Að ríkisstjórn Íslands skjálfi á beinunum og riði jafnvel til falls vegna sölu á hlut Geysis Green í Hitaveitu Suðurnesja til Magma er hreint ótrúlegt. Svei mér þá, get hálfvegis ímyndað mér að þetta sé eins og að vakna á þriðja degi eftir viku fyllerí, ennþá þunnur, og vera brjálaður út í barþjóninn sem seldi manni bjór númer 2.
Þetta er búið og gert. Þeim sem ekki hugnaðist málið eru búnir að hafa nægan tíma til þess að gera eitthvað í því. Það láðist þeim að gera.
Sjálfur hef ég ekkert á móti fjárfestingum erlendra aðila í íslensku atvinnulífi og slétt sama hvort að sú fjárfesting kemur innan eða utan EES. Aðalatriðið er að hér séu skýrar reglur um fjárfestingar almennt.
Hvað varðar fjárfestingu Magma í Hitaveitu Suðurnesja sérstaklega hef ég þrjá fyrirvara:
- Kúlulán. Að fréttum að dæma er stór hluti fjárfestingarinnar í formi kúluláns frá seljanda til kaupanda. Þannig lætur kaupandi arð fjárfestingarinnar sjá um að greiða fyrir sig stóran hluta kaupanna án þess að um eiginlegt nýtt fjármagn komi inn í landið eða til seljanda. Kúlulán eru ekki til fyrirmyndar í fjárfestingum og skuldsettum yfirtökum.
- Tímalengd aðgangsleigunnar að auðlindum. Samkvæmt fréttum er nýtingarréttur Magma á auðlindum 65 ár með möguleika á framlengingu um önnur 65 ár. Þessi tímalengd þarf ekki að vera verri en hver önnur, en fýsileiki fjárfestingar sem byggir á tryggðum aðgangi að auðlind í hartnær tvo mannsaldra er athyglisverð í sjálfu sér. Hér má hins vegar saka stjórnvöld um ákveðna handvömm að hafa ekki sett skýrar reglur um aðgangsleigu að auðlindum af þessu tagi.
- Einkavæðing grunnþjónustu. Þó ég sé markaðs- og einkaframtaksmaður yfirleitt og yfirhöfuð, þá hef ég mínar efasemdir þegar kemur að rekstri ákveðinnar grunnþjónustu, sérstaklega þeirrar sem í eðli sínu verður aldrei annað en einokunarstarfsemi. Grunnveituþjónusta, eins og inntak á heitu og köldu vatni inn í heimahús, verður aldrei annað en einokunarbransi. Þú skiptir ekki svo glatt um veituþjónustuaðila.
Að sama skapi, hins vegar, er ég ekki hrifinn af því að ríkið sé á bólakafi í áhættufjárfestingum í orku og veitubransanum. Það er, mér þykir ekki óeðlilegt að sveitarfélög eigi og reki veitufyrirtæki, til þess að sinna grunnþjónustu fyrir íbúana. Hins vegar þykir mér að sama skapi ekki rétt að sveitarfélög eða ríkið, séu að veita ábyrgðir og taka með beinum hætti þátt í uppsetningu, rekstri og skuldsetningu með opinberri ábyrgð (þ.e. á ábyrgð skattborgarana) á áhættufyrirtækjum. Landsvirkjun, sá hluti Orkuveitu Reykjavíkur sem selur orku til stórfyrirtækja og þess vegna gróðurhúsabænda, á að geta starfað á eðlilegum markaðsforsendum, án ríkisábyrgðar. Slíkar sjoppur eiga að geta borið sig sjálfar.
Þetta er reyndar kosturinn við fjárfestingu Magma, að fráskyldu því sem var að ofan talið. Frekari fjárfestingar Magma í orkuvinnsluuppbyggingu til stórsölu hlýtur þannig að verða á þeirra eigin ábyrgð. En að sama skapi er áhætta í því falin að, ef ekki eru til staðar sérstakar öryggisgirðingar, verði kostnaði vegna misheppnaðra fjárfestinga vegna t.d. orkuöflunnar til stóryðju, velt yfir á heimili á Reykjanesi, sem hafa í engin önnur hús að venda með kaup á heitu vatni.
Þær ambögur sem eru á fjárfestingu Magma hefði eflaust verið hægt að leysa, eða a.m.k. draga úr, sérstaklega hvað varðar kúlúlánið og tímalengd auðlindaleigutímans. Úr þessu er tæpast hægt að gera mikið annað en að læra af þeirri óneitanlega dýru reynslu sem hér hefur fengist. Hana ætti að nýta til að móta skýrari og sterkari almennan ramma um fjárfestingu innan orkugeirans og nýtingu orkuauðlinda, sem gildi þá hvort heldur sem er um innlendar og erlendar fjárfestingar. Þegar það liggur fyrir væri kannski forsenda til að setjast niður og semja við Magma um að sníða verstu agnúana af þeirra fjárfestingu, enda því fyrirtæki í hag að sem mestur friður ríki um starfsemi þeirra.
Þú gleymir að taka fram að kúlulánin frá seljendunum - voru veitt á vöxtum langt undir markaðsvöxtum (vöxtum sem Magma hefði ekki staðið til boða annarsstaðar). Ef þessi kúlulán væru seld í dag, t.a.m. til fjárfestingabanka, þá þyrfti að gera það á töluverðumm afföllum m.t.t. nafnvirði bréfanna og því seljandinn að taka á sig umtalsvert tap. Allar líkur standa því til þess að HS-Orka hafi verið seld á undirverði af opinberum aðilum...
SvaraEyðaSæll frændi.
SvaraEyðaFrábær pistill - er hjartanlega sammála þér eins og oft áður (verð samt aldrei Frammari, í mörgum skilningi þess orðs). Fyrir mína parta mætti bæta við einum fyrirvara til viðbótar: Var gerð áreiðanleika könnun á því hverjir eru raunverulegir eigendur Magma Energy?
Kv.,
Hlynur Níels.
Mikið er gott sjá að eitthver hefur sömu skoðanir og ég. Hélt að það væri eitthvað að mér að vera ekki á algjörlega á móti þessu eins og meirihluti þjóðarinnar virðist vera.
SvaraEyðaKv. Dagrún
Góður pistill og mikið væri nú gaman ef fréttamiðlarnir settu málin upp með þessum hætti - það myndi opinbera að það skortir alla framtíðarsýn í því hvernig við viljum haga erlendri fjárfestingu á Íslandi
SvaraEyðambk
Ólafur
reverse phone lookup
SvaraEyða