fimmtudagur, 3. september 2009

Afkomutenging er engin lausn

Nú eru aftur komnar á flot hugmyndir um afkomutengingu lána til þess að “leysa” greiðsluvanda heimilanna.

Þetta er fix-ídea sem sett hefur verið fram af ýmsu góðu fólki, sem gengur án efa ekkert nema gott eitt til. Nú síðast Þórólfur Matthíasson. Eftir hendingu man ég eftir að Hallur Magnússon vinur minn hafi talað fyrir þessu frá því síðastliðið haust, og síðastliðinn vetur skrifuðu þeir saman grein þeir Jón Steinsson og Gauti B. Eggertsson um Lín-leiðina. Hún gekk út á þetta sama – greiðslugetutengja með einhverjum hætti afborganir fasteignalána.

Á sínum tíma ritaði ég hér lítið andsvar við grein Jóns og Gauta undir yfirskriftinni “Vandaveltuleiðin”.

Allt sem þar er skrifað stendur enn, og gott betur. Aðferðafræði af þessu tagi gerir ekkert annað en að fresta vandanum. Þannig munu lánin halda áfram að hlaða utan á sig, enda bera þau bæði vexti- og verðtryggingu. Þessi lán verða því áfram eitruð lán í bókhaldi bankanna þar sem veðin sem að baki liggja duga ekki fyrir skuldinni. Það sem meira er, jafnvel þó að fasteignamarkaður rétti úr kútnum eru engar líkur á því að það auki hlutfallslegt veðhæfi, enda reiknast hækkun á fasteignaverði beint inn í vísitöluna og hækkar lánin.

Með þessari aðferð verða þannig þorri íslenskra fasteignalána ennþá verri “sub-prime”-lán – sem voru jú steinvalan sem ýtti af stað hruninu. Áfram verður þannig haldið áfram að falsa efnahagsreikninga bankanna með því að halda þar inni lánum á fullu verði sem engin veð eða raunveruleg greiðslugeta hvíla á bak við.

Þessi aðferðarfræði festir einnig fólk í núverandi fasteign um aldur og ævi. Ungt fólk mun aldrei geta stækkað við sig í samræmi við fjölskyldurstærð og eldra fólk ekki minnkað við sig. Sala á fasteignum sem eru í slíkum veðskuldbindingum er óframkvæmanleg, því þá verður með einum eða öðrum hætti að fara fram uppgjör á láninu.

Þar með verður fólk fast í eilífri skuldagildru, þó formlegu gjaldþroti verði frestað fram að andláti.

Lánasjóðurinn er ekki fyrirmynd. Hann er félagslegur sjóður til að tryggja jafnan aðgang til náms, ýta undir framtíðar verðmætasköpun með því að efla menntun og lánin þar eru að jafnaði mun takmarkaðri en nokkurn tíma á við um fasteignalán. Þó hefur orðin ákveðin lánasprengja þar vegna fjölgunar á prívatháskólum og aukinni þátttöku sjóðsins í greiðslu skólagjalda.

Margfeldisáfhrif á lánum LÍN eru einnig minni, þau bera einungis 1% vexti umfram verðtryggingu. Engu að síður hafa þau aukist gífurlega á undanförnum árum vegna verðbólgunnar. Sjálfur er ég stórskuldari hjá LÍN. Á tveimur árum hefur skuld mín við LÍN farið úr tæpum 12,5 milljónum í tæpar 15,8. Það er 3,3 milljóna króna hækkun á 24 mánuðum, eða tæplega 140 þúsund krónur á mánuði...!!!

Svo er þar fyrir utan ekkert framundan hjá flestum lánagreiðendum annað en frekari tekjuskerðing, því laun eru jú að lækka, skattar að hækka, og verðbólgan er áfram í tveggja stafa tölu.

Afkomutenging er engin lausn. Hún er skammgóður vermir, leið til heljar fyrir almenning, bankana og hið opinbera.

En reyndar vörðuð góðum ásetningi!

12 ummæli:

  1. > "Svo er þar fyrir utan ekkert framundan hjá flestum lánagreiðendum annað en..."

    Um aldir alda?

    Við hljótum að gera ráð fyrir því að einhverntímann muni ástandi batna. Þessar hugmyndir taka væntanlega mið af því.

    Ef ástandið skánar aldrei er væntanlega lítið sem við getum gert.

    SvaraEyða
  2. Við skulum svo sannarlega vona ekki, en snjóboltinn sem hleðst upp á meðan verður hreint skelfilegur - og lækkar ekki, a.m.k. ekki í tilviki verðtryggðu lánanna, þ.a. þegar ástandið skánar þá byrja menn ekki á núllpunktinum sem var við hrun, heldur töluvert mikið í mínus, og líkurnar á því að fólk nái einhverntíma að komast fram úr þessum vanda því miður hverfandi. Hafa ber í huga að hækkun skuldana mun fara fram í lógariþmísku falli á meðan að tekjuaukning framtíðarinnar mun væntanlega frekar fylgja línulegu falli!

