fimmtudagur, 28. maí 2009

Evrópufrumkvæði Framsóknarflokksins

Ég viðurkenni fúslega að mér rann kalt vatn milli skinns og hörunds þegar þau tíðindi bárust í gær að væntanleg væri sameiginleg þingsályktunartillaga Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins um aðildarumsókn að ESB. Læddist að sá grunur að nú væri afturhald flokkanna tveggja farið að spyrða sig saman um tafir, málalengingar og útúrsnúninga. Nauðsynlegt væri að hugsa málið, velta vöngum, skoða allar hliðar, undir og yfir og síðan komast niðurstöðu um að taka ákvörðun – seinna!

Að skoða ætti að athuga stefnumörkun um mótun afstöðu til hugsanlegrar ákvörðunar að betur athuguðu máli!

Kemur hins vegar í ljós að sá ótti var ástæðulaus.

Enda hefði slík framsetning þýtt að stjórnarandstaðan hefði orðið ósamkvæm sjálfri sér í ljósi þess að hennar helsta gagnrýni á núverandi ríkisstjórn er að hún þjáist að ákvarðanafælni og í helstu málum sé einungis að boða skoðun á mótun stefnumörkunar.

Með gleraugum hins pólitíska greinanda sem situr yfir hádegissamlokunni sinni og flettir í gegnum fréttir netmiðla er eftirfarandi að gerast:

Í fyrsta lagi setur utanríkisráðherra fram þingsályktunartillögu um aðildarumsókn að ESB sem vitað er að stjórnarandstöðunni þykir full rýr. Þar með er opnað upp á gátt fyrir það að í meðförum þingsins verði tillögunni breytt og hún aðlöguð þannig að um hana skapist breiðari sátt. Ástæða þess er að ekki er lögð fram tillaga sem er meira tilbúin er þá til þess að gefa þinginu, og þá sérstaklega hinum aðildarumsóknarhlynntu þingmönnum stjórnarandstöðunnar ákveðin höfundarrétt í þeirri lokatillögu sem mun koma frá utanríkismálanefnd til seinni umræðu.

Í öðru lagi kemur fram gagntillaga stjórnarandstöðunnar, þar sem fyrsti flutningsmaður er formaður Framsóknarflokksins ber með sér við fyrstu sýn að þar fari tilraun til að tefja málið. En er það svo? Lagt er þar upp með að fram fari markviss vinna við undirbúning aðildarumsóknar og sett verði fram skýr samningsmarkmið. Tímafrestur er settur í allra síðasta lagi í lok ágúst næstkomandi.

Sá tímafrestur er augljóslega eitthvað sem semja má um í meðferð þingsins.

Þannig er mál með vexti að meginhluti þeirrar vinnu til undirbúnings sem lögð er til í tillögu stjórnarandstöðunnar getur öll farið fram á starfstíma sumarþingsins, sérstaklega ef uppi eru hugmyndir um að það starfi til loka júlímánaðar.

Því má auðveldlega sjá fyrir sér að vinnu utanríkismálanefndar í kjölfar fyrstu umræðu um aðildarumsókn að ESB í þinginu í dag verði tillögu ríkisstjórnarinnar og stjórnarandstöðunnar, undir forystu Framsóknarflokksins, felld saman í eina tillögu. Utanríkismálanefnd muni á næstu vikum taka að sér það samráð við hagsmunaaðila sem eðlilegt er að eigi sér stað áður en að aðildarumsókn verður samþykkt í þinginu, og byggt á tillögu stjórnarandstöðunnar verði markaður vegvísir undirbúnings og framkvæmd aðildarviðræðna eftir að aðildarumsókn hefur verið samþykkt í þinginu.

Hafa ber í huga að frá því að Ísland sendir inn aðildarumsókn og þar til eiginlegar viðræður hefjast líða a.m.k. tveir til þrír mánuðir. Eiginlegar samningaviðræður munu þannig að öllum líkindum í fyrsta lagi hefjast í október á þessu ári. Á þeim tíma mun að sjálfsögðu fara fram undirbúningur hér innanlands fyrir sjálfar aðildarviðræðurnar.

