miðvikudagur, 20. júlí 2011

Húsbankafrumvarp, anno 1987

1987 lögðu þingmenn Borgaraflokksins, þeir Júlíus Sólnes og Guðmundur Ágústsson, fram frumvarp til laga um húsnæðislánastofnanir og húsbanka. Þar sem þeir voru á þeim tíma ekki komnir í ríkisstjórn fékkst þetta ágæta frumvarp að því er virðist enga umræðu á þingi.

Þrátt fyrir að vera næstum aldarfjórðungs gamalt frumvarp virðist það merkilegt nokk standast ágætlega tímans tönn. Í því er gert ráð fyrir að húsbankar fjármagni sig á opnum markaði án ríkisábyrgðar.

Athyglisvert er líka að grípa niður í greinargerð frumvarpsins, en þar segir meðal annars:

Þeir sem nú eru að byggja eða kaupa sér íbúð eiga aðeins kost á lánum með fullri verðtryggingu. Eignarhlutfall þeirra fer ekki hraðvaxandi eins og áður heldur er jafnvel hætta á að það minnki með tímanum. Þegar eru mörg dæmi þess að fólk hefur átt í erfiðleikum með sölu á íbúðum með miklum verðtryggðum lánum…einfaldlega vegna þess að söluverð þeirra heldur ekki í við verðtryggðu lánin. Áhvílandi lán með uppfærðum verðbótum eru orðin mun hærri en markaðsverð íbúðarinnar.

Þessi hætta ágerist eftir því sem lánshlutfall verðtryggðra lána eykst. Það er fyrirsjáanlegt að mikil hætta er á því að allar minni íbúðir, sem verða byggðar og keyptar á næstu árum með fullum húsnæðislánum… muni ekki halda verðgildi sínu í takt við lánskjaravísitölu. Þannig gæti skapast það ástand að stór hluti fólks sitji í íbúðum sem það getur ekki selt vegna þess að skuld við Byggingarsjóð ríkisins er meiri en söluverð íbúðarinnar. Það má því segja að Byggingarsjóður ríkisins eigi allar slíkar íbúðir. Fólkið er í raun orðið að leiguliðum hjá ríkinu. Það á ekkert í íbúðinni þótt hún sé þinglýst á nafn viðkomandi en hefur samning um afnot af henni næstu 40 árin meðan það stendur í skilum. Sjálfseignarstefnan margrómaða er í reynd hrunin.

Síðar segir í sömu greinargerð:

Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að tilraun verði gerð til þess að brjótast út úr myrkviðum lánskjaravísitölunnar. Lánskjaravísitalan hefur haft óbærilegar afleiðingar fyrir allt efnahagslíf landsmanna. Hún hefur komið fjölda manns á vonarvöl og lagt mörg atvinnufyrirtæki í rúst. Misgengishópurinn, sem varð að þola stórhækkun lánskjaravísitölu umfram kaupgjaldsvísitölu á árunum 1983-1984 hefur enn ekki fengið leiðréttingu sinna mála hvað húsnæðislánin áhrærir. Lánskjaravísitalan verkar með þeim hætti að óeðlilegir þættir, svo sem hækkun matvöru, hefur áhrif á hana. Þannig mun 10%-matarskattur ríkisstjórnar Þorsteins Pálssonar, sama dag og hann er lagður á, hækka skuldir íbúðaeigenda við húsnæðislánakerfið um einn milljarð króna.

Á þeim átta árum sem eru liðin síðan lánskjaravísitalan var tekin í notkun hefur hún rúmlega átjánfaldast. Byggingarvísitalan hefur rúmlega sextánfaldast. Á sama tíma hefur verðgildi bandaríkjadals ellefufaldast og dönsku krónunnar nífaldast. Maður, sem hefði fengið að taka danskt húsnæðislán í júní 1979, skuldaði nú miklu minna en sá sem hefði tekið jafnhátt Íslenskt húsnæðislán með sömu afborgunarskilmálum.

Jamm...

5 ummæli:

  1. Þessi greinargerð gæti hæglega verið endurnýtt núna 25 árum síðar, með því einu að breyta dagsetningum.

    Hérna eru nokkrar þjóðhagslega hagkvæmar breytingar sem mætti skoða á húsnæðismálum Íslendinga.

    1. Afnema stimpilgjöld á fasteigna/veðlán, en heimta einungis skatt/gjald við eignarbreytingu. Þetta myndi liðka fyrir sölu og útgáfu nýrra lána.
    2. Gera öll húsnæðislán að veðlánum, þannig að skuldari geti gengið frá láninu með því að gefa upp fasteignina en verða ekki gjaldþrota. Þetta myndi auka rétt skuldara og gera lánveitenda ábyrgari
    3. Bjóða ríkistryggingu (þeas. niðurgreidd lán) á lán upp að einhverju skynsamlegu marki (meðalverð á 2 herbergja íbúð, eða svo), og gera kröfu um 20-30% eiginfjárhlutfall í eigninni. Þetta myndi skapa lægri vexti fyrir minni eignir.
    4. Taka upp skynsamlegt mat á greiðslugetu, og tengja það við greiðslusögu lántakanda. Tengja lánskjör við greiðslugetu og greiðslusögu. Þetta myndi tryggja að þeir sem borga fá betri lán en þeir sem ekki borga á réttum tíma, nokkuð sanngjörn krafa, sem einnig ýtir undir almenna sjálfsábyrgð á fjármálum.
    5. Afnema verðtryggingu, en taka upp eðlilega vaxtaprósentu í staðinn. Við þetta myndu lántakendur sjá hversu háir vextirnir eru í raun og frekar sníða sér stakk eftir vexti.
    6. Heimta eðlileg gjöld fyrir nýjar lóðir og gatnagerð nýrra hverfa. Þetta myndi stöðva þá óbeinu niðurgreiðslu sem nú er stunduð fyrir stærri lóðir.
    7. Liðka fyrir þéttari byggð í Reykjavík og annars staðar, með því að bjóða skattaívilnanir fyrir íbúðarhúsnæði sem í eru fleiri en t.d., 5 íbúðir.
    8. Draga úr byggingarstöðlum sem gera nýjar aðferðir og ódýran húsakost ekki eins fýsilegan og hann gæti verið.

    Þetta eru nokkrar hugmyndir. En margt annað mætti telja til, sjálfsagt.

    SvaraEyða
  2. Athyglisvert Friðrik,
    Er hægt að senda þér póst prívat?

    Kveðja,
    Baldur Pétursson

    SvaraEyða
  3. Páll Þór Jónsson22. júlí 2011 kl. 00:46

    Verulega áhugavert en gekk engan veginn í afturhaldssaman veruleika Íslendinga í denn og líklega ekki í dag heldur!

    SvaraEyða
  4. Hreggviður Jónsson23. júlí 2011 kl. 11:21

    Þegar við lögðum fram þetta Húsbankafrumvarp 1987, var enginn áhugi annar stjórmmálaafla á málinu. Hitt er að Jóhanna stal húsbréfahlutanum, en auðvita virkaði það ekki. Júlíus fór sérstaka ferð til Danmörku til að kynna sér málin og er frumvarpði sniðið eftir dönsku löggjöfinn. Ég tel, að þetta sé með merkari málum, sem við lögðum fram á þingi.
    Kveðja Hreggviður Jónsson.

    SvaraEyða

Ath: Aðeins meðlimir bloggsins geta birt ummæli.