miðvikudagur, 27. febrúar 2008

Bjarni og Illugi: plús í kladdann

Grein Bjarna Benediktssonar og Illuga Gunnarssonar í Morgunblaðinu í gær var um margt ágæt. Helst til löng, og var hún að mínu mati í raun tvær greinar skellt saman í eina. Annars vegar um núverandi ástand á fjármálamarkaði og viðbrögð við því og hins vegar um hlutverk og aðferðafræði Seðlabankans.

Hvað fyrri hlutan varðar má segja að hann hafi boðað nokkur tímamót. Í fyrsta lagi lýstu þingmennirnir því yfir að “Umræðan um stöðu Íslands gagnvart ESB, um stöðu gjaldmiðilsins og aðra þætti er snerta íslenskt viðskiptaumhverfi verða ráðandi í stjórnmálaumræðu þjóðarinnar á næstu misserum og árum.” Undir lok greinarinnar ítreka þeir andstöðu Sjálfstæðisflokksins við aðild, en það er gert með hinum hefðbundna fyrirfara að sú andstaða gildi “...eins og sakir standa” og leggja áherslu á að umræðan verði “...að mótast af íslenskum hagsmunum.”

Tillögur þeirra um viðbrögð við núverandi ástandi á markaði eru að því að mér sýnist í sjö liðum:

1 – Lækkun skatta á fyrirtæki í 12%
2 – Efla fjármálaeftirlitið
3 – Setning laga um sérvarin skuldabréf
4 – Umbreyting íbúðalánasjóðs
5 – Framfylgja hugmyndum úr skýrslu Sigurðar Einarssonar et al. um Ísland sem alþjóðlega fjármálamiðstöð
6 – Stofna rannsóknarmiðstöð í efnahags- og fjármálafræðum
7 – Aukin og bætt upplýsingagjöf til erlendra fjölmiðla og greiningaraðila

Allar eru þessar hugmyndir góðra gjalda verðar. Umbreyting íbúðalánasjóðs er hins vegar sú hugmynd sem á eftir að mæta mestri andstöðu. Sú tvískipting opinberrar aðkomu að íbúðalánamarkaði, þ.e. annars vegar markaðsaðkomu og hins vegar félagslegt hlutverk er ekki ný af nálinni. Má til að mynda minna á frumvarp Borgaraflokksins um húsnæðislánastofnanir og húsbanka frá því 1987 og lagt var fram af Júlíusi Sólnes og Guðmundi Ágústssyni.

Frekari lækkun fyrirtækjaskatta umfram það sem ríkisstjórnin hefur þegar tilkynnt mun ennfremur ekki hljóta mikla náð í augum almennings ef ekki kemur til markviss áætlun um minni skattbyrði þess hins sama almennings. Ítrekaðar röksemdafærslur fyrir því að skattalækkanir á fyrirtæki séu af hinu góða á meðan að skattalækkanir sem koma beint við pyngju almennings séu af hinu verra, og þá sérstaklega að slíkar skattalækkanir séu þensluhvetjandi, eru einfaldlega ekki trúverðugar í augum hins sama vaxta- og skuldapínda almennings.

Um seðlabankahluta greinar þeirra mun ég eflaust fjalla síðar.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Ath: Aðeins meðlimir bloggsins geta birt ummæli.