miðvikudagur, 16. mars 2011

Krónur og leiðindi (tölfræði)

Miðdepill umræðu undanfarna daga, frá því að Lilja Mósesdóttir varpaði fram gjaldmiðilsnafnbreytingartillögu (flott orð!) sinni í Silfri Egils sl. sunnudag, ætti að vera hvort að núverandi gengi krónunnar sé að einhverju leyti sjálfbært til lengri tíma. Þ.e. getum við búist við því að geta undið ofan af gjaldeyrishöftunum án þess að núverandi gjaldmiðill hrynji frekar en það sem orðið er.

En, því miður, hefur umræðan að vanda meira snúist um hvað menn héldu að væri sagt og héldu að væri meint, en ekki hvað raunverulega var sagt og meint. Á því hafa þó verið undantekningar, sbr. fésbókarspjall okkar Gylfa Magnússonar sem ég birti í bloggpistli sl. mánudag.

Ég hef áhyggjur af því að m.v. núverandi stöðu gjaldmiðilsins og heildar stöðu skuldbindinga í íslenskum krónum sé núverandi gengi ekki sjálfbært og að við afnám hafta verði gengisfall óumflýjanlegt. Afnám þeirra í skrefum með hefðbundnum hætti muni fela í sér að þeir sem fái að fara fyrst muni geta gert það á hagstæðasta genginu. Almenningur mun síðan sitja eftir með ónýtan gjaldmiðil, verðtryggðar skuldir í hæstu hæðum og ríkistryggðar erlendar skuldir Seðlabanka sem stofnað var til í þeirri veiku von að gjaldmiðlinum væri við bjargandi.

Aðrir telja þetta ekki vandamál.

Til einföldunar birti ég eftirfarandi mynd:Þessi mynd sýnir annars vegar heildar innlendar skuldir og hins vegar peningamagn í umferð (M3) sem hlutfall af vergri landsframleiðslu annars vegar 2001 og hins vegar 2010 (Byggt á gögnum frá Seðlabanka Íslands og Hagstofu).

Árið 2001 voru heildar innlendar skuldir rúm 64% af vergri þjóðarframleiðslu - 2010 eru þær orðnar tæp 220%.

Árið 2001 var heildar peningamagn í umferð (M3) tæp 45% af vergri þjóðarframleiðslu - 2010 er það tæp 94%.

Verg þjóðarframleiðsla hefur u.þ.b. tvöfaldast á þessum tíma (199,44%).

Heildar innlendar skuldir hafa tæplega sjöfaldast (680%).

Peningamagn hefur rúmlega fjórfaldast (420%).

Gengi evru hefur hækkað u.þ.b. 76%.

Er ótti minn um frekara fall gjaldmiðilsins ástæðulaus? Verður ekki eitthvað undan að láta?

7 ummæli:

 1. Andri Haraldsson16. mars 2011 kl. 16:03

  Friðrik-

  Þetta er komið langt út fyrir mitt þekkingarsvið--en læt það auðvitað ekki stoppa mig...

  1. Mér sýnist að í þessum tölum séu skuldir lánastofnana í slitameðferð og skuldir fyrirtækja með lögheimili á Íslandi með mestan rekstur sinn erlendis. Það munar um minna.
  2. Heildarskuldir eru misvísandi. Meginmálið er hvort eignirnar sem standa að baki skuldunum séu verðmætaskapandi. Ef þú eykur skuldir um 100%, sem kostar í greiðslubyrði um 5% á ári, en aukning þjóðartekna á ári vegna fjárfestinga yfir skuldatímann er 6%, þá myndi það styrkja -- ekki veikja gengið (auðvitað er flækjustigið hærra þar sem skuldir eru erlendar og innlendar og ekki allar þjóðartekjur eru gjaldeyrisskapandi -- en punkturinn stendur).

  Þegar upp er staðið ertu stöðugt að benda á sama vandamálið: í kjölfar hrunsins er að fara fram meiri háttar uppstokkun á innbyrðis skiptingu þjóðarteknanna (kökunnar) í skjóli gengisbreytinga og það er með veikum hætti sem reynt er að tryggja sanngirni í því.

