föstudagur, 9. apríl 2010

Sauðir

Alveg er kostulegt að lesa og heyra það sem haft er eftir þeim annars góða dreng Sindra Sigurgeirssyni, varaþingmanni Framsóknarflokksins og formanni samtaka sauðfjárbænda.

Sindri er mikill andstæðingur aðildar Íslands að ESB, eins og honum sem og öðrum er fullfrjálst.

Sindri hefur hins vegar miklar áhyggjur af því að einhverjum kunni að hugnast sá selskapur, og jafnvel að núverandi andstæðingar aðildar gætu skipt um skoðun eftir að kynna sér málið. Gífuryrtur kallar hann kynnisferðir til ESB, í boði sambandsins, "skipulagðan heilaþvott". Í frétt í Morgunblaðinu í morgun er jafnframt haft eftir formanninum "...að þeir sem hlynntir væru ESB-aðild reyndu að höggva í samstöðu bænda gegn aðild með "heilaþvottarferðum" aðila úr bændastétt til Brussel á vegum ESB."

Þetta er náttúrulega alveg kostulegt viðhorf. Formaðurinn, sem ekki hefur farið í slíka "heilaþvottaferð", byggir málflutning sinn á því sem hann telur sig hafa heyrt og því sem hann heldur...!

Og skilaboð formannsins eru þau að dirfist einhver að hafa aðra skoðun en formaðurinn, þ.e. að vera á móti, þá er verið að "rjúfa samstöðu bænda". Menn eiga ekki að kynna sér málið eða mynda sér sjálfstæða skoðun því formaðurinn hefur talað.

Við sama tilefni notar formaðurinn tækifæri til þess að höggva í framleiðslu á hvítu kjöti sem hann segir nú í boði bankanna.Fullyrðir hann að hvert kíló af hvítu kjöti sé niðurgreitt af bönkunum, sem séu orðnir aðaleigendur helstu kjúklinga- og svínabúa, um 120 krónur á kíló. Þetta skekkir samkeppnisstöðu annarra.

Þetta er laukrétt hjá Sindra. Hvort heldur sem í kjötframleiðslu eða öðrum rekstri er engum til góðs og síst af öllu heilbrigðum viðskiptaháttum og eðlilegri samkeppni að óarðbærum og ósjálfbærum atvinnuvegum sé haldið uppi með banka- eða skattfé.

Kannski formaðurinn hafi það í huga næst þegar hann skrifað undir samning um milljarða styrk ríkisins til sauðfjárræktarinnar!

En sauðfjárbændur, rétt eins og aðrir bændur, og aðrir borgarar þessa lands, eiga endilega að fara í "heilaþvottaferðir" til Brussel. Svo má líka fara á "heilaþvottaferðir" á fundi hjá Heimssýn, Evrópusamtökunum, norskum sauðfjárbændum, Sterkara Íslandi o.s.frv.

Er ekki um að gera fyrir suðfjárbændur og alla aðra að einmitt kynna sér málið vel, frá öllum hliðum, kosti og galla, og komast svo að sjálfstæðri niðurstöðu?

En ekki halda sig við eina skoðun sem vottuð er af formanni félags sem maður óvart tilheyrir.

Hvet ég jafnframt Sindra Sigurgeirsson til að brjóta nú odd af oflæti sínu og fara til Brussel í eina svona "heilaþvottaferð" og í þeirri ferð spyrja fulltrúa ESB hinna erfiðu spurninga um landbúnað og sjávarútveg sem hann hefur "...eftir bændum sem hafi farið í þessar ferðir" að eitthvað fari lítið fyrir.

1 ummæli:

  1. Ríkisstyrktir eiginhagsmunahópar allra landa sameinist!

    SvaraEyða

Ath: Aðeins meðlimir bloggsins geta birt ummæli.