fimmtudagur, 24. mars 2011

Myntbreytingaleið með meiru...

Hélt erindi via skype á fundi Hreyfingarinnar um Efnahagskerfi á tímamótum nú í kvöld, ásamt Lilju Mósesdóttur og Ársæl Valfells. Hér fyrir neðan fer mitt innlegg:

----------------

Ágætu fundarmenn,

Ég vil byrja á að þakka Hreyfingunni, og þá sérstaklega Þórði, fyrir að bjóða mér að taka þátt í þessum fundi og leggja á sig allar þessar tæknibrellur til þess að það geti gengið.

Tilefni þess að mér er boðið að vera hér með innlegg er jú það að síðastliðinn rúm tvö ár hef ég reglulega viðrað róttækar hugmyndir um tiltekt í íslenskum efnahagsmálum sem einblína fyrst og fremst á stöðu gjaldmiðilsins, kosti hans og galla. Þessar hugmyndir hef ég viðrað í myrkum skúmaskotum internetsins, á bloggi mínu á vefmiðlinum eyjan.is.

Í sem allra stystu máli ganga þessar hugmyndir út á að það að til þess að klára efnahagslega viðreisn Íslands eftir hrun verði líka að skipta um gjaldmiðil og því samhliða að taka á of mikilli skuldsetningu sem byggst hefur upp innan okkar myntkerfis.

Þetta verði gert með því til dæmis að beita misjöfnu gengi við yfirfærslu í nýja mynt, eftir því um hvaða fjárskuldbindingar er að ræða.

Þó hugmynd sem þessi hafi við fyrstu sýn á sér ákveðið kverúlanta-yfirbragð, er aðgerð sem þessi ekki óþekkt í hag- og heimsögunni. Þetta er afbrigði stýrðar gengisfellingar og dæmi um þessa aðferðafræði má finna hjá þjóðverjum á síðustu öld. Besta og skýrasta dæmið er upptaka þýska marksins árið 1948, sem fram fór á einum sunnudagseftirmiðdegi. Skiptin fóru þannig fram, í einfaldaðri mynd, að beitt var einu gengi m.a. á laun og húsaleigu, öðru á innstæður og því þriðja á stórar peningaupphæðir og fjárskuldbingar.

Þýskaland þá, öndvert við Ísland í dag, var vitanlega í rúst eftir stríð og stríðsrekstur. Það má segja að landinu hafi verið nauðugur sá eini kostur að grípa til róttækra aðgerða sem þessara. Hins vegar er það svo að þessi aðgerð þjóðverja var langt í frá óumdeild og var algerlega andstæð ríkjandi hugmyndum um hvernig ætti að byggja upp hagkerfi eftir meiriháttar áföll. Hernámsaðilar höfðu jú gripið til slíkra aðgerða strax 1945 og var ekkert annað á dagskrá hjá þeim en að herða enn frekar á þeim aðgerðum.

Hvaða aðgerðir voru það? Jú, höft og skammtanir af öllu tagi. Gjaldeyrishöft, viðskiptahöft, skattlagning og tollar, að ógleymdum hreinum vöruskömmtunum.

Kunnuglegt ekki satt?

Ísland hefur enn ekki gengið jafn langt, en við búum við gjaldeyrishöft, viðskiptahöft, og höfum mætt efnahagsvandanum með auknum sköttum, gjöldum og aukinni skuldsetningu.

Og við erum farin að upplifa eiginlegar vöruskammtanir. Dregið hefur stórlega úr vöruúrvali í verslunum, sumpart vegna beinnar afleiðingar annars rekstrarumhverfis, en einnig vegna skatta- og gjaldastefnu stjórnvalda.

Peningastefnustjórnunarvandi okkar er af sama meiði og þjóðverja eftir stríð - of margar krónur í umferð í formi peninga og annarra fjárskuldbindinga. Vandi þjóðverja var vissulega mun meiri og af hrikalegri ástæðum, en hagfræðilegi vandinn er í eðli sínu sá sami.

