föstudagur, 21. maí 2010

Stór-bandalag í Reykjavík?

Rétt rúm vika er til sveitastjórnarkosninga og samkvæmt skoðanakönnunum er núverandi meirihluti Reykjavík fallinn. Ekki virðist hins vegar kostur á vinstri meirihluta í borginni þar sem samkvæmt sömu skoðanakönnunum er uppgangur Besta Flokksins búin að setja hefðbundna valdamunsturskosti (nýyrði?) í algert uppnám.

Nú er að sjálfsögðu ómögulegt að sjá fyrir hver niðurstaðan verður á kjördag, en ef niðurstöður kosninga í Reykjavík verða þannig að hinir hefðbundnu kostir verða ekki til staðar, hvað verður þá til ráða?

Eflaust hugsa margir á vinstri kantinum að Besti flokkurinn sé í reynd eins konar vinstra framboð og því ætti að vera bæði rökrétt og væntanlega auðsótt að mynda nýjan vinstri meirihluta í borgarstjórn.

Pólitískt er hins vegar engin hagur af því fyrir neinn fjórflokkanna að hleypa Besta flokknum að í meirihlutasamstarfi.

Langtíma árangur framboðs eins og Besta flokksins er háð tvennu, annars vegar að ná þokkalegri kosningu og hins vegar að komast í meirihlutasamstarf.

Án þess að komast í meirihlutasamstarf eru líklegust örlög Besta að veslast upp og fjara út.

Framboð Besta flokksins gæti því orðið hvatinn að því að næsti meirihluti í Reykjavík verði samstarf Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar.

Það gæti svo aftur orðið undanfari endunýjaðs samstarfs flokkanna á sviði landsmálanna.

Og þar með er kannski komin skýring á því fyrir Staksteina Morgunblaðsins af hverju Sjálfstæðisflokkurinn hefur ekki farið fram á það á þingi að aðildarumsókn að ESB verði dregin til baka. Dyrum endurnýjaðs samstarfs Samfylkingar og Sjálfstæðisflokksins í stjórn landsmála er haldið opnum á meðan.

6 ummæli:

  1. Ágætis vangaveltur en ég er ekki viss um að hefðbundin taktík hjá fjórflokknum dugi til við að "útrýma" kímnigáfuframboðinu. Það er rétt sem þú segir að venjulega væri best fyrir fjórflokkana að útiloka nýliðaflokkinn frá völdum og þar með leyfa honum að verða tilgangslaus. Að 4 árum liðnum væri stemmningin líklegast búin og málið (nýja framboðið) úr sögunni.

    En þetta eru ekki venjulegir tímar né er Besti flokkurinn venjulegt framboð og það er með óvenju mikið fylgi. Ef xÆ fengi 4-6 borgarfulltrúa líkt og kannanir benda til þá er þeir klárir stórsigurvegarar kosninganna. Þeirra sigur væri á kostnað allra fjórflokkanna og því væri stórhættulegt fyrir gömlu klíkurnar að reyna að skilja xÆ útundan. Það mynda auka enn frekar á andúð á fjórflokknum og hinu hefðbundna flokkakerfi. Sönnun á valdagræðgi þeirra væri staðfest og hroki gagnvart vilja kjósenda. Svo væri ekkert "grín" fyrir ráðamenn að hafa Jón Gnarr og co. í minnihluta að fífla þá. Hann gæti viðhaldið gríninu ábyrgðarlaust og atvinnupólitíkusarnir færu á taugum (eins og þegar hefur gerst). Hver veit, útskúfun á xÆ gæti jafnvel viðhaldið fylgi þeirra og ýtt undir þingframboð í framtíðinni.

    Best og réttast væri því fyrir einhvern fjórflokkinn að brjóta brodd af oflæti sínu og vinna með xÆ í þeirri von að þeir standi sig illa í raunheimi. En þar væri líka sú hætta að þeir stæðu sig vel og fengju trúverðugleika en hrokafull útskúfun væri feigðarflan.

