föstudagur, 13. nóvember 2009

Dómgreind og hyggindi

Sturla Böðvarsson, fyrrverandi þingmaður og ráðherra Sjálfstæðisflokksins, telur Þorstein Pálsson, fyrrum formann Sjálfstæðisflokksins, skulda sér skýringar á því af hverju Þorsteinn hefur þegið boð um sæti í samninganefnd Íslands um aðild að Evrópusambandinu. Sérstaklega óskar Sturla þessa, samkvæmt pistli hans á pressan.is, þar sem hann hingað til hefur haft trú á dómgreind Þorsteins og hyggindum.

Ekki er mér til efs að Þorsteini mun reynast það létt verk. Sturlu og öðrum sem kunna að velta þessu fyrir sér má hins vegar benda á að ólíkt öðrum forystumönnum Sjálfstæðisflokksins, núverandi og fyrrverandi, hefur Þorsteinn Pálsson verið samkvæmur sjálfum sér um langan tíma hvað varðar afstöðu hans til aðildarumsóknar Íslands að Evrópusambandinu. Hefur hann þar haft langtímahagsmuni þjóðarinnar í öndvegi og sýnt bæði dómgreind og hyggindi.

Afstaða Þorsteins hefur margoft komið fram opinberlega, bæði á opnum fundum og þó sérstaklega í leiðara- og greinaskrifum hans í Fréttablaðinu. Mörg dæmi þess má finna á undanförnum mánuðum. Fara hér nokkur á eftir.

Í nýársleiðara Fréttablaðsins 2. janúar sl. segir Þorsteinn m.a.:

Seðlabankanum mistókst að halda krónunni fljótandi. Bankanum var um megn að rækja lögbundið hlutverk sitt. Að sumu leyti má rekja það til stjórnunarmistaka...

Afleiðingin er þverbrestur í undirstöðum hagkerfisins. Þeirri ákvörðun verður þar af leiðandi ekki slegið á frest að ákveða framtíðargjaldmiðil. Eigi vel að fara er þetta ár þeirrar miklu ákvörðunar hvert stefna ber í þeim efnum.

Nýr gjaldmiðill tengist óhjákvæmilega mati á stöðu Íslands í samfélagi þjóðanna. Spurningin um aðild landsins að Evrópusambandinu hefur þannig tvær hliðar. Annars vegar snýr hún að lausn á brýnni þörf fyrir stöðuga mynt. Hins vegar veit hún að pólitískum álitaefnum í víðu samhengi...

Jafnframt er Evrópusambandið pólitískur félagsskapur. Slíka alþjóðapólitíska kjölfestu hefur Ísland ekki haft í sama mæli og áður eftir að gildi Atlantshafsbandalagsins að því leyti breyttist við lok kaldastríðsins. Á þann veg er þessi ákvörðun léttari en ætla mætti að hún er rökrétt framhald þeirrar stefnu sem í öndverðu var mótuð um stöðu landsins í samfélagi þjóðanna.

Aðildarspurningin er stærsta viðfangsefni þessa árs...


Þann 11. júlí sl. segir í grein Þorsteins:

Nefndarálit stjórnarflokkanna í utanríkisnefnd um Evrópusambandsaðildina er áfangi á langri leið. Að sama skapi eru vonbrigði að ekki skuli hafa tekist breiðari samstaða um svo veigamikið mál. Það felur í sér áform um stöðu Íslands í alþjóðasamfélaginu og lausn á framtíðarstefnu í peningamálum og snýst þar af leiðandi um kjarnann í íslenskri pólitík.

Í sömu grein kemur fram að Þorsteinn er ekki gagnrýnislaus hvað varðar málsmeðferð aðildarumsóknarinnar á Alþingi, en þar segir m.a.:

Í ljósi þess hversu mikilvægt það er fyrir Ísland að aðildarumsókn nái fram að ganga vakna spurningar hvers vegna ríkisstjórnin gekk ekki lengra til að reyna að ná samstöðu. Einkum á það við um mismunandi hugmyndir um stjórnskipulega lokameðferð málsins. Þær snúast um hvort þjóðin á að veita ráðgjöf eða hafa raunverulegt úrslitavald með því að samþykkja eða synja ákvörðun Alþingis.

Í kjölfar samþykktar aðildarumsóknarinnar á Alþingi ritar Þorsteinn eftirfarandi þann 18. júlí síðastliðinn:

Umræðurnar um Evrópusambandsaðildina voru merkilegar fyrir þá sök að lítið fór fyrir efnislegum röksemdafærslum með og á móti aðild...

Allt um það er ánægjulegt að nú liggur fyrir að látið verður reyna á hvort viðræður um aðildarumsóknina leiða til þeirrar niðurstöðu sem meirihluti þjóðarinnar getur fallist á. Með þessari ákvörðun er stigið skref sem líta verður á sem rökrétt framhald af þeirri hugmyndafræði sem lá að baki aðild Íslands að Atlantshafsbandalaginu á sínum tíma.

Bandalagið er hins vegar ekki lengur sá burðarás í samstarfi Evrópuþjóðanna sem það var áður. Utanríkis-pólitísk kjölfesta Íslands hefur veikst að sama skapi. Evrópusambandið er þar af leiðandi eðlilegur og nauðsynlegur vettvangur fyrir Íslendinga til þess tryggja sömu hagsmuni og verja sömu hugsjónir og lengst af hafa ráðið utanríkisstefnunni. Hrun gjaldmiðilsins gerir það svo að verkum að brýnna er en nokkru sinni fyrr að hraða því svo sem nokkur kostur er að launafólk og atvinnufyrirtæki fái samkeppnishæfan gjaldmiðil til að vinna með. Evran er eini raunhæfi kosturinn í því efni.