En hver er vandinn í raun?

Ef litið er til hagtalna Seðlabankans sést þetta ágætlega. Heildar innlendar skuldbindingar í íslenskum krónum undir lok síðasta árs, eru um 3.400 milljarðar. Það eru um 220% af þjóðarframleiðslu.

Peningamagn í umferð undir lok síðasta árs tæplega 1.450 milljarðar, um 94% af þjóðarframleiðslu.

Sambærilegar tölur fyrir tíu árum síðan, árið 2001, rúm 64% heildar innlend skuldbinding í krónum, og tæp 45% peningamagn í umferð, sem hlutfall af þjóðarframleiðslu.

Það er í raun athyglisvert að skoða sérstaklega peningamagnið á síðustu mánuðum fyrir hrun.

Í júlí 2007 er peningamagn í umferð orðið rétt rúmlega þúsund milljarðar.

Í september 2008 – 14 mánuðum síðar – er það orðið rúmlega 1.420 milljarðar.

Eftir hrun heldur það áfram að aukast. Í nóvember er það orðið u.þ.b. 1.650 milljarðar.

Það hefur lækkað síðan, og er, eins og áður sagði, um 1.450 milljarðar í dag.

Hvað skýrir þessa verulegu aukningu?

Auðvitað kemur þar ýmislegt til, sem við hinir dauðlegu og ekki með hagfræðipróf frá Harvard getum ekki alveg skilið eða náð utan um, en ein af skýringunum er sjálfvirkni íslenska skuldabréfamarkaðarins í gegnum annars vegar verðtryggingu og hins vegar gengistryggingu.
Önnur skýring er þennslan á húsnæðimarkaði eftir innkomu bankana á húsnæðislánamarkað, sem hafði þau áhrif að húsnæðisverð og skuldsetning húsnæðis rauk upp.

Þriðja skýringin tengist svo að mínu viti meintum fölsunum á gengi hlutabréfa á íslenska hlutabréfamarkaðnum, þar sem menn með krosskaupum, eignarhaldsfélagaflækjum og lánum til hlutabréfakaupa til þess að keyra upp hlutabréfaverð, tókst í skjóli hins frjálsa markaðar og slaks eftirlits að í reynd prenta sér peninga.

Enn það er önnur saga.

Staðan er s.s. sú að mínu mati að skuldsetning íslensk efnahagslífs og peningamagn í umferð sé það hátt miðað við þjóðarframleiðslu að það sé ekki sjálfbært og eitthvað verði undan að láta.
Að við núverandi aðstæður sé fyrirsjáanlegt annað hrun gjaldmiðilsins við afnám gjaldeyrishafta.

Um þetta eru menn augljóslega ekki sammála. Bent hefur verið á að frá hruni höfum við búið við nettó gjaldeyrisinnstreymi og verulega breytta og jákvæðari stöðu viðskipta við útlönd. Einnig að erlendir eigendur krónubréfa hafi ekki fullnýtt heimildir sínar til þess að skipta vaxtagreiðslum í erlenda mynt og flytja úr landi, eins og þeim er þó heimilt.

Það er allt gott og blessað, og vissulega jákvætt. En á móti má velta því fyrir sér hvort þetta ástand sé sjálfbært til lengdar, í ljósi þess að lítið er um innflutning, hvort heldur sem er á fjárfestingavörum til atvinnuuppbyggingar og framleiðslu, og stórir innflutningsinnkaupaliðir almennings hafa hrunið, en líklega einungis tímabundið, svo sem hvað varðar bifreiðakaup. Einnig eru fyrirsjáanlegar miklar afborganir erlendra lána ríkisins á næstu árum.

Efnahagsleg tiltekt með upptöku annarrar myntar getur farið fram með ýmsum hætti. Það er hægt að fara hina hreinu þýsku leið og skipta um gjaldmiðil strax, eða á tiltölulega skömmum tíma, með mismunandi gengi.

