föstudagur, 29. október 2010

Allt í plati

Að öllu jöfnu ættu það að vera ánægjuleg tíðindi að verðbólga á Íslandi sé komin niður í 3,3%. Hér er þó líkast til skammgóður vermir sem byggir á falsundirstöðum gjaldeyrishafta og samdráttar.

Seðlabanki Íslands leikur augljóslega stærsta hlutverkið í verðbólgustýringunni með gjaldeyrishöftunum. Ísland er algerlega háð innflutningi með öll aðföng, hvort sem þau eru innlend eða erlend. Hvorki íslenskur landbúnaður né sjávarútvegur komast af á hreinum innlendum aðföngum til sinnar framleiðslu.

Undanfarna mánuði hefur Evran, sem er ríkjandi gjaldmiðill í alþjóðaviðskiptum Íslands, verið þokkalega stöðug og rjátlað í meðalgengi í kringum 155 – 156 krónur. Ekki er annað að sjá á hreyfingu gjaldmiðla að þetta sé viðmiðunarstaðall Seðlabankans fyrir inngripum á gjaldeyrismarkaði. Hafið einnig í huga að markaðsviðskipti með gjaldeyri eru svo reglusett vegna gjaldeyrishaftanna að Seðlabankinn þarf væntanlega ekki mikið að grípa til beinna aðgerða til þess að hafa áhrif á "markaðs"-gengi krónunnar. Aðilar á markaði þurfa nefnilega að hlýta fyrirmælum og leiðbeiningum bankans að öllu leiti, annars er von á sektum og jafnvel tukthúsvist!

Þetta þýðir að núverandi gengi krónunnar er plat. Þetta þýðir líka að núverandi verðbólgutölur eru plat.

Hvað á að plata okkur lengi og hverjar verða langtímaafleiðingarnar?

Allt er þetta hluti af því leikriti að reyna að viðhalda sýndartrúverðugleika gjaldmiðilsins, okkar "ástkæru" krónu.

Hún er fársjúk og er haldið á lífi í öndunarvél gjaldeyrishaftanna. En einhverntíma verður að slökkva á þeirri öndunarvél.

Hvað gerist þá? Eru einhverjar líkur á kraftaverki og sjúklingnum takist að halda lífi einn og óstuddur?

Í miðri umræðunni um stöðu trúarinnar á vettvangi hins opinbera og innan skólastarfs er athyglisvert að framtíðarefnahagsstefna landins, eftir gjaldeyrishöft, virðist einkum byggja á mætti bænarinnar...!

þriðjudagur, 26. október 2010

Róttæk aðgerð til lausnar efnahagsvandans

Hagfræðilega er til mjög einföld lausn á efnahagsvanda þjóðarinnar sem jafnhendis myndi leysa skuldavanda fyrirtækjanna, heimilanna og ríkisins.

Fælist sú aðgerð í því að taka upp nýjan gjaldmiðil samhliða íslensku krónunni.

Best væri að nýi gjaldmiðillinn væri byggður á grunni fastgengis við stærri gjaldmiðil sem er ríkjandi í milliríkjaviðskiptum landsins, t.d. evru eða dollar, og jafnvel mætti lýsa yfir að sá gjaldmiðill gilti einnig sem lögeyrir við hlið þess nýja, og þess gamla.

Laun yrðu frá fyrsta degi færð yfir í nýja gjaldmiðilinn á ákveðnu gengi (t.d. núverandi evrugengi) og hugsanlega innistæður upp að lágmarkstryggingu. Ný ríkisskuldabréf, húsnæðisbréf og lán yrði að sama skapi eingöngu gefin út í nýjum gjaldmiðli (og eingöngu óverðtryggð).

Þeim gamla yrði síðan leyft að falla. Þá yrði áfram opin markaður fyrir bæði gamla gjaldmiðilinn (núverandi krónu) og gömul skuldabréf, en markaðsverð þeirra réði því á hvaða gengi þau fengust keypt upp eða þeim skipt yfir í ný bréf byggð á grunni hins nýja gjaldmiðils.

Ríkið gæti hins vegar sett ákveðið gólf á fall gengis gamla gjaldmiðilsins með því að bjóðast til að að kaupa upp krónur, ríkisskuldabréf og húsnæðisbréf á t.d. genginu einn á móti fimm.

Þessi aðgerð gengi ekki gegn eignarréttinum þar sem viðskipti með gjaldmiðla og skuldabréf eru í eðli sínu áhættufjárfesting.

Tap lífeyrissjóða, sem eru einu lögaðilarnir sem eiga skuldabréf og okkur er kannski ekki fullkomlega sama um, má bæta með sértækum aðgerðum eftir að breytingar þessar eru afstaðnar, en þá í samhengi við sameiningu þeirra og verulega fækkun.

Tap banka er annað mál, en það er hins vegar svo með banka eins og önnur fyrirtæki, að eins dauði er annars brauð. Ef hægt er að græða á bankastarfsemi þá mun einhver verða til þess að stofna nýja(n) skyldu þeir gömlu fara á hausinn.

Raunverulegur gjaldeyrisvaraforði yrði þannig svo til eingöngu nýttur til að styðja við hinn nýja gjaldmiðil.

Lausin gæti þar með falist í líknardauða krónunnar, en höfum líka í huga að hún er, eins og aðrir gjaldmiðlar, bara plat. Bara miklu meira plat.

fimmtudagur, 14. október 2010

Af hverju NATO?

