fimmtudagur, 15. júlí 2010

Úr helsi hagfræðinnar

Það er óhætt að segja að íslenska hrunið hafi verið allsherjar. Gjaldmiðilshrun, verðbréfamarkaðshrun, bankahrun, verðbólgusprettur, stóraukið atvinnuleysi og fjöldagjaldþrot fyrirtækja og heimila, auk þeirrar hættu sem varð, og er enn, á greiðslufalli ríkisjóðs, sveitarfélaga og fyrirtækja í opinberri eigu.


Fullt hús stiga í falli hagkerfis.


Við slíkar aðstæður ætti að gefa auga leið að uppbygging að nýju kallar á uppgjör, tiltekt, afskriftir og endurmat.

Og í þessu tilfelli á ég eingöngu við hinar hagfræðilegu og hagrænu undirstöður þjóðfélagsins.

Því jafn afgerandi hrun og Ísland gekk í gegnum hefur líka haft þær afleiðingar að allar þær hagtölur sem við byggjum á eru orðnar skakkar og skældar. Það verður að taka til í öllum tölfræðigrunni hagkerfisins og ekki halda áfram á núverandi grunni. Hann er ekki marktækur.


Engin slík tiltekt er hins vegar að fara fram og er að kosta Ísland óþarfa hörmungar og tefur fyrir því að landið nái sér aftur á strik.


Augljóst dæmi, sem ég hef áður tönglast á, var hin afleita ákvörðun Seðlabankans og ríkisstjórnarinnar um áramótin 2008/9 að breyta bókhaldsskuld Seðlabankans við sjálfan sig vegna kaupa á skuldabréfum bankanna í örvæntingarfullum björgunaraðgerðum í aðdraganda hrunsins. Hið fræga “tæknilega” gjaldþrot Seðlabankans. Í fyrsta lagi fór Seðlabankinn aldrei á markað til að fjármagna þessi kaup sín, þetta var hrein peningaprentun. Það var aldrei neinn kröfuhafi á móti þessari bókhaldsskuld.


Í öðru lagi er “tæknilegt” gjaldþrot einmitt það, tæknilegt en ekki raunverulegt. Seðlabankinn hefði þess vegna getað haldið þessu “tæknilega” gjaldþroti á bókunum næstu 100 árin án þess að það hefði í reynd gert meiri skaða en svo að líta illa út. Það var enginn kröfuhafi á móti þessari bókhaldsskuld.


Í þriðja lagi hefði Seðlabankinn getað afskrifað þessa skuld úr bókum bankans. Bankanum var það í lófa lagið að taka efnhagsreikninginn í gegn hjá sér í kjölfar hruns, svona rétt eins og þegar að fyrirtæki fara í gegnum endurskipulagningu, skuldbreytingar og afskriftir. Það var enginn kröfuhafi á móti þessari bókhaldsskuld. Hefðbundinn “peningaprentunarkostnaður” var í sjálfu sér kominn fram í hruninu sjálfu, þ.m.t. í bæði veðrbólguaukningunni sem varð og í hruni gjaldmiðlsins.


En í stað þess var frekar farið í þá ótrúlegu aðgerð að gera skuldina raunverulega og færa hana á ríkissjóð. Á einni nóttu jókst skuldastaða ríkissjóðs um væntanlega rúm 20% af þjóðarframleiðslu. Vegna "tæknilegs" gjaldþrots. Vegna bókhaldsbrellu. Og af þessari bókhaldsbrellu er víst á síðasta eina og hálfa ári búið að borga yfir hundrað milljarða af alvöru peningum, ef marka má fréttir. Hundrað milljarða sem tekið var af okkur í formi skatta og niðurskurðar á þjónustu.


Af hverju? Jú, af því að það er viðvarandi vandi í hagfræðingastétt að þjást af því sem kallast eðlisfræðiöfund. Hagfræðingar upp til hópa virðast telja sig til raunvísindamanna en ekki félagsvísindamanna, og skiptir þá littlu hvaða “skóla” þeir tilheyra.


