fimmtudagur, 14. október 2010

Af hverju NATO?

Ísland er eitt af stofnaðildarríkjum Atlantshafsbandalagsins, NATO. Í þeim félagsskap höfum við sem sagt verið í 61 ár. Bandalagið var upphaflega stofnað sem varnarbandalag og gegndi lykilhlutverki í kalda stríðinu. Eftir kalda stríðið hefur bandalagið bæði stækkað með fjölgun aðildarríkja og aukið umsvif sín umfram hefðbundið varnar- og fælingarhlutverk. Bandalagið lék lykilhlutverk í því að binda endi á fjöldamorð serbneskra þjóðernissinna á Balkanskaga seinni hluta tíunda áratugar síðustu aldar og í upphafi þessarar.

Frá 2002 hefur bandalagið auk þess gegnt lykilhlutverki í því að vinna að friði og uppbyggingu í Afganistan.

Fyrir herlaust smáríki eins og Ísland hefur aðildin að NATO verið gríðarlega mikilvæg frá öryggis- og varnarsjónarmiði. Án NATO aðildar hefði, eins undarlegt og það kann að hljóma, herleysi tæpast verið valkostur. Varnir Íslands voru tryggðar með NATO aðildinni annars vegar og varnarsamningnum við Bandaríkin hins vegar.

Íslendingar hafa hins vegar upp til hópa aldrei getað tekið öryggis- og varnarmál alvarlega, enda lifað værukærir „með friðsæl býli, ljós og ljóð svo langt frá heimsins vígaslóð.“

Stríð er eitthvað sem gerist annars staðar og kemur okkur ekki við. Reyndar hefur klysjan um hina herlausu og friðelskandi þjóð á sér ákveðið yfirbragð þjóðernishroka, þar sem íslensk þjóð unir jú „grandvör, farsæl, fróð og frjáls – við ysta haf“ - annað en allar aðrar þjóðir sem, eðli málsins samkvæmt, eru með her og þar af leiðandi tæpast friðelskandi, eða hvað?

Fyrir smáríki eins og Ísland felst í aðild að alþjóðastofnunum mesta viðurkenning og staðfesting á fullveldi landsins. Fullveldi þjóðar er marklaus nema í alþjóðlega samhengi. Viðurkenning annara þjóða á fullveldi Íslands er lykillinn af fullveldi í reynd. (Til samanburðar má til dæmis kynna sér stöðu Taívan.)

Aðildin að NATO felur auk þess í sér staðfestingu á því að Ísland deilir örlögum með þessum nánustu bandalagsþjóðum sínum. Að sameinaðar séu þjóðirnar sterkari en sundraðar. Sérstaklega er þetta mikilvægt þegar kemur að jafn afgerandi og afdrifaríkum málum eins og öryggis- og varnarmálum.

Auðvitað eru ríkjabandalög eins og NATO langt frá því að vera fullkominn. Þar er bæði deilt og drollað. Mestu skiptir þó að þar eiga 28 ríki samleið og vinna sameiginlega að því að tryggja og efla frið í okkar heimshluta, og víðar. Þar hefur árangurinn verið umtalsvert meiri en afglöpin.

Það ber einnig vott um vissan styrk að aðildarþjóðir bandalagsins líta ekki á það sem orðin og gerðan hlut sem ekki megi breyta og þróa í takt við breytta tíma. Um það snýst meðal annars sá ráðherrafundur sem átti sér stað í dag, en þar var fjallað um vinnu við nýja stefnu bandalagsins í öryggis- og varnarmálum til næstu framtíðar.

Aðild Íslands að NATO styður því við og styrkir við fullveldi Íslands enn þann dag í dag. Hins vegar er þeir tímar liðnir að Ísland geti komist upp með að meðhöndla aðild að alþjóðasamtökum eins og NATO sem hluta af einhverju gróðabralli. Hvorki í NATO, né öðru alþjóðlegu samstarfi, getum við fengið „allt fyrir ekki neitt!“

Því er það eðlilegt og sjálfsagt að Ísland leggi til í rekstur bandalagsins, þar með talið endurnýjun höfuðstöðva þess, í hlutfallslegu samræmi við aðrar þjóðir. Það er ennfremur einnig eðlilegt og sjálfsagt að í því varnarstarfi sem Ísland þó sinnir, þrátt fyrir herleysið, sé unnið í samræmi við og með tilliti til bæði okkar eigin þarfa og þarfa okkar bandalagsþjóða.

Frið og öryggi megum við aldrei taka sem gefnum og sjálfsögðum hlut. Einungis með virku samstarfi við aðrar þjóðir á sviði öryggis- og varnarmála tryggjum við drauminn um "Ó Ísland fagra ættarbyggð, um eilífð sé þín gæfa tryggð, öll grimmd frá þinni ströndu styggð og stöðugt allt þitt ráð."

