þriðjudagur, 15. júní 2010

ESB og Apartheid

Já, það er óhætt að segja að aðildarumsókn Íslands að ESB sé í mikilli deiglu. Allt stefnir í að leiðtogafundur sambandsins muni samþykkja að hefja aðildarviðræður við Ísland á reglubundnum fundi sínum næstkomandi fimmtudag.

Á sama tíma er borin fram tillaga á Alþingi um að aðildarumsóknin verði dregin til baka og endurspeglar sú tillaga hið mikla önuglyndi þeirra sem leggjast gegn hugsanlegri aðild Íslands hvað sem það kostar. Óttast þeir mest að með tíð og tíma komi til með að liggja fyrir aðildarsamningur sem þjóðin geti rætt og skoðað gleraugnalaust.

Það hefur löngum verið helsta vopn þeirra sem leggjast gegn þessum aðildarviðræðum að ástríða þeirra, hversu vanstillt sem hún er, ber ákveðin sannfæringarmátt. Rétt eins og í sögunum um Ástrík er erfitt að færa rök gegn viðvarandi ótta um að himnarnir séu um það bil að hrynja ofan á hausinn á okkur. Á tímum Ástríks vantaði vísindin og valmöguleikinn að senda t.d. upp loftbelg til þess að safna upplýsingum um himininn þ.a. hægt væri að hrekkja með vísindalegum rökum óttann um himinhrunið, rétt eins og aðildarsamningur myndi veita Evrópuumræðunni raunverulegan grundvöll til að byggja á, í stað hindurvitna eins og andstæðingar aðildar grípa nú til.

En eftir því sem geðvonskan eykst hjá andstæðingum aðildar verða meðölin óvandaðri og ósmekklegri. Aðildar- og umsóknarsinnum er nú grímulaust legið á hálsi að vera óíslenskir, óþjóðlegir, óalandi og óferjandi.

Og nú skal skrefið stigið til fulls í uppnefningunum eins og sjá má í leiðara Morgunblaðsins í morgun undir yfirskriftinni "Vendipunktur" þar sem fagnað er fyrrnefndri framlagðri þingsályktunartillögu um að aðildarumsóknin verði dregin til baka, en þar segir m.a.:

"Samfylkingin er komin með ömurlega stöðu í málinu og gegnir líku hlutverki og hvíti minnihlutinn í Suður-Afríku sinnti í baráttu sinni gegn lýðræðinu á móti miklum meirihluta þjóðar sinnar, þótt að öðru leyti sé ekki saman að jafna."

Nú skulum við horfa fram hjá því að sá sem hér heldur á penna beini orðum sínum að Samfylkingunni. Þetta hlýtur að eiga við alla þá sem hlynntir eru aðildarumsókn Ísland að ESB. Og við erum, að mati ritstjóra Morgunblaðsins, eins og hvíti kúgunarminnihlutinn í Suður Afríku, "...þótt að öðru leyti sé ekki saman að jafna."

Já, við erum svona lið sem hneppir fólk í fangelsi, lokar það í gettóum, handtökum án dóms og laga og virðumst raðhandtaka andstæðinga aðildarumsóknar Íslands að ESB. Á götuhornum gerum við hróp að andstæðingum aðildar og leyfum þeim ekki ekki að fara með okkur hinum í strætó, "...þótt að öðru leyti sé ekki saman að jafna."

Við aðildarsinnar erum sem sagt andlýðræðislegt skítapakk, rétt eins og hvíti minnilhlutinn í Suður Afríku var, "...þótt að öðru leyti sé ekki saman að jafna."

Og þá væntanlega alveg eins og nasistar í Þýskalandi á sínum tíma, eða rauðu khmerarnir, nú eða talibanar í Afganistan, hvað varðar okkar andlýðræðislegu hætti, "...þótt að öðru leyti sé ekki saman að jafna."

Á hvaða plan er umræðan komin?

Fyrir utan að þessi and-lýðræðislegu rök falla augljóslega um sjálf sig þegar ljóst er að engin verður aðildin að ESB án undangenginnar þjóðaratkvæðagreiðslu um málið.

