föstudagur, 23. október 2009

ICESAVE mannasiðir

Ekki hefur borið á öðru en að forystumenn stjórnarandstöðuflokkanna á Alþingi telji að semja verði um ICESAVE.

Þó því hafi verið fleygt fram í orðræðu að íslenska ríkið eigi ekki að gangast í ábyrgð fyrir skuld vegna háttalags einkaaðila, hafa gjörðir og tillögur þeirra þó aldrei borið annað með sér en að þeir telji að semja verði um málið.

Liður 2 í "Plan B" Framsóknarflokksins leggur beinlínis til að 1 til 2 mánuðir til viðbótar verði nýttir til að semja um ICESAVE.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur ekki lagt til annað en að semja verði um ICESAVE.

Þ.a. það sem er að núverandi samningi, samkvæmt stjórnarandstöðunni, er að hann er ekki nógu góður.

Vextirnir of háir. Greiðsluskilmálar ekki nógu sanngjarnir. Dregin er í efa lagaleg ábyrgð, þó hún hafi engu að síður verið staðfest aftur og aftur af íslenskum ráðamönnum, með beinum og óbeinum hætti.

Samninganefndin var víst líka vitlaust skipuð.

Um þetta má allt deila, vissulega. Í stóru máli sem þessu hefði verið æskilegra að upphaflega samninganefndin hefði haft breiðara pólitískt bakland og umboð og það hefði verið endurspeglað í samsetningu hennar.

Það má líka velta fyrir sér hvort ekki hefði verið hreinlegra af Alþingi að fella upphaflegu samningsdrögin, í stað þess að fara út í þær æfingar að semja við sjálft sig.

Niðurstaðan varð jú sú að í reynd fóru fram nýjar samningaviðræður og niðurstaðan eru endurbættir ICESAVE-samningar.

Hefði verið hægt að ná lengra? Um það má líka deila, en ekki er það endilega líklegt, og þá viðbótar árangur varla lítið annað en eilítill stigsmunur, en ekki eðlis, á árangri - kannski.

Af orðbragði sumra sem mæla gegn nýjum samningum má hins vegar velta fyrir sér hversu miklum árangri þeir myndu ná í samningaviðræðum við breta og hollendinga.

"Þið fjárkúgarar, misbeitingarmenn og nýlenduherrar – gefið okkur betri díl!"

Ég sé fyrir mér hvernig samninganefndir þeirra lyppast niður á fyrsta fundi!

Er ekki kominn tími til að slaka aðeins á fúkyrðaflaumnum?

Og reyndar ekki bara hvað varðar ICESAVE...

6 ummæli:

 1. Og Sigmundur sagði að ríkisstjórnin væri að vinna fyrir þá sem væru að ráðast á þjóðina sem hún tók að sér að vinna fyrir. Þetta er á ömurlegu plani.

  SvaraEyða
 2. Sammála!

  Þetta er orðið fyrir löngu vandræðalegt hvernig Bretar og Hollendingar eru dregnir inní innlenda pólitíska pissukeppni.

  SvaraEyða
 3. Það er án efa rétt hjá þér að óháð því hvaða flokkar sætu í stjórn hefði verið samið um þetta. Þar sem viðsemjendurnir eru alltaf þeir sömu er óljóst hversu miklu hefði mátt hnika í þessu.

  Í hinni ágætu þáttaröð um hrunið sem RÚV sýnir þessar vikurnar kemur berlega í ljós að hugmyndin ráðamanna í fyrra var að láta Tryggingasjóð tæmast og sjá svo til hversu mikið erlendir innistæðueigendur (Icesave) fengju greitt þegar bú Landsbankans yrði gert upp. Á sama tíma voru innlendar innistæður tryggðar að fullu.

  Ég lét þá skoðun mína í ljós á þræði á snjáldru að þetta væri siðlaus afstaða, - og uppskar fúkyrðaflaum fyrir.

  Ég held að ef Íslensk yfirvöld hefðu strax viðurkennt að þau bæru ábyrgð á tryggingarsjóðnum, best hefði verið að gera það próaktíft við Breta og Hollendinga, - hefðum við sloppið við þær alvarlegu milliríkjadeilur sem við lentum í. - Við hefðum eftir sem áður þurft að fá lán fyrir ríkisábyrgð á sjóðinn, - og líklega hefðu Bretar og Hollendingar þurft að veita slíkt.

  Hvað ábyrgð varðar hefði niðurstaðan verið álíka, en forsendurnar hefðu verið gjörólíkar. Reyndar er líklegt að betur hefði verið hlustað á vel rökstuddar efasemdir um lagalegar forsendur þessarar ábyrgðar, - Það er munur á að segja: "Ég viðurkenni ábyrgð mína, en hér eru rök mín fyrir því að hún sé ekki full og óskoruð, né að ég eigi að bera hana einn" og að segja "Ábyrgðin er ekki mín!".

