laugardagur, 29. maí 2010

Ónýt pólitísk vörumerki?

Maður veltir því fyrir sér hvort "vörumerki" hefðbundnu stjórnmálaflokkana séu ónýt eftir hrunið.

Þegar við bætist að engin flokkanna er sérlega innbyrðis samstilltur um stefnumál er heldur ekki von á góðu.

Allir eru flokkarnir mismikið klofnir eftir fylkingum sem stundum virðast eiga lítt annað sameiginlegt en bókstafinn sem það krossar við.

Og þá má velta fyrir sér hvaða fylkingu er raunverulega verið að kjósa.

En flokkakerfið er lífseigt. Samfylking og Vg eru lítið annað en tilbrigð við stef forvera sinna, Alþýðuflokkinn og Alþýðubandalagið. Mikið vildi ég þó að Samfylkingin væri líkari Alþýðuflokknum gamla, svei mér þá.

Hver er ástæða þessarar þrautsegju? Eflaust eru margar skýringar og m.a. sú að þeir eru jú með uppbyggingu út um allt land. Eru ráðsett fyrirtæki með ferla og fólk til að styðja við ríkjandi kerfi. Flokkarnir eru kók og pepsí pólitíkurinnar. Sól og spur kóla geta verið ágæt í smá tíma, en hafa ekkert í langhlaup móti risunum.

Kjördæmakerfið sem slíkt styður síðan við valdeinokun hefðbundnu flokkanna. Pólitísk endurnýjun væri án efa auðveldari ef landið væri eitt kjördæmi.

4 ummæli:

 1. „Þegar við bætist að engin flokkanna er sérlega innbyrðis samstilltur um stefnumál er heldur ekki von á góðu.“

  Þetta er furðuleg athugasemd, eða geturðu rökstutt hvernig VG er ekki samstilltur í þessum efnum?

  Kveðja,
  Davíð
  (frambjóðandi VG í Reykjavík ;-)

  SvaraEyða
 2. Sæll Davíð,

  Prófum nokkur dæmi: Evrópumál, sjávarútvegsmál, endurskipulagning stjórnsýslunnar, auðlindamál og ICESAVE. Eflaust er hægt að nefna fleiri. Þinn flokkur má eiga það hins vegar að alveg þar til hann komst í ríkisstjórn hafði hann þá ásýnd að vera "samstilltastur" hefðbundnu flokkanna.

  Með kveðju frá Kabúl,

  Friðrik
  (frambjóðandi Framsóknarflokksins (og óháðra), Akranesi) ;-)

  SvaraEyða
 3. Þetta er samt í grunninn pólitíska litrófslínan. Þ.e.a.s. umræddir 4 hefbundnu flokkar.

  1 hægri flokkur, 1 á miðjunnu og fer til hægri og vinstri eftir vindáttum, 1 heldur til vinstri en nær stundum yfir miðju til hægri og 1 alfarið til vinstri.

  Þetta er í stóru myndinni i línu við pólitíska flokka í evrópu langa langa lengi.

  Eg er ekki að sjá að það verði breyting á þessu. Á allt eftir að jafna sig smá saman eftir atvikum. Kemur náttúrulega hikst eftir rústalagningu Sjalla á landinu og massíft própagandaruglið í þeim á síðari árum.

  Hinsvegar er það alveg rétt, að uppá síðkastið eru ýmis mál sem hafa myndað deildir eða arma innan flokkanna má segja - eða allaveg meiri tilhneiging til þess en maður man eftir á síðari tímum og/eða meira áberandi og opinbert. (Td má alveg segja að sjallaflokkur hafi lengi haft ákveðna arma sem yfirleitt hafi komið fram út á við sem ein heild. En þó hefur dregið til tíðinda annað slagið á síðstu 30 40 árum eins og menn muna)

  Nú eru margir að tala um að flokkaskipulag sé vandamálið og tala um persónukjör o.s.frv.

  Kringum 1900 var það þannig á Íslandi. Þá mynduðu menn bandalög um einstök mál - og deildu af þvílíku kappi að umræðan í dag er eins og barnahjal í samanburði. Bara eins og amen og hallelúja í hverju orði í samanburði við pólitíska umræðu í þá daga.

  Að mörgu leiti var það mikil framför á sínum tíma þegar ákv. kerfi komst á flokkaskipunina sem má segja að Jónas frá Hriflu hafi neglt endanlega niður með stofnun tveggja flokka.

  Þannig að sko, að það er misskilningur að halda að persónukjör per se og myndun bandalaga um mismunandi mál sé töfralausn. Hefur etv. einhverja kosti en hefur líka sína stóru galla. Allt verður miklu lausara í reipunum og seinvirkara og bíður uppá endalausar deilur og hringlandahátt.

  Ómar Kristjánsson.

  SvaraEyða
 4. Skrítið þegar samfylking talaði um gegnsæji, og öll mál upp á borð fyrir síðustu kosningar. Velta átti við hverri steinvölu og skoða hvað leyndist þar undir. Samt eru hér í rekstri bankar sem enginn veit hver á.

  Þarf nú ekki að skoða þessa samfylkingu aðeins betur?

  SvaraEyða

Ath: Aðeins meðlimir bloggsins geta birt ummæli.