þriðjudagur, 13. apríl 2010

Afleiðingalausir annmarkar

Þó megingerendurnir í hruninu hafi verið eigendur bankanna sem "kreistu úr þeim djúsinn" þar til ekkert var eftir er ljóst að pólitíkin og stjórnsýslan bera sína ábyrgð.

Fyrrum forstjóri Fjármálaeftirlitsins hélt uppi vörnum varðandi sinn þátt í sjónvarpinu í gær og gerði það um margt ágætlega. Það var við ofurefli að etja fyrir FME að eiga við bankanna. Nefndarmenn svöruðu því hins vegar til í framhaldi að forstjóri FME væri að þeirra mati fyrst og fremst sekur um vanrækslu vegna þess að í þeim málum þar sem FME þó hafði fundið eitthvað athugavert var gengið fram af "of mikilli linkind", sem aftur sendir þau skilaboð að vægt yrði tekið á brotum.

Þetta verður að taka undir. Það er allt of algengt að hér sé tekið of vægt á brotum og eftirlitsaðilar sýna almennt "of mikla linkind" í því að eiga við brotaaðila, sérstaklega síbrotaaðila.

Einn slíkur síbrotaaðili er ríkið sjálft, ráðuneyti og stofnanir, einkum þegar kemur að mannaráðningum.

Til er embætti sem hefur í mörg ár fengið til sín til umfjöllunar fjölda mála þar sem kvartað er undan opinberri stjórnsýslu, og þá sérstaklega hvernig staðið er að mannaráðningum og skipuní embætti. Þetta embætti er Umboðsmaður Alþingis og vill jú svo skemmtilega til að einn nefndarmanna Rannsóknarnefndar Alþingis er einmitt í leyfi frá störfum sínum sem Umboðsmaður Alþingis.

Umboðsmaður Alþingis hefur fundið að mannaráðningum og embættisveitingum hjá ríkinu í mörgum þeirra tilvika sem til hans hefur verið kvartað. Engu að síður er það svo að lítið lát er á slíkum kvörtunum. Ríkið, þ.e. ráðuneyti og stofnanir, virðast því lítið læra eða taka mark á athugasemdum Umboðsmanns.

Hugsanlega er það einkum Umboðsmanni sjálfum að kenna því svo virðist sem embætti Umboðsmanns sýni ríkinu "mikla linkind" þegar hann gerir athugasemdir, en algengt er að umboðsmaður, í kjölfar þess að hann finnur ýmsa annmarka á mannaráðningum eða embættisveitingum klikki út með eftirfarandi:

"Umboðsmaður taldi ólíklegt að þeir annmarkar sem hefðu verið á meðferð málsins leiddu til ógildingar á umræddri ákvörðun. Þá taldi umboðsmaður ekki tilefni til frekari umfjöllunar um réttaráhrif þessara annmarka. Hann beindi hins vegar þeim tilmælum til viðkomandi ráðuneytis/stofnunnar að það tæki framvegis mið af þeim sjónarmiðum sem rakin væru í álitinu við veitingu opinberra starfa."

Þetta er nú allt og sumt.

Ætti það ekki að vera staðallinn að ef einhverjir annmarkar eru á ráðningarferli í stöður og embættisveitingar á vegum hins opinbera verði að endurtaka ferlið?

Eiginlega algert lágmark?

Sama á við um aðra eftirlitsstofnun á vegum Alþingis, Ríkisendurskoðun, en þar er sama linkindin oft á ferð. Reyndar er það svo að Ríkisendurskoðun er ákveðin vorkunn þar sem hún situr í þeirri ankannalegu stöðu, þegar stofnunin vinnur sérstakar úttektir, að þurfa oft að endurskoða eigin verk. Ríkisendurskoðun, eins og nafnið gefur til kynna, sinnir nefnilega hefðbundinni endurskoðun fyrir velflest ráðuneyti og stofnanir á vegum hins opinbera. Rannsóknir Ríkisendurskoðunar bera þess þar af leiðandi oft merki að vera bæði takmarkaðar og treysta um of á sannsögli og útskýringar þeirra sem verið er að rannsaka. Niðurstöður Ríkisendurskoðunnar verða þ.a.l. oft ekki nógu afgerandi. Síðan verður það á hendi annarra, t.d ráðuneyta, hvort niðurstaða Ríkisendurskoðunar, jafnvel í þeim tilvikum sem hún er afgerandi, hefur einhverjar afleiðingar, aðrar en þær að "...ráðuneytið hefur að svo stöddu beint því til [viðkomandi] stofnunar að taka tillit til niðurstaðna Ríkisendurskoðunar í starfsemi sinni."

Kannski væri nú liður í því að bæta hér stjórnsýslu að þessi mikilvægu eftirlitsembætti löggjafans hætti að sýna "of mikla linkind". Þegar annmarkar finnast á stjórnsýslu, þá hafi það afleiðingar.

[Í nafni gegnsæis skal hér upplýst að sá sem þetta ritar hefur kvartað til Umboðsmanns Alþingis vegna embættisveitinga á vegum hins opinbera]

1 ummæli:

  1. Umboðsmaður Alþingis hefur ekki vald til þess að skipa stofnunum fyrir. Fjármálaeftirlitið hafði og hefur mun meiri völd, en kaus að beita þeim ekki. Sá er munurinn.

    SvaraEyða

Ath: Aðeins meðlimir bloggsins geta birt ummæli.