Það má líka fara þessa leið í skrefum, eða eins konar markaðsleið, þ.e. byrja á því að færa einungis launagreiðslur yfir í hina nýju mynt, hafa hana án hafta, en halda þeirri gömlu áfram innan hafta.

Með þessum hætti væri komið upp fjölmyntakerfi í reynd. Höftin yrðu svo afnumin eitt af öðru í áföngum og markaðurinn réði skiptigenginu.

Þessi aðferð er í sjálfu sér í engu öðruvísi en líkleg leið seðlabankans til afnáms haftanna, nema hvað hér yrði launþegar í fyrsta sæti varðandi afnám, skuldabréfaeigendur kæmu síðar. Ef fara á leið þar sem velja þarf sigurvegara, er þá ekki alveg eins gott að velja vel?

Beiting mismunandi gengis er nefnilega ekki svo fjarri nútíma efnahagsstjórn. Seðlabankinn beitti afbrigði af þessari aðferð á síðasta ári þegar keypt voru skuldabréf í íslenskum krónum af seðlabankanum í Lúxemborg á allt öðru og mun lægra gengi en opinbert skráningargengi.

Framsóknarflokkurinn lagði til vorið 2009 að beitt yrði uppboðsleið, þ.e. að eigendum skuldabréfa yrði leyft að bjóða í gjaldeyri til að losa eignir héðan. Þar hefði s.s. orðið annað gengi en opinbert skráningargengi.

Og sú leið sem líklegast er að verði farin, afnám hafta í áföngum, verður sömuleiðis í reynd ekkert annað en misgengisleið, þar sem þeir sem fara fyrstir munu að öllum líkindum fara á skársta genginu, nema til komi aðrar ráðstafanir, eins og t.d. sérstök skattlagning á gjaldeyrisútflæði.

---

Það er rétt að taka það skýrt fram að efnahagsleg tiltekt af þessu tagi hefur takmarkað að segja ein og sér. Fleira verður að koma til.

Í fyrsta lagi verður að afnema hér verðtryggingu. Það að stórum hluta hagkerfisins sé alltaf hlíft, sama hvað á gengur, gerir það m.a. að verkum að aðlögun hagkerfisins eftir hrun gengur jafn hægt og raun ber vitni. Verðtrygging er fjármálaútgáfan af heróíni og við erum öll fíklar. Verðtryggingin er hegðunarvandamál sem ýtir undir aukna áhættu, sérstaklega einhliða áhættu skuldara, og aukna skuldsetningu umfram efni.

Í öðru lagi verður að taka hér til í skatta og gjaldakerfi. Eftir breytingar síðustu tveggja ára, með það skiljanlega markmið að auka tekjur ríkissjóðs, er kerfið orðið mun flóknara, ógagnsærra og erfiðara í rekstri en áður. Skatteftirlit, leyfi ég mér að fullyrða, er orðið mun erfiðara í framkvæmd en var fyrir hrun. Það verður að einfalda kerfið aftur og gera það skilvirkara.

Í þriðja lagi verða breytingar sem þessar að vera í samhengi við einhverja framtíðaráætlun um það hvert við stefnum. Ísland verður að fara að fá einhverja kjölfestu í lífsins alþjóðlega ólgusjó.

Við erum land sem treystir algerlega á viðskipti og samskipti við umheiminn. Það umhverfi verður að vera í lagi. Því tel ég að hvort heldur sem myntbreytingar leið verði farin, eða einhver önnur hefðbundnari, þá sé okkur það fyrir allra bestu að ljúka ICESAVE með samningum, segja já 9 apríl, halda áfram að stefna að aðild að Evrópusambandinu og, að samningum loknum, séu þeir ásættanlegir, ganga í ESB með þeim kostum og göllum sem því fylgir.

