laugardagur, 28. nóvember 2009

Dagpeningasmjörklípa LÍÚ

Eins og við var að búast eru sjómenn og útgerðarmenn ekki sáttir við áætlanir stjórnvalda um að afnema sjómannaafsláttinn í áföngum. Nafni minn Arngrímsson, framkvæmdastjóri LÍÚ, lætur hafa eftir sér að ef sjómannaafslátturinn verði felldur niður sé það "...grundvallaratriði að sjómenn fái sambærilegan skattaafslátt og aðrir launþegar sem njóta skattfrelsis vegna dagpeninga."

Tilgangur dagpeninga er fyrst og fremst til að mæta kostnaði, skilgreindum og óskilgreindum, við fjarveru vegna vinnu. Þess vegna eru þær greiðslur skattfrjálsar þar sem þær, eðli sínu samkvæmt, eru ekki tekjur.

Skattayfirvöld eru hins vegar vel meðvituð um þá freistingu sem dagpeningagreiðslum geta fylgt, t.d. að atvinnuveitendur greiði dagpeninga sem hlunnindi, án þess að raunverulegur kostnaður hafi átt sér stað á móti.

Dagpeningagreiðslur skiptast í tvennt, annars vegar til að mæta kostnaði við gistingu og hins vegar til að mæta öðrum kostnaði, fyrst og fremst fæðiskostnaði.

Dagpeningar vegna gistikostnaðar eiga ekki við um sjómenn þar sem ekki eru þeir rukkaðir fyrir gistingu um borð (spurning hvort Indriði hafi áttað sig á því að hér gæti verið um skattskyld hlunnindi að ræða?).

Dagpeningar vegna annars kostnaðar gætu átt við að hluta, en samkvæmt kjarasamningum sjómanna er fæði nú niðurgreitt að hluta. Ekki er hægt að sjá að annar kostnaður en hluti fæðiskostnaðar eigi við um borð.

(Í stærstu togurum er jafnvel líkamsræktaraðstaða um borð sem ekki er rukkað fyrir. Spurning hvort það teljist ekki skattskyld hlunnindi. Að minnsta kosti er það þannig að við "aðrir launþegar" þurfum að greiða skatt af framlagi vinnuveitanda og verkalýðsfélaga til kostnaðar vegna árskorta á líkamsræktarstöðvum. Indriði?)

Ef sjómannaafslátturinn á sérstakan tilverurétt umfram annað í þeim skattaholskeflum sem nú ganga yfir landsmenn væri nær að halda þeim rökum fram og útskýra, frekar en að henda fram svona smjörklípum.

Ég hefði t.d. haldið það betri rök að benda á þá staðreynd að margir sjómenn muni við áætlaðar staðgreiðslubreytingar greiða mun hærra skatthlutfall en áður, sem væntanlega vegur þyngra í þeirra pyngjum en sjómannaafslátturinn.

Dagpeningar, notkun þeirra og misnotkun er þessu máli ótengt.

5 ummæli:

 1. Sæll Friðrik!

  Takk fyrir fínan pistil. Ég tek undir hvert orð og ef ég má bæta eilitlu við: Mér finnst í raun sérkennilegt hvernig hafsins hetjur hafa brugðist við þessu með sjómannaafsláttinn á tímum sem þessum. Ef þeir eru þessarar burðarstoðir samfélagsins - af hverju kveinka þeir sér þá við að taka á árunum með landsmönnum. Ekki beint hetjulegt. Ég heyrði Sævar Gunnarsson í fréttum RÚV í gær svara eðlilegri spurningu á þessa lund með þjósti. Einmitt með að benda á dagpeningana. Svo skal böl bæta að benda á eitthvað annað en eins og þú segir: Þetta "svar" var spurningunni algerlega óviðkomandi, eins og þú bendir á, og ég saknaði þess að fréttakonan skyldi ekki hafa bein í nefinu til að benda Sævari á það og endurtaka spurninguna.

  Kveðja,
  Jakob

  SvaraEyða
 2. Sæll Friðrik

  Ég vinn mikið úti á landi og fæ því greitt mikið af dagpeningum. Ég er að sjálfsögðu með kostnað á móti, bæði gistkostnað og fæði, auk þess sem ég þarf stundum að kaupa hluti sem ég á heimafyrir.

  En afgangurinn er ekkert annað en tekjur.

  Af hverju ætti ekki að skattleggja þessar tekjur eins og hverjar aðrar tekjur?

  Menn eiga að sjálfsögðu að geta dregið raunverulegan kostnað frá eins og þegar menn draga frá kostnað við rekstur bíls ef menn nota eigin bíl í þágu vinnuveitenda (og fá greitt fyrir)

  Jú, þá ætti að sjálfsögðu að skattleggja kost á skipum - þannig að það má segja að Friðrik Arngrímsson sé að leggja til að skattleggja sjómenn frekar... Alltaf jafn miklar gáfur á efri hæðinni þar...

  SvaraEyða
 3. Dagpeningar eru jafnúreltir og sjómannaafsláttur. Í dag er hægt að fá kvittanir nánast allstaðar og því hægt að greiða útlagaðan kostnað til þeirra sem ferðast.

  Til að mæta þeim litlu útgjöldum sem ekki er hægt að fá kvittanir fyrir er hægt að greiða álag sem yrði skattskylt eins og önnur laun.

  Ef menn vinna á afskekktum erfiðum stöðum í heiminu á að það vera bundið í starfsamningana hvernig það skuli vera umbunað og vera skattskylt.

  SvaraEyða
 4. Leggjum af dagpeninga til að stinga upp í sjómennina og spara. Einfalt.
  Stefán benediktsson

  SvaraEyða
 5. Fæði er ekki niðurgreidd hjá sjómönnum við fáum sem launagreiðslu ákveða upphæð borgaða á hvern úthaldsdag sem eru skilgreindir fæðispeningar og eru skattskyldir. Í dag er þessi upphæð 1029 kr á hvern úthaldsdag svona ca getur hækkað eða lækkað eftir stærð skipa og gerð. Svo er það spurning oft eru það starfsmannafélög viðkomandi skipa sem koma upp svona aðstöðu eins og líkamsræktartækjum og borga fyrir það með laununum sínum. Er það skattskyld þegar þú ert með þrekhjól heima hjá þér. Er skattskyld að fara í líkamsrækt t.d hjá Orkuveitunni( hún er með líkamsrækt fyrir sitt starfsfólk). Að vera á sjó krefst fórna t.d það sem fær mig til að fara til sjós er sú von um að hafa hærri laun heldur en í landi á kostnað fjölskyldunar. Svo að lokum það tíðkast sjómannafrádrag hjá öllum norrænum þjóðum sem við viljum bera okkur saman við. t.d Noreg, Danmörk og færeyjar. Ef við höfum það svona gott eru það við sem munum bera uppi þetta skattkerfi Steingríms eru við ekki allir hátekjumenn! ekki munið þið gera það

  SvaraEyða

Ath: Aðeins meðlimir bloggsins geta birt ummæli.