Staðreynd er að sjávarútvegur og landbúnaður geta ekki vegna náttúrulegra takmarkana staðið undir auknum hagvexti. Önnur atvinnustarfsemi mun ekki gera það heldur nema hún njóti sömu samkeppnisskilyrða og sama stöðugleika og helstu viðskiptaþjóðirnar. Um þetta snýst hagsmunamatið.

Hér er reyndar ástæða til að benda einnig á pistil Þorsteins frá því 8. ágúst síðastliðinn:

Æskilegt væri að meiri rækt yrði lögð við undirstöður utanríkisstefnunnar og ekki síður festu í allri meðferð þeirra mála. Ríkari áherslu þarf að leggja á utanríkispólitískar rannsóknir. Miklu skiptir aukheldur að byggja upp breiðari samstöðu um þessi efni en verið hefur um skeið. Stærri þjóðir en við telja það nauðsynlegt til að styrkja stöðu sína. Íslendingar þurfa rétt eins og aðrir utanríkispólitíska festu.

Fyrstu alvarlegu utanríkispólitísku mistökin sem Íslendingar gerðu eftir lýðveldisstofnun voru samningarnir við Bandaríkin um varnarviðbúnað í ljósi nýrrar stöðu eftir lok kalda stríðsins. Rangt stöðumat leiddi til þess að þráður slitnaði í samskiptum við þá þjóð sem tekið hafði að sér varnir landsins í hálfa öld. Pólitísk staða Íslands veiktist fyrir vikið umfram það sem leiddi af breyttum aðstæðum. Af þessum mistökum má draga lærdóma.

Þann 19. september síðastliðinn ritar Þorsteinn m.a.:

Fyrsta skoðanakönnun eftir umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu sýnir afgerandi andstöðu þjóðarinnar við þau áform. Hún er um leið til marks um mikla neikvæða sveiflu. Á þessu stigi er erfitt að meta hvort hér eru á ferðinni skammtíma viðbrögð við ríkjandi aðstæðum eða varanleg breyting á viðhorfum...

Við eigum skýr dæmi um hliðstæður úr stjórnmálasögunni. Á hápunktum í landhelgisdeilunum við Breta á sinni tíð jókst þunginn að baki kröfunni um úrsögn úr Atlantshafsbandalaginu og brottför varnarliðsins.

Á þeim tíma voru það fyrst og fremst forystumenn Sjálfstæðisflokksins, bæði í stjórn og stjórnarandstöðu, sem stóðu vörð um þá langtíma hagsmuni þjóðarinnar að eiga aðild að þeim samtökum lýðræðisþjóðanna í Evrópu sem þá voru öflugust. Tilhneiging til þjóðernislegrar einangrunarhyggju brotnaði á þeim öðrum fremur.

Á úrslitastundum í viðræðum um lausn á þeim deilum kom á daginn að það var aðild okkar að þessum samtökum sem veitti Íslandi þann styrk sem á þurfti að halda til að knýja fram ásættanlega niðurstöðu við samningaborðið. Utan samtaka hefði pólitísk staða Íslands verið veikari.

Þann 3. október ritar Þorsteinn m.a. eftirfarandi:

Aðildarspurningin er framtíðarmál fremur en augnabliksmál. Hún hefur þó að einu leyti bein tengsl við endurreisn efnahagslífsins. Stöðugleiki á fjármálamarkaði með frjálsum og haftalausum viðskiptum er borin von með svo lítinn gjaldmiðil sem krónan er...

Enginn stjórnmálaflokkur hefur enn sem komið er kynnt trúverðuga stefnu í peningamálum með íslenskri krónu. Eini sjáanlegi möguleikinn í þeim efnum er evran. Það aukna málefnavægi sem VG fær i kjölfar síðustu atburða veikir baráttuna fyrir samkeppnishæfum gjaldmiðli.

Þá vaknar spurningin: Hvar er miðjan í íslenskri pólitík? Er ekki meirihluti á miðjunni fyrir nauðsynlegri aðhaldspólitík í ríkisfjármálum, brýnum orkunýtingarframkvæmdum, mikilvægi þess að fá samkeppnishæfa mynt og gildi þess að Ísland eigi aðild að öflugustu samtökum Evrópuþjóða?

Og þann tíunda október síðastliðinn ritar hann m.a. þetta:

Af flokksþings- og landsfundaryfirlýsingum stjórnarandstöðuflokkanna að dæma standa þeir efnislega nær Samfylkingunni en VG í peninga- og Evrópumálum. Málflutningur þeirra er þó tvíræðari en svo að unnt sé að fullyrða að svo sé í raun.

Ofantilvitnuð skrif ber vott bæði góðri dómgreind og miklum hyggindum, þeim tveimur mannkostum sem Sturla Böðvarson hefur að eigin sögn ætíð haft mikla trú á í fari Þorsteins Pálssonar. Ákvörðun Þorsteins ætti því frekar að vera Sturlu nokkur hugarró því ekki er við öðru að búast en að dómgreind Þorsteins og hyggindi muni reynast Íslandi og íslendingum vel við samningaborðið í væntanlegum aðildarviðræðum.

1 ummæli:

Ath: Aðeins meðlimir bloggsins geta birt ummæli.