miðvikudagur, 17. júní 2009

Beðið eftir ICESAVE

Það er vonandi að biðin eftir að fá að sjá ICESAVE-samkomulagið verði ekki eins og biðin eftir Godot.

Á meðan að beðið er, heldur umræðan áfram, á að borga, á ekki að borga, ef á að borga á þá að borga eins og samið hefur verið um, eða á að borga einhvern veginn öðruvísi. Var samninganefndin góð eða slæm, og svo framvegis.

Eins og áður hefur komið fram hef ég ákveðnar skoðanir í þessu máli. Það breytir því ekki að ýmsu má velta fyrir sér í þessu samhengi.

T.d. hvort þeim valkosti hafi verið velt upp, í ljósi þess að stjórnvöld höfðu þegar ákveðið síðastliðið haust að ábyrgjast innistæðutryggingasjóð hvað varðar ICESAVE, að nýta einfaldlega heimild neyðarlaganna svonefndu.

Í IV. Kafla laganna, a.lið 8. Greinar, var m.a. eftirfarandi breyting gerð á lögum um innistæðutryggingasjóð: "Ávallt skal heimilt að endurgreiða andvirði innstæðu, verðbréfa eða reiðufjár í íslenskum krónum, óháð því hvort það hefur í öndverðu verið í annarri mynt."

Innistæðutryggingasjóður, vopnaður ríkisábyrgð, hefði þannig getað sótt um fyrirgreiðslu til Seðlabanka Íslands um t.d. 15 – 25 ára lán á þessum 630 milljörðum í íslenskum krónum og einfaldlega staðgreitt þá upphæð til Hollendinga og Breta. Í ljósi gjaldeyrishafta hefði þeim verið nauðugur sá eini kostur að leggja andvirðið inn á bók, t.d. hjá Nýja Landsbankanum!

6 ummæli:

  1. En myndi það ekki skapa alveg jafn mikil vandræði um leið og höftunum verður aflétt ?

    Þ.e. ef að Bretar og Hollendingar myndu ákveða að sækja peningana héðan og færa inn í eigin hagkerfi um leið og það myndi losna um höftin.

    Pælingin er samt sem áður allra athygli verð.

    Mig langar að halda áfram á svipuðum nótum spyrja hers vegna þeim möguleika var ekki velt upp að bæta tapað fé á viðkomandi innlánsreikningum með því að bjóða viðkomandi sparifjáreigendum hlut í einhverjum nýju bankanna til þess að bæta fyrir hluta skaðans.

    Það sem að upp á vantaði væri síðan hægt að covera með annaðhvort láni frá S.Í. eða samkomulagi svipuðu því sem að samninganefndin náði fram.

    Þvert á vinsælar skoðanir þá held ég að Ísland færi mun verra út úr því að reyna dómstóla leiðina. Bendi m.a. á fyrri færslur þínar í því sambandi og grein (man ekki hvort að það var Reykjavíkurbréf eða leiðari) Ólafs Stephensen í Morgunblaðinu fyrir nokkrum dögum.

    Kveðja,

    J.H. Jakobsson

    SvaraEyða
  2. Íslandi ber skylda til að fara dómstólaleiðina og leita síðan samninga ef svo ólíklega vill til að úrskurður falli okkur í óhag. Að öðrum kosti verðum við fyrirlitin þjóð.

    Ég gef lítið fyrir spekúlasjónir ólöglærðra manna um hvað myndi gerast "ef" og "þegar". Siðaðar þjóðir leysa úr ágreiningi fyrir alþjóðadómstólum. Og, siðaðar þjóðir neyta ekki aflsmunar til að kúga smáþjóðir.

    Doddi D

    SvaraEyða
  3. Jón: Kosturinn við þetta væri fyrst og fremst að færa gengisáhættuna frá okkur yfir á hina samningsaðilana. Á móti kemur, ef menn hafa mikla trú á framtíðarstyrkingu krónunnar, að þá myndi Ísland ekki njóta góðs af gengishækkun. Frá hreinu hagfræðilegu sjónarmiði er alltaf betra að ríkið skuldi í eigin gjaldmiðli.
    Hvers vegna sparifjáreigendum var ekki boðin hlutur í nýju bönkunum er væntanlega fyrst og fremst vegna þess að innistæður þeirra eiga að vera tryggðar að ákveðnu marki. Punktur. Hitt er það ópraktískt, eins og sjá má af þeirri staðreynd að ennþá er ekki lokið skiptingu milli gömlu og nýju bankanna og þannig ekki hægt að klára verðmat eða endurhlutafélagavæðingu fyrir markaðsetningu hlutabréfa nýju bankanna.

    Doddi: Íslandi ber engin "skylda" til að fara dómstólaleiðina. Fyrir utan það að hugtaksnotkun þín um "siðaðar" þjóðir er aldeilis gildishlaðin, þá er fullyrðing þín einfaldlega röng. "Siðaðar" þjóðir leysa fyrst og fremst úr ágreiningi sín á milli með samningum - ekki fyrir dómstólum. Þvert á móti er dómstólaleiðin svo til alltaf næst síðasti kosturinn í úrlausnum á milliríkjadeilum.

    ...og hafðu svo í huga að lögin og lögfræðin eru of mikilvæg til að vera skilin eftir eingöngu í höndum lögfræðinga, enda eru lög niðurstaða pólitísks ferils, hvort heldur sem innanlands eða í millirikjasamskiptum.

    SvaraEyða
  4. Það er ekki víst að þeir erlendir viðsemjendur hefðu sæst á þetta, frekar en að þeim yrði boðin borgun í silfurbergi, eða tómum gosdósum :-)

    Það væri líklega ekki erfitt að finna lagaleg rök fyrir því að það gangi ekki fyrir íslendinga að velta gjaldeyrisáhættu af bönkunum yfir á innistæðueigendur. Og reyndar ekki víst að þessi ákvæði neyðarlaganna gangi upp, frekar en önnur....

    Halldór

    SvaraEyða
  5. Skil ekki allar þessar umræður allstaðar um það hvernig á að borga Icesafe.

    Það liggur engin lagaleg niðurstaða fyrir um það hvort okkur beri að greiða þetta yfir höfuð??

    Þetta er það stórt mál, að það er bara alveg með ólíkindum að það sé ekki látið reyna á það.

    Með því að borga þetta, er verið að viðurkenna sekt, og ábyrgð þjóðarinnar.

    Ég er alls ekki sáttur við það, ég tel mig saklausann af þessum þjófnaði Sigurjóns og Co, og mun ekki greiða skuldir hans.

    Ég flyt úr landi.

    SvaraEyða
  6. Jæja? Hvað segirðu þá? Enn jafn glaður með Icesave?

    SvaraEyða

Ath: Aðeins meðlimir bloggsins geta birt ummæli.