fimmtudagur, 17. júní 2010

ESB: Þættinum hefur borist bréf...

Síðustu tvær bloggfærslur mínar, sem báðar hafa snúist um Evrópusambandsaðildarumsókn Íslands, hafa eitthvað vakið athygli. Sú fyrri skammaðist út í moggann fyrir að samlíkja okkur aðildarumsóknarsinnum við fulltrúa og boðbera aðskilnaðarstefnu hvíta minnihlutans í Suður-Afríku á sínum tíma, og sú seinni beindi kaldhæðnu kastljósi að full stóryrtum (svo ekki sé meira sagt) fullyrðingum andstæðinga aðildar og aðildarumsóknar.

Mismikil ánægja er með þessar færslur eins og gengur. Sú seinni, þessi kaldhæðna, vekur að því er virðist eitthvað sterkari viðbrögð, enda kaldhæðni vandmeðfarið tól, sérstaklega í pólitískri umræðu. Og vart getur maður búist við því í þátttöku í opinberri umræðu, sérstaklega um jafn umdeilt mál og hugsanlega aðild Íslands að ESB, að öllum muni vel líka.

Suma gagnrýni les maður og hlustar á með meiri athygli en aðra, eins og gengur, sérstaklega þegar vinir til vamms segja. Ein slík datt inn á athugasemdakerfinu í morgun sem rétt er að vekja á athygli og lemur þar lyklaborðið góður félagi frá Kaupmannahafnarárum mínum, Kristján Sverrisson. Hann segir:

Sæll Friðrik.

Mér þykir heldur leiðinlegt að sjá að þú ert að falla í sömu gryfjuna og flestir í EU umræðu, þ.e. að hæðast að mótrökum og kalla alla fífl og fávita sem ekki eru sannanlega á einu máli við skoðanabræður sína. Þetta er ekki sú umræða sem þarf.
Ég hef engar verulegar áhyggjur af því hvað verður um Ísland ef svo fer að landið gangi í EU. Á hinn bóginn hef ég heldur ekki fengið séð hvað ætti svo sem að batna við inngönguna og enginn hefur getað skýrt fyrir mér hvernig landið mundi geta spjarað sig ef það stendur utan EU.

Mér dettur ekki í hug að íslensk menning tapist á einu augabragði eða allt tapist í hendur glórulausra vitleysinga í Brussel. Ég trúi því ekki heldur að á Íslandi verði allt í kaldakoli og við töpum eitthvað stórkostlega á því að standa utan EU og halda núverandi yfirráðum yfir landi, auðlindum og efnahagslegum stjórntækjum.

Enginn hugsar út fyrir kassann og reynir að skoða hvaða möguleika Ísland á í stöðunni. Það þarf annars vegar skammtíma-lausnir (sem EU aðild hjálpar engan veginn) og hins vegar langtíma stefnumótun fyrir íslenskt þjóðfélag (og þar getur alveg verið að EU aðild spili hlutverk).

Endalaust skítkast andstæðra fylkinga er fullkomlega gagnslaust. Róum liðið niður og reynum að skilgreina kosti og galla og kynna síðan þjóðinni ítarlega og án upphrópana.

Sumir hengja sig í að EU sé alvont vegna þess að við fáum þá ekki að veiða hval. Er það svo? Aðrir telja EU nauðsynlegt vegna þess að þá höfum við svo mikil áhrif á fiskveiðstefnu sambandsins. Er það svo? EU stuðli að öruggari efnahagsstjórn. Er það svo? EU drepi íslenskan landbúnað. Er það svo? Ísland utan EU verði einangrað og áhrifalaust á alþjóðavettvangi og í viðskiptum. Er það virkilega svo?

Spurningamerkin eru mörg en sleggjudómar og fullyrðingar án rökstuðnings eru því miður fleiri. Ég lýsi eftir vandaðri röksemdafærslu og yfirvegaðri umræðu.

Bestu kveðjur.

Kristján

Við þessum athugasemdum var mér að sjálfsögðu ljúft og skylt að bregðast:

Ágæti Kristján,

Gott að heyra frá þér, en leitt þykir mér að þú teljir mig vera fallinn í gryfju skotgrafahernaðar. Ég veit ekki til þess að ég hafi kallað nokkurn mann fífl og fávita, ekki einu sinni þá sem eru á móti aðild að ESB. Þvert á móti hef ég endurtekið kallað eftir því að umræðan fari fram á vitrænni grunni en einhverra sleggjudóma, þjóðernisofstækis eða halelúja trúboðs.

Um þetta finnur þú t.d. fjölmörg dæmi í mínum fyrri bloggskrifum. Ég hins vegar fer ekki ofan af þeirri skoðan minni að því miður eru það mun frekar andstæðingar aðildar sem halda umræðunni í gíslingu klósettmálfars með hræðsluáróðri, ósannindum og dylgjum um föðulandssvik. Ég hef a.m.k. ekki séð þess mörg dæmi að þeir sem eru hlynntir aðildarumræðum tali um andstæðinga aðildar sem föðulandssvikara, Quislinga, andans trúða og, já, fífl og fávita. Gallinn við umræðuna, og minn pistill er dæmi um það, er að mestur tími okkar sem hlynnt erum aðildarviðræðum fer um of í að einblína á fullyrðingar andstæðinga aðildar en að útskýra hvað við teljum áunnið með að fara í þessa vegferð. Það er eitthvað sem þarf að bæta úr, en endurspeglar líka þá staðreynd að í augnablikinu að minnsta kosti eru það frekar andstæðingar aðildar og aðildarviðræðna sem hafa frumkvæðið og leiða umræðuna.

