miðvikudagur, 23. júní 2010

Afsögn McChrystal

Í dag leysti Barack Obama bandaríkjaforseti Stanley McChrystal herhöfðingja í Bandaríkjaher og yfirmann fjölþjóðaliðsins í Afganistan frá störfum í kjölfar blaðagreinar sem mun birtast í tímaritinu Rolling Stone næstkomandi föstudag, en hefur þegar verið birt á netinu á heimasíðu tímaritsins.

Greinin dæmir sig sjálf og endurspeglar, eins og McChrystal sagði sjálfur í afsökunarbeiðni sinni, slæma dómgreind.

Síðastliðið ár starfaði ég í höfuðstöðvum fjölþjóðaliðsins í Afganistan sem aðstoðarsviðstjóri þróunarmála. Strax við komu mína til Kabúl í byrjun júlí á síðasta ári varð ég þátttakandi þeim breytingum sem gerðar voru á skipulagi höfuðstöðva fjölþjóðaliðsins og kom það í minn hlut að endurskipuleggja frá grunni starf höfuðstöðvanna hvað varðaði aðkomu þess að borgarlegri uppbyggingu í Afganistan á sviði þróunarmála. Það fól í sér m.a. þátttöku umræðum um og gerð nýrrar stefnu og aðgerðaáætlunar fyrir framkvæmd aðgerða fjölþjóðaliðsins sem McChrystal hefur leitt æ síðan og varð að samþykktri stefnu fjölþjóðaliðsins.

McChrystal skyldi vel og varðaði þá leið að árangri á sviði öryggismála í Afganistan væri ekki hægt að ná án þess að uppbygging borgaralegrar getu afganskra stjórnvalda færi þar hönd í hönd. Þróun, góð stjórnsýsla, öryggi og hernaðaraðgerðir yrðu að þjóna sem samverkandi þættir til að skila afgönsku þjóðinni betra og öruggara samfélagi að mestu án þeirrar kúgunar og ógna sem talibanar og útsendarar al-queda standa fyrir. Einungis þannig væri hægt að tryggja að Afganistan yrði ekki að nýju og enn frekar griðarstaður öfgaafla sem markvisst stefna að hryðjuverkaárásum um allan heim í nafni afskræmdrar útgáfu trúar sinnar.

Viðfangsefni alþjóðasamfélagsins og afgana sjálfra í Afganistan er umfangsmikið. Landið er enn illa farið í kjölfar 30 ára stríðsreksturs. Þó margt hafi gengið vel frá því að talibönum var komið frá völdum í lok árs 2001 er gríðarlegt verkefni enn óunnið.

Þó gamla orðtakið segi að "vilji sé allt sem þarf" þá dugar það oft ekki til. Uppbygging lýðræðislegs samfélags, góðrar stjórnsýslu og efnislegra innviða 30 milljón manna stríðshrjáðs ríkis, sem bæði er torfarið og margskipt á flókin hátt eftir trúar- og ættarlínum, er torræðara en svo að hægt sé að leysa þau mál á einni nóttu. Jafnvel þúsund og ein nótt dugar ekki til. Það er viðþolslaus barningur sem fyrst og fremst krefst þolinmæði, tíma og mannafla, auk fjármagns.

Að vinna með og fyrir McChrystal var mikil áskorun. Vinnuálagið verulegt og af nógu af taka. Það var einnig mjög gefandi enda óneitanlega hvetjandi að vinna í jafn krefjandi umhverfi og höfuðstöðvar fjölþjóðaliðsins voru og eru. Það verður ekki af McChrystal tekið að þar fer maður einbettur, skarpur og skýr sem gerði miklar kröfur til starfsliðs síns.

Hins vegar fór maður ekki varhluta af því að eftir því sem leið á árið að of miklar væntingar varðandi uppbyggingu borgaralegrar getu afganskra stjórnvalda leiddu til óumflýjanlegra vonbrigða. Fyrir aðgerðadrifin einstakling eins og McChrystal hljómuðu eflaust viðvaranir borgaralegra samstarfsmanna hans um að sumum hlutum yrði einfaldlega ekki hraðað stundum eins og afsökun fyrir aðgerðaleysi.

Einnig hafði verið gert mikið úr því að McChrystal hefði fengið að handvelja til liðs við sig besta fólkið úr bandaríska herkerfinu. Það var rétt að vissu marki, en reyndin var sú að eflaust voru full margir þeirra um of meitlaðir úr sama móti og McChrystal sjálfur. Það leiddi til ákveðinnar hóphugsunar og oft var það ákveðin áskorun að koma á framfæri sjónarmiðum sem ekki féllu að fyrirfram mótaðri heimsmynd þeirra.

Engu að síður var það bæði mikill heiður og mikil reynsla að vinna fyrir McChrystal og innan þessa umhverfis. Það er synd fyrst og fremst fyrir hann persónulega að glæstum ferli hans skyldi ljúka með þessum hætti. Verkefnið heldur áfram með nýjan mann í brúnni og breytir engu um mikilvægi og nauðsyn þess.

1 ummæli:

  1. ert þú þessi Þorbjörn sem Fréttablaðið í morgun segir vera að hefja störf fyrir Sameinuðuþjóðirnar... ??

    SvaraEyða

Ath: Aðeins meðlimir bloggsins geta birt ummæli.