14 ummæli:

 1. Trúir pistlahöfundur því virkilega að NATO hafi leikið "lykilhlutverk í því að binda endi á fjöldamorð serbneskra þjóðernissinna á Balkanskaga"?

  Mér þykir þessi pistill vera dæmigerður "War is Peace" áróður um hernaðarbandalag sem hefur framið ógeðfellda stríðsglæpi. Svakalega þykir mér dapurlegt að menn geti enn haft svo einfalda heimsmynd.

  SvaraEyða
 2. Hmmm, Karadzic og Milosevic semsagt hættu bara einhvern veginn af sjálfu sér?

  En, eflaust er heimsmynd mín ósköp einföld, sérstaklega eftir að hafa verið í Afganistan síðustu 16 mánuði...

  SvaraEyða
 3. Ísland hefur ekkert að gera í stríðsbandalagi
  sem nú herjar í langtburtistan.

  SvaraEyða
 4. Flottur pistill.

  -V

  SvaraEyða
 5. Þú segir: "Frá 2002 hefur bandalagið auk þess gegnt lykilhlutverki í því að vinna að friði og uppbyggingu í Afganistan."

  Hvar er friðurinn og uppbyggingin?

  Hvernig getur Ísland haft samskonar hagsmuni í Afganistan og BNA?

  Eru Afganir óvinir okkar?

  Ertu að halda fram að BNA og þá NATO sé í Afganistan af einskærum áhuga á mannréttindum?

  Voru síðustu kosningarnar i Afganistan 7 árum eftir innrásina lýðræðislegar og óspiltar?

  SOF vinnur fyrir NATO er það góður félagsskapur fyrir Íslendinga, og finnst þér aðferðirnar sem þeir nota bara OK.

  Geturðu útskýrt afhverju svona friðsemdar og réttlætisapparat eins og þú telur NATO vera beitir sér ekki gegn hryðjuverkastjórninni í Israel.

  SvaraEyða
 6. Já, heimsmynd síðuhaldara er mjög einföld, aðeins svart og hvítt, rétt einsog hjá G.W. Bush.

  SvaraEyða
 7. Þú segir:

  "Bandalagið lék lykilhlutverk í því að binda endi á fjöldamorð serbneskra þjóðernissinna á Balkanskaga seinni hluta tíunda áratugar síðustu aldar og í upphafi þessarar."

  Þetta er mikill misskilningur. NATO þjóðirnar Þýskaland og Ítalía studdu Króatíu til að lýsa yfir einhliða sjálfstæði og viðurkenndu landamæri þeirra - sem innihéldu Krajina hérað sem var mjög stórt Serbneskt landsvæði.

  Þarna voru gömlu bandamenn Ítölsku fasistanna og Þýsku Nasistanna frá því í síðari heimsstyrjöld - Króatar. Kaþólikkarnir sem höfu bláan nasistafána og ráku útrýmingarbúðir fyrir Serba sem eru Réttrúnaðarmegin við hin ósýnilegu landamæri Evrópu.

  Lítið hafði breyst frá síðari heimstyrjöld hvað eþtta varðar.

  Króatía hóf síðan árið 1995 hernaðaraðgerðina "Operation Storm" með stuðningi NATO og Bandaríkjanna og flæmdu Serbana í burtu af landi sem hefði augljóslega átt að vera partur af Serbíu. Ástæðan fyrir nafngiftinni er að þarna voru sömu hershöfðingar Bandaríkjamanna að verki og skipulögðu Operation Desert Storm skömmu áður.

  Það er ekki allt sem sýnist. Klúður NATO er hvílikt að allt tal um að NATO hafi þarna unnið einhver stórvirki er tóm vitleysa. Að kenna Serbíu um stríðið er þægilega lausn fyrir þá sem eru raunverulega ábyrgir.

  SvaraEyða
 8. Ísland hefur nákvæmlega jafn mikið að gera í Afghanistan og við höfðum að gera í Víetnam.

  SvaraEyða
 9. Mikið er gaman að lesa gagnrýni á annars ágætan pistil frá fólki sem hefur aldrei komið hingað til Afghanistan.

  Vitið þið gott fólk eitthvað hvað Íslendingar hafa verið að gera hérna?

  Leyfi mér að efast um það.

  Aflið ykkur upplýsinga um það áður en þið farið að gagnrýna hlutina.

  SvaraEyða
 10. Til að útskýra; það er jafn mikið vit í að Ísland taki þátt í innrás í Afghanistan og Írak (sem viljug þjóð í boði Davíðs og Halldórs) með Bandaríkjunum eins og ef við hefðum ráðist inn í Víetnam með þeim. Nú er síðuhöfundur (og Björn?) ekki á vegum NATÓ í Afghanistan heldur SÞ og það er ekki hvað ég var að gagnrýna.

