þriðjudagur, 20. apríl 2010

Á að bjarga Íbúðalánasjóði?

Ég sé haft eftir félagsmálaráðherra að eðlilegt sé að auka eigið fé Íbúðalánasjóðs (ÍLS) í ljósi þess að það er nú komið langt niður fyrir eðlileg mörk. Það stendur víst í einungis þremur prósentum.

En er það eðlilegt?

Þó íbúðalánasjóður sé sjóður í eigu ríkisins má velta því fyrir sér hvort því fylgi sjálfkrafa ríkisábyrgð þegar illa stendur á í rekstri sjóðsins. Að minnsta kosti virðist hvergi tekið fram í lögum um sjóðinn að hann njóti ríkisábyrgðar. En lagalega má eflaust eiga um það ágætis debatt, rétt eins og um Tryggingasjóð innistæðueigenda.

ÍLS er einn stærsti lánaaðili á íslenskum markaði og einnig einn stærsti skuldarinn. Í ljósi þess sem á undan er gengið hér á landi er kannski vert að huga að því hvort að eðlilegt sé að stærsti lánveitandi á húsnæðismarkaði sé á vegum ríkisins og hafi í því skjóli hugsanlega aðgang í skattfé þegar illa árar. Er t.d. eðlilegt að ríkið veiti skilyrðislaust auknu eiginfé í sjóðinn bara sisona?

ÍLS er í eðli sínu fjárfestingabanki og hefur verið frá því að gamla húsnæðislánakerfinu var umbylt snemma á tíunda áratugnum, að mig minnir 1993, og tekið upp húsbréfakerfi. Sjóðurinn sjálfur var síðan stofnaður á grunni Húsnæðisstofnunnar 1998.

Einnig er eflaust rétt að rifja upp að húsbréfakerfið og útgefin íbúðabréf Húsnæðisstofnunnar og ÍLS lögðu m.a. grunninn að útrás íslenska bankakerfisins. Kaupthing t.d. var einna fyrstur innlendra banka til þess að bjóða íslensk íbúðabréf með markvissum hætti á erlendum markaði. Það gekk svo vel að eftirspurn á endanum varð langt umfram framboð sem leiða má líkum að hafi orðið hvati til bankanna að hefja útgáfu eigin íbúðabréfa.

Það má því velta fyrir sér, ef það er svo að ÍLS er í reynd á leið í þrot, eins og eiginfjárstaða hans gefur til kynna, hvort tímabært sé að fara í róttækar umbætur á húsnæðisfjármögnunarkerfi landsins. Að minnsta kosti ætti ekki að teljast sjálfsagt og "eðlilegt" að auka eigið fé sjóðsins án mikillar umræðu um stöðu sjóðsins og fyrirkomulag þessara mála hér á landi.

Þvert á móti gæti þessi staða sjóðsins falið í sér tækifæri til þess að af-ríkisvæða sjóðinn með einhverjum hætti, t.d. með aðkomu lífeyrissjóða og, meira að segja, bankanna og annarra helstu kröfuhafa sjóðsins.

Ef umræður undanfarna mánaða ættu að kenna okkur eitthvað þá er það að ríkisábyrgð á fjármálastofnunum á ekki að vera eitthvað sem afgreitt er í kyrrþey.

þriðjudagur, 13. apríl 2010

Afleiðingalausir annmarkar

Þó megingerendurnir í hruninu hafi verið eigendur bankanna sem "kreistu úr þeim djúsinn" þar til ekkert var eftir er ljóst að pólitíkin og stjórnsýslan bera sína ábyrgð.

Fyrrum forstjóri Fjármálaeftirlitsins hélt uppi vörnum varðandi sinn þátt í sjónvarpinu í gær og gerði það um margt ágætlega. Það var við ofurefli að etja fyrir FME að eiga við bankanna. Nefndarmenn svöruðu því hins vegar til í framhaldi að forstjóri FME væri að þeirra mati fyrst og fremst sekur um vanrækslu vegna þess að í þeim málum þar sem FME þó hafði fundið eitthvað athugavert var gengið fram af "of mikilli linkind", sem aftur sendir þau skilaboð að vægt yrði tekið á brotum.