Ef út í það er farið þá eru það verstu and-lýðræðissinnarnir þeir sem stöðugt vilja koma í veg fyrir aðildarviðræður og koma þannig í veg fyrir að þjóðin geti tekið afstöðu til aðildar á grunni staðreynda og fyrirliggjandi aðildarsamnings.

Reyndar er kannski ágætt að þessi þingsályktunartillaga um afturköllun aðildarumsóknar sé lögð fram því nú skal manninn reyna. Samkvæmt fréttum morgunsins virðast bæði formaður Sjálfstæðisflokksins og formaður Framsóknarflokksins því hlynntir að tillagan nái fram að ganga og lýðræðisframganga málsins verði stöðvuð. Þar fer annar formaðurinn fram gegn betri vitund og hinn gegn samþykktri stefnu flokks síns.

Er skelfilegt að horfa upp á að leiðtogum tveggja flokka sé fjarstýrt af fyrrum formanni Sjálfstæðisflokksins og núverandi ritstjóra Morgunblaðsins með jafn grímulausum hætti. Annar hlýðir boðvaldinu beint á meðan hinum er fjarstýrt í gegnum frændgarð í kaupfélagsstjórastarfi. Skiptir þá engu að þar er um að ræða hrunmeistara af verstu sort.

En, það er víst allt leyfilegt þegar stöðva þarf þetta aðskilnaðarstefnupakk sem vill halda til streitu aðildarumsókn Íslands að ESB. Kannski næsta tillaga ritstjóra Morgunblaðsins verði að merkja þetta ESB lið með gulri Evrópustjörnu, svo heiðvirt fólk geti varast að umgangast slíkan skríl. Eða nei, það væri kannski ósmekklegt, svona út af hugsanlega óheppilegum sögulegum tilvísunum, "...þótt að öðru leyti sé ekki saman að jafna."

18 ummæli:

 1. Auðvitað þarf að sækja um aðild og aðlaga íslenska stjórnkerfið að ESB áður en þjóðin getur tekið afstöðu, með eða á móti. Það sama gildir um friðarstríðið í Afganistan. Vestrænu lýðræðislöndin með frið á heilanum þurftu að prófa snjallsprengjur á lifandi skotmörkum til að segja til um árangurinn.

  SvaraEyða
 2. Snilldarleg færsla!

  Ef fólk vill halda áfram að láta valta yfir sig af sérhagsmunapoturum í nafni þjóðernishyggju þá verði þeim að góðu.
  13 mill kr húsnæðislán frá 2007 stendur núna í 18,6. Borga 85 á mánuði, en hækkar um 100 þ. á mánuði þrátt fyrir það. Er búinn að selja og fer úr landi eftir 3 vikur. Bless brjálaða eyja!

  SvaraEyða
 3. Ég nennti ekki að bíða eftir að íslenskir stjórnmálamenn tæku til í ríkisrekstrinum og aðlöguðu sig að 21. öldinni svo að ég flutti til ESB lands fyrir 5 árum.

  Ég fæ alveg rosalega mikið fyrir launin mín í hvert sinn sem að ég kem til Íslands núna. Ég þakkað Sjöllum fyrir það ;)

  SvaraEyða
 4. Ég flutti fyrir rúmu ári til ESB lands og get í dag tekið húsnæðislán á 1% vöxtum

  SvaraEyða
 5. Ég flutti til ESB fyrir mánuði síðan og hér er miklu betra veður. Takk Davíð!

  SvaraEyða
 6. Það greinilega að þessi nafnlausi er einn og sami maðurinn sem dásamar sæluríkið ESB.

  Þó svo að Ísland verði vélað inn í ESB er ekki þar með sagt að lífskjör hér verði þau sömu og í ESB. Fjarri lagi.

  ESB-sinnar hafa t.d. aldrei geta sýnt fram á það með sannfærandi hætti hvernig verðlag muni lækka hér við inngöngu í ESB. Aldrei nokkurn tímann.
  Þetta sýnir m.a. málefnafátækt þeirra og rökþrot.