  SvaraEyða
 11. Ég hef verið í Afganistan Björn og veit vel um hvað ég er að tala. Þú ættir frekar að reyna að hrekja það sem ég segi og svara mér en fabúlera um hvar ég hef ekki verið. Ég hef fylgst náið með þróunin í Afganistan frá því áður en þú fæddist.

  Og starfsmenn SÞ ættu að tala varlega um forvarnir og uppbyggingu, SÞ lét eitt ógðlegasta fjöldamorð sögunar gerast á sínu vermdarsvæði í Bosníu þegar 8.000 ungir menn voru drepnir á einu bretti.

  SvaraEyða
 12. Björn Halldórsson19. október 2010 kl. 07:30

  Kæru félagar Tóti og Sverrir..

  Ég kom fyrst til Afghanistan árið 2004 sem hluti af Íslensku Friðargæslunni. Hérna starfaði ég sem slökkviliðsmaður og starfaði við hlið afganskra slökkviliðsmanna sem höfðu ekkert nema þakklæti að færa okkur íslendingunum sem störfuðum hérna þá. Við tókum þátt í því að lyfta öryggismálum á flugvellinum upp á mun hærra plan. Fengun ný tæki og tól á slökkvistöðina og kenndum þeim á tækin.

  Síðan líða árin og nú finn ég mig aftur hérna og nú í því hlutverki að kenna sonum margra þeirra ágætu manna sem ég starfaði með fyrr á árum.

  Enn og aftur er ekkert nema þakklæti og virðing borin í garð okkar íslendingana sem starfa hérna.

  Auðvitað má margt segja og skrifa um þessa blessuðu innrás og ástæður hennar en hvað varðar þátt íslendinganna í þessari ljótu baráttu er ekkert nema gott að segja. Við höfum aflað okkur mikillar virðingar á þessum vettvangi og fara góðar sögur af okkar störfum hérna.

  Ég bið ykkur um að kynna ykkur ástandið og aðstæðurnar áður en þið básúnið ykkur á almennum vettvangi.

  Friðrik hef ég einungis hitt einu sinni og hef aldrei starfað með honum. Eina sem ég veit um manninn að hann er sleipur hljóðfæraleikari.

  Ég bið ykkur um að sýna virðingu fyrir okkur sem erum langt í burtu frá fjölskyldum okkar og öllum þeim þægindum sem við eigum að venjast, við erum að gera góða hluti fyrir ansi fátækt land.

  Björn

  SvaraEyða
 13. Sæll Björn

  Þú ert að miskilja mig, ég var að gagnrýna þessa fullyrðingu Friðriks.

  "Frá 2002 hefur bandalagið auk þess gegnt lykilhlutverki í því að vinna að friði og uppbyggingu í Afganistan."

  Ég skal fúslega játa að ég veit lítið um slökkvistarf í Kabúl og afhverju ætti ég að vera eitthvað á móti því.

  Ég spurði Friðrik nokkurra spurninga vegna þess að þessi þráður hans tengdist umræðu á Eyjunni og hann vísaði þar á þennan link sinn.

  Ef þú ert að vinna fyrir Nato í Afganiatan þá ertu vinna fyrir stofnun sem byggir starfsemi sína á glæpalýð eins og SOF, sem drepa daglega og pína saklausa almennilega Afgani eins og þá sem þú vinnur með. Í Afganistan eru Nató þjóðir eins og Íslendingar teymdir á asnaeyrunum inn í heimsveldisbrölt Bandaríkjanna og ekkert gott um það að segja.

  En gangi þér vel og njóttu dvalarinnar í Afganistan eins mikið og það er hægt. Ég hef komið þar nokkrum sinnum, í fyrsta skipti 1973 rétt áður en kónginum var steypt af stóli. Afganir minntu mig þá einna helst á Dalamenn og aðra sauðfjárbændur og ég efast ekki um að Afganskir slökkviliðmenn séu hið besta fólk.

  Ég flæktist þá þarna um á hestbaki í næstum heilt ár á svæðinu á milli Kabúl og Jalabad, já og alveg upp til Tora Bora. Seinna kom ég þar í nokkrar viðskiptaferðir til Kabúl og Herat og keypti ull.

  Og enn seinna og rétt áður en Talibanar tóku völdin til að heimsækja fjölskyldu sem ég kynntist í Svíþjóð.

  Ég veit töluvert um Afganistan og sögu landsins en hef mikla skömm á framferði BNA þar.

  Nú erum við farnir að nota þráðinn hans Friðriks sem okkar eigin. Þú mátt senda mér skeyti ef þú vilt og segja mér meira frá Kabúl ef þú vilt vera svo vænn.

  Með bestu kveðjum
  sverrir@this.is

  SvaraEyða
 14. Sástu þetta
  http://www.youtube.com/watch?v=3RhkBMCiU7M

  Eða þetta
  http://www.youtube.com/watch?v=TWPDZhgISdw&feature=related

  SvaraEyða

Ath: Aðeins meðlimir bloggsins geta birt ummæli.