    SvaraEyða
  3. Takk Friðrik.
    Mér þykja skrif þín alltaf áhugaverð.
    Kveðja
    KK

    SvaraEyða
  4. Verðtrygging er vissulega stórt vandamál.

    Varðandi hækkun skulda og launavísitölu, þá veit ég ekki hvort það er vit í að skoða fortíðina en síðustu tíu ár hækkaði launavísitala meira en neysluvísitala.

    Önnur spurning er hvort efnahagsástandið verði þannig eftir tíu ár að forsendur fyrir niðurfellingu skulda verði betri.

    Ég tek ekki ákveðna afstöðu til þessara afkomutengingahugmyndar. Á eftir að kynna mér hana betur. Þú setur vissulega fram ágæta gagnrýni.

    SvaraEyða
  5. KK: Takk fyrir það. Hef hins vegar því miður haft lítin tíma fyrir blogg undanfarið.

    Matti: Þakka þér engu að síður athugasemdirnar. Kannski verður þægilegra að eiga við skuldaniðurfellingu eftir tíu ár. Ég hins vegar tel að það sé verra að bíða, og vandinn sé þess eðlis að það þurfi að taka til all róttækra aðgerða, sbr. pistill minn um peningalega endurstillingu (http://fridrik.eyjan.is/2009/07/peningaleg-endurstilling.html)

    SvaraEyða
  6. Sæll Friðrik
    Ég er á því að það verði að blanda leiðum saman. Það segir sig sjálft að það verður að afskrifa hjá þeim sem eru stórskuldugir. En ég held að einhver hópur þar fyrir neðan þurfi að eiga þann möguleika að breyta í afkomutengdar afborganir. En auðvitað verða allir sem mögulega geta að standa í skilum í kerfinu eins og það er. Flötu afskriftirnar eru kannski sanngjarnar með hliðsjón af jafnrétti allra en þær eru vita gagnslausar fyrir þá sem eru skuldugastir. Það er ekkert sanngjarnt við það að afskrifa stóran hluta þeirra sem skulda mikið en það er hins vegar óhjákvæmilegt.
    Takk fyrir gagnlega umræðu.
    Sigurður Ásbjörnsson

    SvaraEyða
  7. Mér finnst nú af upphæðinni að dæma sem þú skuldar í námslán ekkert undarlegt að þú sért hrifinn af einhvers konar niðurfellingu skulda, fremur en tekjutengingu (þótt þú segir það vissulega ekki berum orðum hér að ofan). Vandamálið er bara að það er hellingur af Íslendingum sem skulda bara ekkert sérstaklega mikið. Eiga þeir að borga brúsann - einhver borgar jú á endanum. Hvernig væri nú að snúa dæminu aðeins við og líta aðeins á hagsmuni þeirra sem ekki eru stórskuldarar til tilbreytingar.

    SvaraEyða
  8. Það bara kemur ekki til greina að afskrifa skuldir hjá þeim sem eru skuldugastir, þeim sem fóru offari í sukkinu, ég kæri mig ekkert um að borga brúsann fyrir þá sem eiga heimsmet í lántökum. hreint ekkert, ég veit um allt of marga sem lifa enn hátt sem eru skuldugir upp fyrir haus og treysta því að skuldir þeirra verði felldar niður.
    þetta kemur ekki til greina, þetta mun skapa enn mjög mikinn ófrið.

    SvaraEyða
  9. Rétt hjá þér. Mildum gjald´þrotalögin.

    Doddi D

    SvaraEyða
  10. Það er ekkert sjálfgefið að mismunurinn á greislugetu fólks og afborganna þurfi að vera á vöxtum og verðtryggingu. Það má allt eins setja þetta upp sem fimm ára pakka þar sem mismunurinn á reiknaðri greislugetu og lánaafborguninni verði settur í sérstakt lán vaxta og afborgunalaust og verði einungis gert upp þegar eignin er seld. Dugi eignin ekki fyrir viðbótarláninu efir að búið er að gera upp fasteignalánið falli eftirstöðvarnar niður.

    Með þessari aðferð er komið til móts við heimilin og bankarnir geta sett nýju viðbótarlánin og sérstakan sjóð sem væntalega þarf mjög litlar afskriftir og það yfir mjög langan tíma.

    SvaraEyða
  11. Góð grein - nema þarna vantar hugmyndir um hvað er þá til ráða. Er óhjákvæmlilegt að einhver hópur fólks - og hann allstór - verði gjaldþrota? Hvaða afleiðingar hefur það pólitískt fyrir stjórnina og fyrir efnahag bankana?

    SvaraEyða
  12. Jón Steinsson gekk lengra í grein sinni hann sagði að auðvitað yrði fólk sem fengi greiðsluaðlögun að sætta sig við að fara á vanskilaskrá? Ég á bara ekki til orð yfir þessum manni! Gauti og Jón búa báðir erlendis og eru greinilega ekki tengslum við íslenskan veruleika!
    Sárt að sjá svona vitleysu á prenti og ekki stígur Þórólfur í vitið!
    Kveðja,
    ÞE

    SvaraEyða

Ath: Aðeins meðlimir bloggsins geta birt ummæli.