  SvaraEyða
 2. Andri, fjármálastofnanir í slitameðferð eru EKKI hluti af þessu tölum. Enda var í þeim skilið á milli erlendrar og innlendrar starfsemi. Aðrar erlendar skuldir eru heldur ekki hluti af þessu.
  Þetta er byggt á up-to-date upplýsingum frá Seðlabankanum. Myndin sýnir þetta líka hlutfallslega til að geta verið með raunverulegan samanburð á sambærilegum hlutum milli áranna 2001 og 2010.
  Það er laukrétt hjá þér að það er ekki sama skuld og skuld. Skuld til fjárfestinga er jafnan betri en skuld til neyslu. Hjá okkur eru hins veagr aðallega skuldir út af skuldum!

  SvaraEyða
 3. Sæll Friðrik,

  góð færsla. Það virðist ekki skipta máli hversu margir koma fram og segja frá því að mikil hætta sé á ferðum, þjóðin er í afneitun og vill ekki taka afstöðu.
  Ef mið er tekið af sögunni þá lenda gjaldmiðlar yfirleitt í því að falla við þær aðstæður sem eru núna á Íslandi-er ekki svo?
  Þrátt fyrir það hvet ég þig til að halda áfram við að skrifa um þessi mál, oft var þörf en núna er nauðsyn.

  SvaraEyða
 4. Andri Haraldsson16. mars 2011 kl. 19:40

  Friðrik-

  Svona aðeins út fyrir efnið. Veistu hvort einhver hefur reynt að meta hversu mikið fjármagn bíður eftir að koma til Íslands?

  Það eru þrír megin flokkar aðila sem ætla má að myndu bíða með flutning fjármagns til Íslands vegna þeirrar (næstum örugglega réttu) trúar að núverandi gengi sé of hátt skráð.

  1. Íslenskir einstaklingar sem eru eigendur fjármuna erlendis sem sjá (smærri) fjárfestingartækifæri innanlands (svo sem fasteignir), en telja líklegt að gengið sé of hátt og bíða því eftir "windfall profit" þar sem gluggi fjárfestingartækifæra á Íslandi er ekki að lokast.
  2. Erlendir fjárfestar sem eru að skoða meiriháttar framkvæmdir en telja óskynsamlegt að færa fjármuni til Íslands þar sem a) það væri erfitt að færa þá frá landinu aftur, b) þær gætu hugsanlega fengið góðan afslátt af fjárfestingunni (þeas., vegna lægra gengis) ef þeir bara biðu í einhverja mánuði.
  3. Íslenskir fagfjárfestar (eins og lífeyrissjóðir) sem hafa verið að leysa út íslensk eignasöfn frekar en erlend til greiðslu skuldbindinga innanlands. Eins gætu þeir komið með inní verkefni erlendra fjárfesta.

  Einhver einhvers staðar hlýtur að hafa skoðað þetta því að það hefur meiriháttar áhrif á hversu langt gengið fellur og hvernig þróunin myndi verða eftir afnám haftanna.

  SvaraEyða
 5. Gunnar: Þakka hvatninguna!

  Andri: Mér er ekki kunnugt um að slíkt mat hafi farið fram og veit ekki einu sinni hvort það er hægt. Það væri vissulega kostur ef þessir þrír hópar biðu í röðum eftir að komast inn, en því miður held ég að það sé ekki raunin.
  Frekar hefur maður heyrt sögur, og þær of margar, af fjarfestum sem voru til í að koma hingað en hrökkluðust á braut og þá ekki endilega út af gjaldeyrishöftunum.
  Því miður óttast ég að staðan sé einmitt þveröfug, enginn bíði eftir því að komast inn, en allir bíði eftir því að komast út.

  SvaraEyða
 6. Andri,
  Það vill enginn koma inn með peninga til Íslands. Hér er ekkert réttarríki nema hugsanlega fyrir örfá íslendinga. Allur rekstur ónýtur og framlegð lítil ( mjög lítil eða sú næst minnsta í Evrópu en langminnst m.v. kostnað ).

  SvaraEyða
 7. Enn og aftur Friðrik: mjög þörf ábending og innlegg í efnislega orðræðu.'

  Met það svo að þetta sé mjög sterk meðmæli með þeirri leið sem Lilja benti á og þín færsla fyuryrr í vikunni fjallaði um - - -eða útfærði.
  Ekki má gleyma því að "skiptigengi" á skuldabréfum og lánasamningum þarf að nota sem markvissa aðgerð til að lækka heildar-skuldastoðuna og gra massann af lánum og skuldabréfum greiðanleg . . .

  SvaraEyða

Ath: Aðeins meðlimir bloggsins geta birt ummæli.