laugardagur, 13. desember 2008

Skattahækkanasullumbull...

Í ljósi fjármálakreppunnar og bankahrunsins voru skattahækkanir óumflýjanlegar. Því miður þykir mér útspil stjórnvalda ekki nógu gott.

 Tekjuskattur er einungis hækkaður um 1% og áætlað að það skili ríkissjóði um 7 milljörðum í viðbótartekjur.

 Hækkun annarra gjalda, óbeinna skatta eins og bensíngjalds, áfengisgjalds o.þ.h. mun að því er virðist skv. athugasemdum við frumvörpin að baki þeirra leiða til aukinna tekna fyrir ríkissjóð upp á u.þ.b. 3,6 milljarða. Alþýðusamband Íslands telur að verlagshækkunaráhrif þessa verði á bilinu 0,4 – 0,5% sem leiði til hækkunar á verðtryggðum skuldbindingum landsmanna upp á 6,7 milljarða, eða álíka mikið og 1% tekjuskattshækkun.

 Þeir 6,7 milljarðar renna hins vegar ekki í ríkissjóð heldur til banka og lífeyrissjóða til að bæta þeim verðbótaþáttinn. Heimilin finna hins vegar á endanum jafn mikið fyrir þessu og skattahækkun.

 Í árferði sem þessu hefði ríkisstjórnin átt að gera allt annað en að hækka þau gjöld sem fara beint til hækkunar á vísitölu neysluverðs. Nóg er nú samt.

 Mun hreinlega hefði verið að hækka tekjuskattinn meira, og já, setja sérstakan hátekjuskatt. Kalla hefði mátt þessar tekjuskattshækkanir kreppuskatt og eðlilegt að hafa á þeim sólarlagsákvæði, t.d. að þær giltu til þriggja ára. Endurnýjun, eða framlenging, þessara sérstöku tekjuskattshækkana myndu þannig þurfa ákvörðun Alþingis.

 Tekjuskattshækkun upp á 4 %, kreppuskattur, hefði verið sjálfsagður, og skipta hefði mátt honum til jafns á milli ríkis og sveitarfélaga. Á móti hefði mátt hækka persónuafsláttinn örlítið til að vega á móti áhrifum tekjuskattshækkunarinnar á lægstu launin.

 Viðbótar tímabundinn hátekjuskattur upp á 5% á öll laun hærri en t.d. eina milljón á mánuði, jafnvel þó hún væri meira og minna táknræn, væri vel viðeigandi og myndi t.d. gera sérstök lög um launalækkun æðstu embættismanna óþörf – og Forseti lýðveldisins yrði þátttakandi í að greiða kreppureikninginn til jafns við aðra.

Skattahækkun af þessu tagi hefði verið hreinlegri, einfaldari og gegnsærri en þetta skattahækkanasullumbull sem framkvæmt var með ofurhraða og afbrigðum í “nattens mulm og mörke” undir lok vikunnar. Umræður á þingi í skötulíki og lítið um skapandi hugsun.

6 ummæli:

 1. Sammála þér!
  Elísabet

  SvaraEyða
 2. Tek undir að hækkun tekjuskatts var nauðsynleg. Er samt á því að heppilegt sé að hækka skatta á aðföng á borð við bensín og brennivín. Heppilegt þar sem þeir sem höllustum fæti standa geta að mestu skotið sér undan slíkum sköttum. Hækkun neysluverðsvísitölu er minniháttar eftirköst af slíku. Reyndar virðist því miður margt benda til að verðlagshækkanir taki skjótan enda á nýju ári og erfiðara vandamál taki við - verðhjöðnun.

  SvaraEyða
 3. Alveg sammála þessu.
  Það er reyndar alveg FÁRÁNLEGT að skattheimta eins og hækkun áfengisgjalds leiði til þess að lánin á húsnæðinu þínu hækki.
  Sérstaklega með tilliti til þess að vísitalan ætti að vera tól til að mæla verðbólguhraða sem ætti að vera m.a. eitthvað fall af peningamagni í umferð það sem aukin skattheimta gerir er að minnka peningamagn í umferð þ.e. það slær á þenslu með því að takmarka eyðslufé almennings.
  Þess vegna ætti þetta bara alls ekki að vera inni í vísitölunni.
  Enn og aftur kemur í ljós heimska íslenskra stjórnmálamanna og að því er virðist takmörkuð þekking á hag- og viðskiptafræði.
  Íslenskir stjórnmálamenn eru aumingjar, því miður.

  OG JÁ SIGHVATUR BJÖRGVINS Þó að illa hafi verið talað um þig þá á það ekki síður við fólkið sem klúðraði öllu núna.

  SvaraEyða
 4. Launalækkanir, fjöldauppsagnir og minnkun yfirvinnu um leið og verðtryggðar skuldir fólks hækka í himinhæðir, þá viljið þið hækka skattbyrði fólks. Ég átta mig ekki á því hvernig nokkur venjulegur launamaður stendur undir þessu, kemur ekki til með að gera það að óbreyttu ástandi. Tekjuskattur uppá 40% eða meir eykur á fólksflótta og skattsvik þar sem því verður við komið, því ansi er nú hræddur um að hver reyni að bjarga sér sem að hann betur getur. Samfélagsleg hugsun er nú ekki það sem er efst á baugi hjá fólki

  SvaraEyða

Ath: Aðeins meðlimir bloggsins geta birt ummæli.