  Ef samtal Árna og Darling er lesið með þetta í huga er auðvelt að hugsa sér að skortur á siðferðisþreki hafi leitt beitingar hryðjuverkanna og alls þess klúðurs.

  SvaraEyða
 4. Guðmundur 2. Gunnarsson

  1.

  Ekkert hefur verið sagt alvarlegra og af meiri óþverraskap vegna afglapa, heimsku eða beinum óheiðarleika varðandi Iceave, en þar sem ráðherrar, þingmenn og embættismenn hafað ásakað ítrekað og seinast af nokkrum á Alþingi í gær, um að BÓKSTAFLEGA ÁSAKA FYRRUM RÁÐHERRA OG EMBÆTTISMENN ÞJÓÐARINNAR, UM AÐ HAFAÐ BROTIÐ STJÓRNARSKRÁ OF LAGAGREINAR SEM fjalla þá um LANDRÁÐ! Hvoki meira né minna, og enginn þingforseta né nokkur annar reynir að bera hönd fyrir höfuð fjarstaddra sem eru bornir aftur og aftur jafn alvarlegum ásökunum, og engin gerir neitt í þessu æruníði og mannorðsmorðum.

  Sigurður Líndal lagaprófessor og álitsgjafi brást svona við eftir að honum hefði blöskrað svo makalaus og óheiðarleg framganga flokksmanna Samfylkingarinnar og svarði í grein:

  "Nú liggja fyrir fjölmargar yfirlýsingar forvígismanna Íslendinga um stuðning við tryggingarsjóð, nánar tiltekið að aðstoða sjóðinn við að afla nauðsynlegs fjár – meðal annars með lántökum – svo að hann geti staðið við skuldbindingar um lágmarkstryggingu innistæðna. Ef orð kynnu að hafa fallið á annan veg, geta þau ekki fellt ábyrgð á ríkissjóð, þar sem slík ábyrgð verður að hljóta samþykki Alþingis. Í mikilvægum milliríkjaviðskiptum er gengið úr skugga um umboð og réttarstöðu viðsemjenda, þannig að þetta hefur bæði Hollendingum og Bretum verið ljóst. Reyndar skiptir grandleysi ekki máli – slíkt loforð er ekki bindandi."

  "En ef Jóni Baldvini er annt um sjálfsvirðingu sína, ætti hann að gefa orðum sínum gaum. Með ummælum um bindandi yfirlýsingar íslenzkra ráðamanna um ríkisábyrgð – þótt hann hafi ekki fundið þeim stað – er hann að saka þá um að virða ekki stjórnarskrána. Ríkisábyrgð hlýtur að fylgja lántaka og fyrir henni verður væntanlega setja tryggingu og til þess þarf samþykki Alþingis, sbr. 40.-41. gr. stjórnarskrárinnar, sbr einnig 21. gr. Ráðherra sem hefði gefið yfirlýsingu um stórfelldar fjárhagsskuldbindingar með ábyrgð íslenzka ríkisins án fyrirvara um samþykki þingsins kynni að baka sér ábyrgð samkvæmt lögum um ráðherraábyrgð og verða stefnt fyrir Landsdóm. Jón Baldvin er með orðum sínum að saka forystumenn Íslendinga, þar á meðal ráðherra um stórfelld lögbrot. Þrátt fyrir það að vera ekki bindandi er augljóst að slíkar yfirlýsingar hefðu skaðað íslenzka ríkið."

  Frh.

  SvaraEyða
 5. Guðmundur 2. Gunnarsson

  2.

  Það sem er kostulegast við þetta minnisblaðsraus, er að Svavar Gestsson sagði aðspurður í fjölmiðlum við frumsýningu "glæsilega" samningsins, og kom fram á þingi í gær, að einhver meint loforð eða undirritanir á minnismiðum, hefðu ekki haft néin áhrif á vinnu íslensku samningarnefndarinnar. Sem segir okkur að Bretar og Hollendingar þekkja lög og reglur sem ná yfir slíkt, og sennilega Svavar líka.

  Einnig segir Sigurður um málfluttning Jóns Baldvins, sem er sá sami og stjórnarflokkanna, þingmanna þeirra og ráðherra:

  "En Jón Baldvin hefur kosið að taka sér stöðu með harsvíruðustu öflum í Bretlandi, með Brown forsætisráðherra og Darling fjármálaráðherra í fremstu röð, sem láta einskis ófreistað að knésetja íslenzku þjóðina. Og þetta gerir hann af slíkum ákafa að hann skirrist ekki við að styðja mál sitt við uppspuna og ósannindi málstað þeirra til stuðnings. Hér verður að hafa í huga að maðurinn er fyrrverandi utanríkisráðherra Íslands og sendiherra sem hafði þá æðstu starfsskyldu að gæta hagsmuna Íslands."

