Í leiðara Fréttablaðsins í morgun fjallar ritstjórinn, Ólafur Stephensen, um íslensku lífeyrissjóðina undir yfirskriftinni "Völd án aðhalds". Þar segir m.a.:
Lífeyrissjóðirnir eru mikilvægur hluti af velferðarkerfinu. Þessi hluti velferðarkerfisins er rekinn af aðilum vinnumarkaðarins í stað þess að vera rekinn af ríkinu, eins og í mörgum öðrum löndum. Íslenzka lífeyriskerfið er að mörgu leyti einstakt og vegna þess að það byggist á sjóðssöfnun en ekki svokölluðu gegnumstreymi eins og lífeyriskerfi margra annarra ríkja eru Íslendingar betur settir í lífeyrismálum en margur og betur í stakk búnir að mæta t.d. öldrun þjóðarinnar.
Hins vegar skortir þennan mikilvæga hluta velferðarkerfisins það lýðræðislega aðhald, sem hinn opinberi hluti hefur. Telji kjósendur að stjórnmálamenn fari ekki nógu vel með það fé, sem fólk greiðir í skatta til ríkisins, geta þeir losað sig við þá og hafa til þess tækifæri á fjögurra ára fresti. Lýðræðið á vettvangi lífeyrissjóðanna er hins vegar afar takmarkað. Fulltrúar atvinnurekenda og verkalýðsforystu skipta þar völdum á milli sín, án raunverulegrar aðkomu hins almenna sjóðfélaga.
Ólafur líkur leiðara sínum með eftirfarandi orðum:
Erlendis fara lífeyrissjóðir iðulega fyrir þeim hluthöfum, sem setja út á ofurlaun stjórnenda og óhóflega áhættu. Engu slíku var fyrir að fara á Íslandi fyrir hrun, enda litu margir stjórnendur lífeyrissjóðanna fremur á stóla sína sem valdauppsprettu en umboð frá sjóðfélögum til að gæta hagsmuna þeirra.
Við þetta má bæta að ýmsir stjórnendur og starfsmenn lífeyrissjóða voru beinlínis virkir þátttakendur í ruglinu og tæpast virðist aðhald eftirlitsaðila með lífeyrissjóðunum hafa verið mikið betra eða skilvirkara en með öðrum fjármálastofnunum. Stór liður í því var annars vegar vanbúið og fáliðað eftirlit, en hins vegar alveg merkilega margir lífeyrissjóðir fyrir ekki fleira fólk. Þeir hlaupa á tugum, allir sem sínar stjórnir, starfslið, fastakostnað, breytilegan kostnað og svo framvegis. Og því miður eru ekki ófá dæmin um lífeyrissjóði sem beinlínis hafa farið á hausinn og tapað öll fé sinna umbjóðenda.
Væri ekki nær að sameina íslensku lífeyrissjóðina í einn öflugan sjóð? Þar með yrði á svipstundu til einn öflugasti lífeyris- og fjárfestingasjóður í Norður Evrópu. Þar með mætti spara verulega rekstrarkostnað, auðvelda eftirlit og hægt að marka slíkum sjóði skýra, en skilvirka fjárfestingastefnu.
T.d. væri hugsanlega að ákveðnu marki hægt að láta sameinaðan lífeyrissjóð landsmanna byggja á fyrirmynd norska olíusjóðsins.
Stjórn stjóðsins mætti skipa bæði fulltrúum ríkisvalds, verkaðlýðsfélaga og atvinnulífs (því auðvitað ætti lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins að vera hluti af þessu) og hægt væri auk þess að skipa sjóðnum fjölmennt fulltrúaráð, lýðræðislega kjörið.
Við sameiningu sjóðanna væru þeir gerðir upp tryggingafræðilega, og sérstaklega yrði ríkið að láta til sjóðsins falla aukalega fé vegna uppsafnaðaðra skuldbindinga vegna lífeyrisréttinda ríkisstarfsmanna. En samfara þessum breytingum yrðu lífeyrissréttindi allra landsmanna samræmd samkvæmt þeirri reglu að fá greitt úr sjóðnum í hlutfalli við það sem greitt var inn.
Einnig væri hægt að fela þessum sjóði að sinna grunnlífeyrisstryggingu sem nú er sinnt að mig minnir af Tryggingastofnun.
Það mætti jafnvel gerast enn rótttækari og fella undir slíkan sameinaðan sjóð aðra sjóði á vegum ríkisins, t.d. íbúðalánasjóð. Til þess að styrkja slíkan sjóð til langframa væri hugsandi að öll auðlindagjöld verði látin til hans renna.
Hinn ágæti viðbótarlífeyrissparnaður gæti hins vegar haldið áfram með sama hætti, þ.e. greitt inn á sérstakan lífeyrissparnað hjá fjármálafyrirtæki að eigin vali.
