miðvikudagur, 24. mars 2010

Eignaauki Indriða

Á blaðsíðu 14 í Morgunblaðinu í dag er frétt sem er skyldulesning fyrir alla sem láta sig skuldavanda heimilanna einhverju varða.

Þar er haft eftir Indriða H. Þorlákssyni, pólitískum aðstoðarmanni fjármálaráðherra, að fyrirhuguð lagabreyting á skattalegri meðhöndlun afskrifta skulda feli í sér skattalækkun. Að óbreyttum lögum verði allar afskriftir lána skattskyldar að fullu.

Ekki skal sú túlkun dregin í efa. Hins vegar er það rökstuðningur Indriða sem hlýtur að vekja athygli. Hann segir “...að afskrift feli í sér eignaauka, sem sé skattskyldur samkvæmt tekjuskattslögum sem nú eru í gildi.”

Í þessari fullyrðingu felast sérkennileg vísindi. Þess munu verða afar fá dæmi að skuldaafskrift fasteigna- og bílalána feli í sér eignaauka. Í flestum tilvikum mun fólk vonandi skulda minna, en það verður engin samsvarandi eignaaukning. Rök Indriða um að hér verði til skattskyldur eignaauki eiga þannig ekki við.

Staðreyndin er nefnilega sú að í velflestum tilfellum þeirra skuldaafskrifta sem eru, eða munu eiga sér stað hjá fjölskyldum þessa lands í kjölfar efnahagshrunsins, er verið að afskrifa í átt að raunvirði undirliggjandi “eignar”.

Ef 40 milljóna skuld af 30 milljóna fasteign er afskrifuð niður í 33 milljónir hefur ekki orðið “eignaauki.” Viðkomandi fasteignar “eigandi” skuldar bara minna, en á ekkert meira.

Kannski er hægt að segja sem svo ef almenn skuldaafskrift færi fram að við slíka aðgerð gæti átt sér stað “eignaauki”. En í þeim tilfellum væri líkast til lítið annað að gerast en ákveðin leiðrétting á þeirri eignaupptöku sem átt hefur sér stað vegna verð- og gengistrygginga lána.

Það er síðan athyglisvert að hafa í huga, eins og einnig er haft eftir Indriða í sömu frétt, að “...samkvæmt núgildandi lögum eru þær skattskyldar að fullu, nema um sé að ræða gjaldþrot eða einhvers konar nauðasamninga.” Stór hluti íslenskra fjölskyldna er í þeirri stöðu að vera tæknilega gjaldþrota. Þjóðin ætti þannig meira og minna að vera í gjaldþrota- og nauðasamningaferli. Almennar afskriftir og önnur úrræði eru til þess að koma í veg fyrir að þess verði þörf, enda réði þjóðfelagið ekki við slíkt ástand.

En skilaboð Indriða eru í reynd þau að það er til lítils að standa í slíku og best að gefast bara upp og fara í nauðasamningaferli. Að gefa allt til þess að koma í veg fyrir slíkt þýðir bara glaðhlakkalegan bakreikning frá Steingrími J. og Indriða.

Forsætisráðherrar hafa nú af minna tilefni kallað sína ráðherra á teppið og fært þeim þau skilaboð að “Svona gera menn ekki!”

Og hvernig í ósköpunum stendur á því, nú þegar fjármálaráðuneytið hefur sýnt þessi spil, að stjórnarandstaðan hefur ekki sett fram sitt eigið frumvarp um hvernig hátta eigi skattalegri meðhöndlun afskrifta lána?

5 ummæli:

  1. Þessi afstaða Indriða jaðrar við að teljast sjúkleg - afskriftir á einstaklinga í greiðsluþroti hafa verið undanþegnar skattskyldu í íslenskum lögum hátt í heila öld. Hann virðist ekki taka neinum rökum þessi maður og fá að ráða öllu sem hann vill, þjóna eigin lund.

    SvaraEyða
  2. Ég las þessa grein/frétt og varð í raun reiður. Hroki þessa manns er engin takmörk sett. Hann er andlit stjórnarinnar í þessum málum...kemur grímulaust fram og hreinlega traðkar á heimilum landsins sem fram að þessu hafa sýnt ótrúlega þolinmæði gagnvart stjórnvöldum. Nú er einfaldlega nóg komið.
    kv. Örn

    SvaraEyða
  3. Auðvitað er þessi hugmyndafræði Indriða sjúkleg. Þetta er lýsir hreinni og klárri mannvonsku. Þetta er "réttlæti" að hætti skattamanna. Í því felst að eignatjón er ekki frádráttarbært frá skattstofnum heldur einungis ímyndaður eignaauki af skuldaleiðréttingum. Þetta er óréttlátt, ósanngjarnt og ómannúðleg illska.

    SvaraEyða
  4. Hlýtur þetta fólk ekki að eiga "uppsafnað tap" á móti þessum "hagnaði" sem felst í afskriftinni?

    SvaraEyða
  5. Hvaða álit sem menn hafa á Indriða, þá er það nú samt staðreynd að allt sem haft er eftir honum hérna er satt og rétt. Það er skelfileg lágkúra að væna mannin um það að vera mannvonskan hold klædd fyrir það eitt að segja sannleikann. Lækkun skulda felur í sér eignaauka, og eignaauki með niðurfellingu skulda er skattskyldur og hefur verið skattskyldur í áratugi. Að vera tæknilega gjaldþrota og að fara formlega í gegnum gjaldþrot er ekki það sama.

    SvaraEyða

Ath: Aðeins meðlimir bloggsins geta birt ummæli.