Eins og við var að búast eru sjómenn og útgerðarmenn ekki sáttir við áætlanir stjórnvalda um að afnema sjómannaafsláttinn í áföngum. Nafni minn Arngrímsson, framkvæmdastjóri LÍÚ, lætur hafa eftir sér að ef sjómannaafslátturinn verði felldur niður sé það "...grundvallaratriði að sjómenn fái sambærilegan skattaafslátt og aðrir launþegar sem njóta skattfrelsis vegna dagpeninga."
Tilgangur dagpeninga er fyrst og fremst til að mæta kostnaði, skilgreindum og óskilgreindum, við fjarveru vegna vinnu. Þess vegna eru þær greiðslur skattfrjálsar þar sem þær, eðli sínu samkvæmt, eru ekki tekjur.
Skattayfirvöld eru hins vegar vel meðvituð um þá freistingu sem dagpeningagreiðslum geta fylgt, t.d. að atvinnuveitendur greiði dagpeninga sem hlunnindi, án þess að raunverulegur kostnaður hafi átt sér stað á móti.
Dagpeningagreiðslur skiptast í tvennt, annars vegar til að mæta kostnaði við gistingu og hins vegar til að mæta öðrum kostnaði, fyrst og fremst fæðiskostnaði.
Dagpeningar vegna gistikostnaðar eiga ekki við um sjómenn þar sem ekki eru þeir rukkaðir fyrir gistingu um borð (spurning hvort Indriði hafi áttað sig á því að hér gæti verið um skattskyld hlunnindi að ræða?).
Dagpeningar vegna annars kostnaðar gætu átt við að hluta, en samkvæmt kjarasamningum sjómanna er fæði nú niðurgreitt að hluta. Ekki er hægt að sjá að annar kostnaður en hluti fæðiskostnaðar eigi við um borð.
(Í stærstu togurum er jafnvel líkamsræktaraðstaða um borð sem ekki er rukkað fyrir. Spurning hvort það teljist ekki skattskyld hlunnindi. Að minnsta kosti er það þannig að við "aðrir launþegar" þurfum að greiða skatt af framlagi vinnuveitanda og verkalýðsfélaga til kostnaðar vegna árskorta á líkamsræktarstöðvum. Indriði?)
Ef sjómannaafslátturinn á sérstakan tilverurétt umfram annað í þeim skattaholskeflum sem nú ganga yfir landsmenn væri nær að halda þeim rökum fram og útskýra, frekar en að henda fram svona smjörklípum.
Ég hefði t.d. haldið það betri rök að benda á þá staðreynd að margir sjómenn muni við áætlaðar staðgreiðslubreytingar greiða mun hærra skatthlutfall en áður, sem væntanlega vegur þyngra í þeirra pyngjum en sjómannaafslátturinn.
Dagpeningar, notkun þeirra og misnotkun er þessu máli ótengt.