Ég reyndar hef nefnt þann valkost að með myntbreytingarleið nú gætum við tekið upp nýjan gjaldmiðil sem væri með sama gengi og evran. Jafnframt gætum við lýst yfir fastgengisstefnu til a.m.k. næstu 3 til fimm ára og sleppt því að gefa út okkar eigin mynt. Nýr gjaldmiðill væri eingöngu til rafrænn þar til að niðurstaða liggur fyrir um aðild Íslands að ESB. Evrur og sent yrðu samþykkt sem gildur lögeyrir og væri nýtt í stað eigin gjaldmiðils í daglegum viðskiptum. Verði aðild samþykkt, þá þarf ekki að hafa áhyggjur af því meir. Verði aðild felld, þá verði hafin prentun og útgáfa eigin myntar með formlegum hætti á ný.

Enn þá gæti byrjað aftur hringrásin sem við þekkjum svo vel, gengissig og fellingar, verðtryggingin kæmi aftur og svo framvegis og svo framvegis.

4 ummæli:

  1. Já og allt peningamagn í umferð eru lán. Lán sem eru lánuð með vöxtum.
    Hvernig er hægt að borga lán með vöxtum, ef það er bara til peningur fyrir höfuðstólnum. Alltaf hægt að lána enn meira og síðan pælt í því hvaðan þessi verðbólga komi, en það leysir auðvitað ekki vandann.

    Fyrir utan hvernig flestir peningar eru búnir til í einkabankakerfinu, skv. fractional reserve upp á 10%. Ef þú stofnar banka og átt 1 milljarð, þá geturðu lánað út 9 milljarða og rukkað vexti. Það er aldeilis sanngjarnt kerfi, ekki satt?

    En æjá, ég veit hvað þitt svar er: ESB ESB ESB ESB.

    Enda ertu bjáni.

    SvaraEyða
  2. Ég vil þakka þér fyrir þessar vangaveltur. Aldrei of mikið af máefnalegu framlagi til þessarar umræðu. Þeir kostir, sem þú sérð fyrir okkur, eru sumir róttækir og ekki nýir af nálinni eins og þú bendir réttilega á.
    Sú leið að meta fjárskuldbindingar til mismunandi verðs við myntbreytingu er auðvitað raffíneruð leið við gengisfellingu eins og stundað var við fjármunatilfærslu hér á Íslandi áður fyrr. Ég sé einn vankant á þessu fyrir okkur, sem eigum áreiðanlega meiri skuldabréfaeign en Þjóðverjar eftir ósigurinn mikla.
    Lífeyrisþegar á Íslandi byggja að mestu tekjur sínar á verðbréfaeign en ekki umsömdum kjörum. Slík réttindi eru víkjandi hjá ríkisstarfsmönnum. Með þessari aðferð, sem þú nefnir, yrði gengið á hlut þessa stóra og sífellt stækkandi hóps þegnanna, sem treystir á þetta bakland sitt. Eða með öðrum orðum. Launþegar samtímans myndu ganga í sparnað þessa fólks og kjör þess myndu versna hlutfallslega. Hvernig á að nálgast þetta útlausnarefni?

    Sigurbjörn Sveinsson

    SvaraEyða
  3. Friðrik.

    Mig langar til að þakka þér fyrir þessa glöggu, málefnalegu og fróðlegu færslu. Í hinni sóðalegu umræðu sem nú er alls ráðandi eru svona pistlar dýrmætir.

    Þegar vísað er til reynslu Þjóðverja má hafa það bak við eyrað að þeir eru býsna ólíkir okkur Íslendingum. Þrátt fyrir þekkt skakkaföll reka þeir eitt öflugasta hagkerfi í heimi. Það er ekki tilviljun.

    Benedikt Jónsson

    SvaraEyða
  4. Mér fannst þessi fundur mjög frjór og upplýsandi.
    Það var virkilega gaman að hlusta á ykkur þrjú leggja á ráðin. Takk fyrir þitt framlag.

    Sigurður Þórðarson

    SvaraEyða

Ath: Aðeins meðlimir bloggsins geta birt ummæli.