föstudagur, 15. maí 2009

Sykurskattpíning

Jæja, þá er fyrsta atrenna í aukinni skattpíningu almennings orðin opinber. Sykurskattur var það heillin undir merkjum lýðheilsu hvorki meira né minna. Bjarga á hálfum milljarði í auknum skatttekjum í ríkissjóð undir því yfirskyni að þannig megi bæta tannheilsu barna.

Tannheilsa íslenskra barna er sögð allt að tvöfalt verri en í börnum annarsstaðar á Norðurlöndunum samkvæmt könnun Lýðheilsustofnunnar sem vísað er til.

Samt er það svo, þegar rýnt er í þessa könnun að þrátt fyrir síðvaxandi gos og safadrykkju á undanförnum 20 árum að þá blasir við að náðst hefur undraverður árangur í umbótum á tannheilsu barna. Hlutfall 12 ára barna með heilar (óskemmdar) fullorðinstennur hefur t.d. aukist úr 4% í 34% frá 1986 til 2005 samkvæmt upplýsingum í þessari sömu könnun.

Að vísu var sú aukning ennþá meiri frá 1986 til 1996, eða úr 4% í 48%, þ.a. frá 1996 hefur eitthvað af þeim árangri sem náðst hafði gengið til baka.

Stóra vandamálið samkvæmt könnuninni er eftirfarandi:

Tíðni tannskemmda fer vaxandi og áhyggjuefni hversu algengt það er að ekki er gert við tannskemmdir. Um 17% barna og ungmenna (4-18 ára) mæta ekki í reglubundið eftirlit hjá tannlækni. Fæst börn koma til tannlæknis á Vestfjörðum – flest í Skagafirði.

TR greiðir umtalsvert minna vegna forvarna í tannheilbrigðismálum barna nú en árið 1998.

En einnig kemur fram að beitt er nýjum greiningaraðferðum í nýrri könnun, en í "MUNNÍS rannsókninni var notuð ný sjónræn greiningaraðferð, sem sameinar nýjar viðurkenndar greiningaraðferðir á tannskemmdum í heildstætt kerfi (International Caries Detection & Assessment System - ICDAS)." Betri greining þýðir væntanlega að fleiri skemmdir finnast sem áður voru ógreindar þ.a. ekki þarf að vera að dregið hafi úr árangri jafn mikið og ætla mætti við fyrstu sýn.

Megin munurinn hins vegar á tannheilsumálum barna 1996 og fyrr og 2005 eru eftirfarandi staðreyndir:

  • Skólatannlækningar voru við lýði og voru nokkurs konar öryggisnet fyrir þá hópa sem ekki sóttu reglubundna tannlæknaþjónustu á einkareknar stofur.
  • Greiðslur almannatrygginga greiddu nær alfarið kostnað við grunnþjónustu barna og unglinga, þ.m.t. skoðun, forvarnir og nauðsynlega tannfyllimeðferð.

Þ.a. þrátt fyrir að því sé haldið fram að sykurneysla hafi stóraukist, sérstaklega neysla gosdrykkja og sykursafa, hefur tannheilsa barna stórbatnað. Úr árangri hefur dregið að því er virðist fyrst og fremst vegna þess að skólatannlækningum var hætt og dregið hefur verulega úr kostnaðarþátttöku ríkisins í tannlækningum barna.

Sykurskattur gerir ekkert til að leysa þann vanda.

Þvert á móti er reynslan af sértækum neyslustýringarsköttum sem þessum sú að þeir virka ekki.

Sykurskattur mun ekki draga úr sykurneyslu.

Hann mun fyrst og fremst hækka vöruverð, auka verðbólgu og draga úr ráðstöfunartekjum.

Þannig að minni peningur verður afgangs til að borga tannlæknareikninginn.

Sem dregur úr líkum á því að farið verði til tannlæknis.

Sem mun leiða til verri tannheilsu barna.

Sykurskattur mun þannig hvorki verða til þess að bæta tannheilsu né til að draga úr sykuráti.

Og stóri munurinn á okkur og hinum Norðurlöndunum verður eftir sem áður sú staðreynd að þar eru tannlækningar hluti af almenna heilbrigðiskerfinu a.m.k. hvað börnin varðar og án endurgjalds.

6 ummæli:

  1. Þú hefur lög að mæla. Það er samt eitt sem virðist gleymast í umræðunni. Sykur er ekki aðalástæða þess að tennur barnanna skemmast, heldur er það sýrustig í drykkjum.
    Mig rámar í rannsókn þar sem kom í ljós að sítrónutoppur/kristall hefði verst áhrif á tennur vegna sýrustigs sem kom til vegna rotvarnarefnis...
    Bakari og smiður, aftur á móti er bakarinn stór þáttur í offituvandamálinu sem er allt annað mál.
    Og eins og alltaf gleymist að börn eiga foreldra.

    SvaraEyða
  2. Samkvæmt því sem vitnað var í formann tannlæknafélagsins er sýran ábyrg fyrir glerungseyðingunni, það er eftir sem áður sykurinn sem veldur tannskemmdunum.

