laugardagur, 21. nóvember 2009

Gjaldþrot til góðs

Í núverandi ástandi er það eina rétta að setja yfirskuldsett fyrirtæki í gjaldþrot. Ef að einingar innan þeirra eru lífvænlegar þarf að tryggja þeim tímabundið líf þar til þær eru seldar á opnum markaði.

Það er engum í hag að halda lífi í yfirskuldsettum fyrirtækjum, og þá sérstaklega ekki neytendum.

Gott dæmi um þetta er 1998 ehf./Hagar. Skuldsetning er sögð um og yfir 50 milljarðar en raunverulegt virði samsteypunnar einungis 10 til 15 milljarðar.

Núverandi “eigendur “ segjast geta haldið áfram rekstri og greitt skuldirnar.

En hver er tilgangurinn? Skuldsetning sem er allt að því fimmföld raunverulegt virði þýðir að “eigendurnir” eru löngu búnir að gefa frá sér alla kröfu á áframhaldandi forræði. Að standa undir slíkri skuldabyrði verður að auki ekki gert á annan hátt en þann að velta þeim kostnaði yfir á viðskiptavini samsteypunnar í gegnum hærra vöruverð en annars þyrfti að vera.

Það er því mun hreinlegra að gera upp reksturinn, afskrifa þær skuldir sem ekki fást staðist og selja það sem eftir er til nýrra rekstraraðila.

Þetta þarf að gera við fleiri fyrirtæki sem svona er statt fyrir. Það yrði til þess að hreinsa út skuldir, en eftir stæðu heilbrigðari rekstrareiningar með eðlilegri skuldabyrði og hugsanlega með töluvert svigrúm til þess að bjóða lægra vöruverð.

Hvað önnur fyrirtæki varðar, sem ekki fóru slíku offari, en þurfa engu að síður á að halda ákveðnum afskriftum, eða leiðrettingu á skuldastöðu er affarasælast að bankastofnanir landsins geri slíkt þannig að skuldum verði breitt í hlutafé. Það hlutafé verði síðan með tíð og tíma boðið til sölu á almennum markaði.

Í þessu á engin atvinnugrein að vera undanskilin. Sérstaklega ætti það að vera markmið að gera þetta gagnvart yfirskuldsettum sjávarútvegsfyrirtækjum. Erlendum skuldunautum slíkra fyrirtækja er bannað að eiga kvóta þannig að þeim yrði nauðugur sá kostur að selja hann sem fyrst.

Hugsanlega má setja slíkt kvótasöluferli í einhvern samráðsbúning með aðkomu ríkisins, þ.a. ríkið tæki þann kvóta yfir og seldi síðan áfram á opnum markaði, eða nýtti með öðrum hætti. Með þessu mætti hugsanlega ná ákveðinni sátt sem gerði innköllun kvóta með fyrningarleið óþarfa.

Stóra gjaldþrotið sem nauðsynlegt er að fara í er síðan Seðlabanki Íslands og skuldastaða ríkis og sveitarfélaga. Í þeim efnum eru ýmsir vegir færir hvað varðar innlendar skuldir. Þar er afskriftaleiðin vel fær og samhliða má í reynd gera upp efnahags- og rekstrarreikninga Seðlabankans og hins opinbera. Einskonar nýtt upphaf.

Augljóst dæmi er hinn stórundarlegi bakreikningur vegna ástarbréfakaupa Seðlbankans síðastliðið haust í miðju hruni, sem, þrátt fyrir að enginn væri kröfuhafinn, var breytt í alvöru skuld ríkisins við Seðlabankann um síðustu áramót.

1 ummæli:

  1. Held að margir séu sammála þér og auðvitað er þetta eina vitið út frá sjónarhóli almenings. Þeir sem eiga þessi fyrirtæki núna eru í raun erlendir vogunarsjóðir í gegnum íslanska banka. Ef þeir geta fengið einhverja til að taka við yfirskuldsettum fyrirtækjum og greiða alla EBITUNA í vexti þá fá þeir senilega mest að lokum

    SvaraEyða

Ath: Aðeins meðlimir bloggsins geta birt ummæli.