Í sem einföldustu máli má segja að meginmunurinn á raunvísindum, og þá sérstaklega eðlisfræði, og félagsvísindum, er að í fyrrgreindu fræðunum eru fastar, lögmál og alhæfingar sem eru óhrekjanlegar. Þær eru vísindalegar staðreyndir, mælanlegar, rekjanlegar og óbreytanlegar.


Félagsvísindin búa ekki við þennan lúxus. Það hefur hins vegar ekki stöðvað félagsvísindamenn, og eru hagfræðingar þar fremstir í flokki, í því að nýta sér tæki og tól raunvísindanna, til þess að færa “sönnur” á kenningar sínar. Styðja sinn málstað, útskýra atferli og afleiðingar mannlegs athæfis.


Hefur margt af því verið til mikils ágætis og við eðlilegar kringumstæður mjög gagnlegt, til að mynda við það að leiðbeina við stjórn efnahagsmála. En staðreyndin er sú að allar slíkar sönnur eru í eðli sínu ekki tæmandi. Þær eru ekki alhæfanlega “réttar”. Slíkar sönnur veita hins vegar misgóða innsýn í mannlegt athæfi.


Eðlisfræðiöfund hagfræðinga, og fræðigreinarinnar sem slíkrar, hefur hins vegar gert það að verkum að þeim virðist lífsins ómögulegt annað en að meðhöndla hagkerfi, meira að segja jafn alvarlega laskað og það íslenska, innan rimla raunvísindanna.


Sem er miður, því hagfræði, rétt eins og pólitík, getur vel verið list hins mögulega og vel má brjótast úr helsi hagfræðinnar. Að peningar eru í raun bara plat...


Meira um það síðar.

5 ummæli:

 1. Það er einn "skóli" sem finnst að peningar eigi ekki að vera plat og að hagfræði sé ekki raunvísindi. Hinn ríkjandi Keynismi er auðvitað ekki sammála því.

  Meira hér:
  http://en.wikipedia.org/wiki/Austrian_School

  SvaraEyða
 2. Ég er ekki alveg að fylgja þér. Gjaldþrot Seðlabankans var aðeins tæknilegt vegna þess að ríkið ljáði honum peninga. Ef það hefði ekki verið gert hefði bankinn orðið alvöru gjaldþrota (þeas. hann hafði lofað að borga meira heldur en eignir hans stóðu undir, vegna þess að mikið af eignum hans var drasl).

  Ein megin ástæðan fyrir öllu fuminu fyrstu dagana eftir hrunið var einmitt að almenn bankastarfsemi í landinu stöðvaðist, og þar með viðskipti við útlönd. Í nokkra daga var Seðlabankinn de facto viðskiptabanki allra landsmanna. Ekki alveg augljóst að það hefði verið góð hugmynd að láta hann rúlla líka.

  Að öðru leyti sammála þér í innganginum að það er ekki enn búið að hreinsa til í landinu, nema síður sé.

  SvaraEyða
 3. flottur pistill.
  er ekki afbrigði af eðlisfræðiöfund meðal guðfræðinga sem er að valda ykkur talsverðum vandræðum þarna í afganistan? kv,p

  SvaraEyða
 4. Skil ekki hvað bókhaldsbrellur koma því við hvort fólk skilgreini hagfræði sem raunvísindi eða félagsvísindi. Þótti þetta því heldur samhengislaus pistill.

  Annars hefur verið mjög mikið í tísku að benda hagfræðingum á að hagfræði eru ekki raunvísindi. Þetta er iðulega gert af fólki sem er hvorki með menntun í né reynslu af faginu. Ég þekki sjálf ekki hagfræðing sem myndi flokka hagfræði undir raunvísindi og skil því ekki tilganginn með þessu.

  SvaraEyða

Ath: Aðeins meðlimir bloggsins geta birt ummæli.