Hvað varðar þann tíma sem þarf til að sinna þeim undirbúningi sem kallað er eftir í þingsályktunartillögu stjórnarandstöðunnar þá er einnig rétt að hafa í huga að Framsóknarflokkurinn hefur í reynd lokið öllum þeim undirbúningi sem þar er kallað eftir fyrir sitt leyti. Framsóknarflokkurinn hefur skilgreint samningsmarkið og skilyrði fyrir samþykkt endanlegrar aðildar.

Þar stendur í raun frekar upp á hina flokkana. Sú vinna á vettvangi þingsins á ekki að þurfa að taka mikinn tíma. Hluti hennar getur átt sér stað á starfsíma þingsins í aðdraganda aðildarumsóknar og framhaldið fer fram í kjölfar aðildarumsóknar. Þannig má sjá fyrir sér að hugsanlega í byrjun júlí verði sameinuð þingsályktunartillaga samþykkt og umsókn send inn.

Þingsályktunartillaga stjórnarandstöðunnar ber með sér öll merki forystu og frumkvæðis Framsóknarflokksins fyrir hennar hönd í málinu.

Viðbrögð utanríkisráðherra í þinginu bera með sér að hann fagni því frumkvæði.

Frumkvæði Framsóknarflokksins í þessu máli er þannig að undirbyggja sögulegt tækifæri til þess að á þingi myndist breið samstaða um aðildarumsókn að Evrópusambandinu og hvernig aðildarviðræður verða undirbúnar og framkvæmdar. Í þingsályktunartillögu stjórnarandstöðunnar er það Framsóknarflokkurinn sem í reynd gengur fram fyrir skjöldu í því að vinna með öðrum flokkum á þingi, hvort heldur sem er í stjórn og stjórnarandstöðu, að breiðri sátt og samstöðu um málið. Þetta eru vinnubrögð sem ættu að skapa meira traust og meiri trúverðugleika á aðildarumsóknarferlinu í heild sinni.

Því ber að fagna.

5 ummæli:

  1. Miðað við það sem þú ert búinn að skrifa áður þá er þessi pési þinn hræsnsi og þú sjálfur hræsnari.

    SvaraEyða
  2. Ef ekki er hægt að sameina þessar tvær tillögur í eina er þingið alveg óstarfhæft því ekki liggja þær langt frá hvorri annarri.

    SvaraEyða
  3. Kristján E.Guðmundsson28. maí 2009 kl. 13:29

    Ekki get ég verið sammála þessari niðurstöðu þinnni um tillögu Framsóknar og Sjálstæðisflokks. Hún ber með sér öll einkenni þess að enn og aftur eigi að tefja málið. Þar er ekki gert ráð fyrir að sótt sé um aðild að ESB heldur að fara skuli í vinnu til að meta "hvort og á hvaða forsendum" sótt skuli um aðild !! Þrátt fyrir að báðir þessir flokkar hafi lagt í mikla vinnu til meta það og Framsóknarflokkurinn samþykkt að sótt skuli um aðild að ESB. Málflutningur formanns Framsóknarflokksins á þingi í morgun var honum svo sannarlega ekki til sóma. Hann virtist ekki þekkja grundvallaratiði í sjórnskipan landsins og hélt að Samfylgingin ein og sér ætti að semja við ESB !!! Allur hans málflutningur var tómt rugl og talaði hann eins og hann væri staddur á málfundi í Grunnskóla.
    Að sjálfsögðu er það verkefni utanríkismálanefndar að leita álits aðila í þjóðfélaginu og leggja svo málið fyrir þingið til annarar umræðu. Í meðförum þingsins verður eflaust hægt að samræma hin ýmsu sjónarmið. Ég veit satt að segja ekki hver er tilgangur þessarar tillögugerðar Framsóknar og Sjálfstæðisflokks annar en að tefja málið.

