfar aðildarumsóknar. Þannig má sjá fyrir sér að hugsanlega í byrjun júlí verði sameinuð þingsályktunartillaga samþykkt og umsókn send inn.
Þingsályktunartillaga stjórnarandstöðunnar ber með sér öll merki forystu og frumkvæðis Framsóknarflokksins fyrir hennar hönd í málinu.
Viðbrögð utanríkisráðherra í þinginu bera með sér að hann fagni því frumkvæði.
Frumkvæði Framsóknarflokksins í þessu máli er þannig að undirbyggja sögulegt tækifæri til þess að á þingi myndist breið samstaða um aðildarumsókn að Evrópusambandinu og hvernig aðildarviðræður verða undirbúnar og framkvæmdar. Í þingsályktunartillögu stjórnarandstöðunnar er það Framsóknarflokkurinn sem í reynd gengur fram fyrir skjöldu í því að vinna með öðrum flokkum á þingi, hvort heldur sem er í stjórn og stjórnarandstöðu, að breiðri sátt og samstöðu um málið. Þetta eru vinnubrögð sem ættu að skapa meira traust og meiri trúverðugleika á aðildarumsóknarferlinu í heild sinni.
Því ber að fagna.