Þetta verður að taka undir. Það er allt of algengt að hér sé tekið of vægt á brotum og eftirlitsaðilar sýna almennt "of mikla linkind" í því að eiga við brotaaðila, sérstaklega síbrotaaðila.

Einn slíkur síbrotaaðili er ríkið sjálft, ráðuneyti og stofnanir, einkum þegar kemur að mannaráðningum.

Til er embætti sem hefur í mörg ár fengið til sín til umfjöllunar fjölda mála þar sem kvartað er undan opinberri stjórnsýslu, og þá sérstaklega hvernig staðið er að mannaráðningum og skipuní embætti. Þetta embætti er Umboðsmaður Alþingis og vill jú svo skemmtilega til að einn nefndarmanna Rannsóknarnefndar Alþingis er einmitt í leyfi frá störfum sínum sem Umboðsmaður Alþingis.

Umboðsmaður Alþingis hefur fundið að mannaráðningum og embættisveitingum hjá ríkinu í mörgum þeirra tilvika sem til hans hefur verið kvartað. Engu að síður er það svo að lítið lát er á slíkum kvörtunum. Ríkið, þ.e. ráðuneyti og stofnanir, virðast því lítið læra eða taka mark á athugasemdum Umboðsmanns.

Hugsanlega er það einkum Umboðsmanni sjálfum að kenna því svo virðist sem embætti Umboðsmanns sýni ríkinu "mikla linkind" þegar hann gerir athugasemdir, en algengt er að umboðsmaður, í kjölfar þess að hann finnur ýmsa annmarka á mannaráðningum eða embættisveitingum klikki út með eftirfarandi:

"Umboðsmaður taldi ólíklegt að þeir annmarkar sem hefðu verið á meðferð málsins leiddu til ógildingar á umræddri ákvörðun. Þá taldi umboðsmaður ekki tilefni til frekari umfjöllunar um réttaráhrif þessara annmarka. Hann beindi hins vegar þeim tilmælum til viðkomandi ráðuneytis/stofnunnar að það tæki framvegis mið af þeim sjónarmiðum sem rakin væru í álitinu við veitingu opinberra starfa."

Þetta er nú allt og sumt.

Ætti það ekki að vera staðallinn að ef einhverjir annmarkar eru á ráðningarferli í stöður og embættisveitingar á vegum hins opinbera verði að endurtaka ferlið?

Eiginlega algert lágmark?

Sama á við um aðra eftirlitsstofnun á vegum Alþingis, Ríkisendurskoðun, en þar er sama linkindin oft á ferð. Reyndar er það svo að Ríkisendurskoðun er ákveðin vorkunn þar sem hún situr í þeirri ankannalegu stöðu, þegar stofnunin vinnur sérstakar úttektir, að þurfa oft að endurskoða eigin verk. Ríkisendurskoðun, eins og nafnið gefur til kynna, sinnir nefnilega hefðbundinni endurskoðun fyrir velflest ráðuneyti og stofnanir á vegum hins opinbera. Rannsóknir Ríkisendurskoðunar bera þess þar af leiðandi oft merki að vera bæði takmarkaðar og treysta um of á sannsögli og útskýringar þeirra sem verið er að rannsaka. Niðurstöður Ríkisendurskoðunnar verða þ.a.l. oft ekki nógu afgerandi. Síðan verður það á hendi annarra, t.d ráðuneyta, hvort niðurstaða Ríkisendurskoðunar, jafnvel í þeim tilvikum sem hún er afgerandi, hefur einhverjar afleiðingar, aðrar en þær að "...ráðuneytið hefur að svo stöddu beint því til [viðkomandi] stofnunar að taka tillit til niðurstaðna Ríkisendurskoðunar í starfsemi sinni."

Kannski væri nú liður í því að bæta hér stjórnsýslu að þessi mikilvægu eftirlitsembætti löggjafans hætti að sýna "of mikla linkind". Þegar annmarkar finnast á stjórnsýslu, þá hafi það afleiðingar.