    SvaraEyða
  4. Nafnlaus: Á!

    Héðinn: Sammála. Sjálfur myndi ég treysta mér til að samskrifa þessar tvær tillögur í eina yfir helgina...

    Kristján: Skil þitt sjónarmið, en ég kýs að túlka þetta á hinn veginn - gagntillaga sem innan utanríkismálanefndar verði hægt að semja til góðrar sáttar, þ.e.a.s. ef menn yfirhöfuð meina eitthvað með því að vilja ná góðri sátt og breiðri samstöðu um málið. Greinilega tekur utanríkisráðherra því þannig og ef eitthvað virtust hæstvirtir fulltrúar stjórnarandstöðunnar kannski helst til ráðvilltir vegna jákvæðra undirtekta ráðherrans. Efnislega er stjórnarandtöðutillagan með marga góða punkta, þó tímaplanið sé hins vegar eitthvað sem færa þarf fram. Auðvitað á að klára málið á sumarþinginu, markmiðin, skilyrðin, vegvísin, ráðfæringar milli framkvæmdavalds og löggjafarvalds á meðan að viðræðum stendur o.s.frv. - og líka að ganga frá heimild til aðildarumsóknar.
    Hvað varðar stjórnskipunina að þá er það jú svo, þar sem ríkisstjórn Íslands er ekki fjölskipað stjórnvald, að ef ekki er skilgreint í þingsályktunartillögunni hvort og með hvaða hætti samráð á að vera á milli framkvæmdavaldsins og löggjafarvaldsins í umsóknarferlinu, og þá í þessu tilviki milli utanríkisráðherra, sem fer með Evrópumálin, að þá þýddi blanko heimild til aðildarumsóknar það að utanríkisráðherra myndi senda inn aðildarumsókn og þyrfti í raun ekki að tala aftur við þingið fyrr en drög að aðildarsamningi lægi fyrir. Á því hefur engin áhuga og því er nauðsynlegt að í hinni endanlegu þingsályktunartillögu sé það skýrt skilgreint með hvaða hætti samráð og upplýsingagjöf fer fram milli framkvæmdavaldsins og löggjafarvaldsins, þá líklegast utanríkismálanefndar, á meðan að aðildarviðræðum stendur. Það getur ekki talist fullnægjandi, eins og stendur í núverandi tillögu ríkisstjórnarinnar að "Stefnt er að því að Alþingi setji á fót sérstaka Evrópunefnd Alþingis með fulltrúum allra stjórnmálaflokka er fari með samskipti við viðræðunefnd vegna ESB." Þetta verður að veta skýrar. Nefndina verður að skipa strax, eða fela einfaldlega utanríkismálanefnd þetta hlutverk, og setja fram ákveðið að samninganefndin upplýsi utanríkismálanefnd reglulega um stöðu mála í viðræðunum og eigi sjaldnar en einu sinni í mánuði, til dæmis.

    SvaraEyða
  5. Þessi vinnubrögð undir stjórn Sigmundar Davíðs og Framsóknarflokksins sýnir okkur að þar á bæ er verið að vinna á þverfaglegan hátt, leita leiða til sátta og finna lausnir en liggja ekki í skotgröfum.Framsókn hefur nú frá því í janúar að skipt var um í forystu flokksins sýnt ný vinnubrögð og ábyrgð sb. leiðir við lausn efnahagsvandans en því miður vill stjórnin ekki horfa á leiðréttingarleiðina - og er það vegna þess að hún var ekki "fundi upp" þar á bæ. Til hamingju með þessa tillögu -nú getum við unnið að tillögum um aðildarviðræður við ESB á mun breiðari grunni innan þings og því í meiri sátt meðal þjóðarinnar. Ekki veitir af!

    SvaraEyða

Ath: Aðeins meðlimir bloggsins geta birt ummæli.