    SvaraEyða
  2. Þu segir að flestir líti á Besta flokkinn sem vinstra framboð. Ekki er víst að svo sé (enginn veit raunar fyrir hvað framboðið stendur í raun - nema grín)en ég vil benda á að Jón Gnarr hefur helst verið orðaður við Sjálfstæðisflokkinn, hann lýsti á sínum tíma yfir stuðningi sínum við Guðlaug Þór Þórðarson og Gísla Martein í prófkjörum innan Sjálfstæðisflokksins.

    SvaraEyða
  3. Magnús, þetta eru góðir punktar hjá þér. Ég skal viðurkenna að persónulega hef ég ekki mikla trú að BF nái slíku mega-fylgi að verða stærsti flokkurinn, en þetta eru athyglisverðir tímar þar sem allt getur gerst. Spurningin fyrir hina flokkana verður þá kannski sá hvað má BF verða stór án þess að þeir þurfi að taka tillit til hans við meirihlutamyndun eftir kosningar. Ef þeir væru með 6 fulltrúa af fimmtán, jú þá væri það eflaust erfiðara en ef þeir væru með 2-4.

    Nafnlaus, ég hef enga skoðun á því hvort BF er hægri, vinstri, fram eða aftur. Ég segist hins vegar gera ráð fyrir því að margir vinstra megin í pólitíkinni telji BF vera það. Er það ekki gömul (og þreytt) klisja að listamenn séu frekar vinstri en hægri?

    SvaraEyða
  4. Besti flokkurinn er hægra framboð, enda er Jón Gnarr hreinræktaður hægri maður. Samstarfs Sjálfstæðisflokksins og Besta er því það eina sem liggur í kortunum.

    SvaraEyða
  5. Takk fyrir svarið. Vissulega skiptir það mjög miklu máli hversu marga menn xÆ fær hvort hægt sé að hundsa þá. Næsta könnun verður afar fróðleg um hvort xÆ stefni áfram upp, sé stopp eða fari niður.

    Miðað við stemmninguna (og andstemmninguna fyrir fjórflokkunum) þá tel ég stefna í lágmark 4 menn hjá xÆ. En það eru margar breytur í þessu og sérstaklega hjá þeim framboðum sem eru tæp inn eins og xB eða hvernig nýtingin verður á atkvæðum xV. Gætu orðið miklar sviptingar á kosninganótt.

    En undarlegt hjá nafnlausum þessi mantra sem byrjaði með Ármanni Jakobs í gær um hægri mennsku Jóns Gnarr. Klassískur hræðsluáróður frá VG til að reyna að smala sínum flökkukindum aftur af fjalli. Held að Jón Gnarr sé bara með sína prívatpólitík sem passi ekki innan hefðbundinna flokka. Þess vegna er hann nú með sérframboð :) En kannski eykst bara fylgi xÆ á kostnað xD ef gerður er hægri maður úr honum hehehe

    SvaraEyða
  6. Takk fyrir svarið. Vissulega skiptir það mjög miklu máli hversu marga menn xÆ fær hvort hægt sé að hundsa þá. Næsta könnun verður afar fróðleg um hvort xÆ stefni áfram upp, sé stopp eða fari niður.

    Miðað við stemmninguna (og andstemmninguna fyrir fjórflokkunum) þá tel ég stefna í lágmark 4 menn hjá xÆ. En það eru margar breytur í þessu og sérstaklega hjá þeim framboðum sem eru tæp inn eins og xB eða hvernig nýtingin verður á atkvæðum xV. Gætu orðið miklar sviptingar á kosninganótt.

    En undarlegt hjá nafnlausum þessi mantra sem byrjaði með Ármanni Jakobs í gær um hægri mennsku Jóns Gnarr. Klassískur hræðsluáróður frá VG til að reyna að smala sínum flökkukindum aftur af fjalli. Held að Jón Gnarr sé bara með sína prívatpólitík sem passi ekki innan hefðbundinna flokka. Þess vegna er hann nú með sérframboð :) En kannski eykst bara fylgi xÆ á kostnað xD ef gerður er hægri maður úr honum hehehe

    SvaraEyða

Ath: Aðeins meðlimir bloggsins geta birt ummæli.