[Í nafni gegnsæis skal hér upplýst að sá sem þetta ritar hefur kvartað til Umboðsmanns Alþingis vegna embættisveitinga á vegum hins opinbera]

mánudagur, 12. apríl 2010

Pólarisering...

Það er eitt að fylgjast með úr fjarlægð gegnum netið, það er annað að vera á vettvangi.

Eftir að hafa dvalið hér heima á Íslandi síðustu tvær vikur er það helst sem mér hrýs hugur við hvað landið virðist pólariserað, a.m.k. í allri umræðu.

Og sérstaklega er það hryggilegt hvað margir virðast þrífast á þessari pólariseringu og beinlínis ýta undir hana.

Hvar er sáttin og samstaðan? Hvar er framtíðarsýnin? Hvar er baráttugleðin?

Þegar valið skal á milli tveggja kosta, samvinnu og sátta, eða átaka og upphrópanna, velja menn að því er virðist alltaf seinni kostinn.

Skýrslan ætti að verða til þess að byggja undir hið fyrra, en ég óttast að hún verði eldsneyti fyrir hið seinna.

Ég vona að ég hafi rangt fyrir mér.

Ég vona að við getum lært af reynslunni, rifið okkur upp úr sjálfhverfunni og staðið saman um það sem gera þarf.

Haldið áfram að vera ósammála um annað, en virt okkar skoðanaágreining án þess að því fylgi eldur, brennisteinn, fúkyrðaflaumur og landráðabrigsl.

Því þegar öllu er á botninn hvolft þá búum við í landi tækifæra.

Og þetta gæti verið svo miklu, miklu, miklu verra...

föstudagur, 9. apríl 2010

Sauðir

Alveg er kostulegt að lesa og heyra það sem haft er eftir þeim annars góða dreng Sindra Sigurgeirssyni, varaþingmanni Framsóknarflokksins og formanni samtaka sauðfjárbænda.

Sindri er mikill andstæðingur aðildar Íslands að ESB, eins og honum sem og öðrum er fullfrjálst.

Sindri hefur hins vegar miklar áhyggjur af því að einhverjum kunni að hugnast sá selskapur, og jafnvel að núverandi andstæðingar aðildar gætu skipt um skoðun eftir að kynna sér málið. Gífuryrtur kallar hann kynnisferðir til ESB, í boði sambandsins, "skipulagðan heilaþvott". Í frétt í Morgunblaðinu í morgun er jafnframt haft eftir formanninum "...að þeir sem hlynntir væru ESB-aðild reyndu að höggva í samstöðu bænda gegn aðild með "heilaþvottarferðum" aðila úr bændastétt til Brussel á vegum ESB."

Þetta er náttúrulega alveg kostulegt viðhorf. Formaðurinn, sem ekki hefur farið í slíka "heilaþvottaferð", byggir málflutning sinn á því sem hann telur sig hafa heyrt og því sem hann heldur...!

Og skilaboð formannsins eru þau að dirfist einhver að hafa aðra skoðun en formaðurinn, þ.e. að vera á móti, þá er verið að "rjúfa samstöðu bænda". Menn eiga ekki að kynna sér málið eða mynda sér sjálfstæða skoðun því formaðurinn hefur talað.

Við sama tilefni notar formaðurinn tækifæri til þess að höggva í framleiðslu á hvítu kjöti sem hann segir nú í boði bankanna.Fullyrðir hann að hvert kíló af hvítu kjöti sé niðurgreitt af bönkunum, sem séu orðnir aðaleigendur helstu kjúklinga- og svínabúa, um 120 krónur á kíló. Þetta skekkir samkeppnisstöðu annarra.

Þetta er laukrétt hjá Sindra. Hvort heldur sem í kjötframleiðslu eða öðrum rekstri er engum til góðs og síst af öllu heilbrigðum viðskiptaháttum og eðlilegri samkeppni að óarðbærum og ósjálfbærum atvinnuvegum sé haldið uppi með banka- eða skattfé.