Rugl er þetta. Hvers vegna eru td. ekki allar sparisjóðsbækur landsmanna sameinaðar í eina??Það er álíka gáfulegt og þessi hugmynd um einn lífeyrissjóð.Svo væri ágætt ef menn kynntu sér hvernig kosið er í stjórnir lífeyrisjóða áður en þeir tjá sig með þessum hætti.
SvaraEyðaþað mætti fækka sjóðunum eitthvað aðeins og breyta kerfinu á þann hátt að allir landsmenn séu í sama lífeyrissjóðskerfi. þannig að opinbera lífeyrissjóðs kerfið yrði lokað og myndi leggjast af með síðustu útgreiðslunni.
SvaraEyðaað sameina þetta allt í einn sjóð þá værum við að búa til nýja valdastofnun sem nánast væri hægt að skilgreina sem fimmtavaldið (fjölmiðlar eru fjórðavaldið). seta í slíkum stjórnsjóð yrði ígildi þingsetu í áhrifum. umfangi og völdum.
versta við þessa hugmynd er hinsvegar að þá yrðu öll eggin komin í eina körfu.
varðandi almenna endurskoðun á því hverjir skipa í þessar stjórnir eða hafa atkvæðisrétt til þess að kjósa í stjórnir þá eiga þeir sem leggja fé í sjóðina að stjórna því.
Verkalýðsfélögin eiga ekkert með það að vera þarna nema með skýru umboði frá sjóðsfélögum. það eru ekki þau sem borga í sjóðina.
atvinnurekendur hafa staðið á móti breytingum í þessa átti vegna ótta að ef allt fer á vesta veg í fjárfestingum (sjóðirnir flykkist til að kaupa í deCode eða einhverju álíka eins og þeir fyrir austan gerðu) þá verði tapið sótt til atvinnulífsins. einfalt ráð við þessu væri að breyta lögum um sjóðina í þá veru að þeir beri ábyrgð á sjálfum sér og geti ekki sótt bætur á tapi sínu til atvinnurekenda hvort sem þeir eru sjálfstæðir eða hið opinbera, nema eitthvað sem varði við lög eigi við.
bara að leggja smá orð í belg.
-Fannarh
Iðgjöld lífeyrissjóða eru skattar. Skatta má ekki afhenda einum eða neinum til ráðstöfunar nema Alþingi samþykki. Slíkt samþykki verður að liggja fyrir á hverju ári. Annars er hér um stjórnarskrárbrot að ræða. Af hverju fá menn ekki fulltrúa verkalýðshreyfingar og atvinnurekenda til að sitja í fjárlaganefnd Alþingis, þegar öðrum skatttekjum er ráðstafað?
SvaraEyðaMarat
Georg: Lífeyrissjóðir eru ekki eins og sparisjóðsbækur, þeir eiga meira skylt við tryggingarfélög. Þú ert að kaupa þér ákveðna tryggingu til lífeyris með þátttöku í lífeyrissjóði.
SvaraEyðaFannarh: Norðmenn eru einingis með einn olíusjóð og hefur gefist vel. Ekki óttast þeir að þar séu öll eggin í sömu körfu. Aðalatriðið hlýtur að vera eftirlit og hvernig fjárfestingastefna slíkur sjóður rekur. Eðli máls samkvæmt hlýtur slíkur sjóður að vera rekinn á tiltölulega íhaldsömum forsendum og vera með verulega dreift eignasafn til dreifingar á áhættu.
Marat: Iðgjöld eru formlega ekki skattar, en það er athyglisvert sjónarmið AGS að meðhöndla þær greiðslu sem skattígildi og skynsamlegt í ljósi alþjóðlegs samanburðar.
Aðalatriðið er nú það að sama hvert fyrirkomulagið er þá verður eftirlitið að vera öflugt og rammi fjárfestingastefnu í lagi, hvort sem sjóðurinn er einn eða fleiri. Með fjölda tuga sjóða er slíkt eftirlit allt mun erfiðara, kostnaður við kerfið meiri, og meiri líkur á áföllum.
Norski sjóðurinn hefur leyfi til mjög takmarkaðra fjárfestinga í Noregi. Þeir vilja ekki fá þessa peninga sem bólu inn í sitt hagkerfi.
SvaraEyðaAftur á móti virðast Íslendingar gera út á bólu-hagkerfi. Helst sem flestar bólur í gangi í einu.
Sé ekkert að því að hafa einn lífeyrissjóð.
SvaraEyðaMinni rekstrarkostnaður, betri afkoma - augljóst.
Skiptir mestu máli hver fjárfestingarstefnan sé. Hún má ekki vera of mikil hér á landi - allt of lítið hagkerfi.