Ísland er eitt af stofnaðildarríkjum Atlantshafsbandalagsins, NATO. Í þeim félagsskap höfum við sem sagt verið í 61 ár. Bandalagið var upphaflega stofnað sem varnarbandalag og gegndi lykilhlutverki í kalda stríðinu. Eftir kalda stríðið hefur bandalagið bæði stækkað með fjölgun aðildarríkja og aukið umsvif sín umfram hefðbundið varnar- og fælingarhlutverk. Bandalagið lék lykilhlutverk í því að binda endi á fjöldamorð serbneskra þjóðernissinna á Balkanskaga seinni hluta tíunda áratugar síðustu aldar og í upphafi þessarar.

Frá 2002 hefur bandalagið auk þess gegnt lykilhlutverki í því að vinna að friði og uppbyggingu í Afganistan.

Fyrir herlaust smáríki eins og Ísland hefur aðildin að NATO verið gríðarlega mikilvæg frá öryggis- og varnarsjónarmiði. Án NATO aðildar hefði, eins undarlegt og það kann að hljóma, herleysi tæpast verið valkostur. Varnir Íslands voru tryggðar með NATO aðildinni annars vegar og varnarsamningnum við Bandaríkin hins vegar.

Íslendingar hafa hins vegar upp til hópa aldrei getað tekið öryggis- og varnarmál alvarlega, enda lifað værukærir „með friðsæl býli, ljós og ljóð svo langt frá heimsins vígaslóð.“

Stríð er eitthvað sem gerist annars staðar og kemur okkur ekki við. Reyndar hefur klysjan um hina herlausu og friðelskandi þjóð á sér ákveðið yfirbragð þjóðernishroka, þar sem íslensk þjóð unir jú „grandvör, farsæl, fróð og frjáls – við ysta haf“ - annað en allar aðrar þjóðir sem, eðli málsins samkvæmt, eru með her og þar af leiðandi tæpast friðelskandi, eða hvað?

Fyrir smáríki eins og Ísland felst í aðild að alþjóðastofnunum mesta viðurkenning og staðfesting á fullveldi landsins. Fullveldi þjóðar er marklaus nema í alþjóðlega samhengi. Viðurkenning annara þjóða á fullveldi Íslands er lykillinn af fullveldi í reynd. (Til samanburðar má til dæmis kynna sér stöðu Taívan.)

Aðildin að NATO felur auk þess í sér staðfestingu á því að Ísland deilir örlögum með þessum nánustu bandalagsþjóðum sínum. Að sameinaðar séu þjóðirnar sterkari en sundraðar. Sérstaklega er þetta mikilvægt þegar kemur að jafn afgerandi og afdrifaríkum málum eins og öryggis- og varnarmálum.

Auðvitað eru ríkjabandalög eins og NATO langt frá því að vera fullkominn. Þar er bæði deilt og drollað. Mestu skiptir þó að þar eiga 28 ríki samleið og vinna sameiginlega að því að tryggja og efla frið í okkar heimshluta, og víðar. Þar hefur árangurinn verið umtalsvert meiri en afglöpin.

Það ber einnig vott um vissan styrk að aðildarþjóðir bandalagsins líta ekki á það sem orðin og gerðan hlut sem ekki megi breyta og þróa í takt við breytta tíma. Um það snýst meðal annars sá ráðherrafundur sem átti sér stað í dag, en þar var fjallað um vinnu við nýja stefnu bandalagsins í öryggis- og varnarmálum til næstu framtíðar.

Aðild Íslands að NATO styður því við og styrkir við fullveldi Íslands enn þann dag í dag. Hins vegar er þeir tímar liðnir að Ísland geti komist upp með að meðhöndla aðild að alþjóðasamtökum eins og NATO sem hluta af einhverju gróðabralli. Hvorki í NATO, né öðru alþjóðlegu samstarfi, getum við fengið „allt fyrir ekki neitt!“

Því er það eðlilegt og sjálfsagt að Ísland leggi til í rekstur bandalagsins, þar með talið endurnýjun höfuðstöðva þess, í hlutfallslegu samræmi við aðrar þjóðir. Það er ennfremur einnig eðlilegt og sjálfsagt að í því varnarstarfi sem Ísland þó sinnir, þrátt fyrir herleysið, sé unnið í samræmi við og með tilliti til bæði okkar eigin þarfa og þarfa okkar bandalagsþjóða.

Frið og öryggi megum við aldrei taka sem gefnum og sjálfsögðum hlut. Einungis með virku samstarfi við aðrar þjóðir á sviði öryggis- og varnarmála tryggjum við drauminn um "Ó Ísland fagra ættarbyggð, um eilífð sé þín gæfa tryggð, öll grimmd frá þinni ströndu styggð og stöðugt allt þitt ráð."

miðvikudagur, 6. október 2010

Eignarréttaröngstrætið

Eignarrétturinn er friðhelgur segir stjórnarskráin. Engan má heldur svipta eign sinni nema að almannahagsmunir séu í húfi og skulu þá koma fullar fébætur fyrir.

Þetta er svo vandlega oftúlkað hér á landi í kjölfar hrunsins að reynt er að bæta fram í rauðan dauðann "eignarrétt" þeirra sem gömbluðu með pappíra sem vitað var að hvenær sem er gátu tapað verðgildi sínu, hvort sem það voru hlutabréf, peningamarkaðsbréf, skuldabréf eða íslenskar krónur.

Aðallega virðist þetta gert með því að ganga á eignarrétt annarra, þ.e. þeirra sem áttu eitthvað handfast, eins og fasteign eða bíl, eða framtíðareignarrétt með því að koma í veg fyrir að núverandi kynslóðir og kynslóðir framtíðarinnar geti nokkurn tíma eignast eitthvað.

Eignarréttur gambleranna er varinn með því að svipta okkur hin, börnum okkar og barnabörnum, eignarréttinum!