  Lokaorð Sigurðar eru þessi:

  "Aldrei var það ætlun mín að blanda mér í umræður um Icesave-málið, enda aðrir betur fallnir til þess, en mér ofbuðu svo skrif Jóns Baldvins í Morgunblaðinu 7. júlí 2009 – og raunar fleira sem hann hefur skrifað um málið – að ég gat ekki orða bundizt."

  "Ýmislegt hefur verið sagt um orsakir efnahagshrunsins á Íslandi og þar eru áreiðanlega ekki öll kurl komin til grafar. Meðal sökudólga hafa fjölmiðlar verið nefndir og látið að því liggja að auðmenn og útrásarvíkingar hafi haft helzt til mikil áhrif á gagnrýnislaus skrif þeirra. Þetta mætti vissulega kanna nánar en gert hefur verið, en jafnframt ætti að skoða þá stjórnmálaumræðu sem fram fer í landinu."

  "Hver skyldi vera þáttur hennar? Hér að framan hefur verið brugðið upp mynd af því hvernig fyrrverandi flokksformaður, utanríkisráðherra og síðast sendiherra stendur að verki. Er líklegt að almenningur í landinu nái áttum og auðsynlegt aðhald verði tryggt, þegar umræða af þessu tagi dynur í eyrum manna alla tíð?"

  Engin hefur gert tilraun til að hrekja skrif prófessorsins, og merkilegt nokk, ekki einusinni fretkarlinn sem hann rassskellti svona eftirminnilega.

  http://www.pressan.is/pressupennar/lesa_Sigurd_Lindal/ur-thrasheimi-stjornmalamanns

  SvaraEyða
 6. Varðandi málið upphaflega, sko það hvernig stjórnvöld eða ráðamenn í heild hugsuðu sér að meðhöndla þetta mál - mér finnst það ekki alveg ljóst. Jú svo virðist sem allaveg sumir þeirra ætluðu bara að vísa í tóman sjóð og ætluðu að sjá svo til hvað gerðist.

  Eins og sjá má á viðtali árna og darlings - að það er ótrúlegt hve Árni er værukjær. Meina, augljóst er að Darling er lveg sjóðandi - en Árni lætur bara eins og allt sé í gúddí ! Já já Darling minn við heyrumst bara ! O.s.frv.

  Annað, að menn tala um hryðjuverkalög. Veit ekki, mér finnst stundum era gert of mikið úr þessu. Það sem bretar gerðu var einfaldlega að frysta allar eignir Landsbankans og þar sem Bankinn var kominn í umsjá Ríkisins þá fylgdi það eða stofnanir þess að hluta til með.

  Það sem fólst fyrst og fremst í að beita þessari heimild var að ef einhver koma að flutningi eigna LB úr landi og/eða aðstoðaði á nokkurn hátt við það - þá lágu við mikil viðurlög.

  Stundum er sagt að ástandi á íslandi fyrst eftir hrun, þ.e. erfiðlekar í millilandaviðskiptum o.s.frv. sé umræddum lögum breta að kenna. Eg er ekkert svo viss um það. Þegar allir bankar landsins eru farnir á höfuðið þá er bara eðlilegt að millilandaiðskipti fari öll úr skorðum (í stuttu máli)

  Einnig er eftirtekarvert að ekkert hefur verið látið reyna á réttmæti beitingu laganna, td. eins og gert var þó með yfirtöku Kaupþings.

  Varðandi yfirtöku Kaupþings hefur oft verð látið þannig að aðallega væri um illsku breta að ræða eða öfund yfir velgengni Kaupþings.

  Nú svo var málið kært og þá kemur breska hliðin. KSF var að þorna upp og óróleiki innstæðueigenda fór vaxandi og stefndi í að bankinn tæmdist í rauninni. KSF fékk ítrekaðar viðvaranir frá breskum yfirvöldum. Hvað áttu bretar að gera ? Áttu þeir bara að leyfa bankanum að fara í þrot og skapa ófyrirséða óróleika eða panik innstæðueigenda sem mundi ná útfyrir KSF ?

  Það er i rauninni mjög skiljanlegt að þeir gripu til aðgerða gagnvart KSF. Annað hefði verið mikið ábyrgðarleysi.

  SvaraEyða

Ath: Aðeins meðlimir bloggsins geta birt ummæli.