Ég er þar fyrir utan fyrst og fremst hlynntur aðildarumsókn og aðildarviðræðum. Endanleg afstaða mín til aðildar mun fyrst og fremst ráðast af því hver niðurstaða samninga verður.

Í þokkabót tel ég að framtíð Íslands sé ekki að veði eins og hún leggur sig. Ég trúi því að Íslandi muni farnast vel hvort heldur sem er innan eða utan ESB. Aðild hins vegar tel ég hafa í heildina fleiri kosti en galla.

Aðild mun hins vegar ekki breyta því að land vort og þjóð verða fyrst og fremst sinnar eigin gæfu smiðir.

Kannski er mér helst fyrirmunað að skilja af hverju tiltölulega leiðinlegt batterí eins og Evrópusambandið er, vekur svona heitar tilfinningar. Þetta er fyrst og fremst praktískt milliríkjasamstarf sem snýst um að efla verslun og viðskipti og hagnýtt og friðsamlegt samstarf nágrannaþjóða í millum.

Vissulega hafa verið gerðar tilraunir til þess að umpakka Evrópu"samrunanum" í eitthvað annað og meira en hann er, en þær tilraunir hafa nú flestar runnið út í sandinn, enda snúist frekar um umbúðir er innihald. Á endanum hefur Evrópusamstarfið snúist um praktíska hluti, samþættingu þjóðarhagsmuna og þá jafnvægislist sem þarf til að stórar og smáar þjóðir fái þrifist saman án þess að troða hvorum öðrum um of um tær.

Verði aðild Íslands að veruleika mun hún ekki valda þeim straumhvörfum sem æstustu andstæðingar né stuðningsmenn aðildar sjá fyrir, enda er það svo að aðild að ESB snýst fyrst og fremst um lítt spennandi hluti er snúa að tiltölulega þurrum efnahagsmálum eins og markaðsaðgangi fyrir vörur og þjónustu, peninga- og gjaldmiðilsmálum, samþættingu reglugerða og þess háttar.

Kveðja til Köben

Friðrik

Við þetta er því að bæta að þá tel ég kostina fleiri en gallana við aðild að ESB m.v. þær forsendur sem ég hef sem byggja á því að hafa skoðað ESB nokkuð vel frá ýmsum hliðum og á þeirri staðreynd að reynsla Íslands af fjölhliða alþjóða samstarfi innan alþjóðastofnanna hefur undantekningalaust verið þannig að það hefur verið betra fyrir okkar hagsmuni að taka í því fullan þátt en að standa fyrir utan. Lesa má m.a. hér rök mín fyrir aðild og aðildarumsókn.

En ég mun án efa aftur beita fyrir mig kaldhæðni í þessu debatti sem og öðrum, þó ég muni reyna að komast hjá því, nú sem fyrr, að kalla þá sem ekki eru mér sammála "fífl og fávita"!

Gleðilega þjóðhátíð.

2 ummæli:

  1. Kannski er mér helst fyrirmunað að skilja af hverju tiltölulega leiðinlegt batterí eins og Evrópusambandið er, vekur svona heitar tilfinningar. Þetta er fyrst og fremst praktískt milliríkjasamstarf sem snýst um að efla verslun og viðskipti og hagnýtt og friðsamlegt samstarf nágrannaþjóða í millum.


    Nákvæmlega! Hvaðan koma heitu tilfinningarnar? Líklega úr ýmsum áttum, en þær eru svo innilega óviðeigandi miðað við efnið.

    Maður þarf að taka því þegjandi að vera kallaður öllum illum nöfnum og ásakaður um hin og þessi brjálæði bara fyrir það eitt að vera "aðildarsinni".

    Frá fólki sem maður þekkir nákvæmlega ekki neitt - og vill nátla ekki þekkja héðan af. Sumt sem maður les er auðvitað bilun.

    Samsæri auðvalds, New World Order, spilling allstaðar etc. etc.

    Ósannanlegir eða afsannanlegir hlutir, en fólk heldur þessu á lofti. xD gerir það helst til að safna atkvæðum og styrkja annars dauðan flokk og VG liðar margir hverjir eru ennþá að skipuleggja Sovét-Ísland.

    Landið sem engum er háð og sjálfu sér nægt um allar lífsins nauðsynjar.

    SvaraEyða
  2. Kristján Sverrisson18. júní 2010 kl. 09:54

    Sæll Friðrik. Takk fyrir svarið. Ég las nú ekki greinina sem þú varst að agnúast út í með kaldhæðni svo að kannski fannst mér þú kominn á svipaða stöðu og þeir sem þar fóru offari með útúrsnúningum. Ég var reyndar ekki að segja að þú værir að kalla nokkurn mann fífl eða fávita heldur að hafa áhyggjur af því að þú værir að detta í flokk þeirra sem slíkt stunda. En ég sé á svarinu að þar er aftur mættur sá Friðrik sem ég kannast við. Held reyndar að við séum nokkuð sammála um að hafa litlar áhyggjur af því hvort landið spjari sig innan eða utan EU. Aðalatriðið er að ákvörðun um slíkt sé tekin af yfirvegun og rökfestu en ekki með sleggjudómum. Kveðja frá Köben á Skagann eða Afganistan eða hvar sem þú ert staddur þessa stundina. Sjáumst heilir. Kristján

    SvaraEyða

Ath: Aðeins meðlimir bloggsins geta birt ummæli.