þriðjudagur, 17. nóvember 2009

Vitlaus módel - myndir

Það verður ekki dregið úr því að Seðlabanki Íslands leikur mikilvægt hlutverk í íslensku efnahagslífi. Hvort að það hlutverk er til góðs er hins vegar ekki hægt að fullyrða með góðu móti. Seðlabanki Íslands átti t.d. stóran þátt í því að ýta undir bóluhagkerfi og efnahagslegt fjárhættuspil þar íslenska þjóðin var lögð að veði á undanförnum átta árum.

Skoðum tvær myndir. Sú fyrsta er tekin úr síðustu skýrslu peningamála sem gefin er út af Seðlabankanum. Hún sýnir þróun verðbólgu á liðnum árum:

Hér er svo mynd af vaxtaferli seðlabankans yfir nokkurn veginn sama tímabil:

Vaxtahækkunarferlið sem hófst vorið 2004 átti samkvæmt hinni hefðbundnu kenningu að vinna gegn verðbólgu. Í mjög svo einfaldaðri mynd gengur kenningin út á það að með hækkun vaxta eykst áhugi á sparnaði og þannig dregur úr peningamagni í umferð. Of mikið af peningum í umferð veldur verðbólgu samkvæmt sömu kenningu.

Allt svo sem gott og blessað, nema hvað módelið gerði aldrei nógu vel grein fyrir frjálsu flæði fjármagns og því að hávaxtastefna ýtti undir vaxtamunarviðskipti með íslensku krónuna blessaða. Hreintrúarstefna Seðlabankans varð því beinlínis einn stærsti áhrifavaldurinn í því að ýta undir stjórnlaust innflæði fjármagns sem hvatt var áfram að skammtímagróðavon.

Hin sorglega staðreynd er hins vegar sú að Seðlabankinn er enn rekinn á sömu forsendum og á jafnblindri trú á sömu efnahagsmódelin og áttu stóran þátt í að koma okkur í þennan vanda.

Sanntrúarstefna, hvort heldur er í stjórnmálum eða efnahagsmálum (eða yfirleitt), er stórhættuleg.

Það er nefnilega nauðsynlegt að hafa í huga að öll módel sem varða mannlegt athæfi eru í grunninn vitlaus. Sum módel gefa hins vegar betri innsýn en önnur. Þau geta hins vegar aldrei sagt alla söguna.

Það er löngu komin tími á uppgjör við þá efnahagsstefnu sem Seðlabankinn rekur. Ekki er mikil von til þess þar sem æðstuprestar seðlabankans eru jú innvígðir og innmúraðir fylgismenn þeirrar stefnu.

Og finnst miklu meira gaman að vera í félagsskap með módelum.

Við hin getum hins vegar átt okkur í grámyglu hversdagsleikans.

2 ummæli:

  1. Sennilega verður erfiðara að standa í Carry Trade meðan gjaldeyrishöftin ríkja. Svo eins og stendur gæti þetta virkað. En þegar þau víkja þarf að beita nýjum ráðum.

    SvaraEyða
  2. Finnst eins og fólk átti sig ekki á því að stýrivextir eru í raun krafa um ákveðna lágmarks ávöxtun ... séu stýrivextirnir 15% þá þýðir það krafa á lántakendur um að minnsta kosti 15% gróða sé starfsemin rekin á 100% lánum. Ég sá einhversstaðar að "eðlilegur" lánaþungi sé x2 til x3 ... sem þýðir þá þeim mun hærri gróðakrafa.

    ... og hver hirðir allan gróðann? Lánveitandi. Hljómar það ekki rosalega eins og lénsveldið hérna í gamla daga?

    SvaraEyða

Ath: Aðeins meðlimir bloggsins geta birt ummæli.