Kannski formaðurinn hafi það í huga næst þegar hann skrifað undir samning um milljarða styrk ríkisins til sauðfjárræktarinnar!

En sauðfjárbændur, rétt eins og aðrir bændur, og aðrir borgarar þessa lands, eiga endilega að fara í "heilaþvottaferðir" til Brussel. Svo má líka fara á "heilaþvottaferðir" á fundi hjá Heimssýn, Evrópusamtökunum, norskum sauðfjárbændum, Sterkara Íslandi o.s.frv.

Er ekki um að gera fyrir suðfjárbændur og alla aðra að einmitt kynna sér málið vel, frá öllum hliðum, kosti og galla, og komast svo að sjálfstæðri niðurstöðu?

En ekki halda sig við eina skoðun sem vottuð er af formanni félags sem maður óvart tilheyrir.

Hvet ég jafnframt Sindra Sigurgeirsson til að brjóta nú odd af oflæti sínu og fara til Brussel í eina svona "heilaþvottaferð" og í þeirri ferð spyrja fulltrúa ESB hinna erfiðu spurninga um landbúnað og sjávarútveg sem hann hefur "...eftir bændum sem hafi farið í þessar ferðir" að eitthvað fari lítið fyrir.

fimmtudagur, 1. apríl 2010

Ég og Bobby Fischer

Það var að morgni skírdags fyrir sléttum fimm árum síðan, nánar tiltekið þann 24. mars 2005, að ég fór á fætur þokkalega snemma, gerði morgunverkin og keyrði svo af stað til Kaupmannahafnar. Á þessum tíma var ég útsendur starfsmaður utanríkisþjónustunnar í sendiráði Íslands í Kaupmannahöfn.

Tilefni morgunferðarinnar til Kaupmannahafnar var einkar ánægjulegt. Ég var á leiðinni á Rigshospitalet til að sækja mína ástkæru eiginkonu og nýfæddan son okkar hjóna, sem hafði komið í heiminn daginn áður snemma morguns. Fékk reyndar stöðumælasekt sem var tímasett að mig minnir nokkurn veginn á nákvæmlega sama tíma og drengurinn fæddist, en hún var reyndar felld niður þar sem fallist var á þau rök að mildandi ástæður hefðu legið að baki brotinu.

Aksturinn til Köben gekk vel. Ég var mættur á spítalann um klukkan níu og hélt rakleiðis upp á fæðingardeild. Þar var allt að verða klappað og klárt fyrir brottför og gengum við frá syninum í forláta burðarrúm, kvöddum hið ágæta starfsfólk spítalans og héldum heim á leið.

Heima biðu hin börnin þrjú og hundarnir tveir, ásamt nokkrum nánum ættingjum. Miklir fagnaðarfundir og lífið dásamlegt.

En svo varð ég að drífa mig í vinnuna!

Þennan fimmtudag var nefnilega væntanlegur með vél SAS frá Japan annar glænýr íslendingur, Bobby Fischer, á leið sinni frá Tókíóísku tugthúsi til Íslands, með viðkomu í Kaupmannahöfn. Mér höfðu verið gefin þau fyrirmæli frá utanríkisráðuneytinu að taka á móti Fischer í Kaupmannahöfn, tryggja að hann kæmist áfram til Íslands, en jafnframt að reyna að afstýra eftir bestu getu að miklar "uppákomur" yrðu á meðan á dvöl Fischer stæði í Kaupmannahöfn.

En eitthvað hafði Hr. Fischer víst verið með óspektir eftir að hann var látinn laus í Tókíó og leyft að ferðast "heim" og höfðu m.a. birst af því fréttir í helstu fréttamiðlum: "Even minutes after his release in Tokyo, Fischer remained defiant and at one point he unzipped his pants and acted as if he were going to urinate on a wall at the airport."

Þ.a. rúmum klukkutíma eftir að hafa komið heim með rúmlega sólarhringsgamlan soninn og frúna af spítalanum hélt ég til móts við Bobby Fischer.