Sjóður, lífeyrissjóðsiðgjöld eru skattar vegna atvinnustarfsemi og þess vegna er lífsnauðsyn að halda þeim innan hagkerfisins. Að öðrum kosti fer fyrir hagkerfinu einsog fyrirtækjum þar sem eigendur "taka út" of mikla peninga.
SvaraEyðaOlíusjóðurinn hefur allt annað eðli, þar sem um auðlindagjald er að ræða. Rétt væri að byggja slíkan sjóð upp hér. Þá mætti tala um fjárfestingastefnu.
Marat
Markmið og stjórnun lífeyrissjóða á að ráðast af því að tryggja nægjar tekjur til að mæta föstum og næsta þekktum útgjöldum framtíðar (framtíðar lífeyrisgreiðslur er tiltölulega einfalt að reikna út nokkuð nákvæmlega).
SvaraEyðaStjórn lífeyrissjóða á ekki að hafa leyfi til að hámarka hagnað, einungis að tryggja nægan arð af fjárfestingum til að standa undir skuldbindingum, við sem lægstri áhættu.
En sú hugmynd að sameina íslenska lífeyrissjóði er góðra gjalda verð. Auðvitað þyrfti að brjóta sjóðinn upp í nokkra hluta, og greina milli fjárfestinga innanlands og erlendis.
En án nokkurs vafa mætti spara mikið fé í lægri rekstrarkostnað, og á sama tíma tryggja bæði betri faglega stjórnun og gegnsæi.
Ég þekki nokkuð til sjóðanna og tel að ekki sé raunhæft að sameina þá í einn en nokkuð raunhæft yrði að fækka þeim í t.a.m. 5. Sjóðir opinberra starfsmanna eru það langt frá þeim almennu að þeir yrðu trauðla sameinaðir þeim nema með valdboði og það er ekki gæfuleg leið í þessum efnum. Svo eru ýmsir litli sjóðir sem hafa sérréttindi s.s. flugmenn og eru illa hæfir til sameiningar. Hvað varðar kosningar í stjórnir sjóðanna þá geta allir félagsmenn hafi þeir vilja og nennu til haft áhrif á stjórnarkjör. En 5-6 sjóðir eru raunhæft markmið að náist og það ekki á löngum tíma.
SvaraEyðaÞetta er í prinsippinu fín hugmynd, en sporin hræða. Íslenskir lögfræðingar verða án vafa flinkir við að eyðileggja sjóðinn og koma nýjum útrásarvíkingi í lykilstöðu áður en varir, rétt eins og þeir fundu út að það mætti stela sparisjóðunum og samvinnufélögunum, ef réttur hirðir fyndist. Á Íslandi er betra að hafa eggin í mjög mörgum körfum, jafnvel þótt óhagræði hljótist af. Þá er von að einhver sleppi.
SvaraEyðaÍ dag er ég skíthræddur við þetta fjárfestingarfélag lífeyrissjóða sem einskonar prótótýpa fyrir einn sameinaðan lífeyrsissjóð. Það félag er þegar búið að kaupa hlutabréf í Icelandair og hyggst að auki leggja lífeyrissparnað landsmanna í Vaðlaheiðargöng og hátæknispítala við Hringbraut. Eins og allir vita verður af því mikil ávöxtun, eða hitt þó heldur.
Ómar Harðarson
Landsmenn ættu ekki vera að flækja það fyrir sér að stofna einn sjóð fyrir alla.
SvaraEyðaNýr sjóður myndi byrja og mönnum gæfist kostur á að færa réttindi sín yfir í hann. Þau réttindi yrðu aðlöguð að hinum nýja sjóði. Æsktu menn eftir að halda þeim réttindum sem gamli sjóðurinn þeirra bauð, ætti það að vera möguleiki.
Með tíð og tíma detta gömlu sjóðirnir út.
Lög og reglur sjóðsins yrðu þannig úr garði gerð, að ekki yrði líkur á misferli eða vanrækslu.
Menn ættu ekki vera hræddir við að skoða þennan möguleika.
Áður en hafin er umræða um lífeyrissjóðina væri alveg gráupplagt að lesa þau lög sem um lífeyrissjóði gilda. Þau má finna á vef Alþingis.
SvaraEyðaDjísús!
Þorsteinn Úlfar
Hvað er vandamálið, afhverju er þetta ekki bara hjá Seðlabankanum á verðtryggðum vöxtum, það er ansi fín ávöxtun yfir starfsævi einstaklings!
SvaraEyðaÞarf ekkert rosalega yfirbyggingu, getum örugglega fundið eitthvað út úr aðhaldinu.
Það er góð saga til af því þegar sólin settist aldrei í breska heimsveldinu. Þá voru 6 manns sem unnu í deildinni sem sá um samskiptin út á við, í dag eru þeir hátt í 2000 og það er ansi langt síðan sólin fór að setjast!