þriðjudagur, 26. október 2010

Róttæk aðgerð til lausnar efnahagsvandans

Hagfræðilega er til mjög einföld lausn á efnahagsvanda þjóðarinnar sem jafnhendis myndi leysa skuldavanda fyrirtækjanna, heimilanna og ríkisins.

Fælist sú aðgerð í því að taka upp nýjan gjaldmiðil samhliða íslensku krónunni.

Best væri að nýi gjaldmiðillinn væri byggður á grunni fastgengis við stærri gjaldmiðil sem er ríkjandi í milliríkjaviðskiptum landsins, t.d. evru eða dollar, og jafnvel mætti lýsa yfir að sá gjaldmiðill gilti einnig sem lögeyrir við hlið þess nýja, og þess gamla.

Laun yrðu frá fyrsta degi færð yfir í nýja gjaldmiðilinn á ákveðnu gengi (t.d. núverandi evrugengi) og hugsanlega innistæður upp að lágmarkstryggingu. Ný ríkisskuldabréf, húsnæðisbréf og lán yrði að sama skapi eingöngu gefin út í nýjum gjaldmiðli (og eingöngu óverðtryggð).

Þeim gamla yrði síðan leyft að falla. Þá yrði áfram opin markaður fyrir bæði gamla gjaldmiðilinn (núverandi krónu) og gömul skuldabréf, en markaðsverð þeirra réði því á hvaða gengi þau fengust keypt upp eða þeim skipt yfir í ný bréf byggð á grunni hins nýja gjaldmiðils.

Ríkið gæti hins vegar sett ákveðið gólf á fall gengis gamla gjaldmiðilsins með því að bjóðast til að að kaupa upp krónur, ríkisskuldabréf og húsnæðisbréf á t.d. genginu einn á móti fimm.

Þessi aðgerð gengi ekki gegn eignarréttinum þar sem viðskipti með gjaldmiðla og skuldabréf eru í eðli sínu áhættufjárfesting.

Tap lífeyrissjóða, sem eru einu lögaðilarnir sem eiga skuldabréf og okkur er kannski ekki fullkomlega sama um, má bæta með sértækum aðgerðum eftir að breytingar þessar eru afstaðnar, en þá í samhengi við sameiningu þeirra og verulega fækkun.

Tap banka er annað mál, en það er hins vegar svo með banka eins og önnur fyrirtæki, að eins dauði er annars brauð. Ef hægt er að græða á bankastarfsemi þá mun einhver verða til þess að stofna nýja(n) skyldu þeir gömlu fara á hausinn.

Raunverulegur gjaldeyrisvaraforði yrði þannig svo til eingöngu nýttur til að styðja við hinn nýja gjaldmiðil.

Lausin gæti þar með falist í líknardauða krónunnar, en höfum líka í huga að hún er, eins og aðrir gjaldmiðlar, bara plat. Bara miklu meira plat.

8 ummæli:

 1. Eftir því sem ég best veit eru tveir gjaldmiðlar í landinu: verðtryggð króna og óverðtryggð...

  SvaraEyða
 2. Það sem þarf er að leggja niður þetta ruglbankakerfi.

  Áttið þið ykkur á því að flestar krónur eru búnar til úr engu í einkabönkum. Það kallast bindisskylda og í grunninn þýðir það að eigendur bankanna hafa leyfi til að búa til peninga, sem voru ekki til fyrr en þeir voru lánaðir út, og rukka vexti fyrir það.

  Yndilega réttlátt kerfi, ekki satt?

  Ef það er til x-mikið af peningum, hvernig er hægt að borga x-stórt lán tilbaka með vöxtum? Hvaða koma peningarnir fyrir vöxtunum ef það er bara til x-mikið af peningum?
  Jú, það er þá lánað meira út... og hvað heitir það þegar magn peninga eykst og eykst? Verðbólga!

  Ríkið á að gefa út allan pening vaxtalaust. Við erum komin með nóg af fjármagnskjaftæði sem framleiðir nákvæmlega ekki neitt nema þægindi fyrir rassgatið á sjálfum sér.

  SvaraEyða
 3. Þessi leið þín Friðrik er stolin frá Brasílíu. Sjálfsagt að minnast á hvernig þetta var gert þar í landi.

  Annars vil ég líka benda www.ifri.is fyrir þá sem vilja kynna sér róttækar tillögur um breytingar á fjármálakerfinu.

  SvaraEyða
 4. Þórarinn, þetta er leið sem er hagfræðilega fær og er ég ekki að eigna mér höfundarrétt. Í reynd má segja að hún eigi sér t.d. ákveðna rót í efnahagsaðgerðum þjóðverja 1923-24 þegar Hjalmar Schact stýrði þýska seðlabankanum og leysti óðaverðbólguvandann á "einni nóttu" með upptöku rentenmarksins...

  SvaraEyða
 5. Þessi leið var einmitt notuð til þess að ná niður verðbólgu í Brasilíu og sjálfsagt mætti prufa þessa aðferð hér á landi og jafnvel að innleiða marga nýja gjaldmiðla. En við þurfum fyrst og fremst að breyta fjármálakerfinu.

  SvaraEyða
 6. Er þetta ekki eignaupptaka þá á sparnaði almennings í bönkum og lífeyrissjóðum ?

  SvaraEyða
 7. Já og nei. Hægt væri að færa fyrir því rök að þetta sé óbein eignaupptaka, en einungis að því marki að krónu eignir, hvort sem er í krónum eða krónuskuldabréfum, sé raunverulegt eign, þ.e. að þær séu einhvers virði. Núverandi virði krónunnar byggir t.d. á engu öðru en gengisstýringu Seðlabankans í gegnum gjaldeyrishöft. Enda ljóst að ef gengi krónunnar væri frjálst þá væri það líkast til töluvert lægra. Þess vegna gera jú allir ráð fyrir falli hennar um leið og Seðlabankinn léttir á höftunum.

  SvaraEyða
 8. Fyrir hvaða peninga á að kaupa lausafé í hinum gjaldmiðlinum?
  Það mun þurfa a.m.k. 300 milljónir Evra fyrir cash.
  Þetta er í byrjun 45 milljarðar króna, en verður meira eftir því sem krónan hrynur vegna eftirspurnar eftir erlendum gjaldeyri.
  Þá tek ég bara Evru sem dæmi, ekki endilega að meina að hún eigi að vera notuð.
  Mér finnst annars að Egill ætti að fá þennan mann í Silfrið:
  Bernd Senf
  Skemmtilegur Austur-Þýskur hagfræðingur með nýstárlegar hugmyndir um peningakerfi.

  SvaraEyða

Ath: Aðeins meðlimir bloggsins geta birt ummæli.