Á Kaupmannahafnarflugvelli stefndi augljóslega í rífandi stemningu. Fjölmiðla var farið að drífa að og líka ýmsa skákáhugamenn sem vildu gjarnan berja goðið augum. Á sumum var að heyra að vonast var eftir einhverju "stönti" frá karlgarminum. Ég fór því til yfirmanna öryggismála hjá flugvellinum og gekk frá því að við komu vélarinnar frá Tókíó yrðu Fischer og frú sótt beint um borð í vélina og látin sniðganga flugstöðina og fjölmiðla. Sammæltust við um það að engum væri greiði gerður, síst af öllum Fischer, með því að einhver uppákoma yrði á Kastrup. Mín áætlun gekk því út á það að koma Fischer til Kaupmannahafnar gæti farið fram nokkurn veginn í kyrrþey og við komuna tæki ég á móti honum í svokölluðu drottningarhliði á flugvellinum og færi síðan með hann í sendiráðið á meðan beðið yrði eftir tengifluginu til Keflavíkur, en um 6 klukkutímar voru áætlaðir á milli komu hans á Kastrup og brottfarar Flugleiðavélarinnar sem hann átti bókað far með heim. Þessi áætlun var borin undir minn tengilið í utanríkisráðuneytinu heima á Íslandi og samþykkt.

Einn hængur var þó á þessari áætlun og það var sú staðreynd að mættur var til Kaupmannahafnar Sæmundur, vinur Fischers, sem talið var að væri affarasælast að hafa með í för þegar tekið yrði á móti honum. Sæmundur var þá talinn einn af fáum sem náð gat inn fyrir hrjúfan skráp Fischers og róað hann niður. Sjálfsagt var að Sæmundur kæmi með mér í drottningarhliðið að taka á móti Fischer, en sá böggull fylgdi skammrifi að Sæmundi fylgdu blaðamaður og myndatökumaður sem voru að vinna efni fyrir væntanlega heimildarmynd um Fischer. Að höfðu samráði við ráðuneytið var það samþykkt að þeir fengju að fylgjast með móttökunni á Fischer í drottningarhliðinu og gætu þannig fest á filmu þegar Fischer og Sæmundur hittust aftur og féllust í faðma, félagarnir. Einnig var tekið viðtal við Fischer.

Myndatakan var s.s. fyrir heimildarmyndina, ekki fjölmiðla.

Eftir að vélin frá Tókíó var lent sóttu öryggisverðir Fischer og frú um borð og fylgdu þeim beint úr landgangsrana í bíl og keyrðu þau út að drottningarhliði þar sem ég, Sæmundur og tveggja manna heimildarmyndateymið tókum á móti þeim. Fischer var hinn bljúgasti og kátur mjög að vera laus úr prísundinni í Japan. Fagnaðarfundir hans og Sæmundar voru myndaðir í bak og fyrir, allt í þágu heimildarmyndarinnar. Öryggisverðirnir á Kastrup sáu síðan um að koma farangri Fischers til okkar að hliðinu og þar með var allt reiðubúið til brottfarar til sendiráðsins.

Þá fóru skrítnir hlutir að gerast. Þar sem við stóðum við drottningarhliðið birtist allt í einu Páll Magnússon, þá sjónvarpsstjóri Stöðvar 2, og gekk að heimildarmyndateyminu og heilsaði kumpánlega. Skipti þar engum togum að myndbandið með "fagnaðarfundunum" var tekið úr myndatökuvélinni og afhent Páli. Ég gerði við þetta athugasemd, en gat lítið gert. Jafnframt tilkynnti Páll að Fischer og frú stæði nú til boða að fara áfram til Íslands með einkaþotu Baugs í stað þess að fljúga heim með almennu farþegaflugi Icelandair.

Í þessari stöðu varð ég að taka til minna ráða og eftir samráð við utanríkisráðuneytið heima, gerði ég eftirfarandi:

Í fyrsta lagi spurði ég Fischer hvers hann óskaði. Vildi hann fara áfram með áætlunarflugi eða með einkaþotu Baugs? Hann samþykkti einkaþotuboðið.