  Og við þurfum ekki að selja okkur í ESB til að afnema verðtrygginguna. Að afnema verðtryggingu er einungis pólitísk ákvörðun hér heima.

  Eitt er víst, að ef þessir meintu kostir við aðild að ESB verða ekki komnir í ljós innan 5 ára frá innlimun í ESB, verðu sko ESB-aðildarsinnar krafðir skýringa á því og verða þetta réttnefndir ESB-Quislingar.

  SvaraEyða
 7. Svo að ég svari nafnlausum hérna að ofan (svar 10:14). Þá er það nú þannig að stuðningsmenn ESB aðildar Íslands hafa fyrir margt löngu getað sýnt fram á það hvernig verðlag mun lækka hérna á landi.

  Þetta atriði mun koma aftur upp í umræðunni. Það sem gerist á Fimmtudaginn 17 Júní er ennfremur það að gagnvart Íslandi þá verður eftirlitskerfi ESB orðið virkt. Þó eingöngu sem umsóknarríki. Af þesim sökum liggur andstæðingum ESB á Íslandi (þarna Davíð og co) svo mikið á að koma í veg fyrir að þessi umsókn verði formlega samþykkt.

  Vegna þess að þegar eftirlitskerfi ESB fer af stað. Þá er engin leið fyrir sjálfstæðisflokkinn og samverkarmenn þeirra í framsóknarflokknum að stoppa það eftirlitskerfi. Vegna þess að eftirlitskerfi ESB mun bara hlæja af þeim ef þeir reyna stoppa rannsóknir stofnana ESB á Íslandi í tengslum við aðildarferlið.

  SvaraEyða
 8. Þú ert alltaf að lesa moggann?

  SvaraEyða
 9. Kaupfélagsstjóri sem er hrunmeistari af verstu sort, hver er það? Er það sá sem Gunnar Bragi Sveinsson er skósveinn hjá?

  SvaraEyða
 10. Takk fyrir þessa færslu.

  Jón H. Eiríkss.

  SvaraEyða
 11. Jón Frímann,
  ESB-sinnar hafa ALDREI getað sýnt fram á það við neinum vitrænum rökum hvernig verðlag muni lækka hér á landi við inngöngu í ESB.
  Þetta er bara áróðursbragð sem virkar vel hér á landi þar sem að landinn er alltaf að leita að betra verðalgi.

  Að verðlag lækki hér við inngöngu í ESB er bara lygi og þvæla, svo ég noti orðfæri þitt, Jón Frímann.

  Og hvaða eftirlitskerfi eru að bulla hérna um?
  Á hvaða lyfjum ert þú?
  Tókstu ofskammt af þessum lyfjum?

  SvaraEyða
 12. nafnlaus 10:14 og 13:24;

  Verðlag MUN lækka á ísl þegar
  1) tollar verða t.d. afnumdir við inngöngu í ESB.
  2) Sömuleiðis myndu evrópskar verslanakeðjur jafnvel sjá hag sinn í að koma hingað til lands.
  3) Að síðustu má nefna að tollar eru ekki í ESB, þannig að fólk fer að panta af netinu frá t.d. þýskalandi, og það mun þýða fyrir Íslenska kaupmenn að þeir verði að lækka verð, eða loka sjoppunum - þessi rök gilda þó ekki fyrir matvöru. Sannaðu til, þetta hefur nú þegar gerst í ESB löndum.

  Næg rök? Ég vil taka fram að ég er ekki sérstakur evrópusinni (ca. 60% með og þá 40% á móti), ég vil barasta fá að sjá hvað er í pakkanum áður en við drögum í land með umsóknina.

  kv,
  Gunnar G

  SvaraEyða
 13. Hver getur tekið alvarlega mann sem heldur því fram að staða forseta borgarstjórnar Reykjavíkur sé ekki fólgið í öðru en að styðja drukkna gesti út úr Höfða?

