Ísland er eina vestræna markaðshagkerfið þar sem verðtrygging er yfirgnæfandi í lánasamningum. Útfærsla verðtryggingarinnar er einnig einstök, en verðtryggingaráhrif falla ekki samstundis á afborgun lánanna heldur er stærsta hluta þeirra safnað upp á lánið til að milda vaxtaáhrif verðtryggingarinnar. Þetta gerir það að verkum að lántakandinn finnur ekki fyrir fullum áhrifum verðbótaþáttarins í afborgunum frá mánuði til mánaðar. Sem hluti af almennum aðgerðum ríkisins í kjölfar bankahrunsins er búið að búa til sérstaka greiðslujöfnunarvísitölu til þess að milda þessi áhrif enn frekar.
Þetta er hins vegar fjármálaútgáfan deyfandi lyfja. Þó skammtíma áhrifin verði til þess að milda höggið af áhrifum verðbólgunnar, sérstaklega verðbólguskotum, á lántakendur, eru lengri tíma áhrifin þess eðlis að lántakandinn borgar margfaldan vaxtakostnað af upphaflegu láni. Verðbótaþáttur lánsins sem ekki er greiddur samstundis og safnast upp, ber jú líka áfram fulla vexti og verðbætur eins og upphaflegi höfuðstóllinn. En rétt eins og forfallinn eiturlyfjaneytandi er íslenski lántakandinn orðinn háður þessari aðferðafræði til að fela fyrir honum raunverulegan kostnað verðtryggðar lántöku.
Að sama skapi eru íslenskir lánveitendur háðir þessu lánaformi. Í yfir þrjátíu ár hafa fjármagnseigendur íslenskir alist upp við það að lán sem þeir veita á Íslandi séu ætíð tryggð upp í topp. Vaxtatryggð, verðtryggð og ábyrgðartryggð. Hvergi í heiminum hafa fjármagnseigendur og lánveitendur haft önnur eins belti, axlabönd og brynjur á sínu athæfi og hér.
Upptaka verðtryggingar í lok áttunda áratugarins var eflaust eðlilegt viðbragð við því að ná að stemma stigu við verðbólgu og þeirri stöðu sem þá hafði ríkt að lántakendur "græddu" á lánveitendum þar sem verðbólga át upp lánin. Hafa ber í huga að á þeim tíma var hins vegar íslenskt fjármálakerfi allt bundið í viðjar ríkisafskipta og yfirgnæfandi hluti lánakerfisins á forræði ríkisins með beinum eða óbeinum hætti. Vaxtastefnu var einnig ríkisstýrt.
Ekki dugði verðtryggingarstefnan betur en svo að níundi áratugurinn varð óðaverðbólguáratugur, og endist það ástand fram á þann tíunda.
Við þá frelsun sem átti sér stað á íslenskum fyrirtækja- og fjármálamarkaði á tíunda áratugnum fékk hins vegar verðtryggingin að lifa áfram. Innan fjármálakerfisins ólust menn áfram upp við það að lánveiting á Íslandi væri tiltölulega áhættulaus bransi, sérstaklega gagnvart einstaklingum, fjölskyldum og smærri fyrirtækjum. Vextir, verðtrygging og ábyrgðarmannastefna sáu til þess. Fjármálamarkaðurinn var þannig varinn af eðlilegum þáttum frjáls markaðshagkerfisis eins og því að lánveitngar gætu verið raunverulegur áhættubransi.
Fjármagnseigendur voru því að sama skapi háðir deyfilyfjaáhrifum verðtryggingarinnar.
Við þá markaðsvæðingu sem varð á Íslandi á tíunda áratugnum hefði verið eðlilegt að vinda ofan af þessu kerfi verðtryggingar. Í síðasta lagi hefði aftenging verðtryggingarinnar átt að eiga sér stað 2001 við upptöku nýrra laga um sjálfstæði Seðlabanka Íslands og nýrrar peningastefnu hans. Enda varð reyndin sú að m.a. af stórum hluta vegna verðtryggingarinnar varð vaxtastefna Seðlabankans bitlaus í baráttunni við þennslu hagkerfisins frá árunum 2003 til 2008. Hvergi var grófari misnotkunin á þessu kerfi enn einmitt þegar bankarnir komu inn á húsnæðislánamarkaðinn. Þá voru aldeilis jólin, enda beinlínis partur af planinu að ýta hér af stað massífrí eignabólu þar sem hún skilaði sér beint inn í verðbólguna og varð þannig til varanlegrar hækkunar á höfuðstóli lánanna. Verðtryggingin íslenska var þannig mikilvægur hluti af píramídaplotti fjármálakerfisins íslenska sem hér hrundi haustið 2008.
Afleiðingar þessara deyfilyfja áhrifa á hagkerfið má nú berlega sjá í viðbrögðum sumra fjármálafyrirtækja og einstakra ráðamanna við gengisdómi Hæstaréttar. Þeim er gersamlega fyrirmunað að skilja að gengistryggingar"fixið", sem var jú ein önnur útgáfa verðtryggingar, hafi verið tekið af þeim. Og þá HLÝTUR eitthvað annað fix að eiga að koma í staðinn! Því þannig hefur það ALLTAF verið. Lánveitendur og fjármagnseigendur fá alltaf sitt fix í formi verðbóta, vaxta og vaxtavaxta! Það að þeir hafi tekið einhverja raunverulega áhættu er þeim fyrirmunað að skilja.
Að áhættayfirfærslan frá lántakandanum yfir á lánveitandan hafi gerst vegna þess að lánin voru ólögleg er hins vegar sérkennileg, en verður kannski til þess að kenna ákveðna lexíu.
Verðtrygging á ekki að skipa þann sess í nútímahagkerfi og hún gerir á Íslandi og a.m.k. ekki með þeim deyfilyfjaáhrifum og nú er gert. Óbein afleiðing hennar hefur verið að ýta undir fjármálageira sem kunni ekki, og kann ekki enn, að meta raunverulega áhættu, heldur taldi sig, og telur sig enn vera spes og hann eigi að njóta sérstakrar verndar, ef ekki með verðtryggingu, þá gengistryggingu og ef um allt annað þrýtur, með innspýtingu frá ríkinu með peningum skattborgaranna. Það fannst þeim haustið 2008, og greinilega þykir þeim það mörgum enn.
Það þarf að klára afvötnun íslenska fjármálakerfisins og afnám verðtryggingar er hluti af því.