Í öðru lagi varð úr, í ljósi þess að Stöð 2, með bolabrögðum, voru nú komnir með myndefni af komu Fischers til Kaupmannahafnar, að ég, að höfðu samráði við utanríkisráðuneytið og með leyfi Fischers, stoppaði bílinn minn fyrir utan flugstöðina á Kastrup til að gefa ríkissjónvarpinu einnig tækifæri á að ná hann tali. Viðtal RÚV við Fischer fór þannig fram með Fischer í aftursætinu á bílnum. Það þarf vart að taka fram að fulltrúa Stöðvar 2 á staðnum var ekki skemmt.

Í þriðja lagi var orðið ljóst að vegna þoku á Kastrup gat fína einkaþotan ekki lengur lent þar þ.a. nú varð að fara yfir til Svíþjóðar á flugvöll fyrir utan Malmö, þar sem von var til þess að einkaþotan gæti lent. Að loknu viðtalinu við RÚV var því haldið áleiðis til Svíþjóðar. Í bílnum hjá mér var tveggja manna heimildarmyndateymið, Fischer og frú og Sæmundur. Páll Magnússon og aðrir Stöðvar 2 tengdir voru í öðrum bíl og fylgdu í humátt á eftir.

Á meðan að þessu gekk var ég í stanslausu símasambandi við tengilið minn hjá utanríkisráðuneytinu, í bland við að taka á móti frústreruðum símtölum frá fréttastjóra RÚV sem m.a. líkti einkaþotutilboði Stöðvar 2 við mannrán!

Á leiðinni yfir til Svíþjóðar gafst tækifæri til að spjalla við títtnefndan Bobby Fischer, sem var hinn geðugasti, fróður, kurteis, og, já, skemmtilegur. Baðst mikið forláts á því að ég skyldi vera dreginn út að stússast í kringum hann, sérstaklega þegar hann heyrði af nýfæddum syninum. Kallinn var hreinlega sjarmerandi, allt þar til tal hans leiddi til gyðinga og bandaríkjamanna (en hann var reyndar bandarískur gyðingur) og þá óð á honum með formælingum og svívirðingum sem ekki verða endurtekin hér. Reyndar kom þá líka í ljós að Sæmundur virtist hafa töfratak á Fisher, því í hvert sinn sem Fischer byrjaði að spúa eldi og brennisteini tókst Sæmundi með lagni og háttvísi að ná honum niður.

Með því að fylgja Fischer yfir til Svíþjóðar var ég reyndar kominn út fyrir umdæmisland mitt sem stjórnarerindreki Íslands á erlendri grund, en áfram hélt ég þó þar sem mér þótti ekki stætt á öðru en að klára að fylgja Fischer og frú allt þar til ljóst var að þau væru komin um borð í flugvél sem myndi flytja þau heim. Vegna þokunnar sem nú náði líka til Svíþjóðar var einnig orðið tvísýnt með að einkaþota Baugs gæti lent þar, en eftir allnokkrar tafir hafðist það þó að lokum. Það fór svo á endanum að Fischer og frú tókust á loft frá Svíþjóð og flugu áleiðis "heim" til Íslands. Sjálfur gat ég loks farið heim í faðm fjölskyldunnar. Sirkusinn í kringum Bobby Fischer hélt hins vegar áfram heima þegar einkaþotan lenti í Reykjavík.

En fæðing yngsta sonar míns verður hins vegar ætíð tengd Bobby Fischer. Við hjónin fórum þó ekki að uppástungu sumra félaga minna sem hvöttu til þess að í ljósi þessa ævintýris yrði drengurinn skýrður í höfuðið á Fischer. Allt hefur sín takmörk! Ég er heldur ekki viss um að Bobby Fischer Friðriksson hefði hlotið náð fyrir augum mannanafnanefndar.

Heimildarmyndina um Fischer hef ég ekki ennþá séð, en það stendur til bóta þar sem hún er á dagskrá Ríkisstjónvarpsins annað kvöld.