  SvaraEyða
 14. Björn,

  Verð kemur til með að hækka ef við göngum í ESB. Öll lönd sem hafa t.d. tekið upp evruna hafa fengið hærra verðlag í hausinn. Spánn, Grikkland, Ítalía eru góð dæmi um það, líka Slóvakía.

  Víst eru tollar í ESB eða var þetta grín?

  SvaraEyða
 15. nafnlaus kl.15:42....þessi var góður: "... Öll lönd ..." (rólegur á alhæfingunni)

  Hefurðu tekið eftir að þegar rætt er um ESB eru samanburðarþjóðir íslands miðjarðarhafslönd, en ef umræðuefnið er annað, eru það norðurlönd. Ég vel að miða okkur við norðurlöndin, enda hefur það tíðkast til ársins 2009. Málið með löndin sem þú telur upp er að fyrir € voru þetta mjög ódýr lönd, og það er rétt að verðlag hækkaði þar - taktu eftir hvernig laun þróuðust á sömu svæðum í leiðinni, kannski sérðu fylgni. Þegar samanburðarlönd okkar (þ.e. norðurlönd) fóru í ESB, lækkaði verðlag, og þá jafnvel á annan tug prósenta - en það fyndna er að laun stóðu nokkurn veginn í stað. Sömuleiðis komu þýskar matvörukeðjur inn á markaðinn þar, og þvinguðu þær innlendu til að lækka sig - sem þær gerðu.

  Ég veit ekki hvaða ESB þú þekkir, en þar sem ég bý eru engir tollar milli ESB landa (rétt er það að ég gleymdi að taka fram að það eru ekki tollar innan ESB - sem þýðir að maður kaupir sér evrópska vöru til að spara). Sem þýðir að þegar ég vil kaupa mér bók get ég farið á amazon.co.uk, og fengið bókina inn um lúguna daginn eftir á því verði sem ég pantaði hana á. Vonandi veistu að það er ekki raunin á skerinu. Sama gildir um föt, tæknivörur o.s.frv. Ég veit til þess að ég get pantað matvöru yfir netið, en einhvernveginn hef ég ekki lyst á því.

  kveðjur,
  Gunnar G

  SvaraEyða
 16. Vel mælt Gunnar G, það kemur mér alltaf jafn mikið á óvart þegar and-sinnar byrja að steypa einhverja dellu til að réttlæta mál sitt.

  Það ber að undistrika það enn einu sinni að innan ESB eru engir tollar. Á neinu. Nada. Nógu skýrt?

  SvaraEyða
 17. Björn,

  Þegar fólk segir að engir tollar séu í ESB og trúir því, verður bara að hafa það. Tunglið er líka úr osti í teiknimyndunum. Tollar eru m.a. notaðir til að fjármagna CAP ef ég skil þetta kerfi rétt.

  Ef þú hefur ekki verið á Íslandi síðan okt. 2008 þá get ég skilið að þú haldir að Ísland sé ennþá hátekjuland eins og t.d. Danmörk eða Noregur. En það varð "bankahrun" hérna og verðgildi krónunnar helmingaðist.

  Við erun því nær Spáni eða Ítalíu en Danmörku og Svíþjóð. Síðan þá framleiða EU löndin frekar lítið. Mest allt draslið í búðunum kemur frá Kína og Asíu.

  Ef við tækjum upp evru væri farið eftir gengi krónunnar eins og hún er í dag og á morgun en ekki þegar hún var sem hæst 2006-2007. Ef þú ert ósáttur skaltu tala við herra Trichet.

  Síðan er það bull að ekki sé hægt að lækka tolla eða skatta á innflutt matvæli. Bara spurning um hvaðan tekjustraumarnir eiga að koma í staðinn. Jóhanna gæti lækkað tolla á innflutt matvæli ef hún kærði sig um. Þarf ekkert ESB til.

  Skýrslur fyrir hrun töluðu um 30% verðlækkun á matvæli við inngöngu. Þá hlýtur matvælaverð að hækka um 30% eftir hrun?

  SvaraEyða

Ath: Aðeins meðlimir bloggsins geta birt ummæli.