    Tannheilsa er hins vegar aðeins lítill hluti af þeim heilsufarsvanda sem sykur veldur. Offita og sjúkdómar og komplikasjónir vegna hennar (t.d. sykursýki 2, hjarta og æðar, hærri tíðni liðskipta, auknar líkur á keisaraskurði m. tilh. vinnutapi) eru líklega miklu dýrari en tannheilsuþátturinn.
    Mér finnst nákvæmlega ekkert að því að settur sé einhvers konar "heilbrigðisskattur" á vörur sem hafa svona slæm áhrif. Það sama gerum við við áfengi og tóbak og þykir víst ekki tiltökumál.
    Framsetning þessa skatts er miklu frekar dæmi um lélegt PR hjá heilbrigðisráðherra.

    Pétur Maack

    SvaraEyða
  3. Friðrik.

    Þú verður að senda Lýðheilsustöð, Sigurði Guðmundssyn forseta heilbrigðisvísindasviðs HÍ og fyrrverandi landlækni og Ingu Þórsdóttur prófessor í næringarfræði þennan pistil. Það er greinilegt að þau hafa ekki kynnt sér málið nógu vel.

    Guðmundur Guðmundsson

    SvaraEyða
  4. Hið besta mál. Einnig mætti alveg skattleggja fólk sem étur frá sér heilsuna. Þeir sem eru td., 20% yfir kjörþyngd ættu svo sannarlega að borga hærri skatta. Það gera reikningarmenn enda kosta báðir þessir hópar samfélagið ómældar fúlgur í heilbrigðiskerfinu.
    Flugfélög um allan heim leyfa farþegum aðeins að ferðast með 20 kg ferðatöskur en skipta sér ekkert af því þó einn farþeginn sé kannski 50 - 100 kg. þyngri en sá sem situr í hálfu sæti við hliðina á honum!

    SvaraEyða
  5. Þakka mjög góða greiningu á málinu. Þú bendir á það sem skiptir mestu máli, að tannheilsa íslenskra barna - í heild - hefur aldrei áður verið jafn góð og nú. Hins vegar er vitað að lítill minnihluti barna er með mikil tannvandamál og við erum ekki ein um slíkt, það þekkist hjá öllum þjóðum að skemmdir safnast í færri munna. Nú vill svo til að það eru sömu munnarnir og ekki koma reglulega til tannlæknis. Ef það er vegna kostnaðar þá geta stjórnvöld ákveðið að laga það með því að greiða að fullu kostnað við tannlækningar barna. Eðlilegast væri þó að um tannlækningar allra, fullorðinna líka, giltu sömu reglur og um greiðsluþátttöku hins opinbera í annarri heilbrigðisþjónustu. Núverandi kerfi er rökleysa sem á sér aðeins sögulegar skýringar en ekki faglegar.
    Sykurneysla er ekki lengur sá skaðvaldur á tönnum sem hún var. Skýringin liggur í notkun tannbursta og flúortannkrems. Ef skoðaðar eru innflutningstölu fyrir tannbursta og -krem frá fyrri áratugum, liggur skýringin á lélegri tannheilsu Íslendinga í augum uppi - þeir þrifu ekki tennur sínar. Sýkluskánin, sem þannig fékk að liggja óáreitt á tönnunum, breytti þá sykri í sýru með tilheyrandi tannskemmdum. Þetta er enn meginskýringin á vanda minnihlutans sem fyrr var nefndur.
    Ef tennur eru hreinsaðar reglulega með bursta, tannþræði og flúortannkremi, skemmast þær ekki. Hver man t.d. ekki slagorð Tannlæknafélags Íslands - „Hreinar tennur skemmast ekki". Þetta eru enn orða að sönnu þótt sumir skammist sín fyrir afleiðingar þess að fara ekki eftir þeim og reyni þá að finna aðra blóraböggla fyrir sínu eigin hirðuleysi.
    Að mínu viti á sykurskattur þó fullan rétt á sér, en af allt öðrum ástæðum, s.s. þeim að draga úr offitu og afleiddum heilsuvanda og kostnaði. Í fyrsta sinn í sögunni stefnir í að bresk og amerísk börn muni ekki lifa foreldra sína, í versta falli, eða ekki ná sama aldri og þeir í besta falli. Breytingin á sér aðeins eina orsök, offitu sem stafar af ofáti of orkuríkrar fæðu. Orkuinnihald sykurs er mikið en næringargildi lítið. Tannlæknakostnaður af völdum sykurneyslu er aðeins dvergvaxið brotabrot af þeim kostnaði sem offitan er að valda jarðarbúum. Við þurfum ekki annað en líta í kringum okkur til að sjá vandann, nú eða í spegil, eins óþægilegt og það kann að vera.
    Athugasemdir Péturs og ábendingar Guðmundar eru hárréttar.
    Reynir Jónsson, tannlæknir

    SvaraEyða
  6. Það er bara ekki hlutverk ríkisvaldsins að hafa "vit" fyrir fólki. Það lýsir ótrúlegum og yfirgengilegum hroka stjórnmálamanna að þeir skuli haga sér eins og Ögmundur. Neyslustýring felur í sér að ríkisvaldið og þar af leiðir stjórnmálamennirnir þykist vita betur hvað er gott og hvað er vont fyrir fólk.
    Þess vegna skiptir það engu máli í þessu tilliti hvort tannheilsa batni eða versni eða hvaða áhrif svona skattar hafa. Kjarni málsins er að stjórnmálamenn hafa engan rétt á að haga sér svona og eiga ekki að vera svona hrikalega hrokafullir.
    Dud

    SvaraEyða

Ath: Aðeins meðlimir bloggsins geta birt ummæli.