miðvikudagur, 7. október 2009

Pappírstjónið

Haft var eftir viðskiptaráðherra á Alþingi í gær að hrunið "væri í eðli sínu tjón á pappír og raunveruleg verðmæti landsins hefðu lítið breyst." Þetta er laukrétt hjá ráðherranum.

Vandinn er hins vegar sá að ríkisstjórnin sem hann situr í, og Seðlabankinn sem hann er núna yfir, meðhöndla þetta pappírstjón eins og það sé raunverulegt.

Við hrunið var gripið til misheppnaðra björgunaraðgerða þar sem peningar voru prentaðir og dælt út til að reyna að bjarga hinu brennandi bankakerfi. Seðlabankinn gáði þar ekki að sér og tók ekki almennileg veð fyrir því fé sem hann veitti til björgunarstarfsins. Ríkisstjórnin að sama skapi studdi og hvatti til vafasamra gerninga þar sem peningar voru prentaðir til að bæta fólki tjón vegna misferlis í umsýslu á peningamarkaðssjóðum bankanna.

En allt kom fyrir ekki.

Í bókhaldi ríkisins og bókhaldi Seðlabankans lifa hins vegar áfram vegsummerkin eftir misheppnaðar björgunaraðgerðir hrunsins – pappírspeningarnir sem prentaðir voru til að bæta fyrir pappírstjónið lifa nú sem annað og meira en pappírsskuld.

Stór hluti u.þ.b. hundrað milljarða vaxtakostnaðar ríkisins á næsta ári, sá hinn sami og veldur fjárlagahalla og gerir nauðsynlegan óheilbrigðan niðurskurð t.d. í heilbrigðiskerfi landsins, er þannig til kominn vegna þessa pappírstjóns – og ríkir refsar þar sjálfu sér fullkomlega að óþörfu.

Pappírstjónið lifir nefnilega – á pappírnum!

Hinn knái, og ekki svo smái viðskiptaráðherra, er hins vegar "on to something".

Nú þegar ár er liðið frá hruni er nefnilega komið að því að tekið verði á pappírstjóninu og það hreinsað úr kerfinu. Það er einfaldlega gert þannig að efnahagsreikningar ríkisins og Seðlabankans eru gerðir upp á nýtt og pappírsskuldir ríkisins við Seðlabankann þurrkaðar út. Þar fer fremst í flokki skuldin vegna 300 milljarðanna frægu þar sem enginn er kröfuhafinn.

Með sama hætti má einnig þurrka út aðrar pappírsskuldir vegna hrunsins og skipta út ríkisskuldabréfum, sem bera bæði vexti og halda fé frá raunverulegri atvinnuuppbyggingu, fyrir skuldabréf sem í daglegu tali við köllum "peninga" sem ekki bera vexti og verða án ríkisbréfa líkast til helst notaðir til fjárfestinga í íslensku efnahagslífi.

Stóru mistökin í því pappírstjóni sem við erum að eiga við afleiðingarnar af nú um stundir, eru einmitt þau að Seðlabankinn, sá sem viðskiptaráðherrann er nú yfir, heldur uppi vaxtastigi sem er úr öllu korti við stöðu efnahagsmála – og framlengir þannig enn frekar pappírstjónið. Einnig eru það mikil mistök að halda að vextir Seðlabankans séu aðalatriðið í því að verja gengi gjaldmiðilsins, þegar gengið endurspeglar fyrst og fremst trú á virði þess hagkerfis sem gjaldmiðillinn vinnur fyrir.

Gengi gjaldmiðilsins verður þannig mun frekar styrkt með því að efla íslenskt efnahags- og atvinnulíf. Þannig skapast raunveruleg arðsemi, en ekki pappírsarður án innistæðu eins og gerist í núverandi vaxtastefnu Seðlabankans.

Það þarf að koma fjármagni á hreyfingu þ.a. það sé fyrst og fremst að vinna fyrir íslenskt efnahags- og atvinnulíf, en liggi ekki dautt og ónotað á bankareikningum. Sú aðferðafræði veldur því að Seðlabankinn í reynd er ekki að gera annað enn að prenta peninga til að greiða okurvexti fyrir fé sem leggur ekki til neinnar verðmætasköpunar.

Hér þarf sem sagt peningalega endurstillingu og það án tafar.

Fyrsta skrefið í því verður væntanlega að vera forræðissvipting viðskiptaráðherra á peningastjórn Seðlabankans.

Svo ekki verði meira "pappírstjón".

Sem meiðir ekki bara á pappírnum!

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Ath: Aðeins meðlimir bloggsins geta birt ummæli.